14.02.1962
Sameinað þing: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í D-deild Alþingistíðinda. (3689)

304. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj., hvað hún hafi gert til að framkvæma þál., sem samþykkt var einróma á Alþingi hinn 27. maí 1960, um síldariðnað á Vestfjörðum o.fl. Þessi umrædda ályktun hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á því fyrir næstu síldarvertið, hvernig stuðla megi að starfrækslu síldarverksmiðjanna á Ingólfsfirði og Djúpuvík í framtíðinni. Enn fremur verði athugað, hvar heppilegast sé að koma upp síldarverksmiðjum og feitfiskbræðslum í sambandi við síldar- og fiskimjölsverksmiðjur:

Eins og hv. alþm. hafa nú heyrt, er með þessari þál. skorað á ríkisstj. að gera tvennt: Í fyrsta lagi að framkvæma á því athugun fyrir síldarvertíðina sumarið 1960, hvernig stuðla megi að starfrækslu síldarverksmiðjanna á Ingólfsfirði og Djúpuvík. Og í öðru lagi að athuga það, hvar heppilegast sé að koma upp síldarverksmiðjum og feitfiskbræðslum í sambandi við fiskimjölsverksmiðjur, og er sú athugun ekki bundin við Vestfirði einvörðungu, eins og gengið var frá þál. En upphaflega var sú ósk einnig borin fram viðvíkjandi feitfiskbræðslum og síldarverksmiðjum á Vestfjörðum.

Með því að hér er um allþýðingarmikið mál að ræða, fýsir mig að vita, hvað hæstv. ríkisstj. hefur gert til að framkvæma þennan eindregna þingvilja, sem túlkaður er með umræddri ályktun um síldariðnað á Vestfjörðum vorið 1960.

Vegna orðróms, sem komst á kreik á s.l. hausti um, að til stæði, jafnvel með afskiptum ríkisstj., að rífa þá vélasamstæðu, sem enn er eftir í Ingólfsfjarðarverksmiðjunni, og flytja hana í annan landsfjórðung, langar mig í leiðinni til að biðja þann hæstv. ráðh., sem fyrir svörum verður út af þessari fsp., að gefa upplýsingar um, hvort slíkt niðurif Ingólfsfjarðarverksmiðju hafi komið til mála eða sé e.t.v. áformað eða hvort sá kvíði, sem þessi frétt hefur valdið íbúum þar norður frá, sé ástæðulaus, og mundi það gleðja mig, ef svo væri.

Ég hef þessi orð svo ekki fleiri, en vænti skýrra svara um framkvæmdir ríkisstj. út af þessari þingsályktun.