18.04.1963
Sameinað þing: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Háttvirtu hlustendur. Út af ummælum Benedikts Gröndals alþm. hér áðan um almannatryggingarnar og svigurmælum hans í garð framsóknarmanna skal það aðeins tekið fram:

1) að það var Framsfl., sem lagði ásamt Alþfl. grundvöllinn að tryggingalöggjöfinni í öndverðu;

2) um umbætur þær á tryggingalöggjöfinni, sem nú hafa átt sér stað, hefur alls enginn ágreiningur verið.

3) það var Alþfl.-maður, sem fór með málefni almannatrygginganna í vinstri stjórninni.

Hæstv. forsrh. varð að viðurkenna vaxandi verðbólgu og dýrtíð í umr. hér í gær. En hann spurði um leið: Hverjum er um að kenna? Hvað hefur valdið verðhækkununum, og við hvern er að sakast um vöxt dýrtíðarinnar á þessu kjörtímabili? — Ég held, að þessum spurningum ráðh. sé ákaflega auðsvarað. Vaxandi verðbólga á þessu tímabili á fyrst og fremst rætur að rekja til efnahagsaðgerða núv. ríkisstj., viðreisnarinnar svokölluðu 1960 og gengisfellingarinnar 1961. Vegna þeirra aðgerða hefur verðlagið skrúfazt upp, kaupgjaldið hækkað, krónan lækkað, rekstrarútgjöld aukizt, framkvæmdakostnaður stórhækkað. Þessum augljósu staðreyndum treystist jafnvel forsrh. ekki til að neita, en reyndi hins vegar að telja mönnum trú um, að ráðstafanir þessar hefðu verið óumflýjanlegar, viðreisnin vegna viðskilnaðar vinstri stjórnarinnar og gengisfellingin 1961 vegna þeirra kaupgjaldssamninga, sem samvinnufélögin höfðu forustu um. Þessi niðurstaða forsrh. er vitaskuld furðuleg fjarstæða, sem ber vitni um slæma samvizku stjórnarinnar í þessum efnum.

Með efnahagslögunum 1960 var stofnað til stórfelldari gengislækkunar en áður hefur átt sér stað. Sú gengislækkun ein út af fyrir sig hlaut að hafa í för með sér ægilega dýrtíðarskriðu og tilfinnanlega lífskjaraskerðingu fyrir allan almenning. En það var ekki látið sitja við gengisfellinguna eina. Jafnhliða henni voru vextir stórhækkaðir, lánstími styttur og afurðalán lækkuð, og í kjölfar gengisfellingarinnar sigldu strax nýjar álögur á almenning í formi söluskatta og annarra opinberra gjalda. Allar þessar ráðstafanir hlutu að verka í sömu átt og gengisfellingin, þ.e.a.s. hafa stórkostleg verðbólguáhrif og leggja þungar byrðar á almenning, jafnframt því sem þær hlutu að verða atvinnuvegunum fjötur um fót. Þegar til gengislækkana hefur komið áður fyrr, hafa jafnframt oftast nær verið gerðar sérstakar ráðstafanir til að draga úr íþyngjandi áhrifum þeirra. Hitt mun aldrei hafa átt sér áður stað, að samhliða gengisfellingu hafi verið gripið til sérstakra aðgerða til þess að stuðla að enn meiri kjaraskerðingu og verðbólgu. Hér var því vissulega um nýja stefnu að ræða.

Framsóknarmenn vöruðu eindregið við afleiðingum þessara samvirku kjaraskerðingaraðgerða. Við sýndum fram á, að þær mundu magna dýrtíð, skerða lífskjör, kalla á kauphækkanir, leiða til ranglætis og valda óbærilegum aðstöðumun í þjóðfélaginu. Allt hefur þetta ásannazt, eins og hver maður getur dæmt um af eigin reynd.

Með efnahagslögunum frá 1960 var skráð gengi krónunnar lækkað um 132.5%. Með þeirri gengisfellingu var gengið miklu lengra en að skrá krónuna í samræmi við gjaldeyrisuppbótagengið. Með hinni nýju gengisskráningu var verð á erlendum gjaldeyri yfirleitt hækkað um 50, en í ýmsum tilfellum um 80% frá því, sem það að meðtöldu yfirfærslugjaldinu áður var. Það er því fráleit firra, að með gengisbreytingunni 1960 hafi aðeins verið skráð sú gengislækkun, sem vinstri stjórnin hafði raunverulega verið búin að framkvæma með uppbótakerfi og yfirfærslugjöldum. Það sér hver maður með heilbrigða skynsemi. Það er margsannað, að viðskilnaður vinstri stjórnarinnar gaf að öðru leyti síður en svo tilefni til slíkra óyndisúrræða sem gengislækkunin 1960 óneitanlega var. Tekjuafgangur var hjá ríkissjóði, afkoma útflutningssjóðs var eftir atvikum góð, eins og á daginn kom við uppgjör hans. Vegna stöðu landsins út á við árið 1958 var síður en svo ástæða til að grípa til þvílíkra örþrifaráða, svo sem hv. þm. Hermann Jónasson sýndi ljóslega fram á hér áðan. Það er þess vegna blátt áfram broslegt að ætla að kenna vinstri stjórninni um viðreisnaraðgerðirnar í febrúar 1960 og þann ófarnað, sem af þeim hefur síðan leitt. Sannleikurinn er sá, að jafngífurleg gengisfelling og átti sér stað 1960 náði ekki nokkurri átt, þegar alls var gætt. Því síður áttu þær óheillafylgjur, sem upp voru vaktar um leið, svo sem vaxtahækkun, lánalækkun og nýjar álögur, nokkurn rétt á sér. Það var auðsætt, að þessar efnahagsaðgerðir hlutu von bráðar að færa allt úr skorðum og leiða í þær ógöngur, að ekki verði við neitt ráðið. Á árinu 1961 var líka svo komið, að allt logaði í víðtækum verkföllum og kjaradeilum, en áður höfðu launþegasamtökin leitað samninga við ríkisstj. um kjarabætur án kauphækkana, m.a. með lækkun vöruverðs og vaxta, en enginn árangur hafði náðst.

Í maímánuði hófst verkfall fjölda verkalýðsfélaga. Var talið, að það næði til a.m.k. um 7000 manns víðs vegar um land. Þá var ástandið alvarlegt. Þá vofði yfir allsherjarframleiðslustöðvun einmitt um þær mundir, er síldveiðar norðanlands áttu að hefjast. Þá höfðu samvinnufélögin forustu um nýja kjarasamninga, þar sem að ýmsu leyti var farið inn á nýjar brautir og grundvöllur lagður að vinnufriði, ef skynsamlega hefði verið á málum haldið. En þá gerði ríkisstj. sitt allra stærsta glappaskot. Hún felldi gengið á nýjan leik.

Gengislækkunin 1961 var algerlega óþörf að mínum dómi. Hún var fullkomið gerræðisverk, sem ríkisstj. nú hlýtur að iðrast sárlega eftir. Samt sem áður var hæstv, forsrh. enn að rembast við að reyna að réttlæta þetta ógæfuverk. Hann sagði, að kaupgjaldshækkunin hefði þýtt 550–600 millj. útgjaldabyrði fyrir atvinnuvegina, en slíkt hefði verið þeim með öllu ofviða. Nú taldi ríkisstj. atvinnuvegina að óbreyttum aðstæðum og miðað við þær slæmu afkomuhorfur, sem hún gekk út frá í gengisfellingargrg. sinni 1961, geta borið 3% kauphækkun, en það jafngildir samkv. grg. rúmlega 100 millj. kr. Nú liggur það hins vegar ljóst fyrir, að verðmæti sjávarafurða 1961 varð a.m.k. 500 millj. kr. meira en ríkisstj. reiknaði með í gengislækkunargrg. sinni. Framleiðsluaukning í sjávarútveginum var því einmitt fyrir hendi til þess að standa undir umsömdum kauphækkunum og þá auðvitað því fremur, ef vextir hefðu verið lækkaðir. Um þetta ætti því alls ekkert að þurfa að deila nú. Auðvitað var gengislækkunin talin gerð vegna útflutningsframleiðslunnar, en af henni eru sjávarafurðir um eða yfir 90%. Engum dettur í hug, að gengislækkunin hafi verið gerð vegna landbúnaðar, enda hefur hann óefað af henni ógagn, þegar á heildina er litið. Það er einnig margsannað, að gengislækkunar þurfti ekki við vegna iðnaðarins, enda urðu iðnaðarfyrirtæki undantekningarlítið að taka á sig kauphækkanir án þess að fá hækkað verð á framleiðsluvöru sinni. Því til sönnunar má vitna til málgagns ríkisstj., Morgunblaðsins, en þar var 13. sept. 1961 birt grein undir fyrirsögninni: „Iðnfyrirtæki hafa sjálf orðið að bera kauphækkanir”. Þar segir m.a. orðrétt: „Leyfi til verðhækkana vegna kauphækkana hafa aðeins verið gefin í tveim tilfellum.” Og síðan orðrétt feitletrað: „Kauphækkanir hafa fyrirtækin orðið að taka á sig sjálf.” Svo kemur hæstv. forsrh. hér í gærkvöld og leyfir sér að staðhæfa, að langflest fyrirtæki hafi fengið kauphækkunina reiknaða inn í verðlagið, þar sem ella hefði orðið hjá þeim hallarekstur.

Enn þá óskiljanlegri eru þó dylgjur hæstv. forsrh. um, að Samband ísl. samvinnufélaga hafi farið fram á verðhækkun á iðnaðarvörum vegna kauphækkana. Þær staðhæfingar hafa enga stoð í veruleikanum. Samkv. upplýsingum fyrirsvarsmanna Sambandsins hefur það aldrei farið fram á verðlagshækkanir vegna kauphækkana. Til þess að færa mönnum enn betur heim sanninn um sannleiksgildi þessara orða ráðh. vil ég lesa upp nokkur orð úr prentaðri ársskýrslu Sambandsins fyrir árið 1961. Þar segir forstjóri SÍS á bls. 37 svo, með leyfi forseta:

„Eftir gengisbreytinguna í ágúst s.l. var af verðlagsnefnd tekin til athugunar breyting á álagningu á vörum og þjónustu. Yfirmaður verðlagsmála kallaði fulltrúa Sambandsins á fund til viðræðna um þessi mál. Tveir fundir um þessi mál báru meiri svip réttarhalda en venjulegs viðræðufundar. Ítrekaðar tilraunir voru gerðar á þessum fundum til þess að kalla fram óskir frá fulltrúum Sambandsins um hækkun á álagningu á vörum og þjónustu. Þessar tilraunir mistókust. Fulltrúar Sambandsins ítrekuðu fyrri yfirlýsingar, að Sambandið hefði aldrei farið fram á hækkun álagningar og mundi ekki gera það frekar en áður.”

Þetta sagði forstjóri Sambandsins í ársskýrslu sinni.

Þvílíkur málflutningur af hálfu forsrh. er að sjálfsögðu stórvítaverður, og er alveg furðulegt, að hann skuli leyfa sér að fara þannig algerlega með staðlausa stafi. Og menn geta rétt ímyndað sér, hvernig málflutningurinn hjá öðrum stjórnarliðum muni vera, þegar sjálfur forsrh. leyfir sér að fara með þvílíkan uppspuna.

Það fær ekki heldur staðizt, að gengislækkunin 1961 hafi verið nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir greiðsluhalla við útlönd. Vegna mikilla aflabragða batnaði gjaldeyrisstaða bankanna samkv. skýrslu Seðlabankans á árinu 1961 um 400 millj. kr., reiknað á núv. gengi, en auk þess átti sér stað birgðaaukning á útflutningsvörum, sem talin var nema 186 millj. kr. En í gengisfellingargrg. sinni reiknaði ríkisstj. með því, að 150 millj. kr. af kaupgetuaukanum vegna kaupgjaldshækkananna kæmu fram í greiðslujöfnuðinum á síðari helmingi ársins 1961. Nú liggur það hins vegar fyrir, að hrein gjaldeyriseign bankanna var 527 millj. kr. í árslok 1961. Hvernig ætlar svo ríkisstj. að telja mönnum trú um, að komið hefði til gjaldeyrisskorts og greiðsluhalla, ef ekki hefði verið gripið til gengislækkunar sumarið 1961? Það er vitaskuld alveg vonlaust verk. Hinu má hreyfa, að stjórnin hafi ekki um mitt sumar 1961 getað séð fyrir hið mikla aflamagn og batnandi afkomu ársins 1961. Sannleikurinn er þó sá, að um mitt sumar 1961 var full ástæða til bjartsýni í þessum efnum. Verðlag á flestum útflutningsafurðum var heldur hækkandi og aflavonin var í rauninni miklu meiri en nokkru sinni fyrr, bæði vegna undangenginnar landhelgisútfærslu og aukinnar veiðitækni. Við þær aðstæður bar stjórninni vitaskuld að bíða átekta og sjá, hverju fram yndi, enda var það fullkomið gerræði og þverbrot á þingræðisvenjum að ganga fram hjá Alþingi í þessu mikilsverða máli. Hverjum dettur nú í hug, að gripið hefði verið til gengisstýfingar 1961, ef ákvörðun um hana hefði verið látin bíða t.d. fram í nóvember 1961? Þá hefði jafnvel núv. ríkisstj. ekki treyst sér að gripa til gengisfellingar.

Ég hygg, að það sé algert einsdæmi, að gengi gjaldmiðils sé fellt í metaflaári við batnandi gjaldeyrisaðstöðu og þegar verðmæti útflutningsafurða eykst samkv. skýrslu þjóðbankans um rúmlega 14% frá því á árinu áður. Ég hygg, að slík fjármálapólitík þekkist hvergi í víðri veröld nema hér. Það er eigi að undra, þó að sú spurning vakni hjá óbreyttum borgurum, hvenær eða hvernig efnahagsástand þurfi eiginlega að vera, til þess að ekki sé þörf á gengislækkun að mati núv. ríkisstj.

Fáir eða engir hafa verið jafnhart leiknir af tveim gengisfellingum og sparifjáreigendur. Verðgildi sparifjárinnstæðna gagnvart erlendum gjaldeyri hefur verið rýrt um næstum því helming, þó að reiknað sé með öllum yfirfærslugjöldum, sem innheimt voru fyrir 1. febr. 1960. M.ö.o.: 100 kr. innstæðan hefur í raun og veru verið færð niður í rúml. 50 kr. Svipuðu máli gegnir um kaupmátt sparifjárins innanlands. Hér er ranglætið framið gagnvart sparsömu og heiðarlegu fólki, sem lagt hefur fé í banka í góðri trú og í nytsömu augnamiði, t.d. unga manninum, sem hefur ætlað að safna til íbúðarkaupa, og gamla manninum, sem hefur ætlað að draga saman til ellidaganna. Þeir hafa verið blekktir og sviknir. Í heild hafa sparifjáreigendur verið sviptir milljónahundruðum með einu einasta pennastriki. Það er því meira en lítil óskammfeilni, þegar stjórnarsinnar þykjast bera umhyggju fyrir sparifjáreigendum og benda því til stuðnings á hækkun innlánsvaxta, en það er öllum auðsætt, að sú hækkun er ekki nema hverfandi brot af verðrýrnun sparifjárins vegna gengislækkana.

Í boðskap sínum til Alþingis við myndun núv. ríkisstj. lagði hæstv. forsrh. höfuðáherzlu á þrjú stefnuskráratriði ríkisstj., þ.e. að koma efnahagslífi þjóðarinnar á traustan og heilbrigðan grundvöll, að bæta lífskjörin og að stöðva verðbólguna. Það liggur nú alveg ljóst fyrir, að þessum markmiðum hefur ekki verið náð á yfirstandandi kjörtímabili.

Verðbólgan hefur ekki verið stöðvuð, það veit hvert mannsbarn, en er auk þess afdráttarlaust viðurkennt af hæstv. forsrh. Hann sagði orðrétt í síðasta áramótaboðskap: „Hins vegar játa ég hispurslaust, að enn þá hefur ekki tekizt að ráða niðurlögum verðbólgunnar.”

Vegna hins óvenjulega sjávarafla tvö undanfarin ár hefðu lífskjör hér á landi átt að geta batnað verulega, ef viturlega hefði verið stjórnað. Hin gífurlega framleiðsluaukning vegna hinna miklu aflabragða hefur auðvitað haft stórkostlega þýðingu fyrir þjóðarbúskapinn. Atvinna hefur af þeim sökum verið mjög mikil. Sjálfsagt hafa tekjur hjá einstökum atvinnustéttum aukizt og hagur þeirra eitthvað batnað. Hjá langflestum landsmanna hefur tekjuaukning áreiðanlega ekki vegið upp á móti vaxandi dýrtíð. Ef ekki hefði verið hér metafli tvö undanfarin ár og þar af leiðandi alveg óvenjuleg atvinna, er augljóst mál, að lífsafkoma alls þorra manna hefði verið næsta bágborin í því dýrtíðarflóði, sem yfir hefur skollið. Og eitt er víst, að almennar verðlagshækkanir og stóraukinn framkvæmdakostnaður, þ. á m. byggingarkostnaður, hafa aukið aðstöðumun á milli þeirra, sem voru búnir að koma fótum fyrir sig, höfðu eignazt íbúð eða atvinnutæki, komið sér upp búi og gert framkvæmdir á jörðum sínum, og hinna, sem allt áttu ógert og þurfa nú á viðreisnarárum að reyna að eignast þak yfir höfuðið, stofna bú, kaupa bát o.s.frv. Þessi viðreisnaráhrif bitna auðvitað fyrst og fremst og þyngst á unga fólkinu í landinu. Staðreyndin er því óefað sú, að lífskjör almennings hafa versnað, en ekki batnað á viðreisnarárunum, þegar alls er gætt, og má því til enn frekari sönnunar vitna til hinnar glöggu ræðu Sigurvins Einarssonar alþm. hér í gærkvöld.

Því fer víðs fjarri, að efnahagslíf landsins sé komið á traustan og heilbrigðan grundvöll. Þvert á móti má sjá þar mörg sjúkdómseinkenni. Ríkisstj. hefur sjálf orðið að glíma við ýmsar afleiðingar viðreisnarinnar. Hún hefur orðið að setja löggjöf um skuldaskil útvegsins, lög um lausaskuldir bænda og gera sérstakar ráðstafanir vegna togaraútgerðarinnar. Auðvitað er þar ekki eingöngu um afleiðingar viðreisnarinnar að ræða. Verðbólgan er ekki stöðvuð. Það er mergurinn málsins og á meðan svo er, verður ekki talið, að efnahagslífið sé komið á traustan grundvöll. Kaupgjaldsmál öll eru komin úr böndum, vinnufriðurinn er ótryggur, fram undan er geysileg launahækkun hjá opinberum starfsmönnum. Aðrir launþegar munu sigla í kjölfarið, því að þeir hafa langflestir lausa samninga. Á næsta ári mun tekjuþörf ríkissjóðs vaxa um milljónahundruð. Það er nokkurn veginn augljóst, að erlendar skuldir munu hækka mjög mikið á yfirstandandi ári.

Í áramótaræðu sinni, sem áður er til vitnað, sagði forsrh, einnig, að allt væri unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir höndum, ef ekki tækist að sigrast á verðbólgunni. Það vita allir landsmenn nú, að verðbólgan hefur aldrei verið í meiri algleymingi en einmitt nú. Yfir það skuggalega útlit, sem fram undan er að óbreyttri stjórnarstefnu, verður ekki breitt með plaggi eins og framkvæmdaáætlun, sem birt er nokkrum vikum fyrir kosningar og ekkert raunverulegt hald er í og er aðeins ætlað það hlutverk að slá ryki í augu kjósenda. Það er deginum ljósara og styðst nú við örugga reynslu, að viðreisnin getur aldrei leitt til velmegunar, eins og hæstv. forsrh. vildi vera láta, heldur hlýtur hún samkv. eðli sínu öllu að leiða til sífellt meiri vandræða, því lengur sem hún er höfð að leiðarljósi.

Sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir tvö metaflaár í röð er allt úr skorðum gengið hjá núv. ríkisstj. Fram undan eru því mikil vandamál í efnahagsmálunum. Það má ganga út frá því sem gefnu eftir reynslunni að dæma, að núv. ríkisstj. kunni eftir kosningar engin önnur ráð við þeim vanda en annaðhvort gengisfellingu eða nýjar álögur í einni eða annarri mynd. Góða nótt.