16.11.1961
Efri deild: 16. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka meiri hl. fjhn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu á þessu máli, og að sjálfsögðu verð ég einnig að þakka hv. 1. þm. Norðurl. e., sem hefur nú lýst yfir ákveðnum stuðningi við stjórnina í vissu máli, sem sagt stuðningi við hana í því að fylgja og framkvæma þetta frv., þó að hann vilji bæta þar að vísu nokkuð við. Það er ekki að undra, þótt þessi hv. þm. taki velviljaða afstöðu til frv., því að ég les það í blaði hans í gær, að það beri að fagna þessum árangri af baráttu framsóknarmanna, sem sagt, þetta frv., sem hér liggur fyrir, er beinn árangur af baráttu þess ágæta flokks.

Það eru nokkrar fyrirspurnir, sem ég vildi byrja á því að svara.

Það hefur verið spurt um, hvort ég vilji gefa yfirlýsingu um, að engar nýjar álögur verði lagðar á í stað þeirrar lækkunar, sem þetta frv. feli í sér, og því er fljótsvarað, að stjórnin hefur ekki gert ráð fyrir því, að neinar álögur yrðu á lagðar í stað þess. í rauninni kom þetta fram í minni framsöguræðu, því að ég skýrði þar svo frá, að það væru vonir ríkisstj., að þessar lagfæringar og lækkanir mundu leiða til þess, að innflutningur þeirra vara, sem frv. fjallar um, mundi færast miklu meir inn á löglegar brautir og draga úr smyglinu og tekjur ríkissjóðs mundu aukast við það og vega upp að mestu eða öllu leyti það tekjutap, sem ella mundi verða.

Í öðru lagi var spurt um það við 1. umr. af hv. 3. þm. Norðurl. v., hvort ég vilji gefa almennt yfirlýsingar um það, að engar nýjar skatta- eða tollaálögur yrðu á lagðar á þessu þingi. Ég vil taka það fram út af þeirri fyrirspurn, að fjárlagafrv., sem ríkisstj. lagði fyrir Alþingi, byggist á því, að engar nýjar álögur verði á lagðar. Nú hef ég auðvitað enga heimild til þess að gefa yfirlýsingar um það, hver verður niðurstaða hjá hv. fjvn. og hv. Alþingi í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Ef fjárlögin verða afgr. í meginatriðum eins og fjárlagafrv. byggist á, þá er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum álögum. Ef Alþingi hins vegar teldi nauðsynlegt eða ákvæði að hækka gjöld fjárlaganna að einhverju verulegu marki, skapast að sjálfsögðu nýtt viðhorf.

Þá var fyrirspurn um það, hvort ríkisstj. mundi koma í veg fyrir það, að aukið yrði álagningarfrelsi á vörutegundum, m.ö.o. að verzlunin fengi frjálsa álagningu á fleiri vörutegundir. Um þetta atriði liggur ekkert fyrir. Það er verkefni verðlagsnefndarinnar samkvæmt lögum að ákveða, á hvaða vörum skuli vera verðlagsákvæði og á hverjum ekki.

Sami hv. þm., sem var frsm. 1. minni hl. fjhn., spurði, hvernig ég gæti fullyrt, hver yrði verðlækkunin á hinum einstöku vörutegundum. Nú er að vísu töluverður skoðanamunur, veit ég, milli okkar tveggja um þýðingu verðlagsákvæða. Þessi hv. þm. virðist telja, að verðlagsákvæði séu ákaflega gagnleg vörn fyrir almenning. Ég er ekki eins trúaður og hann á gildi verðlagsákvæða, og þó að þau geti stundum átt rétt á sér undir vissum skilyrðum og m.a. ef vöruskortur er í landinu, innflutningshöft o.s.frv., er hitt líka ljóst, að í ýmsum tilfellum og á ýmsa lund hafa verðlagsákvæði orðið beinlínis til skaða, orðið til tjóns fyrir þjóðfélagið í heild og almenning. Við vitum, að þessi verðlagsákvæði, sem hér hefur verið haldið uppi mjög lengi, eru yfirleitt miðuð við prósentálagningu, þ.e.a.s. að innflytjandinn og svo smásalinn má leggja ákveðinn hundraðshluta á verð vörunnar að viðbættum opinberum gjöldum. Á þessu skipulagi eru ákaflega margir annmarkar, m.a. sá meginannmarki, að í þessu felst engin hvatning til innflytjandans til að ná sem hagkvæmustum innkaupum, heldur þvert á móti. Hans hagur verður þeim mun meiri í álagningu sem hann kaupir dýrar og óhagkvæmar inn. Nú mætti segja, að ef innflutningur væri frjáls á vörunni og heilbrigð samkeppni, þá ætti þetta ekki að koma að sök. En á undanförnum árum, þegar höft hafa verið og vöruskortur og takmarkanir á innflutningi ýmissa vörutegunda, hefur þetta auðvitað verið hin mesta meinsemd, að hafa slíkt skipulag, að innflytjendur hefðu ekki hvatningu, heldur þvert á móti, til hagstæðra innkaupa. M.ö.o.: það er ýmislegt í þessum verðlagsákvæðum og verðlagseftirliti, sem er meingallað og leiðir til tjóns fyrir þjóðfélagið. Eins og ég gat um, getur verðlagseftirlit að sjálfsögðu oft átt rétt á sér, einkum þegar um vöruskort er að ræða, höft eða annað þess háttar, en að það sé einhver allsherjar lífselixír fyrir alþýðu manna, það er alger misskilningur, þannig að á því er enginn vafi, að í sumum tilfellum verður vöruverð hagstæðara með bæði innflutningsfrelsi og álagningarfrelsi heldur en með þeim höftum, bæði um innflutning og álagningu, sem þessi hv. þm. trúir svo mjög á.

Varðandi svo áhrif þessara tollalækkana á verð varanna, virðist það koma glögglega fram hjá þessum hv. þm., 5. þm. Norðurl. e., og málgagni hans, sem slær því mjög upp, að í rauninni sé alveg óvíst og ekkert öryggi fyrir því, að um nokkra verðlækkun verði að ræða, vegna þess að verzlunin muni gleypa þessar tollalækkanir á þeim vörutegundum, þar sem ekki eru hámarksákvæði. Nú býst ég við, að hv. þm. dragi þessa ályktun aðallega af því verzlunarviðskiptasvæði, þar sem hann er kunnugastur og þar sem hann er búsettur, sem er Akureyri. Þar er verzlunin, m.a. smásöluverzlunin, náttúrlega að mjög miklu og mestu leyti í höndum Kaupfélags Eyfirðinga. Ég veit ekki, hvort kynni hv. þm. eða reynsla hans af þessu mikla verzlunarfyrirtæki er með þeim hætti, að hann telji það nokkuð öruggt, að það muni gleypa þessa tollalækkun varðandi þær vörur, sem nú er frjáls álagning á. Ég vil alls ekki taka undir þann dóm eða þær ályktanir hv. þm., því að ég held þvert á móti, að bæði kaupfélög og kaupmenn muni reyna að stilla álagningu sinni í hóf, þar sem álagningin hefur verið gefin frjáls.

Að því er varðar þær upplýsingar, sem ég gaf hér í framsöguræðu um lækkun á smásöluverði á mörgum vörutegundum, var sú skýrsla byggð á upplýsingum og áætlunum frá tvennum samtökum kaupsýslumanna hér, þ.e. Kaupmannasamtökum Íslands og Félagi ísl. stórkaupmanna. Ég tel enga ástæðu til að telja, að þær áætlanir og útreikningar, sem þessi félög gerðu, séu rangar, og ég tel öruggt, að þessi félög muni beita sér fyrir því af alefli við sína félagsmenn, að álagningin verði ekki meiri en í þessum útreikningum er gert ráð fyrir, þó að einstakir innflytjendur og kaupmenn hafi frjálsar hendur. Á þessum upplýsingum eru byggðar þær verðlækkanir í smásölu, sem ég skýrði hv. deild frá s.l. mánudag.

Hugleiðingar hv. þm. um það, að kaupfélögin og kaupmennirnir muni stinga allri þessari tollalækkun í sinn eigin vasa, — mér finnst þetta ekki byggt á nokkurri skynsemi eða viti þessir aðilar vita það ósköp vel, að sú ákvörðun um mánaðamótin ágúst-september að afnema hámarksákvæði á nokkrum vörum er gerð í tilraunaskyni, og ég hef ekki heyrt, að á þeim rúmum tveim mánuðum, sem síðan eru liðnir, hafi orðið neinar sérstakar hækkanir á þessum vörum eða að þessi verzlunarfyrirtæki hafi misnotað þetta álagningarfrelsi. Það er auðvitað líka ljóst, að ef þessir aðilar misnota þetta frelsi, hefur verðlagsnefnd og verðlagsstjóri hvenær sem er í hendi sér að breyta þessu og taka upp aftur verðlagsákvæði og verðlagseftirlit. Ég býst við, að bæði forráðamenn kaupfélaga og kaupmanna séu ekki svo skyni skroppnir, að þeim dytti það í hug í sambandi við tollalækkanir að ætla að fara að hrifsa til sín í álagningu meginhlutann af þessu, því að þeim er það auðvitað ljóst sjálfum, hverjar afleiðingar hlytu af því að verða. Þær hlytu auðvitað að verða þær, að þetta yrði sett undir verðlagseftirlit að nýju. Í öðru lagi ætla ég, að það sé orðin svo mikil samkeppni í smásölunni hér á Íslandi, að m.a. mundi hún útiloka slíkar aðgerðir.

Þá var fsp. um það frá hv. 9. þm. Reykv. við 1. umr. málsins, hvort ég gæti gefið upplýsingar um, hversu miklu væri smyglað af áfengi til landsins. Því miður get ég ekki svarað því og efast um, að það séu aðrir, sem um það geta gefið upplýsingar. Hann spurði í öðru lagi um það, hvort ég gæti gefið sams konar upplýsingar um smygl á tóbaki, og í þriðja lagi um smygl á eiturlyfjum. Mér er þetta því miður ókunnugt allt saman og get engar upplýsingar um það gefið. (AGI: Var engin athugun gerð á þessu? Vill ekki ráðh. skýra frá því?) Nei, ég hef aldrei skýrt frá því. Ég sagði, að það hefði farið fram rækileg athugun á því, hversu mikill mundi vera ólöglegur innflutningur á ýmsum vörutegundum, og þá eru það vörutegundir að sjálfsögðu, þar sem hægt er að gera sér nokkra hugmynd um eðlilega notkun landsmanna á þeirri vöru, og miðað við löglegan innflutning fyrr og síðar. Í því sambandi má gera sér nokkra grein fyrir því t.d., hvað landsmenn þurfa á ári hverju mikið af ytra fatnaði, hvað þeir þurfa mikið af skóm, hvað kvenþjóðin íslenzka þarf mikið af sokkum á hverju ári o.s.frv. Nokkra hugmynd má gera sér einnig um það t.d., hve mikil þörf er fyrir við skulum segja armbandsúr fyrir landsmenn á ári hverju, og þannig mætti lengi telja. En engar slíkar áætlunartilraunir hafa verið gerðar varðandi þessar þrjár vörutegundir. Ég veit ekki, hvort þessi hv. þm. getur gefið upplýsingar um það, hvað mundi teljast eðlileg þörf eða neyzla landsmanna á eiturlyfjum eða tóbaki eða áfengi. Ég get ekki gert það, og engum af þeim sérfræðingum, sem ég hef haft samráð við um þetta, hefur dottið í hug að gera slíkar áætlanir. Ég get því ekki heldur svarað þeirri lokaspurningu hans, hvort minnkuð eftirspurn eða minnkað smygl á nælonsokkum og brjóstahöldum, eins og hann orðaði það, muni auka smygl á eiturlyfjum, áfengi og tóbaki. Ég sannast sagna skil varla þessar spurningar. Eitthvað liggur vafalaust á bak við þær hjá hv. þm., en svör við þessu get ég því miður ekki gefið.

Þá kom það fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., að hann lét þau orð falla, sem ég get ekki látið hér ómótmælt, að í grg. þessa frv. séu áhafnir flugvéla og skipa stimplaðar sem smyglarar og það í stórum stíl. Hv. þm. vitnaði í því sambandi í grg. þessa frv., 7. bls., og vildi ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp það, sem segir um þetta mál í grg., sem sýnir, að þetta er á algerum misskilningi og rangtúlkun byggt hjá hv. þm. þar segir svo:

„Þegar litið er til þess, að árlega munu koma til landsins um 30–40 þús. farþegar og áhafnarmeðlimir, verður hér um verulegt magn að ræða í heild, og stafar það ekki sízt af því, að ýmsar vörur, sem almennt eru í farangri manna, svo sem fatnaður, hefur verið mun hagkvæmara að kaupa erlendis en hér á landi. Má búast við, að eitthvað dragi úr þessum kaupum vegna þeirrar verðlækkunar, sem leiðir af þessu frumvarpi.“

Það, sem hér er sagt, er það, að hinn mikli innflutningur ferðamanna, sem tekið er fram í mgr. næst á undan að sé með leyfi tollgæzlunnar og átölulaust af hennar hendi, að úr honum muni draga við það, að sams konar vörur lækka í verði hér vegna tollalækkunar.

Sami hv. þm. lét þau orð falla, að það virtist vera skoðun ríkisstj. og mín, að eina leiðin til að vinna bug á þessum ósóma, þ.e. smyglinu, sé að draga úr ágóðavon smyglarans. Það sama ætla ég að hafi komið hér fram hjá einhverjum öðrum þingmönnum, en mér þykir ákaflega leitt, ef sá kafli framsöguræðu minnar hefur alveg farið fram hjá þeim, sem fjallaði einmitt um það, að brýn nauðsyn væri samhliða tollalækkuninni að endurskipuleggja og herða tolleftirlit og tollskoðun. Það var allýtarlega út í það farið í minni framsöguræðu, og þykir mér furðulegt, ef það hefur farið fram hjá báðum framsögumönnum minni hlutanna. En ræðumenn hér, hver eftir annan, stagast á því, að það eigi eingöngu að lækka tollana og ekki hugsa neitt um annað.

Það er þó rétt í sambandi við ummæli hv. 5. þm. Norðurl. e. um það, að í grg. sé veitzt að áhöfnum flugvéla og skipa um smygl, að flokksbróðir hans, hv. 9. þm. Reykv., lét þessi orð falla hér í sinni ræðu:

„Áhafnir flugvéla og skipa fá hluta af launum sínum greiddan í erlendum gjaldeyri. Ég tel vafalaust, að orsakir til smyglunar smávarnings inn í landið eigi að nokkru leyti rætur sínar að rekja til þessa fyrirkomulags í launagreiðslum.“

Þetta eru ummæli hv. 9. þm. Reykv. Og hann heldur áfram:

„Mér dettur í hug, hvort ekki væri rétt, að hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir breytingu á launakjörum áhafna flugvéla og skipa, beitti sér fyrir að koma þeim launakjörum í það horf, að það væri ekki beinlínis ætlazt til þess, að hluti launanna fengist með smyglstarfsemi.“

Ég býst við, að hv. 5. þm. Norðurl. e. hafi alveg ruglazt í þessu, hann hafi haldið, að ég hafi sagt þau orð, sem flokksbróðir hans lét um þessi mál falla.

Ég ætla, að það séu ekki mörg atriði önnur, sem ég þarf að gera að umtalsefni hér. En þó er rétt að benda á þann furðulega misskilning, sem raunar er ekki nýr, sem kemur fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að vegna þess að þetta frv. mundi aðeins lækka vísitöluna um hálft stig, þá sé það í rauninni harla lítils virði. Hér gægist fram enn það gamla sjónarmið, að það sé vísitalan, sem sé eini rétti mælikvarðinn á lífskjör fólksins. Þetta kom alveg greinilega fram, þegar hann og hans flokksbræður voru að hefja starfsemi sína í vinstri stjórninni, því að í des. 1956 hækkuðu þeir stórkostlega aðflutningsgjöld á ýmsum vörum, — það var kallað innflutningsgjald, — og það var alveg nákvæmlega vinzað úr þannig, að vísitöluvörurnar skyldu ekki lenda undir því, heldur aðrar vörur. M.ö.o.: þarna var verið að skekkja vísitöluna sem mælikvarða á lífskjör fólksins, skekkja hana verulega. Vitanlega er fjölmargt, sem er ekki reiknað með í vísitölunni, sem hefur áhrif á lífskjör fólksins, eins og hv. frsm. meiri hl. rakti hér greinilega í sinni framsöguræðu. (Gripið fram í.) Enn þá stendur þetta svo ríkt í huga hv. þm., að það sé engin kjarabót, fyrst hún lækki ekki vísitöluna neitt að gagni. Hér með þessu frv. er farið inn á nýjar brautir, þannig að það er ekki verið að hugsa um það eins og í tíð vinstri stjórnarinnar eingöngu að skekkja vísitöluna eða miða skatta og álögur og allt þess háttar bara við vísitöluna, en hirða ekkert um annað, heldur er hér um að ræða margar þýðingarmiklar vörur fyrir almenning, sem þó hafa óveruleg áhrif á vísitöluna.

Varðandi svo þau ummæli hv. 1. þm. Norðurl. e., sem hér talaði síðast, þar sem hann gefur í skyn, að það sé eiginlega eingöngu vegna viðreisnarinnar, sem dregið hafi úr löglegum innflutningi og smyglið færzt í aukana, og þess vegna sé stjórnin að glíma við afleiðingar af viðreisninni, vildi ég benda þessum hv. þm. aðeins á það, að eftir athugun á þessu máli er það komið greinilega í ljós, að þó að hér hafi vafalaust verið meira og minna smygl um langan aldur, þá færist það fyrst í aukana, eftir að vinstri stjórnin kemur til og hækkar innflutningsgjöldin gífurlega á ýmsum vörum í desember 1956, þannig að strax á árinu 1957 dregur stórlega úr löglegum innflutningi margra hátollavara, sem vafalaust er bein afleiðing af þessum miklu álögum.

Ég tel þá eru þær að sjálfsögðu allar til athugunar í sambandi við endurskoðun tollskrárinnar, sem unnið er að.