07.02.1962
Sameinað þing: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í D-deild Alþingistíðinda. (3401)

84. mál, bygginarsjóður sveitabæja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það þarf nú í sjálfu sér ekki mörg orð til þess að svara því, sem hv. 1. þm. Austf. taldi að ég ætti að svara. Ég býst ekki við, að ég þurfi að taka það fram, að ég tel ekki rétt að lána bændum með gengisáhættu, enda hefur það margfaldlega komið fram hjá mér. Ég þarf ekki heldur að taka það fram, að ég tel, að landbúnaðurinn hafi sízt fengið of mikið fjármagn undanfarið, og ég tel, að undanfarið, þegar þessi hv. þm., 1. þm. Austf., var fjmrh., þá hefði hann, ef honum er jafnannt um landbúnaðinn og hann vill stundum láta í veðri vaka, sem fjmrh. átt að taka hin erlendu lán á nafn ríkissjóðs og endurlána Búnaðarbankanum í íslenzkum krónum. Ef hann hefði gert það, þá væri ekkert um það að ræða, að botninn væri úr þessum mikilsverðu stofnunum landbúnaðarins, ræktunarsjóði og byggingarsjóði. En þessi hv. þm. hugsaði ekki svo langt. Hann útvegaði nokkuð af erlendum lánum og lét sjóðina bera gengisáhættuna, og 1958, þegar 55% yfirfærslugjaldið var lögfest, var ekkert hugsað um að rétta hlut sjóðanna, sem versnaði við þessa einu aðgerð um 30—40 millj. kr. Þá treysti hann sér ekki til að lagfæra þetta, en lét flokksbræður sína hér í hv. Ed. flytja frv. um það, að gefnar væru eftir í einu 160 millj. kr., eftir að núv. ríkisstj. var tekin við völdum. Þetta er nú samræmið á milli orða og athafna þessa hv. þm. eftir því, hvort hann er í ríkisstj. eða utan ríkisstj. Þegar hann er utan ríkisstj., getur hann gert háar kröfur á þá, sem með völdin fara, að þeir geri vel fyrir landbúnaðinn sem og aðra atvinnuvegi. Þegar hann er sjálfur fjmrh. og ræður mestu um fjármál landsins, þá er það látið vera að gera hina nauðsynlegu hluti. Og ég segi það, að hv. 1. þm. Austf., sem svo lengi hefur verið fjmrh. og ber manna mest ábyrgð á því, hvernig farið hefur verið með búnaðarsjóðina með þessu fyrirkomulagi, mér finnst hann nokkuð djarfur, þegar hann kemur hér upp í ræðustólinn nú og vill jafnvel gefa í skyn, að ég hafi ætlazt til, að bændur væru látnir taka á sig gengisáhættuna, jafnvel gefa það í skyn, og mér kæmi það ekkert á óvart, þó að það væri með feitu letri í Tímanum á morgun sagt: Núv. landbrh., Ingólfur Jónsson, telur eðlilegast, að bændur hefðu verið látnir bera gengisáhættuna. — Það væri í samræmi við annað — eða þá að þeir skrifi í Tímann og segi: Núv. landbrh. telur, að það hefði heldur átt að láta landbúnaðinn vanta fjármagn á undanförnum árum en nota útlent fé. — Þetta gæti hvort tveggja komið á sömu síðu. En svo er eftir að vita, hversu margir trúa því, sem þannig er skrifað. Og það er eitt gott við ýmsar ræður hv. framsóknarmanna nú, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, og það, sem þeir skrifa í sitt blað oft og tíðum, að það er svo fjarstæðukennt, að það kennir mönnum, að það er varhugavert að trúa þessu málgagni Framsfl. Ég tel, að ég hafi svarað þessu.

En hv. þm. var að tala um, að fyrr meir, þegar hann var fjmrh. og vinstri stjórnin sat að völdum, hafi allt fjármagnið verið í umferð, allt spariféð. Hvers vegna? Ætli það hafi verið af því, að það safnaðist tiltölulega lítið? Og hvers vegna safnaðist tiltölulega lítið fjármagn, lítið sparifé? Það var vegna þess, að fólkið í landinu hefur ekki traust á þeirri stjórn, sem með völdin fer. Þegar fólkið í landinu hefur ekki traust á ríkisstj., verður sparifjáraukningin lítil, og það var á meðan vinstri stjórnin sat, þá voru atlir sannfærðir um, að krónan yrði minni á morgun en hún er í dag. Þetta hefur dálítið breytzt núna, sparifjáraukningin er meiri en hún hefur verið, og nú sér hv. 1. þm. Austf. ofsjónum yfir því, að það skuli vera til óeyddar í Seðlabankanum 300 millj. kr. Hvað ætli þessi hv. þm. sé búinn að skrifa margar greinar í Tímann um þessar 300 mill,j.? Hvað ætli hann sé lengi búinn að kvarta yfir því, að það skuli vera þarna 300 millj., sem ekki er búið að eyða og þjóðin gæti síðar meir ráðstafað? Og svo það, hvaða þýðingu það gæti haft fyrir fjármál landsins, ef það verður sett út í einu lagi, eins og þessi hv. þm. ætlast til. Kannske það gæti þá farið í svipað far og var, þegar hv. formaður Framsfl. stökk frá borði og lýsti því yfir, að óðaverðbólga væri komin yfir og ekki væri hægt að ráða við neitt.

Ég býst við því, að það sé rétt, að það þurfi að vera á vissan hátt nokkur takmörk fyrir því, hvað út er látið af fjármagni, það séu viss lögmál, sem þurfi að halda, til þess að óðaverðbólga skelli ekki yfir, eins og var í tíð vinstri stjórnarinnar. En þótt þetta sé haft í huga, og þótt ekki sé öllu því sparifé eytt, sem þjóðin safnar, og nú séu til 300 millj. óeyddar, þá þarf það ekki að þýða, að atvinnuvegirnir, svo sem landbúnaðurinn, verði látnir svelta hvað rekstrarfé snertir.

Þegar hv. 1. þm. Austf. og fleiri framsóknarmenn eru að tala um það, að byggingarkostnaður í sveitum hafi hækkað, að ræktunarkostnaður hafi hækkað, að vélarnar hafi hækkað og að aðstaðan til búrekstrar hafi mjög versnað, þá segja þeir þetta í þeim tón, eins og þeir vilji láta fólk skilja, að þetta sé núv. ríkisstj. að kenna. Þeir vilja halda því fram, að það sé núv. ríkisstj. að kenna, að krónan er ekki meira virði en hún er í dag. Þeir vilja reyna að fá fólk til að trúa því, að gengisskráningin 1960 var nauðsynleg, vegna þess að vinstri stjórnin, hv. 1. þm. Austf., hafði hjálpað til þess að fella krónuna með sínu ráðleysi í fjármálum á undanförnum árum. Ég hef ekki heyrt annað og ég hef ekki lesið annað nú undanfarið, þegar hv. stjórnarandstöðumenn eru að tala um mikla dýrtíð, en það, að þrátt fyrir dýrtíðina sé nú gengisskráningin sennilega rétt. Ég hef ekki séð þá halda því fram, að það beri að hækka gengi krónunnar í dag. Eða hverjum dettur í hug, þótt svo ólíklega vildi til, að þessir menn kæmu í ríkisstj. aftur, að þeir legðu til að hækka gengi krónunnar? Það vita allir, að þeir mundu ekki gera það. Hvers vegna? Vegna þess að þeir vita, að gengi krónunnar í dag, það er eins rétt og það getur verið, eftir að það hefur verið samræmt á s.l. sumri, samkvæmt áliti og reynslu þeirra, sem bezta þekkingu hafa á þessu, samræmt við atvinnuvegina og atvinnulífið. Og þegar þessir hv. þm. stjórnarandstöðunnar eru að tala um erfiðleika bænda og annarra atvinnuvega vegna dýrtíðar og vegna hækkunar á tækjum og rekstrarvörum, þá væri rétt fyrir þá að líta í sinn eigin barm og spyrja fólkið í landinu, hvort það vilji þakka þessum mönnum, sem beittu sér fyrir verkföllunum á s.l. ári, fyrir síðustu gengislækkun, því að síðasta gengislækkun hefði vitanlega aldrei komið til, ef aðgerðir þessara manna hefðu ekki gert hana nauðsynlega með óraunhæfum verkföllum, með óraunhæfum kaupkröfum fram yfir það, sem atvinnuvegirnir þoldu. Og það er enginn vafi á því, að bændur vita manna bezt, að það er nauðsynlegt fyrir þá að fá stöðugt verðlag og stöðugt gengi. Og hv. 1. þm. Austf. og aðrir framsóknarmenn gera sig ekki vinsæla á meðal bænda á því að grafa undan krónunni, eins og þeir gerðu á s.l. ári og eins og þeir gerðu í tíð vinstri stjórnarinnar og gerðu það að verkum, að það var nauðsynlegt að skrá krónuna á ný í ársbyrjun 1960.

Það er ekki hægt við því að gera, þótt hv. 1. þm. Austf. sé svo kotroskinn hér í ræðustólnum og þykist ekkert skilja. En í sannleika sagt, þá hélt ég ekki, að hann væri svo mikill þrekmaður, að hann gæti með góðri samvizku eða í samvizkuleysi fullyrt hér, að það, sem áfátt er, sé núv. ríkisstj. að kenna, það verðlag, sem er á vélum og rekstrarvörum, og byggingarkostnaður, það sé núv. ríkisstj. að kenna, af því að hún hafi haft þrek til þess að skrá krónuna rétt. Og það er margur, sem spyr að því í dag, hvar við værum staddir fjárhagslega og atvinnulega, ef stefna eða stefnuleysi vinstri stjórnarinnar hefði staðið nokkru lengur en raun varð á, ef ekki hefði skapazt meiri hluti á Alþingi til þess að spyrna við fótum og rétta þær skekkjur af, sem orðnar voru hvarvetna, bæði í fjármálum og atvinnumálum. Og þeir, sem leggja þessar spurningar fyrir sig, vita, að það er ekki trausts að leita hjá þeim, sem stukku frá borði, þegar mest reið á, og skildu atvinnuvegina og fjármálin eftir í rúst.