18.04.1963
Efri deild: 75. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

242. mál, fasteignamat

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir það, hversu vel hún hefur orðið við tilmælum um að afgreiða þetta mál. Ég veit, að æskilegt hefði verið, að lengri tími hefði gefizt til meðferðar í Alþingi á þessu máli, en eins og hv. frsm. tók fram, hefur verið lögð á það mikil áherzla af yfirfasteignamatsnefnd, sem samdi þetta frv., að það næði afgreiðslu nú á þessu þingi, og eru aðalrökin þau, að þar sem vinna við fasteignamatið er að hefjast, sé nauðsynlegt að hafa þegar í upphafi mótaðar þær meginreglur, sem matið á að fara eftir og byggjast á.

Af þeim brtt., sem hv. allshn. leggur fram, er það 5. brtt. a, sem aðaimáli skiptir. Það er um framkvæmd matsgerða milli aðalmatanna. Nú er sú skipun á þessum málum, að milli aðalmatanna framkvæma úttektarmenn í hreppum þessi aukamöt, en í kauptúnum og kaupstöðum framkvæma þau tveir menn, og tilnefnir fjmrh. annan, en hinn er kosinn af bæjarstjórn eða hreppsnefnd. Þessi ákvæði eru í 2. gr. l. frá 1945, um fasteignamat.

Eins og ég gat um, þegar ég lagði frv. fram, var nokkur ágreiningur í yfirfasteignamatsnefndinni um það, hvernig ætti að haga þessum málum framvegis. Einn nm., Jón Pálmason, lagði til, að hin eldri skipan yrði óbreytt, en meiri hl. n. taldi æskilegri þá skipan, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., í 22. gr., en sú skipan er í stuttu máli á þá leið, að fasteignamatsnefndirnar, sem framkvæma aðalmötin, skuli einnig framkvæma aukamötin og starfa því einnig milli aðalmata. Meiri hl. yfirfasteignamatsnefndar taldi, að þótt nokkur kostnaðarauki kynni að verða af þessari breytingu, þá mætti vænta fyllra samræmis í matsstörfum, ef sú nefnd fjallaði um aukamötin, sem einnig fjallar um aðalmötin, og kæmi þannig meiri festa og samræmi í heild sinni á þessi mál.

Hv. allshn. hefur talið réttara að halda því skipulagi, sem nú er, og færir fyrir því að sjálfsögðu, eins og fram kom í ræðu hv. frsm., full rök: Ég vil aðeins varpa því fram hér, að mér sýnist, að til mála hefði getað komið sú leið, að í hreppum framkvæmdu úttektarmenn aukamötin, en hins vegar í kaupstöðum og kauptúnum störfuðu fasteignamatsnefndirnar einnig milli aðalmata í stað þess að kjósa sérstakar millimatsnefndir. En hins vegar vil ég ekki gera á þessu stigi neina till, um það og tel, eins og málin liggja fyrir, rétt að mæla með samþykkt brtt. hv. allshn., sem felur það í sér að halda þeirri skipan, sem nú er.

Það er ósk mín nú, eins og ég tók fram við 1. umr., að málið fái afgreiðslu á þessu þingi, og vænti ég þess, að hv. d. fallist á að afgreiða það nú í dag út úr þessari d. með þeim breyt., sem allshn. gerir á frv.