27.10.1961
Sameinað þing: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í D-deild Alþingistíðinda. (3659)

37. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi harmar það, að upplýsingar þær, sem gefnar voru hér fyrir ári, reyndust ekki réttar, tæknilegum undirbúningi hafi raunverulega ekki verið lokið. Tæknilegum undirbúningi var lokið, að áliti raforkumálaskrifstofunnar, raforkumálastjóra, og það var vitanlega ekkert því til fyrirstöðu að leggja strenginn á milli lands og eyja þá leið, sem þá var ákveðin. En það var, þegar hik kom á verksmiðjuna um, að hún gæti afgreitt strenginn nægilega fljótt s.l. sumar, til þess að unnt væri að leggja hann þá, næstum af tilviljun í samtali við Pétur Sigurðsson forstjóra landhelgisgæzlunnar, að sá hlutur kom upp, að það væri ef til vill hægt að finna styttri leið. Og það má þakka það í rauninni Pétri Sigurðssyni forstjóra, að þessi leið fannst. Hann átti uppástunguna að því, af því að hann hafði óljósan grun um, að hún væri fyrir hendi.

Þetta þýðir ekki, að það hafi ekki verið tæknilega lokið við undirbúning með hinni fyrri og dýrari leið. Hitt er svo ekkert undrunarefni, þó að Vestmannaeyjabær hafi gert orkukaupasamning, áður en ákveðið var að leggja strenginn. Raforkumálastjórnin hlýtur að hafa þann hátt á, áður en ráðizt er í verk, að tryggja sér það, að þeir, sem á að vinna verkið fyrir, vilji nota það. Og það var farið að með Vestmannaeyjar alveg eins og aðra kaupstaði og kauptún, sem rafmagnsveiturnar hafa afskipti af.

Það, hvort þessi orkukaupasamningur hefur verið óhagstæður fyrir Vestmannaeyjar og sérstaklega hagstæður fyrir rafmagnsveiturnar, hef ég ekki sett mig inn í. En það kemur mér alveg á óvart, ef þessi samningur hefur verið knúinn fram undir einhverri sérstakri pressu. Ég held, að þessi samningur hafi verið gerður af frjálsum og fúsum vilja af báðum aðilum og að bæjarstjórn Vestmannaeyja hafi gert sér það ljóst, að því aðeins gat hún fengið rafstrenginn, að þessi samningur væri gerður. Að sjálfsögðu er eðlilegt, að það yrði athugað á ný, hvort Vestmannaeyjar geta í einhverju notið góðs af því, að strengurinn er ódýrari en áætlað var. Og ef svo mætti fara, þá hygg ég, að hv. 6. þm. Sunnl. telji tæplega ástæðu til að vera með hálfgerðar ákúrur hér fyrir það, að þetta verk verður unnið á ódýrari máta en annars hefði orðið. Og um leið og menn óska eftir því, að verkum sé hraðað, þá er hitt ekki siður nauðsynlegt, að undirbúningur allur sé hinn bezti, sem hann getur orðið. Og mér finnst satt að segja, að einmitt þetta, að það skyldi vera unnt að stytta rafstrenginn til Vestmannaeyja um 1/3, bendi okkur á, að jafnvel oftar, ekki bara í rafmagnsmálum, heldur og í hinum ýmsu verklegu framkvæmdum hér á landi, beri hverju sinni að undirbúa hvert verk svo vel sem föng eru á, því að þannig mætti áreiðanlega á mörgum sviðum spara stórar fjárhæðir fram yfir það, sem áður hefur verið gert