17.04.1963
Sameinað þing: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

Almennar stjórnmálaumræður

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. ríkisstj. hefur tileinkað sér viðreisnarheitið, og að einu leyti verðskuldar hún það. Öll hennar viðleitni hefur beinzt að einu marki, og það er viðreisn peningavaldsins í landinu. Þetta ber að viðurkenna, þótt sjálf reyni hún að leyna því fyrir alþjóð. Þetta var mörgum ljóst þegar í upphafi, en skyldi ekki öllum vera það ljóst nú í dag? Aðstaða bankavalds og gróðamanna hefur stórbatnað síðustu árin fyrir beinar stjórnaraðgerðir, sem því miður allar hafa orðið á kostnað vinnandi stétta. Skattbyrðum er þegar að miklu leyti létt af fyrirtækjum atvinnu og verzlunar; en á herðar hins almenna neytanda leggjast álögurnar með vaxandi þunga. Lífskjörum fólksins er haldið niðri með valdboði, og hvenær bregzt það, að hæstv. ríkisstj. geri málstað atvinnurekenda að sínum, þegar deilt er um launakjör? Vinnudagur láglaunafólks lengist með ári hverju og nálgast nú æ meir það, sem hann var fyrir 100 árum. Er nú svo komið, að verkamaður, sem á fyrir konu og 2 börnum að sjá, verður að þræla allar dagvinnustundir ársins, eftirvinnustundir allar og að auki um 400 næturvinnustundir til þess að hafa fyrir brýnustu nauðsynjum. Með síauknu brauðstriti torveldast kjósendum heilbrigð gagnrýni og sjálfstætt mat á stjórnmálum, enda telur ríkisstj. peningavaldsins sér það til tekna. Lítil rækt hefur verið lögð við menntunarmál þjóðarinnar á seinni árum, og ríkisstj. hefur margsinnis sýnt það í verki, hvers hún metur menntun og kunnáttu. Hæfustu kennarar eru flæmdir úr skólunum, verkfræðingar hraktir úr opinberri þjónustu og læknar víð æðstu heilbrigðisstofnanir neyddir til að segja upp stöðum sínum. Allt er hégómi í augum ráðandi manna nú annað en gildir sjóðir peningastofnana og gróðafyrirtækja.

Með öllu þessu er saga hæstv. stjórnar ekki nema hálfsögð og tæplega það, því að annar meginþátturinn í viðreisn mammons á Íslandi snýr út á við, að erlendu fjármálavaldi. Þótt ég harmi aðför ríkisvaldsins að launþegum og öðrum einyrkjum, ber ég þó enn meiri kvíðboga fyrir stefnunni í utanríkismálum. Í fersku minni er undanhald stjórnarinnar í landhelgismálinu. Við höfðum sigrað í því máli, en með baktjaldamakki höfðu Bretar þó fram allt, sem þeir vildu. Þeim var ekki aðeins með samningi leyft að fiska innan landhelgislínu, heldur vorum við Íslendingar um leið látnir afsala okkur um aldur og ævi réttinum til frekari útfærslu landhelginnar. Hér var stigið ógæfuspor, sem ekki afsakast með öðru en að um nauðung hafi verið að ræða. Sama ósjálfstæðið og gagnvart Bretum kemur einnig fram í þeirri áráttu stjórnarvaldanna að binda landið á klafa útlendra auðhringa. Hæstv. ríkisstj. hefur þegar lagt mikla vinnu í að hafa upp á erlendum fyrirtækjum, sem fáanleg væru til stóriðjurekstrar hér á landi. Telur hún nú góðar horfur á því, svo framarlega sem unnt reynist að fullnægja settum skilyrðum, en meðal þeirra er það, að almennt kaupgjald í landinu haldist örugglega lágt. Eftirsóknin eftir útlendri stóriðju væri skiljanleg, ef Íslendinga vantaði verkefni, en því fær enginn áróður þjóðina til að trúa í dag. Hér liggur að baki eitthvað annað, eitthvað, sem hylja verður í fallegum umbúðum. Það skyldi þó aldrei vera, að þessi atvinnurekstur útlendinga sé ætlaður sem forsmekkur þess, er koma skal, innlimun landsins í auðhringablökk Vestur-Evrópu?

Sumarið 1961 hófu málgögn hæstv, ríkisstj. og félagasamtök á hennar snærum magnaðan áróður fyrir inngöngu Íslands í Efnahagsbandalagið. Var sú innganga þá talin brýnt nauðsynjamál þjóðarinnar og hver sem dirfðist að andmæla því fyrir fram stimplaður landráðamaður og kommúnisti. En áróðurinn datt snögglega niður; þó ekki vegna þess, að stjórnin sæi sig um hönd, heldur hins, að stund náðar hinna voldugu í Brüssel var enn ekki upprunnin. Aróðurinn reyndist ótímabær, og því var hann látinn falla niður að sinni.

Nú er kjörtímabili senn lokið og kosningar í nánd, enda hafa viðbrögð hæstv. ríkisstj. og flokka hennar tekið miklum stakkaskiptum síðustu mánuði. Á 4 ár hafa stjórnarsinnar staðið í ströngu við að efla sjóði hinna ríku og halda aftur af þeim, sem minna mega sín, og í jafnlangan tíma hafa þeir í andans auðmýkt leitað samfélags voldugra utan landssteinanna. Nú er þessu öllu lokið í bili, því að kosningar standa fyrir dyrum. Við launþegana gerir hæstv. ríkisstj. vopnahlé. Hún talar fátt um þá nauðsyn, að atvinnurekendur safni sjóðum, og við Efnahagsbandalagið vill hún með engu móti kannast. Það eru hv. kjósendur, sem nú skipta höfuðmáli í stjórnarherbúðunum. Allt snýst um að gera þeim til hæfis næstu vikur og umfram allt að fá þá til að gleyma. Þess vegna eru vopnin slíðruð. Á Alþingi rignir niður stjfrv. eins og skæðadrífu um mál, sem ætla má að kjósendum falli í geð. Þar er lagt til, að tollar lækki, bætur almannatrygginga hækki og að alþýðubókasöfn verði aukin. Í frv. er einnig ráðgert að veita kennaraskólanum rétt til að brautskrá stúdenta, styðja tónlistarskóla fjárhagslega, færa þjóðkirkjunni Skálholt að gjöf og gera kirkjugarðana í landinu á ýmsan hátt aðgengilegri en þeir nú eru. Þetta er yfirbótin, sem gerð er, þegar skuldaskilin nálgast. En það er galli á gjöf Njarðar. Þannig sýnir það sig, að tollalækkun hæstv. ríkisstj. hefur ekki minnstu áhrif á vísitölu framfærslukostnaðar og er því engin kjarabót neytendum í landinu til handa. Lækkunin á nauðsynjum er svo að segja engin, en því ríflegri á allri óhófsvöru svo og allri rekstrarvöru milliliðanna í verzlun og viðskiptum.

Úlfshárin koma víðar fram en í stjfrv. Alþingiskosningar hafa verið færðar fram um hálfan mánuð í því skyni að stytta tíma hinna slíðruðu vopna. Óleystur er sá vandi að ákveða launakjör opinberra starfsmanna, og í því efni vill ríkisstj. ekki segja sitt síðasta orð fyrr en eftir kosningar. Það eru fleiri blikur á lofti. Fram undan er versnandi greiðslujöfnuður ríkissjóðs, versnandi greiðslujöfnuður við útlönd, fjárþröng ríkissjóðs og ný verðbólguskriða. Allt mun þetta kalla á nýjar fórnir af hálfu vinnustéttanna, og þykir varasamt að heimta þær fyrir kosningar. Ársskýrsla Seðlabankans sýnir einnig, hvað undir sauðargærunni liggur. Þar er auðvitað fagnað síbatnandi aðstöðu peningastofnana. En gleðin er kvíðablandin. Þjóðarframleiðslan jókst á síðasta ári um 5% eða miklu meira en árið áður. Við það bætist hagstætt verðlag á útflutningsafurðum og batnandi verzlunarkjör. En í þessum gæðum felst einmitt áhyggjuefnið mikla. Launþegarnir heimta ríflega hlutdeild í auknum þjóðararði. Í skýrslunni er það sérstaklega harmað, að laun hafa hækkað að undanförnu og að engin sýnileg samdráttaráhrif eru enn komin í ljós, þrátt fyrir viðeigandi stefnu í peningamálum. Þar segir enn fremur: „Þessar launahækkanir eru nú orðnar svo miklar, að óhjákvæmilegt er að varpa fram þeirri spurningu, hvort þjóðarbúið getur borið þær án verulegra áfalla.“ Kannast launþegar ekki við þennan söng? Í skýrslunni er einnig rætt um það meginverkefni á næstunni að koma á festu í kaupgjaldsmálum og um gagnráðstafanir af hálfu yfirstjórnar peningamálanna. Þar er sýnilega m.a. átt við gengislækkun síðar á þessu ári. Hæstv. ríkisstj. er sem sagt við sama heygarðshornið.

Nú er fátt rætt um Efnahagsbandalagið af stjórnvaldanna hálfu, og þó sannar ýmislegt, að afstaðan til þess er óbreytt. Ekki er langt síðan hæstv. ráðh., Gylfi Þ. Gíslason, tjáði þessum stál- og kolasamsteypuarftaka hollustu sína. „Stofnun bandalagsins er heimssögulegur viðburður, sem ber að fagna,” sagði hann. Og fagnaðarefnið er þetta: Stofnað er til ríkjasambands, stjórnmálalegs og viðskiptalegs eðlis, með samningi, sem er óuppsegjanlegur og eins ólýðræðislegur og verið getur. Það hefur aldrei verið hugsað sem einingarbandalag Evrópu, þetta bandalag, þvert á móti. Ætlunin er frá upphafi að útiloka mörg Evrópulönd og gera öðrum sem erfiðast fyrir um aðild. Þetta er klofningsbandalag, sem ætlar að hlaða um sig háa tollmúra, einoka markaði og heyja hatrömm viðskiptastríð við umheiminn. Þessari stofnun fagnar hæstv. viðskmrh., og utan hennar háu múra getur hæstv. forsrh. með engu móti hugsað sér að Ísland verði.

Leyfi Breta til að veiða innan íslenzkrar landhelgi rennur út á næsta ári. Erlendis efast enginn um, að þetta leyfi verði framlengt í einhverri mynd, og í trausti þess var brezk-danski samningurinn um landhelgi Færeyinga nýlega gerður. Þá var lagzt á kröfur Færeyinga um landhelgisstækkun og nauðungarsamningurinn íslenzki hafður að skálkaskjóll. Þetta mál ræða stjórnarflokkarnir ekki nú, það láta þeir bíða fram yfir kosningar.

Herra forseti. Ég læt máli mínu brátt lokið. Að mínum dómi er rík ástæða til aðvörunar. Lognið er dottið á, en það er svikalogn. Vopnahlé stjórnarsinna og friðmæli fela ekki í sér neinn griðasáttmála við launastéttir landsins né við bændur. Stefnan er augljóslega sú sama og hún var, efling peningavaldsins á kostnað vinnandi fólks og vaxandi erlend áhrif og íhlutun á kostnað hins íslenzka fullveldis og þjóðernis. Misvitur stjórnvöld æskja þess ekki, að kjósendur séu langminnugir eða hafi yfirleitt áhuga á stjórnmálum. Almennt pólitískt sinnuleysi er vatn á þeirra myllu, en þjóðarheildinni verður það aldrei til hagsbóta. Stjórnarfarið mótast af almenningi, og það eru kjósendur, sem skapa stjórnmálamennina í raun og veru. John Kennedy orðaði þetta þannig í bók, sem hann reit alllöngu fyrr en hann varð forseti: „Við, fólkið í landinu, erum húsbóndinn, og við munum fá þá stjórnmálaforustu, hvort heldur góða eða illa, sem við viljum og verðskuldum.”

Íhaldsstjórn Macmillans er nú sögð á fallanda fæti og flokkur hans í minni hl. að næstu þingkosningum afloknum. Örlög þeirrar stjórnar eru vituð löngu fyrir fram, vegna þess að brezkur almenningur er kunnur að því að standa sæmilega á verði og láta ekki stjórnmálamenn blekkja sig til langframa. Vissulega hafa íslenzkir kjósendur öll skilyrði til að standa ekki að baki brezkum almenningi um stjórnmálaþroska. Launþegar og bændur mega muna loforðaefndir þeirrar stjórnar, sem hér situr nú, og þeir ættu að minnast húsbóndavaldsins á kjördegi. Standi þeir á réttinum, mun næsta ríkisstj. hugsa sig tvisvar um, áður en hún leggur út í stríð við allar vinnandi stéttir landsins eða treður undir fótum allt, sem íslenzkt er, af einskærri undirgefni við eitthvert erlent fjármálavald. — Góða nótt.