11.03.1963
Efri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

186. mál, sala Vatnsenda og Æsustaða

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Með bréfi 5. þ. m. hefur dóms- og kirkjumrn. óskað þess, að landbn. Ed. flytti frv. það, sem hér liggur fyrir, um sölu á tveim prestssetrum, Æsustöðum í Húnavatnssýslu og Vatnsenda í Suður-Þingeyjarsýslu. Þessi prestssetur bæði eru nú lögð niður sem slík og aðsetur prestanna flutt á aðra staði skv. ósk sóknarnefnda og með samþykki biskups og kirkjumrn. Hins vegar hefur ráðuneytið komizt að þeirri niðurstöðu, að nauðsynleg sé sérstök lagaheimild til að selja jarðirnar og gera þannig verð úr þeim, sem gangi til húsabóta á hinum nýju prestssetrum.

Einstakir nefndarmenn landbn. hafa áskilið sér rétt til að flytja brtt. eða hafa óbundnar hendur um afstöðu til málsins. Hins vegar er að mínu áliti ekkert annað en gott um það að segja, að þessar jarðir séu seldar, ekki sízt ef um leið er hægt að tryggja það, að þær haldist í ábúð og verði nytjaðar. En báðar eru þessar jarðir allvel í sveit settar og mjög sæmilegar jarðir, og þar af leiðandi virðist ekkert því til fyrirstöðu, að á þeim verði búið, ef einstakir menn geta fengið þær með þeim kjörum, sem þeir telja sæmileg. Ég held, að það hafi ekki verið. ágreiningur um það, að þessar jarðir verði seldar, þar sem búið er áður að ganga frá því, að prestsseturstaðirnir verði aðrir en verið hafa, og þegar eru hafnar framkvæmdir við byggingar a.m.k. á öðru því prestssetri, sem á að taka við, og þess vegna fyllsta þörf á fjármunum til stuðnings því, að þar komist upp prestsseturshús sem fyrst.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé ágreiningsmál. Hins vegar má athuga um, ef eitthvað nýtt kemur fram í málinu, fyrir 2. umr., og þá mundi það koma fram við 2. eða 3. umr.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr.