05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

156. mál, bændaskólar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. meiri hl. í landbn. fyrir fljóta afgreiðslu á þessu máli og þann skilning, sem þar kemur fram á því, að frv. það, sem hér um ræðir, sé til bóta og beri að lögfesta það. Hins vegar á minni hl. ekki þakkir skilið fyrir afstöðuna í þessu máli. Hér er flutt orðrétt sama frávísunartill. og var flutt i Ed., ekki gerð nein tilraun til þess að benda á, hvað það er, sem frv. er ábótavant, engin brtt., heldur aðeins fullyrðingar. Og það er náttúrlega alls ekki sæmandi að fullyrða, að þetta frv. sé ófullkomið og eigi til þess fallið, ef að lögum verður, að efla bændaskólana og auka veg búnaðarfræðslunnar, án þess á nokkurn hátt að koma með till. eða ábendingu um það, hvað skyldi koma í staðinn inn í þetta frv. til viðbótar, til þess að það geti náð tilgangi sínum.

Ástæðan til þess, að hv. minni hl. vill vísa frv. frá, virðist vera sú ein, að ekkí var bóndi í mþn., sem samdi frv. Ég skal viðurkenna, að það hefði gjarnan mátt vera bóndi í n., þriðji bóndinn, því að eins og sagt var hér áðan, þá eru skólastjórar bændaskólanna vitanlega bændur, um leið og þeir eru kennarar og skólastjórar þessara merku stofnana. Það hefði mátt vera. En ég hygg, að sjónarmið bændanna hafi að öllu leyti komið fram við samningu þessa frv. og það sé ekki þess vegna nein ástæða til. þess að vísa frv. frá.

Þá er því og borið við, að búnaðarþing hafi ekki fengið aðstöðu til þess að gera rökstuddar till. um frv. Þetta frv. lá frammi allan þann tíma sem búnaðarþing sat á rökstólum, og búnaðarþing hafði þess vegna tækifæri til þess að kynna sér frv., enda var frv. beinlínis til þess vísað, og það hefði vissulega getað gert brtt. við málið, ef það hefði í rauninni talið ástæðu til þess. En meiri hl. búnaðarþings telur, að ekki beri að samþ. frv., vegna þess að bóndi hafi ekki átt sæti í mþn. Enda þótt það hefði í alla staði verið vel til fallið, að þriðji bóndinn hefði átt þar sæti, getur það út af fyrir sig ekki verið ástæða til þess að vísa frv. frá, þótt svo hafi ekki verið. Það ber miklu frekar að athuga það, hvernig frv. er. Og þá, sem gagnrýna ekki út af fyrir sig frv. sjálft og hafa engar brtt. við það fram að bera, er ekki unnt að taka alvarlega, þótt þeir menn komi með frávísunartill., því að slíkar frávísunartill, eru árökstuddar.

Hv. frsm. minni hl. sagði hér áðan, að frv. væri ekki nægilega rismikið til þess að fullnægja því, sem lög um bændaskóla ættu að vera. En ég segi nú það, að ef hv. minni hl. finnst frv. ekki nógu rismikið, þá hefði hv. minni hl. átt að leggja sig fram og leggja eitthvað jákvætt til málanna til viðbótar við frv. til þess að hækka risið. En það forðast minni hl. að gera. Gæti það verið vegna þess, að hv. minni hl. hefur ekki hugmynd um, hvað það er, hvers konar efniviður það væri, sem ætti að koma til viðbótar við frv., til þess að það gæti orðið betra? Ég hygg, að svo sé.

Það, sem mþn. hefur lagt áherzlu á, er hin aukna tækni í búskapnum. Það er hin aukna tækni í búskapnum, að auka vélfræðikennsluna, að miða námið í bændaskólunum við breytta þjóðfélagshætti, við þá byltingu, sem hefur orðið í landbúnaðinum. Það er þetta, sem frv. miðar að, að auka vélfræðikennsluna þannig, að bændaefnin læri að fara með vélarnar, þekkja gildi vélvæðingarinnar í landbúnaðinum, þekking á einstökum vélum og vélahlutum og viðgerðir á þeim og allt viðhald og notkun véla og verkfæra. Þetta þarf vitanlega hver einasti bóndi að kunna, og þess vegna er með þessu frv. lagt til, að það verði haldið námskeið fyrir þá bændur og bændaefni, sem hafa ekki fengið þá fræðslu, sem ætlazt er til, að nemendur í bændaskólunum fái. Og þá er einnig í þessu frv. gert ráð fyrir því, að bændaefnin geti fengið nám í bændaskólunum í samræmi við hina auknu fjölbreytni í búskapnum, þ.e. að fleiri búgreinar verði teknar með en áður hefur verið. Þess vegna er það, að frv. gerir ráð fyrir nokkurri fjölgun kennara.

Þá hefur n, rökst. till. um það, hvernig skuli byggja upp og viðhalda skólunum. Eins og kunnugt er, hefur siðasta áratuginn verið þannig búið að skólunum, að þeir hafa ekki haft fé til viðhalds eða uppbyggingar, þessir tveir skólar. Nú hefur verið horfið nokkuð frá þeirri braut og fjárveitingar auknar mjög til beggja skólanna, svo sem nauðsyn bar til. Og í sambandi við þetta frv. liggja fyrir rökstuddar tillögur um það, hvað þarf að byggja og endurbæta á hvorum skóla, til þess að þeir geti uppfyllt þær kröfur, sem til þeirra eru gerðar. N. telur, að það sé ekki nauðsynlegt, að náminu sé hagað nákvæmlega eins á báðum skólunum, það sé leyfilegt að haga því með sitt hvoru móti eftir því, hvort það þykir praktískt eða ekki. Og sjálfsagt þykir að hafa námskeið ekki aðeins í meðferð og viðgerð véla, heldur einnig í sambandi við ýmsar búgreinar, t.d. námskeið í hirðingu nautgripa, námskeið í hirðingu sauðfjár, námskeið í áburðarfræði, námskeið í svína- og alifuglarækt og námskeið í búsmíðum.

N. lagði til, að bændaskólarnir væru tveir, en eins og kunnugt er, hefur verið í l. nú í 17 eða 18 ár, að bændaskólí skuli reistur í Skálholti. Það hefur ekki verið gert, einfaldlega vegna þess, að ekki hefur verið það mikil aðsókn að tveimur bændaskólunum, að þörf hafi verið fyrir þriðja skólann. Og úr því að ekki var hægt að láta hina tvo bændaskóla, sem fyrir voru, hafa nægtlegt fé til nauðsynlegs viðhalds og uppbyggingar, hefði síður verið mögulegt að byggja og starfrækja þriðja skólann, jafnvel þótt aðsókn að skólunum hefði verið meiri en raun ber vitni.

Ég er vitanlega samþykkur því og lagði það reyndar til, að heimildin um skóla á Suðurlandi yrði látin standa. Það er ekki viðkunnanlegt að binda það við Skálholt. eftir að kirkjunni hefur verið afhent jörðin til eignar og umráða, en að bændaskóli verði reistur á Suðurlandi, eins og nú er lagt til samkv. till. hv. 5. þm. Sunnl., er í alla staði viðeigandi, enda þótt við vitum, að næstu árin verður ekki byggður þriðji bændaskólinn, ekki allra næstu árin. En við getum vissulega hugsað okkur það, að sá tími komi, að það verði gert, og þess vegna alveg ásttæðulaust að taka þá heimild út úr löggjöfinni.

Till. n. eru, eins og ég hef lýst, í aðalatriðum fleiri kennarar, að vélfræðinámið verði aukið og námskeið verði haldin í hinum ýmsu greinum og náminu verði hagað þannig, að bændaefnin verði sem færust um að tileinka sér þau búvísindi, sem nú eru ráðandi, því að búskapinn þarf nú í dag að reka á vísindalegum grundvelli, og það þarf sannarlega talsverða þekkingu til að gera það rétt. Unglingarnir og bændaefnin fara fyrst í unglinga- og gagnfræðaskóla og eru betur undirbúin, þegar þau koma í bændaskólana, nú en var áður, þegar bændaefnin fóru beint úr barnaskólanum þangað, og þess vegna er það, að í bændaskólunum þarf ekki eins nú að leggja megináherzlu á hina venjulegu bókfræði, heldur getur þetta verið miklu frekar og eingöngu sérfræðinám, eins og það á að vera.

Hv. minni hl. vitanlega metur það, hvort það er viðeigandi að vísa þessu frv. frá, eins og hann leggur til, eða ekki. En satt að segja finnst mér hlutskipti hv. minni hl. ekki gott, og mér finnst, að miklu eðlilegra hefði verið fyrir minni hl. að samþykkja frv., enda þótt segja megi með réttu, að þótt þetta frv. verði að lögum, þurfi síðar meir að endurbæta löggjöf um búnaðarfræðsluna, og það liggur vitanlega alveg opið fyrir, þótt þetta frv. verði að lögum. Og ég vil vekja athygli á einu, þótt ég vilji ekki ganga fram hjá búnaðarþingi og stéttarsamtökum bændanna, — ég vil aðeins vekja athygli á því, að búnaðarþing hefur ekki undanfarið vakið athygli á því, að það væri þörf á að breyta löggjöf um búnaðarfræðslu. Ég hef ekki heldur heyrt, að það hafi komið frá Stéttarsambandi bænda till. um þetta efni. En það hefði vitanlega verið eðlilegt, að á því hefði örlað á undanförnum úrum.

Ég vil undirstrika það, að þeir menn, sem störfuðu í mþn. og sömdu þetta frv., eru allir mjög fróðir um fræðslumál. Einn þeirra er reyndasti skólastjóri landsins í alþýðufræðslu og búnaðarskólastjórarnir tveir, Kristján Karlsson og Guðmundur Jónsson, hafa verið skólastjórar og bústjórar við bændaskóla í áratugi. Þessir menn hafa vissulega haft meiri og haldbetri þekkingu á því, hvað það er, sem þurfti að breyta í búnaðarfræðslunni, til þess að hún næði tilgangi sínum, heldur en jafnvel bóndi, sem ekki hefur komið nálægt kennslu í þessum efnum, jafnvel þótt greindur væri og reynslu hefði í búskap. En eins og ég sagði áðan, þá hefði vel mátt vera þriðji bóndinn í n., frv. hefði áreiðanlega ekkert orðið lakara fyrir það. Við getum haft skiptar skoðanir um það, hvort hefði verið betra. En það er ekki það, sem skiptir máli, og það eru ekki rök til þess að vísa frv. frá. Ég tel, að það sé mikils virði að fá þetta frv. lögfest. Búnaðarfræðslan verður betri eftir en áður og hún er samræmd við breytta staðhætti og vélvæðingu og nýbreytni, sem nú hefur verið tekin upp í landbúnaðinum.