22.02.1962
Neðri deild: 53. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

21. mál, lausaskuldir bænda

Halldór Ásgrímsson:

Hæstv. forseti. Áður en ég ræði þetta mál, eins og það liggur nú fyrir hv. þd., vænti ég, að mér leyfist að víkja lítils háttar að tildrögum þess og forsögu.

Strax og hin svokallaða viðreisnarlöggjöf hæstv. ríkisstj. kom á sínum tíma til umr. á hv. Alþingi, benti Framsfl. og raunar öll stjórnarandstaðan á það með sterkum rökum, að fyrirhuguð löggjöf með væntanlegum fylgifiskum væri ranglát og auk þess alger ofraun fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar, þ. á m. og ekki sízt fyrir tvo aðalatvinnuvegina, landbúnað og sjávarútveg. Ég skal ekki fara nánar út í það mál, en aðeins minna á eitt atriði, sem sterklega var að fundið og varað við, en það var vaxtaokrið, sem var einn þáttur í hinni illa þokkuðu löggjöf.

Það kom líka strax á daginn, þegar til framkvæmda kom, að málsvarar atvinnuveganna, hvar í flokki sem þeir stóðu, tóku undir ádeilur Framsfl. um vaxtaokrið. Og svo fór, að stjórnarflokkarnir sáu sér ekki annað fært í árslok 1960 en að lina það að nokkru. Sú aðgerð, þótt um hana munaði, nægði þó ekki til að fleyta atvinnuvegunum áfram með aðrar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. á herðum sér. Þetta var svo augljóst, að hæstv. sjútvmrh. sá sig til neyddan að gefa út brbl. hinn 5. jan. 1961, þar sem útvegsmönnum var opnuð leið til að breyta lausaskuldum sínum í hagstæð föst lán til langs tíma, og mun ráðh. hafa sett þau brbl. í samráði við ýmsa forsvarsmenn stéttarinnar.

Strax að liðnu jólahléi lagði hæstv. sjútvmrh. málið fyrir Alþingi, og voru allir sammála um að afgreiða það. En jafnframt lagði Framsfl. mikla áherzlu á, að inn í frv. skyldi bætt ákvæði um samtímis og sams konar aðstoð til bænda. Því máli eyddi þá hæstv. landbrh. og bar m.a. fyrir, að ekki væri vitað til, að bændur þyrftu þessarar aðstoðar við. En síðar gaf hann þó yfirlýsingu um, meðan á málsafgreiðslu stóð, að athugun yrði gerð, hvort bændum bæri nauðsyn til að fá sams konar fyrirgreiðslu í þessum efnum, og fyrir þinglok lét hann lýsa því yfir, að ríkisstj. hefði ákveðið að beita sér fyrir því, að bændum yrði gert kleift að breyta lausaskuldum sínum í föst lán til langs tíma, á svipaðan hátt og gert hafði verið með sérstökum lögum vegna þeirra, sem stunda útgerð fiskiskipa og fiskvinnslu.

Í forsendum fyrir brbl. sínum frá 5. jan. 1961 segir hæstv. sjútvmrh., að vegna rekstrarörðugleika sjávarútvegsins beri brýna nauðsyn til að breyta allmiklu — ég segi allmiklu — af lausaskuldum hans í löng lán. Hæstv. landbrh. var lengur að átta sig á ástæðum bænda í þessu sama efni. En hinn 15. júlí s.l. hefur hann þó komizt að þeirri niðurstöðu, að nauðsyn beri til, að sams konar ákvæði verði gefið út til handa bændum, og gefur því út brbl. þann dag um málið. Verður ekki annað séð samkvæmt forsendum þeirra brbl. en bændur eigi að njóta svipaðrar fyrirgreiðslu og kjara og veitt var sjávarútvegsmönnum og að framkvæmd skuldabreytinganna verði þannig, að hún nái tilgangi sínum. Eitt er þó athyglisvert í forsendum hæstv. landbrh. fyrir sínum brbl., samanborið við það, sem hæstv. sjútvmrh. lét fylgja sínum. Hæstv. sjútvmrh. lýsir því yfir, að hann ætlist til, að allmiklu af skuldum sjávarútvegsins til skamms tíma verði breytt í löng lán. Má segja, að ráðh. gat tæplega tekið sterkar til orða um það atriði en hann gerði. Hins vegar segir hæstv. landbrh., að fyrirheit sé gefið um að breyta hluta af lausaskuldum bænda í föst lán. Má segja, að þar hafi verið tekið eins linlega til orða og fært þótti og að þetta orðalag hafi verið notað af ráðnum hug, og bendir til þess, sem verða átti um afgreiðslu málsins.

Þetta mál hefur valdið allmiklum umr. í hv. þd., enda að vonum, þar sem um er að ræða mikið hagsmunamál bændastéttarinnar, en. málatilbúningur af hendi hæstv. landbrh. svo ömurlegur, að segja má, að þar heggur sá, er hlífa skyldi. Sem einn af fulltrúum bænda hér á hv. Alþingi hugsaði ég mér að segja hér nokkur orð við 1. umr. málsins og lýsa því ásamt öðrum, hvað væri óviðunandi í brbl. hæstv. ráðh. og hvað þyrfti því að lagfæra við afgreiðslu málsins hér á hv. Alþingi. En það vildi svo til, að ég var forfallaður, þegar þetta mál var til 1. umr. Hér var þó vitanlega enginn skaði skeður, því að nógir urðu til þess af hendi Framsfl. að benda á hina furðulegu ágalla frv. og gera kröfu til þess, að þeir yrðu lagfærðir í meðferð málsins hér á þingi. Sú n., sem fékk málið til meðferðar, hafði því nægilegar og rökstuddar ábendingar um þær lagfæringar, sem óhjákvæmilegar máttu teljast, ef svo átti að málinu að vinna, að það gæti orðið bændastéttinni að verulegu liði.

Það var þó ekki á hæstv. landbrh. að heyra, að nokkuð væri ábótavant um brbl. hans, og því var þess sennilega tæplega að vænta, að stjórnarliðið í hv. fjhn. tæki sig til að ganga inn á, að gerðar yrðu af n. hálfu brtt., sem að gagni mættu verða, og svo varð ekki, því að eins og nál. stjórnarliðsins ber með sér, er það aðeins hallelúja við öllu því, sem hæstv. landbrh. hafði gert og lagt til að gert yrði í málinu. En mikið má vera, ef einhverjum af þeim glöggu mönnum, sem að nál. meiri hl. stóðu, hefur ekki dottið í hug dæmisagan af refnum, sem bauð heim sýndarvini sínum og bar fram fyrir gestinn girnilega rétti, en þó á þann hátt, að gesturinn gat engra þeirra neytt, og fór hann því þurrbrjósta úr boðinu. En þótt svo hafi verið, má gera ráð fyrir, að þeir hinir sömu nm. hafi haft í huga hið forna máltæki í sambandi við hæstv. landbrh. og hugsað sem svo: Sjái hann fyrir sínum málum sjálfur.

Hv. minni hl. fjhn. bar hins vegar fram nauðsynlegustu breytingar við brbl., sem hefðu tryggt það, ef samþykktar hefðu verið, að bændur hefðu getað orðið aðnjótandi svipaðrar aðstoðar vegna lausaskulda og veitt hafði verið áður útvegsmönnum. Eins og kunnugt er, voru helztu brtt. minni hl. á þá lund að tryggja bændum rétt til að fá lán til að létta lausaskuldum af vinnslustöðvum sínum, að heimila bændum að fá lán út á landbúnaðarvélar sínar, að vextir af þessum lánum skyldu vera 6½% og að Seðlabankinn legði fram fé til lánveitinga. En allar þessar brtt. minni hl. fjhn. voru felldar við 2. umr. málsins, og stóð allt stjórnarliðið undir forustu hæstv. landbrh. samhuga að því. Eins og þingskjöl sýna, stóð ekki á því, að hv. fjhn. skilaði málinu frá sér, enda var það tiltölulega einfalt í sniðum og sérstaklega þegar tekið var tillit til þeirrar fyrirgreiðslu, sem útvegsmönnum hafði áður verið veitt vegna lausaskulda þeirra. Hjá nm. kom því fyrst og fremst til álita, hvort þeir ættu meira að meta að þjóna undir hug og vanhug hæstv. landbrh. í þessu máli eða að rétta bændum hönd í nauðsyn þeirra.

Meiri hl. hv. fjhn. skilaði áliti sínu 16. nóv. s.l. og minni hl. nokkrum dögum síðar. En það einstaka fyrirbrigði skeði, ekki sízt þegar um var að ræða stjórnarfrv., að þrátt fyrir að málið var margsinnis tekið á dagskrá, þá var hæstv. ráðh. ekki tilbúinn að taka málið til 2. umr. fyrr en um miðjan þennan mánuð. M.ö.o.: það tók hæstv. ráðh. marga mánuði að búa sig undir að fylgja málinu eftir, eftir að n. hafði skilað áliti.

Þrátt fyrir þessi furðulegu og einstæðu vinnubrögð hæstv. ráðh. ber ekki að lasta þau svo mjög, því að það kom í ljós, að ádeila Framsfl. varðandi brbl. og kröfur bænda og bændasamtaka um leiðréttingar mála sinna virðast hafa sannfært ráðh. um, að svo mikill maðkur var í þessari mysu hans, að ófært væri þrátt fyrir þingmeirihlutann að bera þann rétt óbreyttan fram fyrir bændur landsins.

Hæstv. ráðh. virðist því að lokum hafa sannfærzt um, að öll meginatriði í málfærslu Framsfl. um leiðréttingar í málinu og kröfur bænda um hið sama væru réttmætar og nauðsynlegt að gera þó a.m.k. einhverja bragarbót þar á. Þótt hæstv. ráðh. virðist hafa haft fullan hug á að hunza eftir föngum þessar kröfur, þá mun sennilega einhver samráðherra hans hafa bent honum á, að ekki yrði komizt hjá því að laga meginatriði brbl. að verulegu leyti og að nauðsyn bæri því til a.m.k. að afla einhvers fjár vegna fyrirhugaðra fjárveitinga, svo að bændum gæti orðið einhver hjálp að þessari ráðstöfun, en af brbl. ráðh. er augljóst, að hann hefur ekki hirt um að fara sömu leið og hæstv. sjútvmrh. fór, þegar hann og Alþingi tryggðu sjávarútvegsmönnum aðstoð vegna lausaskulda sjávarútvegsins og skylduðu Seðlabankann að veita fé til fyrirgreiðslu í þeim málum. En þessa leið hefur hæstv. landbrh. hvorki fyrr né síður viljað aðhyllast eða fara og því ætlað bændum það vonlitla hlutverk að berjast að mestu óstuddir fyrir því við lánardrottna sína, að þeir tækju hin fyrirhuguðu bankavaxtabréf til greiðslu á lausaskuldum þeirra.

Sem sagt, hæstv. landbrh. sá sér ekki einu sinni fært að taka þessa höfuðkröfu stjórnarandstöðunnar til greina, en sá auðvitað jafnframt, að ekki var stætt á því að gera ekki eitthvað í málinu, og kaus því þá í raun og veru óskörulegu leið að ganga fyrir dyr Seðlabankans og biðja ráðamenn þar um aðstoð, þá menn, sem hæstv. ráðh. gat réttilega haft yfir að segja í þessu máli, samanber það sem gert hafði verið í sambandi við löngu lánin í þágu útvegsmanna. Og vafalaust gátu ráðamenn Seðlabankans látið sér eins vel líka lagaboð í þessu efni vegna bændanna eins og vegna útvegsmannanna.

Árangurinn af þessari Canossa-göngu ráðh. kom svo í ljós við 2. umr. málsins, því að þá las ráðherrann upp yfirlýsingu frá stjórn Seðlabankans um, að hann mundi aðstoða í sambandi við þessi fyrirhuguðu aðstoðarlán bænda. Vissulega verður þessi aðstoð Seðlabankans þakksamlega þegin, enda mikils virði og gefur bændum vonir um, að væntanlegar lánveitingar verði þeim að liði.

Þegar svo var komið málum við 2. umr., að hæstv. landbrh. hafði lesið fyrrgreint bréf frá Seðlabankanum, skoraði hv. 1. þm. Norðurl. v. á hæstv. ráðh. að hlutast til um, að þeir bændur, sem áður töldu sér þýðingarlaust að sækja um lán vegna óhagstæðra og fráleitra ákvæða brbl., fengju nú tækifæri til að bera fram sínar umsóknir.

Hæstv. ráðh. taldi það fjarstæðu, þótt þm. hefðu réttilega bent á, að mikilvægt atriði hefði nú breytzt til hags fyrir bændur og rétt væri því og skylt að gefa bændum tækifæri til að nota sér þá aðstoð, sem yfirlýst væri nú af hálfu Seðlabankans. Eins og málefni stóðu til, var það staðreynd, að hæstv. ráðh. hrökk ekki til að verja málstað sinn við 2. umr. málsins. Og þegar hann var að verulegu leyti búinn að leggja árar í bát, þá töldu ýmsir af stuðningsmönnum hans hér í þessari hv. deild ástæðu til að leggja honum lið í mátflutningnum. Til máls tóku í þeim tilgangi hv. 3. þm. Austf. (JP) og hv. 2. þm. Norðurl. v. (GunnG), og voru ræður þeirra að mestu lofsöngur og þakkir til hæstv. ráðh. fyrir, hversu ágætlega hann hefði leyst þetta mikla vandamál bændanna. Taldi hv. 3. þm. Austf., að hæstv. ráðh. hefði leyst mikið afrek af höndum og það þrátt fyrir mikla andstöðu Framsfl., eftir því sem á ræðumanni mátti skilja. Vakti ræða hv. 3. þm. Austf. nokkra athygli þeirra, sem á hlýddu, því að svo haganlega fléttaði hv. ræðumaður saman háði og smeðjulegu lofi í garð hæstv. ráðh., að furðu gegndi. En um rætni í garð Framsfl. var ekki að villast. En hvað varðaði háðið, þá vil ég spyrja: Hvað er það annað en háð að lýsa því fyrst yfir með fjálglegum orðum, að brýna nauðsyn beri til, að sem allra mestu af lausaskuldum bænda sé breytt í föst lán, að vextir af lánum þessum verði sem allra hagstæðastir og að allir bændur, sem á því hafi þörf, fái að njóta lánanna, og jafnframt að þakka hæstv. ráðh. fyrir frammistöðu hans í þessum efnum? Ef þetta er ekki græskufullt háð í garð hæstv. ráðh., þegar litið er á alla mátavexti, þá veit ég ekki, hvað það er. Og er það ekki háð í garð hæstv. ráðh. að fjargviðrast yfir því, hve málið sé óskaplega erfitt á allan hátt og hve mikið afrek það sé að koma því heilu í höfn, en gæta þess ekki, að nýverið var sams konar mál, en miklu stærra og fjárfrekara, hávaðalaust og betur leyst fyrir sjávarútveginn? Snorri Sturluson segir á einum stað, þar sem hann ræðir um sannindi lofkvæða hirðskálda konunganna fornu, að hann hafi það fyrir satt, sem skáldin segi til lofs konungum sínum, því að enginn mundi þora að segja konungi það til lofs upp í eyru hans, sem hann sjálfur og allir aðrir, sem á hlýddu, vissu að væri ósatt. Og slíkt lof vildi Snorri Sturluson því telja skrök eða háð. Þessari gullvægu reglu virðist hv. 3. þm. Austf. hafa gleymt í ákafanum um að koma hæstv. ráðh. til liðs. En annars má væntanlega spyrja, í hverju afrek hæstv. landbrh. sé fólgið í þessu máli. Það mun vera flestra álit, að afrek geti það eitt talizt, sem betur er gert en annað, sem gert hefur verið í sömu grein, eða a.m.k. jafnvel og það bezta. Það verður því að telja heimilt að bera svokölluð afrek hæstv. landbrh. um að beita sér fyrir að koma lausaskuldum bænda á hagkvæman hátt í föst lán saman við sams konar aðgerð hæstv. sjútvmrh. um að breyta á sömu lund lausaskuldum útvegsmanna. Má geta þess, að jafnvel jöfn afrek eru ekki alls kostar sambærileg, sökum þess að hæstv. sjútvmrh. braut ísinn, skapaði fordæmið og greiddi götu hæstv. landbrh. með aðgerðum sínum í hliðstæðu máli. Afrekaannáli þessara hæstv. ráðh. er í stórum dráttum svo hljóðandi:

Hinn 5. janúar 1961 setur hæstv. sjútvmrh. bráðabirgðalög, þar sem stofnlánadeild sjávarútvegsins er heimilað að veita útgerðarmönnum lán til að breyta lausaskuldum þeirra í föst lán. Við meðferð þess máls á þingi leggur Framsfl. til, að inn í lögin sé bætt ákvæði, sem veiti bændum sams konar úrlausn. En þeirri till. var hafnað undir forustu hæstv. landbrh., sem svo gefur út brbl. hinn 15. júlí s.l., þar sem veðdeild Búnaðarbankans er heimilað að gefa út bankavaxtabréf til að lána bændum til að greiða með lausaskuldir sínar. Hæstv. sjútvmrh. leggur fyrir, að lánin til útvegsmanna skuli veitt út á skip þeirra, vinnslustöðvar og vélar. Hæstv. landbrh. leggur fyrir, að lán til bændanna séu aðeins út á fasteignir þeirra, og dæmir þannig frá upphafi þá bændur úr leik, sem eiga ekki fasteign, þótt á þeim sömu bændum hvíli lausaskuldir vegna vélvæðingar þeirra. Og í viðbót við afrek hæstv. landbrh. í þessu efni má geta þess, að hann sleppti hliðstæðu atriði um að veita bændum aðstoðarlán vegna lausaskulda, sem hvíldu á vinnslustöðvum þeirra. Hæstv. sjútvmrh. leggur fyrir, að allmiklu af lausaskuldum útvegsins skuli breytt í föst lán. Hæstv. landbrh. leggur fyrir, að hluta af lausaskuldum bænda skuli breytt í föst lán. Hæstv. sjútvmrh. leggur fyrir, að til taks sé nefnd til að meta eignir útgerðarmanna. Landbrh. leggur ekkert slíkt fyrir, og urðu því bændur, hver og einn, að eltast við að fá lögskipaða matsmenn hver fyrir sig. Hæstv. sjútvmrh, mælti svo fyrir, að Seðlabankinn skuli leggja stofnlánadeildinni fé vegna lánveitinga til sjávarútvegsins, en engin fyrirmæli um slíkt eru gerð af hæstv. landbrh. varðandi lausaskuldir bænda. Hæstv. sjútvmrh. gerir ráð fyrir, að stofnlánadeildin veiti útvegsmönnum bein veðlán. Hæstv. landbrh. mælir svo fyrir, að bændur fái bankavaxtabréf, sem þeir verði að verulegu leyti að semja sjálfir um við lánardrottna sína, að þeir taki upp í lausaskuldirnar. Hæstv. sjútvmrh. mælir svo fyrir, að vextir af lánum útvegsmanna skuli vera 6½%. Hæstv. landbrh. mælir svo fyrir, að bændur skuli greiða 8% af sínum lánum, af tiltölulega óhentugum gjaldmiðli, bankavaxtabréfunum. Og þeir vextir hljóta að standa óbreyttir áfram, þótt svo færi, sem ástæða er til að ætla, að hæstv, ríkisstj. heykist á því til langframa að halda uppi þeim okurvöxtum, almennt talað, sem nú eru í gildi.

Hinn 14. jan. 1961 gaf hæstv. sjútvmrh. út reglugerð varðandi mál sitt, eða 9 dögum eftir að hann setti brbl., og þar með fóru framkvæmdir í gang varðandi aðstoðarlánin til útvegsmanna. Hæstv. landbrh. gaf út sína reglugerð 9. okt. s.l., eða 86 dögum eftir að hann hafði gefið út brbl. og 9 dögum eftir að upphaflega hafði verið lagt fyrir bændur að hafa skilað öllum lánaumsóknum. Hæstv. sjútvmrh. gaf strax út öll fyrirmæli, sem máli skiptu um lánamöguleika og lánskjör, og vissu því útvegsmenn frá upphafi, að hverju var að ganga í því efni. Hæstv. landbrh. fór ekki þá leið, og urðu bændur því að leita, að því leyti sem brbl. sögðu ekki fyrir um málsatriði, upplýsinga hjá Búnaðarbankanum, sem gaf þær, eftir því sem hann gat bezt í té látið, meðan reglugerðin var ekki út gefin. En svo nú, þegar hæstv. ráðh. upplýsir, að vænta megi, að með aðstoð Seðlabankans geti þessi lán orðið til miklu almennari hjálpar bændum en hann hafði ráð fyrir gert, þá er helzt svo að heyra, að þeir bændur, sem höfðu ekki séð þýða fyrir sig að sækja um lán vegna vissra annmarka brbl., sem nú ættu að vera að verulegu leyti úr sögunni, fái ekki tækifæri til þess að nota sér þessi lán.

Ég skal láta þessum afrekaannál lokið og læt menn um að dæma, hvor hinna tveggja hæstv. ráðh. er nær því að hafa sýnt afrek, sá, sem beitti sér fyrir úrlausninni, skapaði fordæmið og gerði það á margan hátt farsællega, eftir því sem nú verður bezt vitað, eða hinn, sem drattaðist á eftir og gerði flest verra en sá, sem á undan fór.

Ég skal nú, hæstv. forseti, fara að láta máli mínu senn lokið, en vil þó aðeins lítils háttar víkja að örfáum atriðum af hinum rætnu slettum hv. 3. þm. Austf. í garð Framsfl., sem hann lét falla við 2. umr. þessa máls, þrátt fyrir það, þó að þær séu vissulega í raun og veru ekki þess verðar, að þeim sé svarað.

Hv. ræðumaður taldi, að lausaskuldir bænda væru frá eldri tíma en árum núv. hæstv. ríkisstj., og gaf helzt í skyn, að þær væru frá tímum vinstri stjórnarinnar svokallaðrar. Þetta er vitanlega órökstudd og furðuleg fullyrðing, sem í raun og veru brbl. hæstv. landbrh. afsanna, því að þar er tekið fram, að þær lausaskuldir, sem hafi safnazt frá árslokum 1955 til ársloka 1960, komi til greina, þegar um er að ræða að veita hin fyrirhuguðu aðstoðarlán. Auðvitað hafa lausaskuldir fyrr og síður komið illa við bændur, og stafar það m.a. af vöntun á nægum framkvæmdalánum. En löngum var þó byrði lausaskuldanna þolanleg og ekki sízt einmitt í tíð hinnar svokölluðu vinstri stjórnar, og það keyrði fyrst um þverbak fyrir bændum í þessum efnum, þegar núv. hæstv. ríkisstj. dembdi viðreisnarlöggjöfinni á með tilheyrandi okurvöxtum og öðru fleira, sem þeim fylgdi. Og það ætti ekki að þurfa að segja hv. þingmanni, að þessi aðstoðarlán, bæði til sjávarútvegsins og landbúnaðarins, eru til komin af þessum sökum.

Þá leyfði hv. þm. sér að segja, að Framsfl. hefði spillt fyrir framgangi þessa máls. Það eru fleiri en hv. þingmenn, sem vita, að þetta eru herfileg ósannindi, og m.a. vita bændurnir það um allt land. En út í það skal ég ekki nánar fara, því að væntanlega gefst okkur hv. 3. þm. Austf. tækifæri til að ræða það mál nánar í viðurvist austfirzkra bænda, jafnt frammistöðu hv. þingmanns í þessu máli sem í öðrum hagsmunamálum bændastéttarinnar, síðan hann komst á Alþingi.

Hv. 3. þm. Austf. var með ráðleggingar í garð okkar framsóknarmanna í sambandi við vinnubrögð okkar á Alþingi, sérstaklega þegar um landbúnaðarmál væri að ræða, og taldi okkur það reyndar fyrir beztu að breyta um svip í vinnubrögðum. Þrátt fyrir góðan vilja eigum við framsóknarmenn vafalaust okkar yfirsjónir í málflutningi og afstöðu til mála eins og aðrir þingflokkar. En ég vil fullyrða, að það situr ekki á þessum hv. þm. né hans þingflokki að brigzla Framsfl. í því efni eða að ætla sér að gerast tyftunarmeistari. Og ég vil fræða hv. 3. þm. Austf, um það, að fullyrða má, að bændur eystra mundu setja upp óhýran svip, ef það kæmi í ljós, að við framsóknarmenn settum hans svip á afstöðu okkar til hagsmunamála bændanna.

Annars virtist hv. þm. tæplega sjálfrátt í glefsum sínum í garð framsóknarmanna, en yfir tók þó, þegar hann fór að brigzla bændum í Suður-Múlasýslu. Þótt orðalagið væri annað, um ódugnað og ræfildóm og leiddi um leið orð að því, að slíkt væri að mestu leyti að kenna hv. 1. þm. Austf. Þessi fáheyrðu fúkyrði eru vitanlega jafnósmekkleg sem þau eru ósönn, og þarf ekki að hafa fleiri orð um það, nema þau eru vissulega Jónasarleg. Má segja, að með þessu hafi hv. þm. launað fylgi sjálfstæðisbænda í Suður-Múlasýslu sem hann var maður til. Og innræti sínu í garð bændastéttarinnar almennt jafnhliða þjónustuvilja sínum við þau öfl innan Sjálfstfl., sem vilja hafa bændur eftir atvikum sem mest hornreka í hverju máli, lýsti hv. 3. þm. Austf. vafalaust bezt með því að segja, að hann harmaði það, að ekki skyldu fyrr en raun varð á hafa verið hækkaðir vextir á stofnlánum landbúnaðarins hjá Búnaðarbankanum, og kenndi réttilega Framsfl. um, að svo varð ekki, meðan hann gat einhverju ráðið í þeim efnum.

Eftir að hæstv. landbrh. hafði við 2. umr. málsins tilkynnt orðsendingu Seðlabankans um aðstoð hans í málinu, talaði hv. 5. þm. Norðurl. v. (BP) og var prúður og hógvær að vanda. Morgunblaðið gerir mikið úr þakklæti því, sem hv. ræðumaður lét í ljós vegna þeirrar úrlausnar málsins, sem fólst í tilkynningu Seðlabankans, og virtist blaðið yfirfæra allt það þakklæti til hæstv. landbrh. Þótt það skipti nú ekki miklu máli, verð ég að segja það, að ég er ekki grunlaus um, að fréttamaður blaðsins hafi misskilið að nokkru þökk hv. ræðumanns í garð hæstv. landbrh. Víst var það þökk, sem hann flutti fram. En ég held, að það hafi verið álíka þakkarorð og hægt er, ef menn hafa geð til, að bera fram við mann, sem gefur félaga sínum kjaftshögg að ósekju, en hættir svo við, að góðra manna tilhlutan, að gefa annað, úrslitahöggið. Þetta má þakka fyrir bændanna hönd, og mér skildist, að þökk hv. 5. þm. Norðurl. v. væri eitthvað á þessa lund.

Hv. ræðumaður minntist einnig á þá hollu venju til sveita, að gestir þökkuðu fyrir veittar góðgerðir. Sem betur fer er þessari fornu venju við haldið, jafnt í sveit sem annars staðar, og venjan er, að ef þeir eru einhverra hluta vegna ekki viðlátnir, sem góðgerðirnar veittu, þegar gesturinn fer, þá er það venjan að biðja einhvern framámann heimilisins að skila kveðju og þökk fyrir veittar góðgerðir. Ég vil taka undir ábendingu hv. 5. þm. Norðurl. v. um alla kurteisi, og vil þess vegna leyfa mér fyrir hönd íslenzkra bænda að biðja hæstv. landbrh. að skila kveðju og þökk til ráðamanna Seðlabankans fyrir að hafa bjargað þessu máli eins vel og mikið og í þeirra valdi stóð.