22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vildi gera hér stutta athugasemd út af þeim orðum, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) lét hér falla um óþingleg vinnubrögð í heilbr.- og félmn. þessarar d. Ég hygg, að þessi orð hans hafi stafað af því, að þessum hv. þm., sem á ekki sæti í nefndinni, hafi ekki verið nægilega vel kunnugt um meðferð nefndarinnar á þessu máli.

Þegar þetta mál var fyrst tekið til meðferðar í n., var að sjálfsögðu, eins og venja er, rætt um það, hvaða upplýsinga eigi að leita og til hverra aðila eigi að senda frv. til umsagnar. Um það varð samkomulag í nefndinni. Ef hv. 9. þm. Reykv. (AGl) vildi endilega fá formann frumvarpsnefndarinnar á fund nefndarinnar til þess að spyrja hann, þá var það auðvitað rétti tíminn að setja þá ósk fram, þegar þetta mál fyrst var fyrir tekið. Næst er málið tekið fyrir og afgreitt. Þegar umsagnir þeirra aðila, sem það hafði verið sent til, hafa borizt, kemur þessi hv. þm. fyrst með óskir um það, að form. frumvarpsnefndarinnar verði kvaddur til og hann spurður. Þá álít ég í raun og veru, að þetta hafi verið of seint fram komið. En ég vil líka vekja athygli á því, að formenn þingnefnda hafa fleiri skyldur að rækja en eingöngu þær að vinna að því, að nefndarmenn og nefndin í heild fái upplýsingar og annað, sem þeir óska eftir til þess að geta tekið afstöðu til mála. Þeir verða líka að sjá til þess, að mál séu afgreidd með eðlilegum hraða. Og þegar meiri hl. einhverrar nefndar telur sig ekki þurfa frekari upplýsinga við til að taka afstöðu til málsins, þá er eðlilegt, að málið sé afgreitt. Auk þess má geta þess, að formenn þingnefnda eiga hér oft í erfiðleikum með að fá nefndarmenn til þess að mæta á fundum. Það er, eins og kunnugt er, því miður svo, að ýmsir hér í þessari hv. d. geta helzt ekki sótt nefndarfundi á vissum tímum dagsins, og þá er alls ekki grundvöllur fyrir því að halda nefndarfundi. Nú var það þannig, að þessi hv. þm., 9. þm. Reykv., hafði á stuttum tíma þarna á undan skrópað á tveim fundum nefndarinnar, og það hafði tafið fyrir, að málið yrði afgreitt. Svo kemur hann loksins á fund, og þá er það þessi ósk, sem hann hefur fram að bera.

Ég get ekki heldur fallizt á það með hv. 3. þm. Norðurl. v., að það skipti engu máli, þó að maður sá, sem þarf að tala — við, eigi sæti í þessari hv. d. Ég get víst ekki gert nokkurn sérstakan greinarmun á því, hvort sá þm. mætir á fundi n. og gefur þar sín svör og skýringar eða tekur hér þátt í umræðum málsins og gefur þær þar. Ég vildi telja, að það væru enn þá fullkomnari svör, sem hann gefur í heyranda hljóði allrar deildarinnar, heldur en aðeins á nefndarfundi.

Þá vil ég líka taka fram, að hv. 9. þm. Reykv., sem setti fram þessa ósk í nefndinni, kom ekki fram á nefndarfundi, svo að ég muni, með ósk um að fá neinar tilteknar, ákveðnar upplýsingar, heldur kom hann fram með ósk um það að fá formann frumvarpsnefndarinnar almennt til umræðu um málið.

Ég verð að segja það líka, að í þeim nefndum, sem ég hef starfað í hér í þessari hv. d., eru það mjög algeng vinnubrögð, að formenn nefndarinnar aðstoði einn og einn nefndarmann við það að fá tilteknar upplýsingar, sem sá einstaki nefndarmaður telur sig sérstaklega þurfa. Og það hefur hvað eftir annað tíðkazt. Auðvitað ber nm. líka skylda til þess að afla sér gagna utan nefndarfundanna um þau málefni, sem þeir telja að miklu varði, til þess að þeir geti sjálfir mótað sína afstöðu.

Ég vil svo aðeins að lokum benda á, að ég varð ekki var við það, þegar hv. 9. þm. Reykv. talaði hér í málinu, að hann beindi þá neinum sérstökum fyrirspurnum eða óskum um upplýsingar til hv. formanns frumvarpsnefndarinnar, sem sæti á hér í deildinni, þannig að áhuginn hjá þessum hv. þm. virðist eitthvað hafa dofnað fyrir því að fá að ræða viðhorf frumvarpsnefndarinnar eða fá þessar upplýsingar, sem ég vissi aldrei hverjar áttu að vera.