21.03.1963
Efri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

147. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. hefur flutt brtt. við það frv., sem hér er til umr., og hann hefur nú mælt fyrir sínum brtt. Kg vil þá aðeins víkja að þeim nokkrum orðum.

1. brtt. hv. þm. er við 4. gr., um, að í stað þess að auk ákveðinna embættismanna skuli eiga sæti í skipulagsnefnd kirkjugarða einn maður kosinn af kirkjuþingi og annar af safnaðarráði Reykjavíkurprófastsdæmis, þá skuli koma tveir menn kosnir af kirkjuþingi. Um ástæðu fyrir því, að þetta er tekið inn í frv., lét ég þess getið, að ég ætlaði, að ástæðan mundi vera sú, að af þessu svæði, sem Reykjavikurprófastsdæmi nær yfir, muni koma svo verulegur hluti af tekjum kirkjugarðasjóðs, að það hafi ekki þótt óeðlilegt, að safnaðarráð prófastsdæmisins kysi einn mann í skipulagsnefndina, sem jafnframt er stjórn kirkjugarðasjóðs. Ég vil taka það fram, að það er misskilningur hjá hv. þm., að það sé eingöngu um Reykjavík að ræða í þessu sambandi, því að Reykjavikurprófastsdæmi nær einnig yfir Kópavog og Seltjarnarnes. Þessi breyting varð á frv. í meðförum kirkjuþings. Hún er inn í frv. komin fyrir einróma tilmæli kirkjuþings, þar sem eiga sæti að yfirgnæfandi meiri hl. fulltrúar kjörnir utan Reykjavíkurprófastsdæmis, eins og hv. þm. mun vera kunnugt. Og það er enginn einn söfnuður, sem ætlazt er til að velji fulltrúa í þessu tilfelli, heldur safnaðarráðið, en í því eiga sæti safnaðarfulltrúar allra sóknanna í prófastsdæminu, sóknarprestarnir og sóknarnefndarformenn. Það er því ekki um það að ræða, að það sé neinn einn söfnuður, sem eigi að ráða þessu vali, ekki heldur Reykjavíkurborg ein, heldur er þetta samkoma að ég ætla um það bil 25 fulltrúa frá einum 7 söfnuðum, sem flestir munu vera auðvitað langfjölmennustu söfnuðir landsins. Ég mun ekki geta greitt þessari brtt. hv. þm. atkv. Ég mun greiða atkv. á móti henni, bæði vegna þess, að mér þykja ákvæði frv., eins og það liggur fyrir, vera sanngjörn að þessu leyti, og þó vegur það kannske þyngra á metunum, að þetta er komið inn fyrir einróma tilmæli kirkjuþings.

2. brtt. hv. þm. er við 28. gr., um heimagrafreiti. Við greinina hefur menntmn. þegar flutt brtt., eins og kom fram fyrr við þessa umr. um frv., og var þá gerð fyrir henni grein. Ég er algerlega andvíg brtt. hv. þm. og mun einnig greiða atkv. gegn henni. Ég álít, að þó að slíkt ákvæði yrði í l. eins og lagt er til með þessari brtt., þá muni það valda miklum erfiðleikum. Ég er alveg sannfærð um það, og það vandamál, sem heimagrafreitirnir eru orðnir, mundi að mínu viti sáralítið eða ekki minnka víð það og heldur aukast, vegna þess að haldið yrði opinni leið til þess að taka upp nýja heimagrafreiti. Ég er því brtt. gersamlega andvíg.

Þá er loks 3. brtt, hv. þm. Ég ætla, að það hafi verið við 1. umr. málsins hér í d., að hv. þm. taldi, að greinin væri að sínu viti e.t.v. óþörf, það ætti ekki að vera að gefa undir fótinn með það, að verið væri að flytja til líkamsleifar látinna. Við 2, umr., að ég ætla, var drepið á þessi atriði, sem einmitt koma fram í brtt. hv. þm. Það, sem hefur komið oft fyrir, er það, að flutt hafa verið lík útlendinga, sem hafa látizt hér eða verið greftraðir, tekin upp og flutt út, sjálfsagt þá að ósk þeirra ættingja. Einnig var á bent, að kirkjugarður eða hluti af kirkjugarði gæti verið í eyðingarhættu, og brtt. hv. þm. víkja einmitt að þessum hugsanlegu tilvikum.

Ég verð að láta það í ljós, að ég óttast ekki svo mikið, að það komi nokkurn tíma til, að kirkjugarðsstjórn fari að senda umsókn um leyfi til þess að færa til lík í kirkjugarði eða milli grafreita. Þetta ætla ég, að hafi alls ekki eða þá vart þekkzt að væri gert, nema þegar um útlendinga hefur verið að ræða. Og auk þess eru í gr. sett það ströng skilyrði, eða réttara sagt: það er háð leyfi kirkjumrn. og að fengnu samþykki biskups, og ég held, að þeir aðilar hljóti ávallt að gæta þess, að leyfi til slíks verði ekki veitt, nema alveg sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Ég get verið samþykk hv. þm. um það, að þau tilvik, sem nefnd eru í hans brtt., hljóti að eiga fyllsta rétt á sér. En hv. þm. bað um, að sér yrði bent á einhver önnur tilvik, sem hugsanlegt væri að gerðu það að verkum, að kirkjugarðsstjórn ætti að hafa rétt til að senda umsókn. Ég skal játa það, að í fljótu bragði detta mér nú ekki fleiri tilvik í hug en þau, sem ég hef nefnt áður í umr. um málið og einnig hafa verið tekin upp í þessa brtt. En þó er hugsanlegt, að eitthvað fleira komi þar til. Ég held, að þess vegna eigi ekki að einskorða þetta við þessa upptalningu, sem yrði þá að sjálfsögðu tæmandi, vegna þess að ég ber fullt traust til rn. og biskups á hverjum tíma, að aldrei komi til, að þetta verði misnotað. Því er það, að þó að ég sé í sjálfu sér alveg samþykk þm. um það, að í þeim tilvikum, sem um ræðir í brtt., eigi kirkjugarðsstjórn að vera rétt að senda umsókn, þá geti hugsazt, að það geti einnig komið til önnur tilvik, þar sem kirkjugarðsstjórninni ætti einnig að vera rétt að senda umsóknina, og ég vil því ekki takmarka þetta við þessi ákveðnu tilvik, sem í brtt, eru, og geri það sem sé í fullu trausti þess, að það komi aldrei til, að þetta verði misnotað.