29.11.1962
Efri deild: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

88. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. hetta frv. um bráðabirgðabreyt. á l. um almannatryggingar felur í sér tvær breytingar frá núverandi lögum. Hin fyrri er sú, að landið allt skuli frá 1. jan. 1963 vera eitt verðlagssvæði, hin siðari, að ellilífeyrir og örorkulífeyrir skuli hækka um 7% frá 1. júní s.l.

Eins og kunnugt er, hefur landinu verið skipt í tvö verðlagssvæði með mismunandi iðgjöldum og mismunandi bótum. Upphaflega var þetta hugsað þannig, að framíærslukostnaður mundi vera mismunandi í þéttbýli og dreifbýll. En takmörkin fyrir þessum verðlagssvæðum eru ekki landfræðileg, ef svo má segja, heldur eru svæðin miðuð við íbúafjölda staða, þannig að 1. verðlagssvæði tekur til sveitarfélaga, bæjarfélaga og kauptúna, þar sem íbúafjöldinn er 2000 eða meira, en allir aðrir staðir á landinu, öll önnur sveitarfélög, sem hafa innan við 2000 íbúa, tilheyra 2. verðlagssvæði.

Þó er heimild í lögunum um það, að ef eitthvert sveitarfélag óskar eftir því að vera fært yfir á 1. verðlagssvæði af 2., þá er það heimilt, og hafa nokkur sveitarfélög notað sér það. T.d. get ég nefnt Seltjarnarneshrepp hér í nágrenni Reykjavíkur, Sauðárkrók, Neskaupstað og kannske einhverja fleiri, sem hafa notfært sér heimildina og valið að vera heldur á 1. verðlagssvæði en 2., þó að þau væru ekki skyld til þess að óbreyttum lögum.

Það hefur oft verið rætt um það að breyta þessu og hafa ekki lengur þessa verðlagssvæðaskiptingu, með því að það hefur verið talið í seinni tíð að minnsta kosti, að framfærslukostnaður væri nokkurn veginn sá sami, hvort sem um væri að ræða dreifbýli eða þéttbýli.

Þegar almannatryggingalögin voru endurskoðuð síðast, — það var árið 1956, — þá var leitað umsagna sveitarfélaganna um það, hvort þau vildu, að þessi breyting væri gerð. En þau voru þá svo mörg á móti því, að það var ekki talið rétt; að svo stöddu. Nú aftur á móti eru raddir uppi og hafa verið uppi bæði hér á Alþingi og annars staðar, að þessu verði breytt, og möguleikar sveitarfélaganna til að standa undir hækkuðum gjöldum meiri en oft áður, sem m.a. hefur komið fram í útsvarsálagningunni s.l. ár, þar sem sveitarfélög flestöll úti um landsbyggðina og ég held öll hafa ekki fullnotað álagningaskalann og sum tiltölulega mjög lága prósentu af honum, þannig að þetta ætti ekki að þurfa að valda sveitarfélögunum lengur þeim erfiðleikum, sem áður hafa verið þess valdandi, að þessi svæðaskipting hefur verið í gildi.

Hin brtt. er um það að hækka bótagreiðslur, ellilífeyrisgreiðslur og örorkulífeyri, um sömu prósentutölu og laun opinberra starfsmanna hækkuðu í ár og frá sama tíma. Það hefur verið venja, að bótagreiðslur almannatrygginganna hafa yfirleitt verið látnar fylgja breytingum á launagreiðslum til opinberra starfsmanna. Stundum hefur þetta verið látið ná til allra bótagreiðslnanna, en stundum aðeins til elli- og örorkulífeyrisins eins. Í þetta sinn óskaði nefnd sú, sem nú starfar að heildarendurskoðun á lögunum um almannatryggingarnar, eftir því, að hækkunin yrði að þessu sinni aðeins miðuð við elli- og örorkulífeyrisgreiðslurnar, en aðrar hækkanir látnar biða vegna tillagna nefndarinnar siðar, sem væntanlegar eru fljótlega eftir áramótin, um nokkrar breytingar á þeim bótagreiðslum öðrum, sem greiða ber skv. almannatryggingunum og þessi hækkun mundi hafa áhrif á, en nefndin óskar eftir því, að gera hvort tveggja í einu.

Ég held ekki, að ég þurfi að fara um þetta fleiri orðum. Málið liggur ákaflega ljóst fyrir. En ég vildi aðeins leyfa mér að fara þess á leit við þá nefnd, sem fær málið til athugunar, að hún leitaðist við að flýta afgreiðslu þess, vegna þess að meiningin var, að þessar hækkanir á bótagreiðslunum yrðu afgreiddar sem fyrst í næsta mánuði.

Mér er það ljóst, að það eru uppi ýmsar aðrar tili. um breytingar á almannatryggingalögunum, en ég vildi mega vænta þess, að þetta frv. fengi að ganga í gegn án þess, að þeim yrði hér blandað saman við, enda koma væntanlega till. mþn. fram fljótlega eftir áramátin, og þær taka þá til meðferðar sjálfsagt flest af því, sem fram hefur komið á þessu sviði, og sjálfsagt eitthvað enn frekar. Vildi ég mega vænta þess, að frekari brtt. yrðu látnar bíða þangað til, en þetta mál afgreitt eitt út af fyrir sig, eins og það liggur fyrir, enda var um það samkomulag í hv. Nd.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr, og hv. heilbr- og félmn.