27.02.1962
Neðri deild: 56. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

157. mál, aðstoð við fatlaða

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir um aðstoð við fatlaða, er svo einfalt, að um það þarf ég ekki að hafa mjög mörg orð. Efni frv. er það, að heimilað verði að leggja 3 kr. gjald á sælgætisframleiðslu í landinu í næstu 10 ár og verði þetta gjald notað til þess að efla styrktarsjóð fatlaðra, sem notaður verði til þess að greiða fyrir stofnun vinnuheimila þeirra, sem komið verði upp á næstunni.

Árið 1959 var á Alþingi kosin fimm manna nefnd til þess að gera heildartillögur um lausn á atvinnumálum og félagslegum vandamálum öryrkja í landinu. í þessa nefnd voru kosnir Oddur Ólafsson, Reykjalundi, Svavar Pálsson endurskoðandi í Reykjavík, Eysteinn Jónsson fyrrv. ráðh., Pétur Pétursson forstjóri og Sigursveinn Kristinsson í Reykjavík. Þessi nefnd vann svo að þessu verkefni sínu og hefur skilað um það allýtarlegu nál., þar sem gerðar eru tillögur um ýmis atriði til þess að mæta þörfum þessa fólks. Og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er einn þátturinn í þeim tillögum. Það er flutt að heita má óbreytt frá því, sem nefndin lagði til. Þó er gerð ein breyting á tillögum nefndarinnar í þessu frv., og hún er sú, að þetta gjald skuli renna í sérstakan styrktarsjóð, sem stofnaður verði og sé í vörzlu félmrn., en í tillögum nefndarinnar var gert ráð fyrir, að þetta gjald rynni beint til Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra. Það þykir eðlilegra að hafa þennan hátt á, að félmrn. fylgist með notkun fjárins, en að það renni ekki eftirlitslaust til þessara félagssamtaka. Þetta er og sami hátturinn og hafður er á um styrktargjaldið til vangefinna, sem líka fer þessa boðleið til þeirra, sem eiga að njóta þess.

Fatlaðir menn og öryrkjar í landinu voru, þegar þessi mál voru athuguð, þ.e.a.s. á árinu 1959, 2433, að því er talið var, sem taldir voru 75–100% öryrkjar á skrám Tryggingastofnunarinnar. Þar við bættust svo nokkrir. sem voru, að því er talið var, öryrkjar að 50–75%, eða nokkuð á fimmta hundrað. Þetta er mikill mannfjöldi, og margir þeirra hafa verulega starfsorku, ef þeir fá skilyrði til þess að njóta sín. Meiningin er og hefur þegar verið unnið verulega að því að koma upp vinnuhælum, þar sem þessu fólki sé gert kleift að nota þá starfsorku, sem það ræður yfir, bæði sjálfum sér til gagns og uppbyggingar og sömuleiðis þjóðfélaginu í heild, þar sem á annan hátt yrði ekki hægt að nota starfsorku þessa fólks. Ég tel, að það sé stefnt í mjög rétta átt með þessum aðgerðum, og veit, að allir hv. þdm. munu vera mér sammála um það. Hitt getur svo orkað nokkurs tvímælis, hvernig fjár skuli aflað til starfseminnar, og það hefur verið nokkurt hik á ríkisstj. að fara þessa leið, sem hér hefur þó verið lagt til að lokum að farin yrði, vegna þess að þetta smáskattakerfi er, að mér sýnist, að nokkru leyti að komast út í öfgar, og liggja fyrir enn margar umsóknir um, að líkir eða svipaðir smáskattar verði teknir upp á öðrum sviðum og til annarra þarfa, sem að vísu allir eru nauðsynlegir og gagnlegir, en þó að mínu viti og ríkisstj. ekki sérstaklega heppileg form til tekjuöflunar. Þar við bætist svo, og ég tel sjálfsagt, að það komi fram við umr., að iðnrekendur, sem framleiða þessa vöru, eru þessari skattlagningu algerlega mótfallnir.

Mér hefur borizt frá Félagi ísl. iðnrekenda bréf, dags. nú 19. febr., þar sem þessari skattheimtu er andmælt, og skýrt frá því, að á undanförnum árum hafi þessi framleiðsla, bæði vegna skattheimtu ríkissjóðs af þessum vörum, sem rennur í ríkissjóðinn sjálfan, og vegna þess aukaskatts, sem á þessa framleiðslu hefur verið lagður, dregizt verulega saman á 5 s.l. árum. Menn skyldu þó ekki ætla, að þetta út af fyrir sig yrði til þess að draga úr kaupum á þessum vörutegundum, sem í flestum tilfellum má flokka undir sælgæti, heldur væri þá hugsanlegt, að þar kæmu líka einhverjar aðrar ástæður til, sem hafa gert það að verkum, að salan hafi farið minnkandi. Um þetta skal ég ekkert fullyrða. Ég vil aðeins láta hv. alþm. vita, að þessu hefur verið andmælt af iðnrekendum, og sjálfsagt verður að skoða það mál niður í kjölinn, áður en endanlega verður frá þessu gengið, og vænti ég, að hv. nefnd, sem málið fær til meðferðar, taki þetta atriði líka til athugunar.

En sem sagt, ríkisstj. hefur orðið sammála um að leggja til, að þessi skattheimtuaðferð, þótt leiðinleg sé, verði höfð á tveim sviðum, bæði með því frv., sem nú liggur fyrir hv. Ed. um gjald af gosdrykkjum og ölföngum, og sömuleiðis, að nú verði tekið upp til viðbótar þetta gjald, sem er nýtt, til þess að hjálpa þessum tveim aðþrengdu hópum í þjóðfélaginu, sem vissulega þurfa aðstoðar við, og að þessi háttur verði hafður á, meðan aðrar og heppilegri tekjuöflunarleiðir eru ekki fundnar eða framkvæmdar.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn.