29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 3. Þm. Norðurl. v. (ÓlJ) gerði mikið úr því í sinni ræðu, að með þessum brbl. væri verið að svipta Alþingi gengisskráningarvaldinu, og hann taldi, að fyrir slíkum aðgerðum væri ekkert fordæmi í brbl., hversu vel sem leitað væri. Það er út af fyrir sig rétt, að frumkvæðið að breyttri gengisskráningu fer í hendur seðlabankastjórnar og það er ekki lengur beinlínis í höndum Alþingis. Hinu mega menn þó ekki gleyma, að seðlabankastjórnin hefur í þessum efnum þegið vald sitt frá Alþingi, þannig að við getum sagt, að raunverulega sé Alþingi alltaf valdhafinn. Það byggist m.a. á því, að ég man ekki betur en bankaráð Seðlabankans sé kosið hér af Alþingi, en þetta bankaráð velur síðan bankastjórnina. Í öðru lagi getur Seðlabankinn ekki breytt genginu, nema ríkisstj. samþykki, en ríkisstj. verður að styðjast við meiri hl. Alþingis. Og svo getur Alþingi auðvitað alltaf, hvenær sem það telur sér henta, tekið þetta vald af Seðlabankanum, látið einhverja aðra stofnun hafa það eða tekið það beinlínis í sínar hendur, eins og það áður var.

Nú var það að vísu svo, að ég hafði lítinn tíma í hádeginu í dag til að rannsaka brbl. Ég fletti aðeins upp í tveimur Stjórnartíðindum, frá 1956 og 1957, og þá fann ég strax í þeim báðum, eins og ég gat um í minni ræðu, dæmi upp á það, að brbl. hefðu verið sett, þar sem var alveg augljóslega minni nauðsyn á setningu laganna en á setningu þeirra laga, sem við erum að ræða um hér. En vegna tilmæla frá hv. þm. vil ég aðeins nefna hér eitt dæmi, og Það er bátagjaldeyriskerfið, sem sett var á stofn 1951, held ég að það hafi verið, frekar en 1952. Þetta bátagjaldeyriskerfi þýddi í raun og veru gengisbreytingu á þeim vörum, sem inn gátu verið fluttar samkv. því eða samkv. leyfum í samræmi við það kerfi. Þetta bátagjaldeyriskerfi var þess vegna að nokkru leyti gengisbreyting. En þetta kerfi var tekið upp án þess, að nokkur lagaheimild væri til þess frá Alþingi, og það var ekki einu sinni svo vel — (ÓlJ: Hvar var Landsbanka Íslands falið að ákveða það bátagjaldeyriskerfi?) Landsbanka Íslands? (ÓlJ: Já). Nei, ég var ekki alveg búinn að segja frá þessu til botns. Það var einmitt það, sem vantaði. Það var ekki einu sinni haft svo mikið við þarna, þegar Framsfl. stjórnaði, að gefa út brbl. Sem sagt, gengisskráningarvaldið var tekið af Alþingi, ekki einu sinni með brbl., heldur algerlega heimildarlaust, og það var það, sem ég ætlaði að segja frá, og á því er reyndar mikill munur. Það var ekki einu sinni svo vel, að þeir gæfu út brbl. (ÓlJ: Þá snertir það ekki brbl. — Forseti: Ekki samtal.) Það snertir það, á hvern hátt gengisskráningarvaldið hafi verið skert eða hafi verið tekið af Alþingi. Það snertir það atriði.

Um það, hvort brýn nauðsyn hafi verið fyrir hendi, þegar þessi lög voru gefin út, eða ekki, má í sjálfu sér endalaust deila. Mér dettur ekki í hug, að ég geti nokkurn tíma sannfært hv. 3. þm. Norðurl. v. um, að þarna hafi brýn nauðsyn verið fyrir hendi. Yfirleitt er það svo við afgreiðslu mála á þingi, — þá er ég að tala um önnur mál en afgreiðslu brbl., þ.e. almenna lagasetningu eða þál. eða ýmislegt annað, — þá er það yfirleitt svo, að um það, sem þessi ríkisstj. telur mjög nauðsynlegt og mikilvægt, hafa hv. stjórnarandstæðingar allt aðrar skoðanir, og það er ekkert við því að segja. Ég geri ekki ráð fyrir, að þessi hv. þm. vilji halda því fram; að þegar brbl. eru sett, sé setning þeirra því aðeins gild, að stjórnarandstaðan sé á þeirri skoðun, að brýna nauðsyn hafi borið til. Þvert á móti mundi það yfirleitt oftast vera reglan, að stjórnarandstaðan væri á allt annarri skoðun, alveg eins og með aðra almenna lagasetningu.

Þá var þessi hv. þm. líka að tala um, að það væri fordæmanlegt, að ég skyldi minnast á, að það tæki langan tíma hér á Alþingi að afgreiða gengismál og gengisbreytingar. Í raun og veru vil ég meina, að þessi hv. þm. hafi þarna verið að snúa út úr mínum orðum. Ég tel það í sjálfu sér eðlilegt, að þegar mikilvæg mál koma til kasta Alþingis, eins og gengisbreytingar og annað slíkt, þá taki það langan tíma og það þurfi að ræða þau mál vel og kanna þau vel. Það var hitt, sem ég meinti, að gengisbreyting er þess eðlis, að það þarf að framkvæma hana án fyrirvara, vegna þess að það eru ýmsir aðilar í þjóðfélaginu, sem geta, ef þeir vita með löngum fyrirvara um, að gengisbreyting sé í aðsigi, gert ýmiss konar fjármálaráðstafanir og tileinkað sér þannig óheiðarlegan og illa fenginn gróða, enda er þetta yfirleitt ekki gert með erlendum þjóðum og nágrönnum okkar, að menn viti þar um yfirvofandi gengisbreytingar mörgum vikum áður en þær skella á. Gengisbreyting er þess vegna þess eðlis, að það er ekki heppilegt, að hún sé afgreidd á Alþingi.

Þessi hv. þm. og annar, sem greip nú reyndar fram í fyrir mér, sögðu, að Alþingi væri ríkisstjórninni æðra í sambandi við setningu brbl. Þetta má til sanns vegar færa að vissu marki. Ég lít þannig á, að útgáfa brbl. geti verið að lögum bæði gild og ógild, hvaða afstöðu sem Alþingi kann að taka til hennar á eftir. Við skulum segja, að það er enginn vafi á því, að brbl. geta verið fullkomlega gild samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar, þannig að það hafi borið brýna nauðsyn til þess að gefa þau út, þó að Alþingi felli lögin á eftir. Ég hygg, að það séu ekki skiptar skoðanir um það. Á sama hátt geta brbl., þótt að vísu hafi aldrei reynt á það fyrir dómstólum, — brbl., sem gefin væru út, án þess að brýna nauðsyn bæri til, geta verið ógild, þó að Alþingi staðfesti þau á eftir. En þá eru að vísu lögin gild frá þeim tíma, að Alþingi staðfestir þau, en ég skil ekki annað en þau séu ógild frá þeim tíma, sem þau voru gefin út, og þangað til staðfesting Alþingis kemur. Og það er einmitt þetta, sem mér skildist að hv. 3. þm. Norðurl. v. væri að reyna að skjóta sér á bak við, að af því að hann reiknar með því, að þessi brbl. verði staðfest á Alþingi, þá sé Alþingi eiginlega búið að gefa hinum brotlegu ráðherrum, sem hafa gefið þessi lög út, eins konar syndakvittun og að lögin skilst mér þá, að hans dómi fái þannig fullt gildi aftur fyrir sig, og af þeim ástæðum sé líklega að hans dómi erfitt að fara með þetta fyrir dómstólana og láta þá skera úr um þetta.

Hann sagði líka, að ákvörðun seðlabankastjórnarinnar væri lögleg, seðlabankastjórnin hefði ekkert af sér brotið. Það er að vísu rétt, að seðlabankastjórnin hefur ekkert af sér brotið. Hún hefur byggt á þeim brbl., sem henni voru fengin upp í hendur. En ef brbl. voru brot á stjórnarskránni, þá er ekki hægt að byggja stjórnarathöfn á lögum, sem eru brot á stjórnarskránni og eru þar af leiðandi lögleysa. Þess vegna hlýtur það að vera, að ef þessi brbl. eru brot á stjórnarskránni, þá eru þau ógild frá þeim tíma, sem þau voru sett, og þá þangað til Alþingi staðfesti þau eða felldi þau, — þá eru þau ógild, og þá er það verð, sem þjóðin hefur orðið að borga fyrir gjaldeyrinn á þessum tíma, ef þetta væri rétt, of mikið, þá er það rangt verð. Og það er einmitt þetta, sem ég tel sýna, hve litla trú hv. stjórnarandstæðingar hafa á sínum málstað, að þeir klifa sífellt á því, að þessi útgáfa brbl. sé brot á stjórnarskránni og þar af leiðandi lögleysa, og þá hljóta þær gengisákvarðanir, sem byggðar eru á þeim lögum, að sjálfsögðu að vera lögleysa um leið. Þeir eru alltaf að klifa á þessu, en þeir hafa ekki kjark í sér eða undir niðri treysta þeir ekki svo mjög á sinn málstað, áð þeir þori að láta þetta fara til dómstólanna og bera þetta upp. Ég tel mig að vísu ekki geta gefið hv. 3. þm. Norðurl. v. nein ráð í þeim efnum. Hann er að sjálfsögðu, eins og allir vita, lagaprófessor og miklu lærðari maður í lögum en ég. En mér sýnist þó, að þetta gæti borið að með ákaflega einföldum hætti. Við skulum segja, að einhver framsóknarmaður færi niður í Landsbankann og keypti gjaldeyri og hann væri látinn borga þar 43 kr. fyrir dollarann. Hann borgaði náttúrlega upphæðina, en borgaði með fyrirvara um það, að hann teldi sig eiga rétt á að endurheimta þarna 5 kr. fyrir hvern dollara, af því að þetta söluverð væri rangt, það byggðist á lögum, sem væru brot á stjórnarskránni og væru þar af leiðandi engin lög. Síðan, þegar hann væri búinn að borga þetta með þessum fyrirvara, gæti þessi maður væntanlega farið í mál við bankann og krafizt þess, að þessi 5 kr. mismunur á dollaranum yrði sér endurgreiddur. Þar með hlytu dómstólarnir að geta skorið úr því, hvort þessi brbl. væru brot á stjórnarskránni eða ekki. Og þarna hefur auðvitað fjöldi manna í þjóðfélaginu stórkostlegra hagsmuna að gæta, að vita, hvort þeir hafi borgað gjaldeyrinn of háu verði eða ekki. En einmitt það, að enginn skuli hafa farið þessa leið, hvorki hv. 3. þm. Norðurl. v. né neinn annar, sýnir, að þeir hafa enga trú á þeim málstað, sem þeir eru að prédika hér.