09.04.1963
Efri deild: 70. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

222. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Um aðdraganda þessa frv. og efni þess leyfi ég mér að visa til grg, hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins svo og grg, þeirrar, sem frv. fylgir. Af ástæðum, sem öllum hv. dm. munu kunnar og skiljanlegar, hefur fjhn. ekki getað framkvæmt neina gaumgæfilega athugun á þessu máli, sem er mjög tæknilegt, þannig að sá fyrirvari, sem ég hafði í gær um afgreiðslu n. á tollskránni, á í enn ríkari mæli við um það frv., sem hér liggur fyrir. Hvað tollskrána snerti gat n. þó haldið um það frv. nokkra fundi og notið þar leiðbeininga þeirra sérfræðinga, sem frv. höfðu samið, en það er sáralítill tími, sem gefizt hefur til þess að athuga þetta frv., með tilliti til þess, að n. vann jafnframt að tollskrárfrv. Hins vegar telja samtök opinberra starfsmanna sér það mikið hagsmunamál, að þetta frv. verði afgr. á því þingi, sem nú situr, og hafa sent n. umsögn, sem um var beðið, þar sem mælt er eindregið með því, að frv. verði samþ. óbreytt, en hæstv. ríkisstj. hefur líka fyrir sitt leyti lagt áherzlu á það, að frv. yrði afgreitt.

Með tilliti til þessa töldum við nm., sem þátt gátum tekið í afgreiðslu málsins, — en eins og nál. ber með sér, þá var einn nm., hv. 5. þm. Norðurl, e., fjarstaddur, þegar málið var afgreitt, — að rétt væri að afgreiða málið, þó að okkur hafi ekki gefizt sá tími til þess að athuga það, sem við hefðum talið æskilegt. Og eins og nál. á þskj. 597 ber með sér, þá mælum við einróma með því, að það verði samþ. óbreytt.