16.11.1961
Efri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Það hefur verið ræt um það við fyrri umr. þessa máls, að mikill vafi geti leikið á því, að hve miklu gagni almenningi komi sú lækkun, sem leiðir af samþykkt þessa frv. Mikið af þeim vörum, sem hér er um að ræða, er ekki háð verðlagseftirliti, og er mjög á valdi kaupmanna, hve mikið af þessari lækkun fær að koma almenningi til góða. Hæstv. fjmrh. hefur hjá samtökum kaupmanna kynnt sér þessa spurningu að nokkru, en að sjálfsögðu ekki fengið viðhlítandi svör. Svörin eru óákveðin. Nú gætir ýmissa grasa í þessu frv. hvað vörur snertir. Sumt eru tvímælalaust að flestra dómi munaðarvörur og vörur, sem hægt er að kalla óþarfar. En á meðal þeirra vörutegunda, sem hér um ræðir, eru vörur, sem einnig að flestra dómi verða að teljast nauðsynjavörur, og þar á meðal hversdagslegur fatnaður. Ég vil sérstaklega í því sambandi benda á kaflana í 2. gr., kafla nr. 50, nr. 51, nr. 52, nr. 54 og nr. 55. Í þessum köflum er rætt um vefnaðarvörur, prjónavoðir, fatnaðarvöru ýmiss konar, einkum kvenfatnað, og flestar af þessum vörum heyra til hversdagsfatnaðar. Mér finnst því talsverð ástæða til, að hið háa Alþingi reyni að tryggja almenningi eins og kostur er á, að hann fái að njóta góðs af þeim tollalækkunum, sem hér er um að ræða. Nú hefur verið felld tillaga um, að allar vörur, sem hér um ræðir í þessu frv., skyldu vera háðar verðlagsákvæðum. Ég vil nú freista þess við þessa síðustu umr. að bera fram brtt., sem aðeins tekur til nokkurra kafla í 2. gr., einmitt kaflanna, sem ég taldi upp. Ég vil gera till. um, að sá fatnaður allur, sem þar um ræðir, verði háður verðlagsákvæðum og ákvæðum um hámarksálagningu. Með því einu móti getur Alþingi tryggt, að almenningur fái raunverulega lækkun á þessum nauðsynjavörum. Það fer ekki á milli mála, hvar valdið liggur til að verðleggja þessar vörur, þegar frv. er orðið að lögum. Þá er valdið farið frá Alþingi og það lagt í hendur Kaupmannasamtakanna. Það er á þeirra valdi, hvort nokkur lækkun á þessum vörum verður í framkvæmd. Ég skal í því sambandi benda á, að í fyrradag birtist í blaði hæstv. fjmrh., Vísi, viðtal við formann Kaupmannasamtaka Íslands. Að sjálfsögðu og eðlilega fagnar hann þessu frv. og væntanlegri samþykkt þess. Viðtalinu lýkur formaður Kaupmannasamtakanna með þessum orðum, — hann segir:

„Kaupmannasamtökin munu væntanlega á næstunni gera almenningi nánari grein fyrir, hvernig tollalækkanirnar koma til með að verka í einstökum atriðum.“

Greinilegar en þetta verður að mínum dómi ekki sagt, að um þessar væntanlegu lækkanir til almennings er allt óráðið enn. En sá, sem valdið hefur, Kaupmannasamtökin, mun innan skamms gera almenningi grein fyrir, hvernig þessum lækkunum verður varið. Þetta er í mínum augum mjög stórt atriði (Gripið fram í.) Hann svaraði náttúrlega fyrir sín samtök. En þetta sýnir greinilega, hvert valdið er lagt, ef það er látið af hendi héðan.

Ég vil þess vegna leyfa mér að leggja fram skriflega tillögu, sem hljóðar svo:

„Aftan við 2. gr. bætist ný málsgrein, svo hljóðandi:

Vörur í tollskrárköflum nr. 50, nr. 51, nr. 52, nr. 54 og nr. 55, nánar tilgreindar í þessari grein, skulu háðar verðlagseftirliti, og má álagning ekki vera hærri hlutfallslega en hún var í ársbyrjun 1961.“

Ég vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessari skriflegu tillögu.