15.11.1962
Neðri deild: 15. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

6. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) [frh.]:

Virðulegi forseti. Ég bið afsökunar á því, að ég gat ekki verið viðstaddur, þegar að mér var komið nú, vegna þess að ég var bundinn við störf í Ed. Þar var einungis á dagskrá eitt mál, sem ég þurfti stuttlega að gera grein fyrir.

Ég rakti það í fyrri hluta ræðu minnar, að hv. 3. þm. Reykv. (EOl) gerðist fyrstur og skeleggastur talsmaður þess á árunum fyrir síðari heimsstyrjöldina, að hlutleysi Íslands væri einskisvert og það væri barnaskapur einber að halda, að það nægði Íslendingum til varna. En með þessum ummælum sínum sannaði hv. þm. ekki einungis, að hlutleysið væri orðið úrelt, heldur byggðist allur hans rökstuðningur á því, að mikil hætta vofði yfir landinu. Þess vegna taldi hann, að eitthvað annað þyrfti að koma til til öryggis og varnar heldur en hið úrelta hlutleysi. Og það er einmitt rík ástæða til þess að gera sér grein fyrir þessu nú, að hv. 3. þm. Reykv. og skoðanabræður hans sáu það strax fyrir 1939, að Ísland mundi verða í hættu í ófriði.

Nú heldur hv. 4. landsk. þm. (HV) því eindregið fram, að hættan, sem yfir landinu vofi, sé vegna varnarliðsins, sem hér dveljist. Hv. 3. þm. Reykv. er að vísu ósammála þessu, að það sé einungis hættan af varnarliðinu. Hann telur, að hættan af flugvöllunum sé einnig mikil, hvað sem varnarliðinu liði, og játar og, að sjálf lega landsins skapi því hernaðarþýðingu, enda á hv. 3. þm. Reykv. örðugt með að halda öðru fram, þegar það er rifjað upp, að fyrir 1939 var hvorki neitt herlið hér á landi né neinn flugvöllur. Engu að síður barðist hv. 3. þm. Reykv. og hans skoðanabræður þá fyrir því, að Ísland þyrfti að ganga í varnarbandalög með öðrum þjóðum til þess að forða landi og þjóð frá yfirvofandi hættu. Þeir gerðu sér sem sagt þá ljósa grein fyrir því, að lega landsins og aðstaða í heiminum var það, sem hættuna skapaði, en hvorki varnarlið í landinu né flugvellir, sem hvorugt var þá fyrir höndum.

Nú er á það að líta, að styrjöld, sem líklegt var að kynni að brjótast út á árunum fyrir 1939, eða menn á þeim árum óttuðust, var fyrst og fremst styrjöld milli Hitlers-Þýzkalands og nágrannaríkja þess og þá einkanlega nágrannarikja þess í vestri. Það var, miðað við allar aðstæður, harla ólíklegt, að í slíkri takmarkaðri styrjöld mundi Ísland hafa ýkjamikla hernaðarþýðingu. En þó reyndist það svo, að hv. 3. þm. Reykv. og hans skoðanabræður reyndust í þessu sannspárri en flestir höfðu fyrir fram ætlað. Það var að vísu ekki fyrr en styrjöldin hafði snúizt á töluvert annan veg en flestir menn höfðu búizt við að komið gæti fyrir, sem í ljós kom, hverja úrslitaþýðingu Ísland kynni að hafa. Það var sem sé ekki fyrr en eftir að Hitlers-Þýzkalandi hafði tekizt að leggja undir sig bæði Danmörku og meginhluta Noregs. Þá töldu Bretar ástandið svo ískyggilegt og Þjóðverja hafa fengið þvílíka aðstöðu til siglinga á heimshöfunum, að þeir töldu öryggis sjálfs sín vegna nauðsynlegt að hernema Ísland, eins og við öll vitum. En við sjáum af þessu, að jafnvel í styrjöld, sem þá var enn staðbundin að segja má við vesturhluta Evrópu, hafði Ísland slíka þýðingu, að nú er komið í ljós, að báðir stríðsaðilar kepptust eftir því að ná hér fótfestu, og var þá, eins og ég segi, engu liði fyrir að fara á landinu og engir flugvellir, sem væru sem agn til árásar.

En úr því að Ísland hafði slíka þýðingu í staðbundinni styrjöld í Vestur-Evrópu, þá gefur auga leið, hversu miklu meiri þýðingu Ísland kynni að hafa í nýrri stórstyrjöld, ef svo hörmulega skyldi til takast, að hún brytist út. Allar líkur eru til, að hún mundi fyrst og fremst verða á milli Sovét-Rússlands og Bandaríkjanna og þeirra bandamanna á báða bóga. Þess vegna tel ég þessi tvö stórveldi, að þau eru forusturíkin hvort innan síns bandamannahóps, en ekki vegna þess, að ég telji, að þarna sé fyrst og fremst um stórveldaátök að ræða, heldur miklu frekar um átök tveggja heimsskoðana, þar sem annar aðilinn er haldinn árásarhug, eins og ég gerði rækilega grein fyrir í fyrri hluta ræðu minnar. En af þessu er ljóst, að svo mikil sem hernaðarþýðing Íslands reyndist í fyrri heimsstyrjöld og svo réttir sem spádómar hv. 3. þm. Reykv. á árunum fyrir þá heimsstyrjöld reyndust um hernaðarþýðingu landsins, þá er þó enn og miklu auðsærra, hvílíka þýðingu landið hefur, ef til nýrra stórátaka kynni að koma, sem við vissulega verðum að gera okkar til þess að reyna að koma í veg fyrir, að að höndum geti borið.

Það verður þess vegna ekki með nokkru móti um það deilt, að það er lega landsins og aðstaða og atvik að þeim átökum, sem menn óttast, sem skapa þá hættu, sem yfir landinu vofir, en hvorki dvöl varnarliðs hér né heldur tilvera flugvallanna, þó að þeir út af fyrir sig geri það enn girnilegra fyrir árásaraðila að ná hér tökum í skyndi, ef landið væri varnarlaust og árásaraðili gæti hremmt landið með þeim án fyrirhafnar og áhættu.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt enn fast við kenningu sína um nauðsyn þess að sprengja flugvellina í loft upp, ef til styrjaldar drægi, og er þar enn sem fyrr í algerri mótsetningu við sinn talsmann hér, hv. 4. landsk. þm., og fór meira að segja óvirðulegum orðum um ráðagerðir hv. 4. landsk. þm. um það að eyða hættunni af flugvöllunum, eins og hv. 3. þm. Reykv. komst að orði, með því að draga skran saman á flugvöllunum, sem suðvelt væri fyrir fallhlífahersveitir eða aðra að taka í skyndi brott. Ég er hv. 3. þm. Reykv. alveg sammála um þá gagnrýni á fullyrðingu hv. 4. landsk. þm., þó að ég taki undir það með hv. 4. landsk. þm., að þessi hugmynd um að sprengja flugvellina í loft upp er ærið óraunsæ og er í raun og veru ekkert annað en viðurkenning hv. 3. þm. Reykv., sem vænta mátti, á því, að hann gerir sér grein fyrir, að það er tilvera flugvallanna ásamt legu landsins, sem hér ræður úrslitum, en alls ekki dvöl varnarliðsins, sem að sjálfsögðu dregur úr hættunni, en eykur hana ekki.

Hv. 3. þm. Reykv. vildi þó halda því fram, að tilvist árásarvopna og e.t.v. kjarnorkuvopna á flugvöllum hér mundi auka á hættuna. Af þessu tilefni og raunar einnig vegna ummæla hv. 4. landsk. þm. þykir mér rétt, að það komi hér alveg ótvírætt fram, sem raunar hefur áður verið lýst yfir, að hér á landi eru engin kjarnorkuvopn geymd. Og þó að það sé rétt, sem vikið var að fyrr á þessu þingi, að á Keflavíkurflugvelli séu nú staðsettar nokkrar orustuþotur, sem gætu borið kjarnorkuhlaðnar flaugar eða skeyti, þá eru engar slíkar flaugar eða skeyti nú geymd hér, svo sem hæstv. utanrrh. tók fram að gefnu tilefni fyrr á þinginu. En það er ekki nóg með það, heldur einnig rétt, að fram komi, að þær nýjustu flugvélar, sem á Keflavíkurflugvelli eru og reynt hefur verið að gera tortryggilegar í þessu sambandi, bæði hér á Alþingi og í sumum blaðaskrifum, þessar flugvélar eru ekki þess eðlis, að þær séu þess megnugar að fara með kjarnorkuhlaðin skeyti eða flaugar til árása á önnur lönd. Þessar flugvélar eru ákveðin tegund orustuflugvéla, orustuþotur af tegundinni F-102, sem svo eru kallaðar. Þær hafa einungis 960 km flugradíus, þ.e.a.s. fram og til baka. Og þær geta þess vegna ekki flogið héðan til neins annars lands og komið hingað aftur á völlinn, nema til Grænlands, og geta menn gert sér hugmynd um, hvort líklegt sé, að þar séu nokkur þau skotmörk, sem geri þessar orustuflugvélar því landi hættulegar. Og jafnvel þó að ekki væri ráðgert, að þær ættu að fljúga til baka, þá hafa þær ekki flugþol til þess að fljúga héðan t.d. til Rússlands, svo að það er algerlega ástæðulaust og einungis lagað til þess að skapa tortryggni og illvilja í garð Íslands, þegar því hefur verið haldið fram, að með vist þessara flugvéla hér væri verið að skapa möguleika til árása á Sovét-Rússland, svo sem þó hefur verið haldið fram.

Þessar flugvélar eru yfirleitt ekki ætlaðar til þess eða þannig lagaðar, að þær beri flaugar eða flugskeyti; sem beint sé gegn skotmörkum á landi. Þær hafa ekki burðarþol til þess að fara með þær sprengjur eða skeyti, sem nú eru tíðkuð til slíkra árása. Þær eru þvert á móti ætlaðar til þess að fást við aðrar flugvélar, sem sendar eru til árása. Þeim er sem sagt ætlað að senda skeyti sín til eyðingar árásarflugvéla, sem eru með við skulum segja kjarnorkusprengju innanborðs, þannig að tryggt sé, að sprengjan eyðileggist í lofti og geti ekki sprungið um leið og vélin fellur til jarðar. Þetta er sá útbúnaður, sem á þessum vélum er, ætlaður til að gera. En vélarnar eru alls ekki þeirrar tegundar, að þær séu lagaðar til árása á önnur lönd.

Hér er allt öðru máli að gegna en um þær árásarflugvélar, sem nú er deilt um á Kúbu, sem hafa flugþol allt að 1600 km og geta borið miklu þyngri sprengjur. Má sjá muninn af því, að talið er, að slíkar flugvélar, sem á Kúbu eru, geti borið allt að 8 megatonna sprengjur, en flugvélarnar, sem staðsettar eru á Keflavíkurflugvelli, eru lagaðar til að bera sprengjur, sem í megatonnum eru 0.002, og sjá menn þá stærðarmuninn og hve ólíkur tilgangur muni vera ætlaður þessum tveim vopnategundum.

Þessar upplýsingar hefur forstjóri almannavarnanna látið mér í té og efast ég ekki um, að þær séu réttar. En af þessum upplýsingum sést, hvílíkt skaðræðisverk það er, þegar t.d. Þjóðviljinn hefur hvað eftir annað blákalt haldið því fram, að vera þessara orustuflugvéla á Keflavíkurflugvelli sé sama eðlis og vist árásarflugvélanna á Kúbu, þeirra flugvéla, sem geta borið margfalt meiri styrkleika af sprengiefni, flogið miklu lengri vegalengdir og eru staðsettar alveg við bæjardyr Bandaríkjanna, ef svo má segja. Þeir menn, sem halda slíkum fjarstæðum fram, eru vissulega að gera þjóð sinni lítið gagn. Þeir eru fyrir fram að skapa afsökun fyrir árásaraðila til þess að níðast á Íslendingum, ef þeim býður svo við að horfa.

Ég geri engan veginn lítið úr þeim hættum, sem kjarnorkustyrjöld eru samfara, og vitanlega verðum við að leggja okkur fram til þess, að slík styrjöld geti aldrei brotizt út. En vegna þess, að ekki sízt hv. 4. þm. landsk. hefur látið svo sem ráðagerðir um almannavarnir, er að gagni gætu komið í nútímastyrjöld, og þá á hann við kjarnorkustyrjöld, séu einungis ætlaðar til þess að blekkja almenning og skapa hjá honum falska öryggistilfinningu, þá er rétt, að það komi fram, að samkv. upplýsingum, sem fyrir hendi eru, þá er ætlað, að Sovétríkin hafi eytt á s.1. 10 árum um 3000 millj. dollara í almannavarnir og eyði nú á ári hverju 500 millj. dollara í því skyni. Og síðan 1955 hafa þar verið skyldunámskeið um almannavarnir fyrir karlmenn á aldrinum 16–60 ára og kvenfólk á aldrinum 16–55 ára, og er þá miðað við, að hvert námskeið taki 64 klukkustundir. Hv. þm. getur ekki haldið því fram, að sú tilraun, sem gerð er með þessu frv., sem hér er til umr., sé gerð til þess að blekkja menn og skapa hjá þeim falska öryggistilfinningu, þegar sannað er, að allar þjóðir, jafnt vestan járntjalds sem austan, gera sitt til að koma upp almannavörnum og búa menn til þess mesta fáanlega öryggis, sem fyrir hendi yrði, ef til slíkra óskapa kæmi, að ný stórstyrjöld brytist út.

Hitt er svo alli annað mál, og það skiptir vitanlega langsamlega mestu máli, að við verðum, eins og ég hef margoft tekið fram, að leggja okkar litla lóð á vogarskálina til þess að forða því, að til slíkrar styrjaldar komi. Það gerum við bezt með því að halda við vörnum í landinu, þannig að Ísland verði ekki sá hlekkurinn, sem bilar, sá bitinn, sem e.t.v. ráði úrslitum um það, hvort ný stórstyrjöld brýzt út eða ekki. Hv. 3. þm. Reykv. gerði að vísu, að því er mér virtist, hálfgert gabb að því að við ætluðum, að Sovétherrarnir tækju það mark á vörnum hér, að það gæti ráðið úrslitum um þeirra ákvörðun í þessum efnum. Ég játa, að um það getur enginn sagt. E.t.v. er mesta hættan á styrjöld sú, að hún verði ekki ákveðin eftir skynsamlega íhugun, heldur af mönnum, sem hugsi með allt öðrum hætti en venjulegir vitibornir menn.

Fyrir þessu verðum við að gera okkur grein. En jafnframt verðum við að játa, að Ísland hefur enn mikla hernaðarþýðingu. Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram, að landið hefði nú fyrir Atlantshafsbandalagið minni þýðingu en áður, eftir að hinar langdrægu eldflaugar eru til komnar. Ég játa það, að Ísland hefur varðandi árásir á aðrar þjóðir miklu minni þýðingu nú en fyrr.

Það gildir jafnt um Bandaríkin sem um Sovét-Rússland. Eftir að eldflaugarnar eru til komnar, þarf miklu síður á að halda flugvöllum fyrir árásarflugvélar heldur en fyrr. En Ísland hefur heldur aldrei verið ætlað til árása. Ef einhver skyldi hugsa sér árásarflugvelli á Sovét-Rússland, þá er það víst, að þeir eru margir til miklu nær og miklu hentugri en flugvellir hér á landi. Það er þess vegna ástæðulaust fyrir okkur að tala um hernaðarþýðingu landsins sérstaklega í því sambandi. Og það á einnig við, að Sovét-Rússland þarf áreiðanlega ekki á Íslandi að halda til þess að nota flugvellina til árása héðan á Bandaríkin. Þess langdrægu skeyti nægja, þó að þeim sé ekki komið fyrir á Íslandi, skulum við gera ráð fyrir.

En þýðing Íslands hafði í síðustu styrjöld og hefur enn meiri, ef ný stórstyrjöld kynni að brjótast út, hvort sem það yrði kjarnorkustyrjöld eða ekki, áhrif í allt öðru sambandi. Ég hygg, að þegar hv. 3. þm. Reykv. var á árunum fyrir 1939 að skrifa sem mest um hættuna, sem vofði yfir Íslandi, þá hafi hann ekki miðað við, að Ísland væri í árásarhættu vegna þess, að hér yrði komið upp flugstöðvum til árása á aðra. Nei, hann miðaði við allt annað. Það var sú þýðing, sem Ísland þá hafði varðandi kafbáta. Og raunar er rétt, að það komi hér fram, að bollaleggingar hv. 3. þm. Reykv. voru í þessu efni ekki eingöngu frá honum sjálfum sprottnar, heldur er fullyrt, að Lenín hafi á kommúnistaþingi um 1920 þegar talað um þá þýðingu, sem Ísland kynni að hafa sem kafbátastöð eða fyrir kafbáta í hugsanlegri stórstyrjöld. Það var einnig svo, að aðalþýðing Íslands í síðustu styrjöld var sem millilendingarstöð á milli Bandaríkjanna og Bretlands og síðan í baráttunni við þýzku kafbátana. Og við höfum yfirlýsingar frá brezkum sjóliðsforingjum, sem hér dvöldu, m.a. um það, að þeir töldu, að kafbátahættunni hefði ekki sízt verið bægt frá og eytt vegna þeirrar aðstöðu, sem bandamenn þá höfðu á Íslandi.

Enn er það svo, að í hugsanlegri nýrri stórstyrjöld verður eitt aðalvopnið kafbátar, og það er vitað, að Sovét-Rússland á nú þegar margfalt stærri kafbátaflota en Þýzkaland átti í upphafi styrjaldarinnar 1939. Og það er einnig vitað, að aðstaða á Íslandi mundi verða ómetanleg fyrir þann, sem ætlaði að nota það heljarvopn að nýju til eyðingar siglingum yfir Atlantshaf, alveg eins og aðstaða á Íslandi kann að ráða úrslitum um það, hvort hægt sé að stöðva siglingar þessara drápstækja út á úthafið hér fyrir sunnan landið. Og ég hygg, að það sé einmitt að þessu leyti, sem Ísland hafi nú hernaðarþýðingu, og það sé nú sem fyrr meginþýðing Íslands í þessu sambandi. Og þá er ljóst, að að svo miklu leyti sem það kynni að vera rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., — það eru hans orð, en ekki mín, — að úr hernaðarþýðingu Íslands hafi dregið fyrir Atlantshafsbandalagið, þá hefur hernaðarþýðing landsins að sama skapi aukizt fyrir þann aðila, sem ætlar sér að eyða siglingum um Atlantshaf með því að senda kafbáta út á það um hafsvæðin austan eða vestan megin við Ísland.

Þetta eru staðreyndir, sem er engin ástæða til þess að fara hljótt með. Menn verða að gera sér grein fyrir, hvað er hér um að ræða, og ræða það alveg hiklaust, í hverju þýðing landsins er fólgin, og þess vegna hvernig við eigi að bregðast þeim vanda, sem við erum frammi fyrir settir. En aðalhættan kemur auðvitað af því, að enn skuli vera í heiminum til sá árásarhugur, sem á sínum tíma varð til þess, að Atlantshafsbandalagið var myndað í því skyni að stöðva hann, enda hefur tekizt að stöðva framgang ofbeldisins í VesturEvrópu síðan.

Það hörmulega er, að jafnágætur maður og í eðli sínu velviljaður eins og hv. 3. þm. Reykv. skuli enn vera ánetjaður þessum sínum bernskudraumum, sem fengu hann til þess að trúa því, að þessi árásarhugur væri sá, sem ætti að frelsa heiminn og koma á öðrum og nýrri háttum fyrir mannkynið. Ég efast ekki um, að hv. 3. þm. Reykv. vildi þá og vill nú vel, en hann ætti sem roskinn og reyndur maður að vera búinn að sjá, hvílíka bölvun kommúnisminn hefur leitt yfir heiminn, og hann væri sjálfur á sama veg meiri maður, — eins og Krúsjeff varð meiri maður við það að hverfa frá ævintýrinu á Kúbu, — ef hann hefði manndóm í sér til að hrista af sér hlekkina og játa, hversu illilega honum missýndist og hversu mjög hann hefur misnotað sína góðu krafta.