06.12.1962
Efri deild: 27. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

88. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég lét í ljós þá ósk, þegar ég lagði málið fyrir í þessari hv. d. við 1. umr., að það mætti ganga fram eins og það var lagt fram og án mikilla eða helzt nokkurra brtt., sem gætu valdið

ágreiningi og tafið málið. Það þarf að úthluta ellilaunum og örorkulífeyri nú í þessum mánuði og helzt sem fyrst, og nauðsynlegt er þess vegna, að ákvörðun verði tekin í málinu sem allra fyrst. Ég gat þess líka, að sá háttur hefði verið hafður að undanförnu, að bótagreiðslur almannatrygginganna hefðu verið látnar fylgja hækkunum á launum opinberra starfsmanna, en þó á mismunandi hátt, stundum þannig, að það hafa aðeins verið elli og örorkulífeyrisgreiðslurnar, sem hafa verið látnar fylgja launum opinberra starfsmanna, en stundum allar lífeyristryggingarnar. Nú er, eins og hér hefur komið fram áður, starfandi mþn., sem hefur þessi mál til meðferðar. Hún lagði til eindregið og einróma, að þessar bætur yrðu teknar út úr nú, ellilífeyrisgreiðslurnar og örorkulífeyrisgreiðslurnar, en aðrar bætur látnar bíða, vegna þess að hún hefur til meðferðar nokkrar breytingar á þessum bótagreiðslum, sem hún hyggst leggja fram hér á Alþingi fljótlega, eftir að það kemur saman að nýju eftir jólaleyfi. Að frv, er þess vegna borið fram svona, eins og gert er, er eingöngu vegna þessara tilmæla n., en ekki vegna þess, að verið sé að skerða eða draga úr öðrum bótagreiðslum. Það spursmál liggur alveg opið fyrir til afgreiðslu eftir nýárið, þegar till, mþn. koma.

Ég held þess vegna, að það sé engu sleppt og að allir möguleikar standi opnir jafnt eftir sem áður, þó að þetta verði afgreitt eins og frv. gerir ráð fyrir.

Hv. 9. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. e. hafa borið fram brtt. á þskj. 156 um, að bótagreiðslur lífeyristrygginganna verði allar hækkaðar, þó að undanskildum einum þætti þeirra, þ.e.a.s. fjölskyldubótum. Ég held nú, að það væri mjög æskilegt, ef þessir hv. þm. vildu falla frá að bera þessa till. fram, því að mér þykir á vissan hátt illt að fella hana, og þess vegna æskilegast, að hún kæmi ekki til atkv. nú, heldur yrði málið tekið upp að nýju, þegar till. n. kæmu fram eftir nýárið. Það ætti ekki að vera neinn skaði skeður, þó að það bíði þangað til.