25.03.1963
Neðri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara þeirri fsp. frá hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) hvort um prentvillu sé að ræða, þar sem segir í 6. gr. þessa frv., að ein deilda Tækniskóla Íslands skuli vera vélstjóraskóli. Hér er ekki um prentvillu að ræða, heldur gert ráð fyrir því, að vélskólinn í Reykjavík, eins og hann er nú, falli inn í tækniskólann sem ein af deildum hans. Ég endurtek: vélskólinn í Reykjavík, eins og hann er nú. Samþykkt þessa frv. mundi að engu leyti breyta gildandi lagareglum um vélskólann og þeim reglugerðum, sem nú eru um inntökuskilyrði og nám í vélskólanum. Þetta er ekki vegna þess, að ég persónulega sé þeirrar skoðunar, að þau lög eða þær reglur þurfi ekki breytinga við, heldur vegna hins, að um það er ekki enn orðið samkomulag milli embættismanna, forráðamanna vélskólans og forráðamanna vélstjórastéttarinnar, með hverjum hætti þær breyt, skuli verða. Þess vegna þótti mér ekki hyggilegt að draga þær skiptu skoðanir inn í umr, um þetta mál, heldur láta það úrlausnarefni bíða síns tíma í von um, að takast megi að ná samstöðu um það mál, sem muni auðvelda hinu háa Alþingi að taka afstöðu til þess úrlausnarefnis.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að vélstjóranámið er í raun og veru alls ekki hliðstætt tæknináminu, en það er hins vegar eingöngu af hagkvæmniástæðum, að gert hefur verið ráð fyrir því, að vélskólinn í Reykjavík skuli falla inn í tækniskólann. Svo mikið af kennslunni getur verið sameiginlegt, að að því er tvímælalaust hagræði og mikill sparnaður, að vélskólinn í Reykjavík verði ekki áfram til sem sjálfstæð stofnun, ef ákveðið verður að stofna þann tækniskóla, sem þetta frv, fjallar um, heldur verði ein deild í hinum nýja tækniskóla. Litlu þjóðfélagi eins og Íslendingum er mjög nauðsynlegt að láta hagkvæmnisjónarmið ráða á sem flestum sviðum, og hér mundi tvímælalaust vera um hagkvæmni að ræða að láta þessar tvær stofnanir vera eina stofnun. Það yrði að sjálfsögðu vélskólanum til einskis trafala að vera deild í tækniskólanum, heldur þvert á móti mundi það vera honum til hagræðis, því að gera má ráð fyrir því, að nýr tækniskóli yrði búinn ýmsum nýjum tækjum, og nauðsynlegt, að hann fengi yfir að ráða margvíslegum tækjum, fullkomnari og betri en þeim, sem vélskólinn hefur nú yfir að ráða, og mundi samstarf eða samvist þessara tveggja skóla innan sömu stofnunar áreiðanlega vera vélskólanum til góðs, en ekki til ills.

Að því er snertir það, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði um staðsetningarvandamálið, skal ég aðeins vísa til þess, sem ég sagði áðan, en bæta því þó við, að það er að mínu viti ekki aðeins spurning um kennslukrafta, hvar hagkvæmast er að staðsetja íslenzkan tækniskóla, heldur ekki siður spurning um kennsluaðstöðu, vegna þess að tækniskóli þarf að hafa yfir að ráða margs konar tækniútbúnaði og vélakosti, sem ég er sannfærður um, að til að byrja með a.m.k. er auðveldara að útvega og starfrækja eða fá aðgang að hér í Reykjavík heldur en t.d. á Akureyri. Hitt vil ég endurtaka, sem ég sagði áðan, að ég tel það mjög vel koma til athugunar og skal fúslega ljá mitt lið til þess, að það verði athugað rækilega, hvort ekki sé rétt og beinlínis æskilegt, að undirbúningsdeild undir tækniskólann starfi á Akureyri, og jafnvel að það einnig verði athugað, að 1. bekkur tækniskóla verði einnig starfræktur þar, því að ég sé í fljótu bragði ekki sérstök vandkvæði á því, ef um nægilega marga nemendur væri að ræða á Akureyri til að fullskipa slíka bekkjardeild. Einmitt vegna þess, að ég efa ekki, að góðir kennslukraftar séu fyrir hendi á Akureyri, sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að unnt verði þar að starfrækja undirbúningsdeild og 1. bekk. Það er þegar nauðsyn verður á sérhæfðum tækjum og sérstakri tækniaðstöðu, sem erfiðleikarnir koma til skjalanna, en um slíkt verður að ræða, þegar deildaskiptingin kemur til skjalanna í 2. og 3. bekk tækniskólans.

Ég vil einnig láta í ljós þakklæti til hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) fyrir stuðning, sem hann lét í ljós við þetta frv. En örfá orð vildi ég segja í tilefni af ummælum hans um iðnfræðsluna. Hann ræddi einnig það mál, sem aðrir hv. þm. hafa rætt og er vissulega stórmikið vandamál í þessu sambandi, sem er skipulag iðnfræðslumálanna sjálfra. Hv. þm. taldi, að inntökuskilyrði þau, sem gert er ráð fyrir í tækniskólann samkv. frv., væru of ströng, þar sem gert væri ráð fyrir iðnnámi, sem væri 4 ár, og eftir það ættu menn síðan að sitja önnur 4 ár á skólabekk til að geta hlotið tæknifræðingsmenntun. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, og leggja enn á það mikla áherzlu, að ég tel það vera höfuðnauðsyn fyrir okkur Íslendinga, þegar við nú stígum fyrstu sporin á þeirri mikilvægu braut að taka í okkar eigin hendur menntun íslenzkra tæknifræðinga, að inntökuskilyrði í nýjan tækniskóla séu ekki minni, ekki rýrari en þau gerast á hinum Norðurlöndunum, en alls staðar þar er enn a.m.k., þó að málið sé í endurskoðun, gert ráð fyrir því, að iðnpróf sé inntökuskilyrði í teknikum-skólana.

Það, sem hv. þm. sagði um iðnnámið, að í raun og veru ætti að gerbreyta þar um stefnu og hverfa algerlega frá verklegu námi á vinnustað hjá meistara yfir í bóklegt nám, þá vil ég aðeins segja, án þess að fara út í rækilegar umr. um það mál, að hér er um mjög viðkvæmt mái að ræða hjá iðnstéttunum sjálfum, — mál, sem auðvitað er ekki nýtt af nálinni, heldur hefur verið þrautrætt undanfarna áratugi, bæði hér á hinu háa Alþingi og meðal iðnaðarmanna og iðnnema sjálfra. Í þessu sambandi vildi ég aðeins benda á og undirstrika sérstaklega, að skólanám getur auðvitað aldrei komið algerlega í stað verknáms hjá meistara á vinnustað, vegna þess að spurningin er hér ekki aðeins, hver þekking sé nauðsynleg, til þess að maður geti talizt hæfur sveinn, hvað þá meistari í iðn sinni, heldur einnig, hver æfing er nauðsynleg, til þess að hann geti talizt hæfur sveinn eða meistari í iðn sinni. Þekkingu er að sjálfsögðu hægt að veita á skólabekk, en mun torveldara er að veita nauðsynlega æfingu á skólabekk, og það er þess vegna sem ég segi, að ég tel ekki, að skólanám geti nokkurn tíma komið algerlega í stað verknáms hjá meistara á vinnustað. Hitt er annað mál, að ég er persónulega þeirrar skoðunar, þótt ég geti ekki gert þá skoðun að skoðun ríkisstj., að það hljóti að vera hægt að stytta mjög verknámið á vinnustað hjá meistara frá því, sem það er nú, a.m.k. í mjög mörgum iðngreinum, og að rétta stefnan í þessum málum sé sú að koma á verknámsskilyrðum á skólabekk í iðnskóla eða stofnun í sambandi við iðnskólann, sem geti stytt mjög verulega verknámið hjá meistara á vinnustað. Einmitt þetta mál hefur verið í sérstakri athugun undanfarið, bæði í sambandi við undirbúning þessa máls, en þó einkum í sambandi við þá endurskoðun á iðnfræðslulöggjöfinni, sem fram fer og ég hef þegar áður skýrt frá.