05.02.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í D-deild Alþingistíðinda. (3633)

112. mál, fjárfesting Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna erlendis o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Mig undrar það nokkuð, að hæstv. ríkisstj. skuli ekkert láta til sin heyra í sambandi við þetta stórmál, sem hér liggur nú fyrir. Ég tel, að þetta mál sé þannig vaxið, að það sé full ástæða til þess, að ríkisstj. skýri einmitt hv. Alþingi nokkuð frá því, hvað hún hugsar sér að gera í þessu stóra máli eða hvað hún hefur þegar gert til þess að gæta hagsmuna almennings í landinu, þjóðarheildarinnar, varðandi það mál, sem hér er til umræðu. Það hefur að vísu sézt að undanförnu, þegar þessi mál hafa verið rædd, að blöð ríkisstj. hafa rætt um málið sem allmikið vandamál og birt þar um allstórar fréttir. Þær fréttir út af fyrir sig ættu að vera nægilegar til þess, að ríkisstj. hafi reynt að kynna sér málið og gæti þar af leiðandi gefið nokkrar upplýsingar um það, þegar það kemur hér til umræðu á Alþingi. En eigi að síður virðist ríkisstj., þegar þetta mál er til umræðu, ekkert hafa um það að segja. Ég vil lýsa undrun minni á þessu og óska eftir því, að ríkisstj. segi, hvað hún hefur gert til þess að kynna sér þetta mál og hvernig hún lítur á málið sem heild.

Það, sem felst í þeirri tillögu, sem hér liggur fyrir, er einkum þrennt. Þar er lagt til, að Alþ. kjósi sérstaka rannsóknarnefnd til þess að kynna sér, hvað Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur fest mikið fé, sem sjávarútvegurinn á, í fyrirtækjum erlendis. Í öðru lagi er lagt til, að athugað sé, hvað Sölumiðstöðin hefur lánað mikið erlendis af fiskandvirði. Og í þriðja lagi er lagt til, að sérstök athugun fari fram á því, hvernig háttað er tryggingum bankanna í þeim fiskafurðum, sem Sölumiðstöðin hefur flutt til annarra landa og selt þar, en greiðsla er ekki komin heim fyrir. Ég fyrir mitt leyti tel, að það sé afar eðlilegt, að slík rannsókn sem þessi sé látin fara fram, þegar það er haft í huga, hvað hefur verið að gerast, svo sem menn almennt vita, í þessum málum.

Þegar till. mjög svipuð þessari lá fyrir Alþ. á s.l. ári, ræddi ég nokkuð um þá tillögu. Ég hélt því þá fram, að það væri alger misskilningur að telja, að þessi till. væri raunveruleg árás á S.H. eða þau samtök sem slík. Þvert á móti áleit ég og álít enn. að slík rannsókn, einmitt á vegum opinberra aðila, sem hér er lagt til að gera, hún sé nauðsynleg fyrir samtökin, eins og nú er komið.

Það eru nokkrar óumdeilanlegar staðreyndir, sem liggja fyrir mönnum í þessum efnum, og það eru þær, sem ég vil sérstaklega rifja hér upp, en þær allar eru þess eðlis, að þær sanna í raun og veru, að það er réttmætt, að Alþ. láti sig málið skipta og að slík rannsókn sé gerð, sem er lögð til í þessari tillögu.

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er stærsti aðilinn, sem fer með útflutning á vörum Íslendinga. Samtökin eru byggð upp á ekki óeðlilegan hátt að mínum dómi. Innan samtakanna eru líklega á milli 50 og 60 frystihús, sem eru starfandi í landinu. í öllum aðalatriðum tel ég, að samtökin séu lýðræðislega upp byggð og það þurfi á slíkum samtökum að halda, eins og er. En þessi samtök eiga fyrst og fremst að reyna að selja framleiðslu frystihúsanna á erlendum mörkuðum og reyna að færa heim í þjóðarbúið eins mikið fyrir framleiðsluna og unnt er. Í rauninni er hér einvörðungu, eins og samtökin eru upp byggð, um sölusamtök að ræða, umboðsstofnun, sem tekur að sér framleiðslu félagsmanna og á að skila öllu andvirðinu, sem fæst fyrir framleiðsluna, til þeirra. Sölumiðstöðin er í raun og veru ekki stofnun, sem á að hafa sjálfstæðan, stórfelldan rekstur með höndum, neinn sérstakan áhætturekstur, hún er ekki þannig upp byggð. En eigi að síður hafa málin þróazt þannig, að stjórnendur Sölumiðstöðvarinnar og framkvæmdastjórar hafa tekið sér það vald og farið út í það að gera Sölumiðstöðina miklu meira en beina umboðssölustofnun. Þeir hafa farið út í það að byggja upp á vegum Sölumiðstöðvarinnar stórkostlega fjárfrekan atvinnurekstur í öðrum löndum og taka til slíkrar fjárfestingar eða uppbyggingar andvirði fisksins, sem stofnunin átti að hafa með að gera til sölumeðferðar. Það er sem sé staðreynd, sem liggur fyrir, að Sölumiðstöðin hefur byggt upp í Bandaríkjunum stóra fiskverksmiðju. Mér er ekki kunnugt um, hve mikið fé hefur verið lagt í þessa verksmiðju þar vestanhafs, en ég veit, að það skiptir nokkrum tugum milljóna króna, og nú einmitt á s.l. ári hefur átt sér stað þarna stórkostleg ný fjárfesting. Þetta er sem sé bein staðreynd í málinu, sem hefur ekki verið mótmælt af neinum, Því er ekki heldur mótmælt, því að það er margstaðfest, að aðilar þeir, sem standa að

Sölumiðstöðinni, frystihúsaeigendur í landinu, þeir eru ekki allir á eitt sáttir um þessar framkvæmdir. Þar innan samtakanna eru hörkudeilur um það, hvort hafi verið rétt að farið og hvort hér sé réttilega að unnið eða ekki. Það eru ekki heldur deilur um það, að það er fyrst og fremst einn maður, framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvarinnar nú um nokkra hríð, Jón Gunnarsson, sem hefur staðið að því að byggja upp þessa starfsemi á vegum S. H. í Bandaríkjunum og í öðrum löndum. Hann hefur mjög trúað á þessa aðferð, og hann hefur tekið sér mikið vald í þessum efnum. Svo einkennilega hefur þessi uppbygging farið fram, að þessi rekstur í Bandaríkjunum hefur verið með þeim hætti, að vísu á vegum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, að stjórnendur þessa mikla fyrirtækis í Bandaríkjunum, sem veltir þar nokkrum hundruðum millj. kr. á hverju ári, eru, eftir því sem nú er upplýst, Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri S.H., kona Jóns Gunnarssonar framkvæmdastjóra og einn bandarískur lögfræðingur. Þessir þrír aðilar, hafa verið stjórnendur þessa mikla fyrirtækis í Bandarfkjunum, sem hefur haft öll þessi miklu fjárráð, þetta liggur líka fyrir og þýðir ekki að deila um.

Margir af þeim aðilum, sem eru í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, hafa mjög fundið að þessu og spurt um það ár eftir ár, hverju þetta sætti, að þannig væri frá öllum málum gengið í sambandi við þennan mikla rekstur þar fyrir vestan, hvaða ástæða væri til þess, að Jón Gunnarsson og kona hans og amerískur maður, sem hann hefur valið, Jón Gunnarsson, væru stjórnendur þessa mikla fyrirtækis, en enginn maður úr stjórn S.H. og enginn maður kosinn af S.H. í þetta. Og það hefur mjög vafizt fyrir bæði Jóni Gunnarssyni og öðrum að gefa skýringar á því, hvernig á þessu stæði. Nú hefur það hins vegar komið í ljós og það verður ekki heldur um það deilt, að það eru engin lagafyrirmæli í Bandaríkjunum, sem hafa torveldað, að það væri hægt að hafa eðlilegri hátt á þessu en þarna hefur verið hafður, því að nú, þegar upp úr sauð og ýmsir opinberir aðilar voru farnir að skipta sér af málinu, m.a. bankarnir í landinu, þá tók stjórn S.H., sem var hinn skráði eigandi hins mikla fyrirtækis fyrir vestan, sig til og setti Jón Gunnarsson framkvæmdastjóra út úr stjórninni og konu hans út úr stjórninni, en tilnefndi tvo af stjórnarmönnum Sölumiðstöðvarinnar hér heima sem stjórnarnefndarmenn í fyrirtækið Coldwater. Þetta var hægt, og nú var það loksins gert.

Það hefur nokkuð verið á það minnzt hér í þessum umr., hvílíkt fyrirtæki þarna er nm að ræða, en ég er alveg sannfærður um það, að þó að ég þekki þar ekki til nema að nokkru leyti, þá sýna þær upplýsingar, sem hér hafa verið gefnar um það, hve mikið fyrirtæki þetta er, ekki nema lítið brot af því, hve fyrirtækið er raunverulega mikið. Það er enginn vafi á því, að þetta fyrirtæki veltir brúttó margfalt hærri fjárhæðum á hverfu ári en það sendir hingað heim til Íslands í andvirði fiskafurða. Þannig er háttað öllum rekstri í Bandaríkjunum, að það er ekki hægt að reka þar slíka starfsemi, sem þetta fyrirtæki rekur, reka þessa verksmiðju, matvælaverksmiðju þar og innpökkunarverksmiðju, dreifingarstöðvar út um öll Bandaríkin og stórkostleg viðskipti við nokkur hundruð smásala víða um Bandaríkin, það er engin leið að standa í þessum viðskiptum án þess að velta gífurlega háum fjárhæðum. En yfirlitið á þessu öllu saman, stjórnin á þessu öllu saman hefur verið með þeim hætti, eins og ég greindi, að Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvarinnar hefur verið forstjóri fyrir verksmiðjunni og forstjóri fyrir allri þessari starfsemi á vegum Sölumiðstöðvarinnar í Bandarfkjunum. Það er nú ekki svo, að Jón hafi ekki haft neitt annað að gera. Hann hefur auk þessa alls verið aðalsölustjóri S.H. og þurft að selja í ótalmörg önnur þjóðlönd og aðrar heimsálfur, allar framleiðsluvörur S.H., sem árlega sveiflast upp á nokkur hundruð millj, kr. Það er enginn vafi á því, að stjórn S.H. hafði á sínum tíma geysimikla trú á Jóni Gunnarssyni og fól honum, eins og menn sjá á þessum upplýsingum, svo að segja takmarkalaust vald og ég vil segja eftirlitslaust vald. Hér á Íslandi þykir það jafnan nauðsynlegt fyrir alla, að hverjum framkvæmdastjóra fyrir fyrirtæki fylgi stjórn, sem getur haft nokkurt eftirlit með störfum framkvæmdastjórans og hann hafi þar nokkurt eðlilegt aðhald. Eins og menn sjá á þessari uppbyggingu þar fyrir vestan, hefur ekki þótt þurfa að hafa þar neitt aðhald eða neina stjórn raunverulega yfir þessum framkvæmdastjóra. Þegar upplýsingar eins og þessar liggja fyrir, þá er ekki óeðlilegt, að gífurleg óánægja hefur gosið upp meðal félagsmanna S.H., og það er vitað mál, að þar eru hörkudeilur um þessar framkvæmdir og mönnum þykir mjög á skorta um það, að vel sé um hnútana búið, hvernig eignarhald er á þessu fyrirtæki og á þessum rekstri öllum fyrir vestan. Þá er ekki óeðlilegt, þegar svo er komið, að Alþingi láti hlutlausa rannsókn fara fram á því, hvað þarna er að gerast og hvernig þarna hefur verið á málunum haldið.

Nú hefur til viðbótar við annað í þessum efnum það gerzt, að tveir ungir menn, sem starfað hafa á vegum S.H. í Bandaríkjunum, töldu, að þessi mál væru komin þannig, að það hvíldi á þeim sú skylda og sú ábyrgð að segja stjórn samtakanna hér heima, stjórn Sölumiðstöðvarinnar, frá því, að þeir teldu, að þessum rekstri fyrir vestan væri stórlega ábótavant, að það væri um mikla misbresti að ræða í framkvæmd, þar væri verið að tapa stórum fjárfúlgum, jafnvel tugum milljóna króna, og margt fleira, sem fram kom hjá þessum ungu mönnum í aðvörun þeirra til stjórnar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Þá gerist það, að framkvæmdastjórinn, Jón Gunnarsson, með hið mikla vald, hann rekur þessa menn úr þjónustu samtakanna á svipstundu. Þetta kallar enn fremur á það að mínum dómi, að það á að fara fram hlutlaus athugun á vegum ríkisvaldsins á því, hvað þarna hefur verið að gerast. Það á að leita til botns í því: Er það rétt, sem þessir starfsmenn segja um reksturinn þar fyrir vestan? Er þörf á að gera þarna umbætur á og breytingar á, eða er þetta kannske allt saman að meira eða minna leyti rangfærslur? Þá á líka hlutlaus athugun að kveða slíkt niður.

Ég saknaði þess mjög í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., sem hér talaði næst á undan mér og er nú orðið einn af stjórnarnefndarmönnum í Coldwater-fyrirtækinu í Bandaríkjunum, að hann segði til um það, hvort hann væri samþykkur þessari till., sem hér liggur fyrir, eða henni andvígur. Er hann á því, að slík hlutlaus rannsókn á vegum Alþ. eigi að fara fram, eða ekki? Telur hann, eins og komið er, að það sé bezt fyrir fyrirtækið, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem ég veit, að hann vill reyna að vernda, hann vill reyna að koma í veg fyrir það, að Sölumiðstöðin hrynji, — telur hann það bezt fyrir þau samtök að snúast gegn till. eins og þessari, vera á móti hlutlausri athugun á málinu og láta áfram halda blaðaskrif af svipuðu tagi og hafa hér átt sér stað að undanförnu, og allar þær deilur ganga áfram manna á milli, sem hafa gengið í þessum efnum? Ég álít, að afstaða hans og stjórnar S.H. ætti, eins og ég hef sagt hér áður, tvímælalaust að vera sú, að þeir ættu að vera með því, að slík till. sem þessi sé samþykkt.

Það eru fleiri atriði en þetta, sem ég hef nú minnzt á, sem liggja fyrir, þannig að um þau verður ekki deilt, að þau benda til þess, að þarna sé ekki allt með felldu í rekstri þessara fyrirtækja og því fyrirkomulagi, sem þarna hefur verið komið upp. Það er kunnugt, að frystihúsaeigendur í landinu kvarta sáran undan því, að það taki alveg óheyrilega langan tíma fyrir þá að fá greiðslur fyrir afurðir þær, sem Sölumiðstöðin hefur af þeim tekið og flutt úr landi. Það hefur komið fram hjá ýmsum þessum aðilum á opinberum vettvangi, að þeir telji, að meðaltalstími, frá því að þeir afhenda fisk til afskipunar og þangað til þeir hafa fengið uppgert fyrir fiskinn til Sölumiðstöðvarinnar, — sá meðaltalstími sé 9–12 mánuðir. Menn sjá, að hér er auðvitað um allt of langan tíma að ræða og frystihúsunum eru bökuð gífurlega mikil aukaútgjöld, er fyrirkomulag sem þetta leiðir af sér. Og ég verð að segja það, að mér þykir furðulegt, að einn af stjórnarnefndarmönnum S.H. skuli treysta sér til þess eftir það, sem nú hefur gerzt í þessum málum, að halda því fram, að það verð, sem íslenzkir hraðfrystihúsaeigendur hafa fengið út úr Bandaríkjamarkaði, t.d. á s.l. ári eða undanförnum árum, það sé betra en t.d. 140 sterlingspunda verðið, sem við fáum fyrir fisk þann, sem seldur er til Ráðstjórnarríkjanna, þegar tillit er tekið til þessa og afleiðinganna af því. Ég fyrir mitt leyti, sem hef reynt að kynna mér þetta allmikið við það frystihús, sem ég hef beinna hagsmuna að gæta við, er ekki í nokkrum vafa um, að það verð, sem fengizt hefur fyrir þann fisk, sem fluttur hefur verið til Bandaríkjanna, er stórum lakara verð en á flestum öðrum mörkuðum vegna þessa ástands, sem skapast af greiðslunni. Vitanlega er þetta allt saman breytilegt eftir því, um hvaða fisktegund er að ræða.

Ég hef getið þess hér áður í umr. um þetta mál, að ég hef ekki verið í neinum vafa um það, að á Bandaríkjamarkaði höfum við í langan tíma fengið hagstæðasta verð fyrir nokkrar fisktegundir, sem við höfum flutt þangað, hagstæðara verð en á öðrum mörkuðum, en fyrir aðrar tegundir aftur höfum við aldrei fengið eins hagstætt verð og á ýmsum öðrum mörkuðum, og þegar tillit er tekið til þessa, þá miklu lakara verð. En það er ekki heldur aðalatriðið í þessu máli, alls ekki. Hitt er aðalatriðið: Er eðlilega gengið frá þessum málum skipulagslega séð? Er þannig gengið frá þessu, að það megi búast við því, að það geti orðið friður til frambúðar um starfræksluna í þessu formi, eða þarf hér að gera breytingar á?

Ég skal segja það sem mína skoðun, að ég tel, að það sé óhjákvæmilegt að hafa svipuð samtök og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er fyrir frystihúsin í landinu. Ég er andvígur því að ætla að leysa þetta upp og afhenda afurðirnar til sölumeðferðar í hendur margra aðila, sem þá yfirleitt mundu verða umboðsaðilar stórra erlendra fyrirtækja. Ég hef síður en svo trú á því skipulagi. En ég fer ekki í neinar grafgötur með það, að ég tel, að það sé óhjákvæmilegt, ef S.H. á að lifa eitthvað áfram, þá verði að gera þar miklu gleggri skil á milli umboðssölufyrirtækisins S.H., sem tekur afurðir félagsmanna og á að selja þær í umboðssölu og skila öllu andvirðinu og það strax og varan er seld og flutt úr landi, og annarrar starfsemi, sem S.H. kann e.t.v. að koma á fót og reka, — þar verði að vera glögg skil á milli, en ekki sé hægt að blanda þannig saman fjármunum á milli óskyldra aðila, eins og gert hefur verið að undanförnu. Ég tel enga leið til frambúðar að hafa það svo, að hraðfrystur fiskur sé fluttur óseldur til Bandaríkjanna og hann sé tekinn þar í almenna fiskvinnslu í verksmiðjum, án þess að hann sé greiddur, síðan, þegar búið er að matreiða hann þar, þá sé hann seldur vítt og breitt um Bandaríkin, meira og minna í lánsformi, jafnvel til smásala, og að þeir, sem áttu hinn framleidda fisk, eða frystihúsin á Íslandi, þurfi að bíða í fullkominni óvissu án trygginga allan tímann eftir andvirði fisksins. Skipulag eins og þetta álit ég, að geti ekki þrifizt til langframa, það verði að breyta þessu. Hins vegar tel ég ekkert við það að athuga, þó að ýmsir menn í íslenzkum fiskiðnaði byggi upp á sínum vegum fiskverksmiðju í Bandaríkjunum eða annars staðar, ef þeir telja það hagkvæmt, eða reki þar einhverja pökkunarverksmiðju fyrir fullframleiddan fisk. En slíkt fyrirtæki verða þeir að reka í Bandarfkjunum eins og önnur fyrirtæki eru rekin þar í landi. Slíkt fyrirtæki verður auðvitað að kaupa fiskinn frá Íslandi á almennu gangverði, sem á fiskinum er. Og það fyrirtæki verður að greiða fiskinn, um leið og hann fer frá Íslandi, eins og aðrir kaupendur í Bandaríkjunum gera eða eiga að gera. Sýni það sig svo, að þessi rekstur sé ábatasamur á sérstakri verksmiðju fyrir vestan, þá vitanlega á hagnaðurinn af slíkum rekstri að koma heim og koma réttum eigendum verksmiðjunnar til góða. En það er ekki hægt að láta þessa verksmiðju starfa á þann hátt, sem nú er, að hún geti fengið að ganga hér í fiskbirgðum Íslendinga og nota þær á þennan hátt. Og ég hef bent líka á það áður, að það er alls ekki verjandi á nokkurn hátt, að bankar landsins sleppi fiskinum úr landi, sem er hér veðsettur, á þann hátt, sem gert hefur verið að undanförnu. Ég tel, að bankarnir hafi hreinlega enga heimild til þess. Þegar búið er að flytja fisk vestur til Bandaríkjanna fyrir 200–300 millj. kr., fisk, sem er veðsettur bönkum landsins, og hann er þá vitanlega kominn undan öllum yfirráðarétti bankanna, sem eiga veð í honum, þegar búið er síðan að rifa upp fiskinn í Bandaríkjunum og tilreiða hann og jafnvel selja hann og éta hann, án þess að greiðsla sé komin heim, þá sjá menn, hvernig komið er veðsetningu bankanna í þessum afurðum.

Slíkt fyrirkomulag sem þetta getur vitanlega ekki haldizt til lengdar, og verður engum til góðs að reyna að halda því við. Þetta hafa viðskiptabankarnir séð nú og hafa reynt að grípa inn í. Þeir hafa því ákveðið að senda fulltrúa sína vestur til Bandaríkjanna til þess að gera þar alveg sérstaka rannsókn á þessum málum öllum. Og það, sem bönkunum ber fyrst og fremst skylda til að athuga, er það, hvort þeir fjármunir, sem bankarnir eiga sjálfir þarna fyrir vestan, eru í hættu eða hvort bankarnir geta komið sínum hlut á þurrt í þessum efnum. Það er það, sem bankarnir munu athuga, hvort þeir geti sloppið út úr þessu öllu saman, eins og nú er komið, eða ekki. En það er vitanlega ekki fullnægjandi rannsókn fyrir Íslendinga almennt séð, fyrir íslenzk stjórnarvöld. Það þarf einnig að athuga um það, hvernig hefur verið farið með þessa fjármuni Íslendinga, með fiskandvirðið og allan þennan rekstur, sem er á vegum Íslendinga þar fyrir vestan. Hefur allt skilað sér heim, sem átti að skila sér heim, og er þessi rekstur með eðlilegum hætti? Til þeirrar rannsóknar á Alþingi að stofna, og ég álít, að það sé óhugsandi, að ríkisstj. hafi ekki rætt þetta mál, svo mjög sem það hefur borið á góma að undanförnu, og ég trúi því varla, að hún hafi ekki myndað sér einhverja skoðun á því, hvað eigi að gera í þessu stórmáli.

Það hefur komið hér greinilega í ljós, að íslenzka ríkisstj, telur sér skylt að grípa inn í, jafnvel á hinn harkalegasta hátt stundum, þegar hún hefur talið, að það þyrfti að reyna að tryggja fiskframleiðendum í landinu og fiskútflytjendum í landinu nokkru betri rekstrarafkomu en leit út fyrir að þeir yrðu að búa við. Þetta gerði hæstv. ríkisstj. m.a. á s.l. sumri, þegar hún lækkaði gengi krónunnar enn einu sinni, vegna þess að hún taldi, að þannig líti út, að það yrði að gera þessa ráðstöfun vegna útflutningsatvinnuveganna. En er þá ekki jafnbrýn nauðsyn á því frá hálfu ríkisstj. að athuga um það, hvort allir þeir fjármunir koma heim og ganga til réttra aðila, sem framleiðendur í landinu eiga raunverulega, en mjög er dregið í efa, að nú sé, með því skipulagi, sem ríkir t.d. í þessum efnum. (Forseti: Ég vil nú spyrja hv. ræðumann, hvort hann hafi senn lokið ræðu sinni.) Ég á dálítið eftir og vildi þá alveg eins fresta minni ræðu. [Frh.]