17.04.1963
Sameinað þing: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar Alþingi verður slitið eftir fáa daga, lýkur síðasta þingi yfirstandandi kjörtímabils. Núv. ríkisstj. var mynduð í upphafi kjörtímabilsins með samningum Alþfl. og Sjálfstfl. Á undanförnum áratugum höfum við haft margar samsteypustjórnir ýmissa flokka, en það er sameiginlegt með þeim öllum þar til nú, að allar hafa þær kosið að víkja frá sér vandanum, áður en hinu reglulega kjörtímabili hefur verið lokið. Núv. ríkisstj. er sú fyrsta um langt skeið, sem leitast við að leysa vandamálin allt kjörtímabilið, án þess að flokkar þeir, sem að henni standa, geri sér ágreining frammi fyrir kjósendum á miðju kjörtímabili í fylgisaukningarskyni.

Aðkoma núv. ríkisstj. var á margan hátt mjög erfið. Vinstri stjórnin hafði farið frá í des. 1958 og forsrh. hennar, Hermann Jónasson, lýsti því yfir, að skapazt hefði óðaverðbólga í landinu og þjóðin væri stödd á barmi hengiflugs efnahagsmálanna. Fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, treysti sér ekki til að leggja neinar till. fyrir Alþingi til lausnar á þessum vanda. Framsfl. óskaði þess eins í des. 1958 að verða leystur frá stjórnarvandanum og öðrum yrði falið að ráða fram úr honum.

Alþfl. tók að sér stjórn landsins í des. 1958 í bili í því skyni að stöðva verðbólguna og koma fram leiðréttingu á kjördæmaskipan landsins. Alþfl. gaf þjóðinni nokkur fyrirheit um stjórnarstefnuna, og skulu þau ekki rakin hér, en aðeins á það minnt, að við öll þessi fyrirheit Alþfl.-stjórnarinnar var staðið. Aldrei var til þess ætlazt né því lofað, að Alþfl.- stjórnin leysti varanlega vanda efnahagsmálanna, til þess var starfstími sá, sem henni var ætlaður, of naumur og þingstyrkleiki hennar of veikur. Hinu hét Alþfl.-stjórnin, að bægja yfirvofandi óðaverðbólgu frá dyrum þjóðarinnar, og það var gert. Það hlaut hins vegar að verða verkefni þeirrar ríkisstj., sem mynduð var upp úr kosningunum 1959, að leita varanlegrar lausnar á efnahagsmálunum.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð í nóv. 1959, gerði hún þjóðinni grein fyrir stefnu sinni. Í stefnuyfirlýsingunni er lögð áherzla á, að ríkisstj. muni í fyrsta lagi leggja fyrir Alþingi till. sínar til lausnar á efnahagsmálunum, sem miði að því, að efnahagslíf þjóðarinnar komist á traustan og heilbrigðan grundvöll, þannig að skilyrði skapist fyrir sem örastri framleiðsluaukningu og allir hafi stöðuga atvinnu, í öðru lagi hækka verulega bætur almannatrygginganna, einkum fjölskyldubætur, ellilífeyri og örorkulífeyri, í þriðja lagi afla aukins lánsfjár til íbúðabygginga almennings, í fjórða lagi koma lánasjóðum atvinnuveganna á traustan grundvöll, í fimmta lagi endurskoða skattakerfið með það fyrir augum fyrst og fremst að afnema tekjuskatt á almennar launatekjur, í sjötta lagi taka upp samningu þjóðhagsáætlana, er verði leiðarvísir stjórnarvalda og banka um markvissa stefnu í efnahagsmálum, og síðast, en ekki sízt, beita sér fyrir lausn landhelgismálsins á grundvelli samþykktar Alþingis frá 5. maí 1959. Að öllum þessum málum hefur ríkisstj. unnið í 4 ár, og nú í lok kjörtímabilsins er tími kominn til að gera upp reikningana og athuga, hvort staðið hafi verið við gefin fyrirheit.

Ríkisstj. hefur lagt fram og fengið samþ. á Alþingi till. sínar til úrlausnar á efnahagsmálum. Þar var fram úr miklum vanda að ráða, en ég er viss um, að sú leið, sem þar var valin, var hin farsælasta, sem þjóðin átti völ á út úr því öngþveiti, sem í var komið 1958. Öngþveiti styrkja- og uppbótakerfisins í útflutningnum var afnumið með raunhæfri gengisskráningu á gildi krónunnar. Þetta var erfið og ekki vinsæl lausn í bili, en hún var óhjákvæmileg. Reynslan hefur og skorið úr því, að aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálum hafi ekki aðeins megnað að koma í veg fyrir, að þjóðin færi fram af því hengiflugi, sem Hermann Jónasson sagði henni að hún væri að fara fram af vegna óðaverðbólgu, heldur hefur atvinnulíf blómgazt og þjóðarframleiðslan aukizt meira en dæmi eru til áður. Gjaldeyrisstaðan út á við hefur breytzt úr því, að áður skulduðu Íslendingar öllum erlendis, sem vildu lána þeim fé, í það, að nú eiga þeir gjaldeyrisinnstæður erlendis, sem nema um 1200 millj. kr. Gjaldeyrislán þau, sem tekin voru til framkvæmdar viðreisnarstefnu ríkisstj., eru öll að fullu greidd. Ein afleiðing viðreisnarstefnu stjórnarinnar er sú, að í stað stöðugs halla á þjóðarbúskapnum og innflutningshafta hefur viðskiptajöfnuðurinn við útlönd í vörum og þjónustu verið hagstæður um rúmar 500 millj. kr. samtals tvö seinustu ár og hægt hefur verið að gera verzlunina við útlönd frjálsa að verulegu leyti. Spariinnlán hafa einnig aukizt stórlega og á seinasta ári t.d. um 760 millj. kr. En þrátt fyrir þetta neitar því enginn, að úrlausnar bíða ýmis vandamál í efnahagsmálunum. Aukning á kaupmætti launanna er vissulega langþýðingarmest þeirra mála. Það hlýtur að verða eitt höfuðviðfangsefni liðandi stundar að bæta kjör almennings með því að auka kaupmátt krónunnar. Slíkt verður ekki gert með því að hækka laun og verðlag á víxl, eins og gert hefur verið í fjölda ára á Íslandi. Aukning framleiðslunnar og þjóðarteknanna ásamt hagkvæmari vinnutilhögun megnar ein að færa almenningi varanleg og raunveruleg bætt lífskjör. Alþfl. hefur bent á og kvatt til nýrra vinnuhátta, einkum í fiskiðjuverum, sem þegar hafa gefið góða raun, og í heild eru allar aðgerðir ríkisstj. við það miðaðar að efla framleiðslutækni og auka framleiðslu og þjóðartekjur og þannig skapa raunhæfar kjarabætur.

Annað fyrirheit ríkisstj. var að hækka verulega bætur almannatrygginganna. Almannatryggingum var komið á á Íslandi fyrir frumkvæði Alþfl. og kostuðu langa og harða baráttu. Jafnan síðan almannatryggingarnar voru lögfestar, hefur Alþfl. beitt sér fyrir eflingu og aukningu þeirra. Margar endurbætur og lagfæringar hafa verið gerðar, en engar þó slíkar sem á yfirstandandi kjörtímabili. Upphæð sú, sem almannatryggingarnar greiða í bætur á þessu ári, er um 770 millj. kr. Og á næsta ári, eftir aukningu bótanna á þessu þingi, eru þær áætlaðar um 840 millj. kr.

Aukning lánsfjár til íbúðabygginga var þriðja fyrirheit ríkisstj. Lögin um verkamannabústaði voru sett á sínum tíma skv. till. Alþfl. Hafa þau hjálpað mörgum til að eignast íbúð, sem hefðu ekki átt þess kost ella. Þessi löggjöf leysir þó ekki nema mjög takmarkaðan hluta húsnæðisvandamálsins. Þess vegna hefur verið unnið að því að afla húsnæðismálastjórn aukins fjár til útlána, jafnframt því sem byggingarsjóður verkamanna hefur verið endurvakinn. Á seinasta ári vinstri stjórnarinnar var húsnæðismálastjórn séð fyrir 35 millj. kr. til útlána. Það var árið 1958. En á árinu 1960 var húsnæðismálastjórn séð fyrir 71 millj. kr. í þessu skyni, 1961 76 millj, kr., 1962 85 millj. kr., og á þessu ári hefur húsnæðismálastjórn til umráða 110 millj. kr., eða um það bil þrefalda þá upphæð, sem hún hafði á seinasta ári vinstri stjórnarinnar.

Þá hefur skattakerfið verið endurskoðað og skattur á almennar launatekjur hefur verið afnuminn. Vegna verðlags- og launabreytinga er þó svo komið, að ört sækir í það horf, að endurskoða þurfi skattakerfið á ný.

Þá hefur ríkisstj. látið semja og lagt fram á Alþingi þjóðhags- og framkvæmdaáætlun. Alþfl. hefur lengi beitt sér fyrir því, að slík áætlun væri samin. Árum saman hafa ríkisstj. lofað að gera þjóðhags- og framkvæmdaáætlun og allar svikið það þar til nú. Framkvæmdaáætlunin er hluti af áætlunarbúskap. Hún gerir ráð fyrir ákveðnum vexti þjóðartekna á tilteknu tímabili, og skv. því er áætlað, hve miklu þjóðin muni geta varið til fjárfestingar. Kjarni framkvæmdaáætlunarinnar er síðan að skipta framkvæmdafé þjóðarinnar, tiltaka, hve mikið skuli fara til húsbygginga, til sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar, samgangna, skólabygginga, rafvæðingar o.s.frv. Gerð slíkra áætlana hefur rutt sér mjög til rúms í heiminum á síðari árum. Þannig hafa t.d. Frakkar, Norðmenn og Hollendingar stuðzt við slíkar áætlanir í mörg ár, og Bretar eru að undirbúa sínar áætlanir. Má telja vafalaust, að ef hér hefði verið tekin upp framkvæmdaáætlun í stríðslok, væri þjóðin hundruðum millj. kr. ríkari en hún er í dag.

Framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir að verja til framkvæmda umfram fjárlög á árinu 1963 um 472 millj. kr. Fé til þessara framkvæmda er þegar tryggt. Er gert ráð fyrir að verja því til fjárfestingar í sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði, rafvæðingu, skólabyggingum, vegagerðum, hafnarframkvæmdum, húsbyggingum o.fl Er m.a. ráðgert að hrinda í framkvæmd þremur mjög þýðingarmiklum höfnum: á Rifi, í Njarðvík og Þorlákshöfn, og þremur þýðingarmiklum vegum: Reykjanesbraut, Ennisvegi og Strákavegi, auk þess sem fé er veitt til annarra hafna og vega víðsvegar um land.

Hér er um að ræða eitt stærsta átak, sem gert hefur verið hér á landi til eflingar og aukningar atvinnuveganna og framkvæmda í landinu. Er það óneitanlega kátbroslegt, að Eysteinn Jónsson skuli tala um samdráttaráform ríkisstj. með framkvæmdaáætlunina liggjandi á borðinu fyrir framan sig.

Þjóðhagsáætlunin markar vissulega þýðingarmikil tímamót í framkvæmda- og efnahagslífi þjóðarinnar. Stefna ríkisstj. í efnahagsmálum gerir ekki aðeins samningu slíkrar áætlunar mögulega, heldur einnig framkvæmanlega.

Landhelgismálið var eitt þeirra mála, sem ríkisstj. hét að vinna að lausn á. Þetta mál hefur um langt skeið verið eitt þýðingarmesta og vandasamasta mál þjóðarinnar. Vegna legu landsins eiga Íslendingar meira undir verndun fiskimiða sinna en flestu, ef ekki öllu öðru. Þjóðinni hefur lengi verið það ljóst, að næg vernd fiskstofnanna fengist því aðeins, að unnt væri að framkvæma nauðsynlega útfærslu fiskveiðilandhelginnar. En hér hefur verið við ramman reip að draga. Aðrar þjóðir hafa einnig sótt á íslenzk fiskimið og ekki viljað þola útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Þrátt fyrir aðkallandi nauðsyn voru allir stjórnmálaflokkar á Íslandi á einu máli um að ráðast ekki í útfærslu fiskveiðilögsögunnar, fyrr en fenginn væri sá grundvöllur til slíks, sem örugglega mætti standa á á alþjóðlegum vettvangi. Hvað eftir annað leituðu Íslendingar frjáls samkomulags við frændþjóðirnar, en árangurslaust. Það var ekki fyrr en eftir sigur Norðmanna fyrir alþjóðadómstólnum í Haag í deilumáli þeirra við Breta árið 1952, að Íslendingar töldu sig hafa nægan alþjóðlegan grundvöll til að hefjast handa um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 4 mílur og nýtt grunnlínukerfi. Þrátt fyrir þennan grundvöll, mótmæltu þrjár þjóðir útfærslunni, og ein þeirra, Bretar, beitti þvingunaraðgerðum með löndunarbanni.

Löndunarbannið var mjög alvarleg ráðstöfun gagnvart Íslendingum, þegar því var skellt á, og ríkisstj. gerði sitt ýtrasta til að fá því aflétt. Á meðan á undirbúningi landhelgismálsins stóð, sigldi einn ráðherra ríkisstj. þáverandi á fund ríkisstjórnar Bretlands og ræddi málið. Hinn 24. apríl 1953 bauð ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar Bretum, að landhelgisdeilan skyldi lögð fyrir alþjóðadómstólinn í Haag, en því var hafnað. Árangurslaust var leitað til alþjóðastofnana um aðstoð í deilunni. Svo hörð var andstaða Breta gegn útfærslunni í 4 mílur, að enda þótt hún væri byggð á niðurstöðum alþjóðadómstólsins í Haag, þá tókst tveimur ríkisstjórnum ekki á fjórum árum að knýja Breta til þess að létta löndunarbanninu af, og efa ég þó ekki, að beitt hafi verið öllum þeim aðferðum, sem menn vissu heppilegastar. Löndunarbannið fékkst ekki afnumið fyrr en árið 1956.

En jafnhliða því sem fiskveiðilögsagan var færð út í 4 mílur árið 1952, var unnið að því að skapa skilning og alþjóðlegan réttargrundvöll fyrir frekari útfærslu á fiskveiðilögsögunni. Haustið 1958 var ráðizt í slíka útfærslu. Fiskveiðilögsagan var þá ákveðin 12 mílur, en ekki þótti tiltækilegt að gera að því sinni neinar breytingar á grunnlínum. Útfærslan í 12 mílur árið 1958 var gerð að lokinni ráðstefnu í Genf varðandi réttarreglur á hafinu. Þessari ráðstefnu lauk í aprílmánuði 7958, án þess að nokkrar bindandi samþykktir væru gerðar um réttarreglur á hafinu. Það eitt var samþykkt í þessu efni á ráðstefnunni, að fljótlega skyldi kalla saman aðra ráðstefnu til þess að reyna að komast að niðurstöðu um víðáttu landhelgi og fiskveiðilögsögu.

Þegar ráðizt var í útfærsluna 1958, var vitað, að Bretar mundu mótmæla henni. Það var einnig óttazt, að Bretar mundu ekki fallast á neina lausn á þessu máli, sem á nokkurn hátt mætti túlka á þann veg, að þeir féllust á 12 mílna landhelgi, á meðan Bretar biðu eftir ráðstefnunni, sem bráðlega átti að halda. En eftir útfærsluna 1958 voru samt gerðar ýtarlegar tilraunir til að fá Breta til að halda ekki uppi andstöðu gegn útfærslunni. Tilraunir þessar voru að nokkru leyti gerðar innan NATO. Framkvæmdastjóri þess átti mikinn þátt í þeim tilraunum. Niðurstaða þeirra var sú, að með öllu væri vonlaust að fá Breta til að þola 12 mílurnar, á meðan beðið væri eftir hinni væntanlegu ráðstefnu. Að sjálfsögðu héldu Íslendingar fast við sínar ákvarðanir, og því varð enginn árangur af viðræðunum.

Síðari ráðstefnunni í Genf lauk í marz 1960. Henni lauk á sama hátt og þeirri fyrri að því leyti, að engin bindandi samþykkt var gerð um víðáttu fiskveiðilögsögunnar. En henni lauk með ólíkum hætti að því leyti, að engin ný ráðstefna var áformuð, eins og gert hafði verið 1958. Þetta breytti vissulega viðhorfunum. Bretar gátu nú ekki lengur borið það fyrir sig, að þeir gætu ekki unað 12 mílunum, vegna þess að það mundi spilla málstað þeirra á nýrri ráðstefnu. Engin slík ráðstefna var áformuð. Ágreiningur var um það á milli stjórnarflokkanna, hvernig bregðast skyldi við hinum nýju viðhorfum. Hv. þm. Lúðvík Jósefsson lýsti viðhorfi síns flokks þannig í þingræðu, að hann vildi semja um það eitt við Breta, að þeir héldu hér áfram fiskveiðum næstu árin undir herskipavernd. Hv. þm. Hermann Jónasson lagði til fyrir hönd síns flokks, að sjóher Bandaríkjanna yrði beðinn að verja íslenzka fiskveiðilögsögu.

Ríkisstj. gat á hvoruga þessa leið fallizt. Hún vildi freista þess að knýja Breta til að viðurkenna 12 mílurnar. Ríkisstj. vissi, að Bretar gátu ekki lengur borið fyrir sig, að ný ráðstefna væri væntanleg. Samkomulag tókst við Breta. Þeir viðurkenndu 12 mílurnar og auk þess mjög þýðingarmiklar grunnlínuútfærslur. Hefur ríkisstj. unnið stærri og glæsilegri sigur í landhelgismálinu við Breta en menn gera sér almennt grein fyrir í dag.

Stjórnarandstaðan hefur hvað eftir annað lýst því yfir, að hún muni fella úr gildi landhelgissamkomulagið, ef hún fær aðstöðu til. Væntanlega þýðir þetta það, að stjórnarandstaðan hyggist þá taka upp landhelgislínuna frá 1958 og færa inn grunnlínurnar, sem Lúðvík Jósefsson treysti sér ekki til að breyta. En á hverju byggir stjórnarandstaðan þá fyrirætlan sína að fella landhelgissamkomulagið úr gildi? Jú, hún segir, að vegna þess, að Bretar hafi beitt Íslendinga nauðung, þá sé samkomulagið ógilt nauðungarplagg. Hvernig er svo þessi málflutningur undirbúinn? Þegar landhelgissamkomulagið var til umræðu á Alþingi 1961, lýsti hv. þm. Hermann Jónasson því yfir, að með öllu hefði verið óþarft fyrir Íslendinga að semja við Breta, vegna þess, að Bretar hefðu verið uppgefnir í deilunni og búnir að tapa henni, áður en til samninga var gengið. Síðan endurtóku allir þm. Framsfl. og Alþb. þessa fullyrðingu. Um þetta má lesa tugi blaðsíðna í Alþingistíðindunum. M.ö.o.: stjórnarandstaðan heldur því fram, að Bretar hafi beitt okkur nauðung, enda þótt þeir hafi verið búnir, að dómi þessarar sömu stjórnarandstöðu, að gefast upp og raunverulega tapa landhelgisdeilunni, áður en samkomulagsviðræður við þá hófust. Stjórnarandstaðan á eftir að gera grein fyrir því, hvernig þær fullyrðingar hennar fái samrýmzt, að óþarfi hafi verið að semja, vegna þess að Bretar hafi verið búnir að tapa deilunni og gefast upp, en samtímis beitt okkur nauðung til samninganna. Hvernig má það vera, að hægt sé að beita mann nauðung og gefast jafnframt upp fyrir honum?

Málflutningur stjórnarandstöðunnar um þetta atriði er eins og allur málflutningur hennar í landhelgismálinu. Þar rekur sig hvað á annað. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að enga nauðung þurfti til að knýja Íslendinga til þeirra samninga, sem gerðir voru til lausnar í landhelgismálinu 1961. Með þeim samningum unnu Íslendingar þann sigur, sem lengi mun minnzt á Íslandi. Það væri vissulega mikil ógæfa fyrir þjóðina, ef stjórnarandstaðan ætti eftir að fá aðstöðu til að hefja milliríkjadeilur til ógildingar landhelgissamkomulagsins, eins og stjórnarandstaðan lýsir yfir að gert verði, ef núv. stjórnarflokkar halda ekki meiri hl. sínum í kosningunum í sumar.

Með landhelgissamkomulaginu var á það fallizt, að Bretar mættu um takmarkaðan, stuttan tíma veiða á vissum stöðum innan 12 mílnanna. Þessi tími er útrunninn í marzmánuði næsta ár. Stjórnarandstaðan heldur því fram, að Bretar muni fara fram á framlengingu þessa tíma og að núverandi stjórnarflokkar muni á það fallast. Hvort tveggja er fjarstæða. Bretar munu ekki fara. fram á neitt slíkt. Fyrir liggja ýtarlegar yfirlýsingar þeirra um algera viðurkenningu á 12 mílunum og jafnframt, að þeir muni enga tilraun gera til þess að fá umþóttunartímann framlengdan, þegar hann rennur út í marz næsta ár. Það er beinlínis móðgandi við Breta að halda því fram, að þeir muni fara fram á framlengingu eftir þær yfirlýsingar, sem þeir hafa gefið. Að því er varðar stjórnarflokkana, þá mundu þeir hvorki taka við né hlusta á tilmæli um framlengingu á umþóttunartímanum. Umræður um slíka hluti koma ekki til mála, enda dettur hvorki Bretum né Íslendingum slíkt í hug.

Það er alkunna, að með útfærslunni í 12 mílur hafa Íslendingar ekki náð endanlegu takmarki sínu í landhelgismálum. Yfirráð yfir landgrunninu öllu eru takmark Íslendinga, og í samkomulaginu við Breta var því yfir lýst, að við mundum halda áfram að vinna að þessu marki. Til þessa höfum við ekkert skref stigið í landhelgismálinu án þess að undirbúa það áður rækilega á alþjóðavettvangi. Þróun í fiskveiðimálum ræður miklu um, hvernig framhald landhelgismálsins verður. Okkar er að vera á verði og hyggja að þörfum okkar og möguleikum og athuga, hvað hægt er að gera til þess að þoka málinu áfram. Í því sambandi þykir mér rétt að vekja athygli á vissu atriði.

Á Genfarráðstefnunni 1958 var samþykktur samningur með tilskildum meiri hl. atkvæða um yfirráðarétt strandríkis yfir landgrunnsbotninum. Samkv. þessum samningi er strandríki heimilt að helga sér hafsbotninn á landgrunninu og það, sem í honum er, án þess þar með að öðlast rétt yfir hafinu yfir landgrunnsbotninum og því, sem í hafinu er. Með landgrunninu í þessum samningi er miðað við 200 m dýpi. Samningurinn öðlast gildi, þegar 22 ríki hafa staðfest hann. Mjög fá ríki hafa staðfest þennan samning, mér er aðeins kunnugt um 6. Engu að síður hef ég ástæðu til að ætla, að ýmsir þjóðréttarfræðingar telji efni samningsins gildar þjóðréttarreglur. Hygg ég, að það fengi staðizt að alþjóðarétti, að Íslendingar helguðu sér landgrunnsbotninn. Spurningin er, hvort okkur væri hagkvæmt að stíga slíkt spor eða ekki. Hér er um mál að ræða, sem Íslendingar þurfa að athuga gaumgæfilega.

Í dag þekkjum við engin þau verðmæti á eða undir hafsbotninum, sem við þurfum að helga okkur. Hins vegar þurfum við að gera upp við okkur, hvort við færumst nær því marki, að allt landgrunnið komist undir íslenzka fiskveiðilögsögu, með því að helga okkur fyrst landgrunnsbotninn að 200 m, eða hvort við með slíku skrefi leggjum stein í götu þess máls. Þetta er vandamál, sem ekki verður ráðið fram úr án nánari athugunar. — Góða nótt.