19.04.1963
Neðri deild: 77. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

227. mál, tollskrá o.fl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Það er ærið lítið tóm, sem okkur þm. hefur gefizt til þess að yfirfara það stóra frv. til tollskrárl., sem hér liggur fyrir, og reyndar hef ég fyrir mitt leyti beðið eftir því að sjá, hverjar till. kynnu að koma úr þeirri nefnd, sem þetta frv. fjallaði um, áður en ég hugði til þess að gera þær till., sem mér finnst nauðsynlegar á frv, og ekki hafa komið fram annars staðar frá. Þær eru að vísu ekki margar, till., sem ég geri í þessu efni, en mér þykir sjálfsagt að gera hér till. varðandi einn flokk innflutningsvara, sem tollaðar eru í tollskránni, ýmist með 20% tolli eða 4% tolli samkv. frv. Þetta eru björgunartæki. Björgunartækin eru á þrem stöðum í tollskránni eftir því, hvort um er að ræða björgunartækt úr plasti, björgunartæki úr toggúmmíi eða björgunartæki úr korki, óg það er á fjórða staðnum í tollskránni sérstök tollákvörðun um björgunarbáta. Björgunartækin úr plasti, toggúmmíi og korki eru samkv. frv. tolluð með 20% tolli, en björgunarbátarnir með 4% tolli.

Við Íslendingar búum við þær aðstæður, að við þurfum alveg sérstaklega á því að halda að hafa til taks björgunartæki, og ég álít, að íslenzkt þjóðfélag hafi ekki efni á því að láta neins ófreistað um það, að slík tæki séu fáanleg með beztu hugsanlegum kjörum, þar eð skortur á þeim getur kostað okkur meira en svo, að það réttlæti það, þó að hægt sé að taka upp einhverjar krónur í ríkissjóð með tolli á þessar vörur. Þess vegna geri ég till. um, að þessir liðir innflutningsvarningsins verði allir tollfrjálsir og þá væntanlega þeim mun ódýrari í innkaupum.

Við höfum að undanförnu séð það í blöðum og orðið þess vör á annan hátt, að stundum kemur það fyrir, að menn, sjálfsagt bæði útgerðarmenn og skipstjórar skipa, freistast til þess að fara á sjó með skipshafnir sínar, án þess að þar séu öll björgunartæki fyrir hendi, af því að þeir hafa ekki eða telja sig ekki hafa fjármuni til þess að kaupa slík tæki eins og til þyrfti. Að sjálfsögðu gæti slíkt einnig komið fyrir, þótt allur tollur væri felldur niður af þessu. En þá er a.m.k. engin afsökun, . að tækin hafi verið gerð dýrari en nauðsynlegt var og þannig af ríkisins hálfu stuðlað að því, að til óhappa gæti dregið, þar sem björgunartæki væru ekki tiltæk.

Ég hef að sjálfsögðu ekki haft neinn tíma til þess að afla mér upplýsinga um það hvað það mundi skerða tekjur ríkissjóðs árlega, að till. mín, sú sem prentuð er á þskj. 685, yrði samþ. En ég hef ástæðu til að ætla, að þar mundi vera um smámuni að ræða í tekjurýrnun hjá ríkissjóði, og tel, að sú hlið málsins geti með engu móti skipt neinu verulegu máli í tekjuöflun ríkissjóðs.

Nú gæti hugsazt, að einhver segði sem svo, að ef þessar vörur væru gerðar tollfrjálsar í innflutningi, gæti það máske stuðlað að því, að það tollfrelsi yrði misnotað, þ.e.a.s. að þessar vörur yrðu keyptar inn sem björgunarvörur, en notaðar svo með einhverjum öðrum hætti, þar sem eðlilegt væri, að tollur hefði á þær fallið. En við alla þá tollskrárliði, sem till. mín á, er séð við þessum leka með því, að á öllum viðkomandi stöðum í tollskrárfrv. er fjmrn. gefin heimild til þess að ákveða þetta nánar, og eftirfarandi klásúla stendur við hvern og einn þeirra í frv.: „Eftir nánari skilgreiningu og ákvörðun fjmrn.“ — þ.e. um það, hvað teljast skuli björgunartæki.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa orð mín um þessa till. öllu fleiri, en vænti þess, að hv. þm. geti á það fallizt, að hér er um að ræða þess háttar mál, að vart getur orkað tvímælis, að þeir, sem að setningu tollskrár standa, mundu geta haft betri samvizku að henni samþykktri en felldri, og enn fremur, að hér er um það mál að ræða, sem orðið gæti til þess, þótt ekki sé það stórt í sniðum, að einhver mannslíf björguðust, sem ella gætu farið forgörðum um aldur fram.