27.10.1961
Sameinað þing: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í D-deild Alþingistíðinda. (3658)

37. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra þær upplýsingar, sem hann hér hefur gefið, um leið og ég harma það, að þær upplýsingar, sem hér voru gefnar í fyrrahaust, skuli hafa reynzt rangar, um það, hvenær strengsins væri að vænta, og eins hinar upplýsingarnar á svo ótraustum grunni reistar sem nú er komið fram, að tæknilegum undirbúningi að lagningu hans hafi verið lokið þá.

En nú hefur sem sagt hæstv. raforkumrh. upplýst, hvað töfinni veldur eða hvernig í töfinni liggur, og einnig gefið hér yfirlýsingu um það, að strengurinn muni verða tilbúinn á þessum vetri og lagður á bezta tíma næsta sumar, sem ég ætla að þýði eins árs frestun eða því sem næst frá því, sem hann taldi í fyrrahaust.

En það er aðeins ein spurning, sem vaknar hjá mér, áður en ég skilst við þetta mál, í tilefni af þeim upplýsingum sem fram hafa komið.

Málum er þannig háttað, eins og ég vék að hér áðan, að Vestmannaeyjabær eða rafveitan í Vestmannaeyjum var knúin til þess á árinu 1960 að gera samning um kaup á raforkunni, og sá samningur var þannig úr garði gerður, að ég ætla, að raforkuveitur ríkisins hafi ekki áður gert samning um jafndýra sölu á raforku og þar var gert. Sá samningur var að verulegu leyti gerður undir þeirri pressu, að ef einhver dráttur kynni að verða á um samninginn, þá gæti það orðið til þess að tefja lagningu strengsins.

Vestmanneyingum var að sjálfsögðu sýnt fram á þann kostnað, sem af lagningu þessa strengs mundi leiða, þegar verðið var ákveðið á raforkunni. Nú upplýsir hæstv. ráðherra, að fundizt hafi með betri tæknilegum undirbúningi miklu skemmri leið, sem þessi dýri strengur þarf að liggja um, þannig að í sæstreng muni sparast um það bil 6 km langur kafli, og hann nefndi hér nokkrar millj., sem þetta mundi spara í kostnaði við lagningu strengsins. Nú vildi ég að þessu upplýstu beina þeirri viðbótarspurningu til hæstv. ráðh., hvort honum þætti ekki eðlilegt og hvort hann vildi ekki beita sér fyrir því, að sá sölusamningur á rafmagni, sem þegar hefur verið gerður við Vestmannaeyjakaupstað á röngum kostnaðarforsendum, verði endurskoðaður og Vestmanneyingum gefist kostur á því að semja upp á nýtt um kaup á þessari raforku og þá væntanlega þeim mun ódýrari sem hér er meiri sparnaður væntanlegur í rafstrengslögninni.