05.03.1962
Efri deild: 56. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

129. mál, framsal sakamanna

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Eins og fyrirsögn þessa frv. segir til um, þá fjallar það um skilyrði til þess, að framsal sakamanna eigi sér stað milli Norðurlanda innbyrðis. Um mál þetta var fjallað á sínum tíma í laganefnd Norðurlandaráðs og þar gert ráð fyrir, að lagasetningu sem þessari yrði komið á í hverju landi um sig. Þegar hafa verið sett um þetta lög á hinum Norðurlöndunum fjórum, efnislega samhljóða þessu frv., og rekur Ísland nú lestina.

Um efni frv. er þess í fyrsta lagi að geta, að það leggur ekki skyldur á herðar ríkisstj. að framselja sakamenn, heldur er hér um heimildarlög að ræða, heimildarákvæði. Margvíslegar takmarkanir eru þó á þeirri heimild. Um takmarkanir til þess, að heimilt sé að framselja íslenzka ríkisborgara, er fjallað í 2. gr. frv., en þar segir svo í fyrri mgr., að íslenzkur ríkisborgari verði því aðeins framseldur, að hann hafi verið búsettur tvö síðustu árin, áður en brot var framið, í því landi, sem framsals óskar, eða að þyngri refsing en fjögurra ára fangelsi liggi við brotinu eða samsvarandi broti eftir íslenzkum lögum.

Í 4. gr. frv. segir síðan, að ekki megi framselja íslenzka ríkisborgara vegna stjórnmálaafbrota, og í 5. gr., að framsal sé óheimilt, ef hér á landi hefur gengið dómur um verknaðinn, dómsátt verið gerð eða ákæru frestað skilorðsbundið. Gildir það raunar einnig um erlenda ríkisborgara. Um framsal þeirra eru að ýmsu leyti ekki eins strangar reglur í frv., en meginreglurnar felast í 1. og 2. mgr. 3. gr., en þar segir, að ekki verði maður framseldur til saksóknar, nema þyngri refsing en fésektir liggi við brotinu í því landi, sem framsals óskar, og ekki verði maður framseldur til að þola fullnægju dóms, nema dæmd hafi verið refsivist eða vistun á hæli hafi verið dæmd eða ákveðin samkvæmt heimild í dómi.

Beiðni um framsal manns skal send dómsmrn., en ráðuneytinu ber að senda beiðnina til saksóknara ríkisins, sem lætur rannsaka málið og sendir ráðuneytinu síðan álitsgerð um það. Þá getur maður, sem óskast framseldur, krafizt úrskurðar sakadóms Reykjavíkur, hvort skilyrði laga fyrir framsali séu fyrir hendi, og má kæra úrskurð sakadóms til hæstaréttar.

Þessi atriði, sem ég hef nú nefnt, ætla ég að séu meginefni frv. Allshn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. og mælir með því, að það verði samþykkt óbreytt. Einn nm., hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ), var ekki viðstaddur, þegar nefndin afgreiddi málið.

Ég vil að lokum geta þess, að í frv. eru prentvillur. Ein hinna meinlegustu er í 17. gr., næstsíðustu línu á bls. 4. Þar stendur: 2. mgr., en á að vera 3. mgr. Þessar prentvillur verða að sjálfsögðu leiðréttar í prentun.