09.02.1962
Neðri deild: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

140. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Samábyrgð Íslands á fiskiskipum tekur að sér endurtryggingu á þeim skipum, sem frumtryggð eru hjá bátaábyrgðarfélögunum víðs vegar um land, en það eru allir þilfarsbátar, sem eru ekki stærri en 100 rúmlestir brúttó, og auk þess allmargir opnir fiskibátar. Samábyrgðin tekur í eigin áhættu hluta í hverju skipi, en endurtryggir afganginn að nokkru leyti í London og að nokkru leyti hjá innlendum vátryggingarfélögum. Hluti Samábyrgðarinnar í áhættunni er með lögum nr. 52 1947, um breyt. á l. um Samábyrgðina, takmarkaður við 25% af vátryggingarfjárhæð hvers skips, en má þó ekki vera hærri en 100 þús. kr. í einu skipi. Samábyrgðin hefur því orðið að endurtryggja frá sér mikinn meiri hluta af þeirri áhættu, sem hún hefur yfirtekið frá bátaábyrgðarfélögunum. Þetta sést m.a. glöggt á því, að af 32.6 millj. kr. iðgjöldum, sem bátaábyrgðarfélögin greiddu Samábyrgðinni 1960, runnu 27.7 millj. kr. til endurtryggjenda. Viðskipti Samábyrgðarinnar við endurtryggjendur hafa að undanförnu verið Samábyrgðinni óhagstæð, og reikningar hennar fyrir árið 1960 sýna, að á því ári hefur orðið afgangur, þegar öll tjón eru greidd og umboðslaun fyrir endurtryggjendur, 7½ millj. kr., sem endurtryggjendur hafa fengið í sinn hlut fyrir þessa þjónustu.

Vátryggingarkerfi fiskiflotans er nú allt í endurskoðun og óvíst, hvenær þeirri endurskoðun verður lokið. Það kom í ljós á árinu 1960, þegar hér var próf. Gerhardsen frá Noregi til að athuga ýmis mál sjávarútveginum viðkomandi, að vátryggingariðgjöld fiskiskipa eru hér á landi miklu hærri en þau eru í nábúalöndum okkar fyrir sams konar tryggingu, og var þá sett skömmu síðar nefnd til athugunar á því, hversu hægt væri að koma þessum málum öllum í betra horf, og vann þessi nefnd að því máli — það var nefnd sérfræðinga — fram til ársloka s.l. ár og skilaði þá áliti. En því miður var álitið þannig, að það voru jafnmörg álit og meðlimirnir voru í nefndinni, og hefur ekki tekist enn að finna sameiginlega lausn á því máli, sem viðkomandi aðilar mundu geta fellt sig við, en það er allt í athugun hjá ríkisstj., og verður sleitulaust unnið að því, þangað til niðurstaða fæst. En eitt af því, sem sýnilegt var að hægt væri að laga, voru þessi endurtryggingariðgjöld Samábyrgðarinnar, sem þess vegna var talið að rétt væri að gera nú þegar.

Þegar þess vegna um áramótin þurfti að taka ákvörðun um, hvort Samábyrgðin ætti að endurnýja sína endurtryggingarsamninga erlendis, þá varð sú niðurstaðan, að það skyldi ekki gert, heldur yrði frá 1. jan. fyrirhugað að hafa vátryggingu skipanna hjá Samábyrgðinni á þann veg, að bátaeigendur bæru í eigin áhættu fyrstu 10%, bátaábyrgðarfélögin næstu 10% og af eftirstöðvum áhættunnar bæru innlend tryggingafélög 60% áhættunnar og Samábyrgðin sjálf 40%. En þessa breytingu leyfðu ekki lögin, eins og þau nú eru, og þess vegna var þessi breyting gerð með brbl., sem hér er leitað staðfestingar á. Að vísu þykir enn nauðsynlegt, að Samábyrgðin endurtryggi erlendis það, sem þessi 40% fara fram úr 400 þús. kr. á hverju skipi, en þessi endurtrygging kostar aðeins 2 millj. kr., og vafalítið kemur nokkur hluti þessarar upphæðar aftur í tjónagreiðslum, þannig að á þessu er auðséður verulegur sparnaður, sem þótti hæfileg byrjun til lausnar á þessu vandasama og vandmeðfarna máli.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. sjútvn.