12.11.1962
Sameinað þing: 12. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

Efnahagsbandalagsmálið

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Sú þróun, sem átt hefur sér stað í viðskiptamálum Vestur-Evrópu undanfarin ár, mun á komandi árum hafa víðtæk áhrif á utanríkisverzlun Íslendinga og þá um leið á þjóðarbúskap þeirra í heild. Af þessum sökum hefur ríkisstj. talið þrennt vera skyldu sína í þessu sambandi Hún hefur í fyrsta lagi talið nauðsynlegt að gera sem rækilegastar athuganir á því hér innanlands, hver áhrif þeir sáttmálar, sem þegar hafa verið gerðir í Vestur-Evrópu, muni hafa á utanríkisviðskipti Íslendinga, og þeir, er líklegt má telja að gerðir verði. Hún hefur í öðru lagi talið nauðsynlegt að fylgjast sem bezt með framvindu þessara mála í Vestur-Evrópu. Og hún hefur í þriðja lagi talið nauðsynlegt að kynna ríkisstjórnum efnahagsbandalagsríkjanna og framkvæmdastjórn þess sjálfs, þau vandamál, sem stofnun Efnahagsbandalagsins og stækkun þess muni hafa í för með sér fyrir utanríkisviðskipti og þjóðarbúskap Íslendinga, og leggja áherzlu á nauðsyn Íslendinga og áhuga á því, að viðskiptasambönd þeirra við stærsta markaðssvæði sitt, Vestur-Evrópu, þurfi ekki að skerðast, hvað þá rofna, heldur geti þau haldið áfram að eflast. Í samræmi við þetta hefur ríkisstj. efnt til ýmiss konar sérfræðilegra athugana hér innanlands. Enn fremur átti ég í sumar ásamt þeim embættismanni, sem mest hefur starfað að þessum málum, Jónasi H. Haralz, og sendiherrum Íslands hjá hlutaðeigandi ríkjum viðræður við ráðherra og embættismenn í öllum aðildarríkjum Efnahagsbandalagsins og forseta þess ásamt öðrum í framkvæmdastjórn þess.

Ríkisstj. hefur nú þótt rétt, að ég gerði hinu háa Alþingi grein fyrir viðhorfum í þessum málum, enda mun óhætt að staðhæfa, að þróun sú, sem átti sér stað í viðskiptamálum Vestur-Evrópu á síðasta áratug og heldur enn áfram á þeim áratug, sem nú er nýbyrjaður, hljóti að hafa mikil áhrif á atvinnulíf og lífskjör hér á landi, hvað sem við sjálfir kunnum að gera, þ.e.a.s. hvort sem við leitumst við að leiða þessa þróun sem mest hjá okkur, taka sem fyllstan þátt í henni eða reynum að fara bil beggja.

Sú meginstaðreynd, sem öllum Íslendingum þarf fyrst og fremst að vera ljós í þessu sambandi, er, að í Vestur-Evrópu eru að verða róttæk umskipti í efnahagsmálum, breytingar, sem eru svo gagngerar, að þær hafa heimssögulega þýðingu, jafnvel þótt í kjölfar þeirra sigldu engin áhrif á stjórnmál álfunnar. En reynslan og sagan kenna okkur hins vegar, að varla getur hjá því farið, að jafnmiklar breytingar á aðstæðum efnahagslífs og viðskiptamála og nú eru smám saman að verða í Vestur-Evrópu hafi í för með sér breytingar í stjórnmálum álfunnar og þar með stjórnmálum heimsins.

Íslendingar eru hluti af Vestur-Evrópu. Þar er ekki aðeins stærsta viðskiptasvæði þeirra, heldur er menning Íslendinga fyrst og fremst grein af vestur-evrópskri menningu. Íslendingar hafa komið á í ríki sínu þjóðfélagsháttum, sem eru grundvallaðir á sömu hugsjónum um lýðfrelsi og mannhelgi og mótað hafa lýðræðisríki Vesturlanda, og land þeirra liggur miðsvæðis í þeim heimshluta, sem lýðræðisríkin beggja vegna Atlantshafs hafa bundizt órjúfandi samtökum um að vernda. Allt bendir þetta til þess, hversu ríka hagsmuni Íslendingar hafa af því, að sú mikilvæga þróun, sem nú á sér stað í viðskiptamálum Vestur-Evrópu, verði ekki til þess að losa um tengsli milli þeirra og ríkjanna, sem eru miðdepill þessarar þróunar, ekki aðeins vegna þess, að nokkrir viðskiptahagsmunir séu í hættu í bráð, heldur einnig vegna hins, að þegar til lengdar lætur, er um að tefla allsherjartengsl okkar, menningarsamband okkar og stjórnmálasamstarf við þær þjóðir, sem eru okkur skyldastar, búa við líkast þjóðfélag því, sem hér er, og við höfum öldum saman haft mest saman við að sælda.

Ég hef hafið mál mitt á þessum orðum til þess að leggja á það áherslu, að hér er um hið mikilvægasta mál að ræða, — mál, sem ætti að vera hafið yfir deilur stjórnmálaflokka um dægurmál. Hér er alls ekki um dægurmál að ræða, og það er annars eðlis en þau mál, sem skipt hafa mönnum í stjórnmálaflokka í lýðræðisríkjum. Nauðsynlegt er annars vegar að gera sér grein fyrir þeirri þróun, sem nú er að eiga sér stað í Vestur-Evrópu, hvort sem okkur líkar hún betur eða verr, og hins vegar þýðingu þess, að þessi þróun verði ekki til þess að skilja milli Íslands og Vestur-Evrópu og þar með á milli Íslands og vestrænna ríkja yfirleitt. Þeir menn, sem vilja, að tengsl okkar við Vestur-Evrópulöndin, bæði viðskiptatengsl, menningartengsl og stjórnmálatengsl, séu sem minnst og að þjóðfélag okkar sé í grundvallaratriðum öðruvísi en þjóðfélag vestrænna landa, þeir hljóta að sjálfsögðu að líta allt öðrum augum á málið en hinir, sem leggja vilja áherzlu á að varðveita tengslin við Vestur-Evrópu og halda hér þjóðfélagi, sem mótist af sömu grundvallarsjónarmiðum og þjóðfélög vestrænna landa. Forsendur hvað þetta snertir verða að vera algerlega ljósar í öllum umr. um þessi vandamál. Ríkisstj. telur, að stefna eigi að því að vernda tengsl Íslands við lýðræðisríkin beggja vegna Atlantshafs, efla þessi tengsl og bæta. Hún telur jafnframt, að íslenzkt þjóðfélag hljóti framvegis eins og hingað til að mótast af sömu grundvallarsjónarmiðum og þjóðfélög nálægra lýðræðisríkja og hljóti því í aðalatriðum að þróast á svipaðan hátt og þau. Þess vegna telur ríkisstj. nauðsynlegt að kanna og gera sér grein fyrir, hvernig Ísland geti tekið þátt í þeirri þróun í viðskipta- og efnahagsmálum álfunnar, sem nú á sér stað.

Hér er hins vegar ekki um einfalt mál að ræða. Þótt tengsl Íslands við nágrannalönd og skyldleiki þjóðfélags þess við þjóðfélag þeirra sé augljós, þá er hitt jafnljóst, að vegna smæðar þjóðarinnar, fjarlægðar frá öðrum löndum og einhæfni náttúruauðlinda hefur Ísland að mörgu leyti algera sérstöðu. Jafnframt því sem við stefnum að því að halda tengslum okkar og efla þau við nágrannalönd og fylgjast með þjóðfélagsþróun þeirra, hljótum við að halda fast við mikilvæg sérkenni þess þjóðfélags, sem við höfum komið hér á, og leggja áherzlu á að halda í eigin höndum úrslitavaldi yfir þróun efnahagsmála okkar og hagnýtingu náttúruauðæfa landsins. Það er sannfæring mín, að í rauninni skipti nú ekkert meira máli fyrir framtíð okkar en einmitt hvernig okkur tekst til í þessu efni, að okkur takist að finna réttan meðalveg milli einangrunar og of náinna tengsla við umheiminn, milli stöðnunar og of skjótra breytinga.

Af þeim sökum, sem ég nú hef greint, telur ríkisstj., að stefna Íslands hljóti að mótast af tvennu: Annars vegar eigi að keppa að því að gera Íslandi kleift að vera þátttakandi í þeirri þróun í viðskipta- og efnahagsmálum álfunnar, sem nú á sér stað. Hins vegar þurfi að tryggja þjóðina fyrir þeirri hættu, sem þessi þátttaka getur falið í sér vegna smæðar þjóðarinnar og einhæfni náttúruauðlinda landsins. Það er enn ekki tímabært að skera úr því, eftir hvaða leiðum helzt væri unnt að ná því markmiði, sem þessi meginstefna felur í sér, og um þær geta að sjálfsögðu orðið skiptar skoðanir, þegar þar að kemur. Um sjálfa meginstefnuna virðist mér hins vegar að allur þorri Íslendinga ætti að geta sameinazt.

Eins og málin horfa nú við, er Íslendingum fyrst og fremst nauðsynlegt að gera sér ljósa grein fyrir málinu í heild. Við verðum annars vegar að gera okkur grein fyrir, hver áhrif það hefur á efnahagslíf okkar, bæði í bráð og lengd, að hafast ekki að og standa með öllu utan þeirrar þróunar, sem á sér stað í viðskiptamálum álfunnar. Hins vegar verðum við að gera okkur grein fyrir, hvaða réttindi og hvaða skyldur hugsanleg þátttaka okkar í þessari þróun gæti haft í för með sér samkvæmt þeim leiðum, sem um er að ræða.

Þótt á þessu stigi málsins sé ekki hægt að komast að endanlegri niðurstöðu í þessu efni, er málið svo mikilvægt og svo vandasamt, að rækileg athugun á öllum málavöxtum hefur verið og er sjálfsögð. Jafnframt ber brýna nauðsyn til þess, að forustumenn nágrannaþjóða og þeirra samtaka, sem þær hafa komið á sín í milli, hafi sem mesta þekkingu og sem gleggstan skilning á aðstöðu Íslands og viðhorfum þess. Áður en ég ræði áhrif þeirrar þróunar, er átt hefur sér stað í viðskiptamálum Vestur-Evrópu, á íslenzk utanríkisviðskipti og íslenzkan þjóðarbúskap, tel ég rétt að rekja í meginatriðum, hver þessi þróun hefur orðið síðan í lok heimsstyrjaldarinnar síðari.

Á engu skeiði í hinni löngu og viðburðaríku sögu Evrópu hafa verið stigin jafnmörg og stór spor til aukinnar samvinnu Evrópuríkja og á þeim 17 árum, sem liðin eru síðan heimsstyrjöldinni síðari lauk. Upphaf þessarar auknu Evrópusamvinnu var stofnun Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu árið 1948. Megintilgangur þeirra samtaka var að stuðla að efnahagsendurreisn álfunnar eftir eyðileggingu stríðsins. Bandaríkjamenn áttu frumkvæði að þessum samtökum og veittu Evrópuþjóðunum með atbeina þeirra stórfellda efnahagsaðstoð, Marshall-aðstoðina svonefndu, til endurreisnarstarfsins. En Efnahagssamvinnustofnunin setti sér víðtækara markmið en það eitt að hafa meðalgöngu um dreifingu efnahagsaðstoðarinnar frá Bandaríkjunum. Hún beitti sér fyrir því, að endurreisnarstarfið færi fram á grundvelli síaukins viðskiptafrelsis og frjálsari gjaldeyrisviðskipta. Það var þess vegna eitt meginmarkmið Efnahagssamvinnustofnunarinnar að beita sér fyrir afnámi hvers konar hafta á viðskiptum og koma á fót marghliða greiðslukerfi. Þessi starfsemi Efnahagssamvinnustofnunarinnar bar mikinn og góðan árangur, sem að mestu náðist þegar á fyrri hluta s.l. áratugs. Til þess að koma á algeru viðskiptafrelsi þurfti hins vegar einnig að afnema tolla. En slíkt var ekki í verkahring Efnahagssamvinnustofnunarinnar, eins og hann hafði verið ákveðinn í upphafi. Lítill árangur hafði í reynd orðið af tilraunum til þess að lækka tolla á grundvelli hins svokallaða almenna samkomulags um tolla og viðskipti, GATT, sem gert hafði verið skömmu eftir styrjöldina. Virtist því einsætt, að nýjar leiðir yrði að reyna í þessu efni, ef árangur ætti að nást. Jafnhliða þessu óx þeirri skoðun fylgi, að enn nánara samstarf Evrópuríkja í viðskipta- og efnahagsmálum væri nauðsynlegt til þess að efla stjórnmálaeiningu álfunnar og tryggja henni eðlileg áhrif á gang heimsmála. Án slíkrar samvinnu gætu Evrópulöndin ekki keppt á efnahagssviðinu við stórveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, og þá ekki heldur varðveitt stjórnmálaáhrif sín á gang heimsmála. Evrópuþjóðum bæri því að stofna til æ nánari samvinnu eða dragast ella æ meir aftur úr. Innan þeirra landa, sem nú mynda Efnahagsbandalag Evrópu, hefur þessara skoðana mjög gætt. Jafnframt hefur sú skoðun átt miklu fylgi að fagna, að náin efnahagssamvinna komi ekki að fullu gagni, nema yfirstjórn efnahagsmála sé að verulegu leyti fengin í hendur sameiginlegum bandalagsstofnunum í stað þess að vera að öllu leyti ú valdsviði hvers ríkis um sig.

Fyrsta tilraunin til þess að ná þessum tveim markmiðum, lækkun tolla og eflingu náinnar samvinnu Evrópulanda, voru viðræður þeirra sex ríkja, sem nú mynda Efnahagsbandalag Evrópu um að koma í fót sameiginlegum markaði fyrir kol og stál. Þessi tilraun leiddi til stofnunar Kola- og stálbandalags Evrópu, er tók til starfa í júlí 1952. Stjórn bandalagsins var fengið víðtækt ákvörðunar- og úrskurðarvald og komið á fót dómstóli til þess að skera úr ágreiningsmálum. Hugmynd þeirra manna, sem forgöngu höfðu um stofnun Kola- og stálbandalagsins, var sú, að til hliðstæðrar samvinnu skyldi smám saman stofnað á æ fleiri sviðum efnahagslífsins. Árið 1955 efndu þessi ríki til ráðstefnu í Messína á Ítalíu, og var þar tekin sú ákvörðun að halda áfram á sömu braut og stofna til víðtæks efnahagsbandalags, er hafa skyldi að uppistöðu sameiginlegan markað fyrir öll viðskipti landanna. Bretar tóku í fyrstu þátt í viðræðunum um þessa nýju og stórauknu efnahagssamvinnu, en hættu þeirri þátttöku í árslok 1955. Sexveldin héldu samningum sínum hins vegar áfram og náðu samkomulagi rúmu ári síðar. Hinn 25. marz 1957 var undirritaður í Róm samningur milli Frakklands, Ítalíu, Þýzkalands, Belgíu, Hollands og Lúxemborgar um stofnun Efnahagsbandalags Evrópu, og er samningurinn jafnan kenndur við þá borg. Bandalagið tók til starfa 1. jan. 1958. Jafnhliða var komið á fót Kjarnorkubandalagi Evrópu.

Ég skal í örstuttu máli gera grein fyrir þeim atriðum, sem telja má aðalatriði Rómarsamningsins. Kjarni hans er, að í aðildarríkjunum er komið á fót sameiginlegum vörumarkaði. Á 12–15 árum skyldi koma á algeru tollabandalagi aðildarríkjanna. Þetta þýddi, að fella skyldi niður alla tolla og öll höft á viðskiptum milli aðildarríkjanna, en jafnframt taka upp sameiginlegan toll gagnvart löndum utan bandalagsins. Átti þetta að gerast í áföngum, sem hægt skyldi vera bæði að stytta og lengja. Reynslan hefur orðið sú, að þeir hafa verið styttir. Til þess að sem mestur árangur náist af hinum sameiginlega vörumarkaði, er gert ráð fyrir náinni efnahagssamvinnu á öðrum sviðum og sett ýtarleg ákvæði um sameiginlega stjórn bandalagsins. Þegar samningurinn er kominn til fullra framkvæmda, mega engin höft vera á hreyfingu vinnuafls, þjónustu og fjármagns. Marka skal sameiginlega stefnu á sviði landbúnaðarmála og sjávarútvegsmála. Hliðstætt á við um flutningamál. Tryggt skal, að samkeppni sé ekki takmörkuð. Aðildarríkin eiga að samræma stefnu sína á sviði efnahagsmála og löggjöf sína, að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er, til þess að reglurnar um sameiginlega markaðinn njóti sín. Komið skal á fót félagsmálasjóði, sem efli atvinnu, einkum í þeim iðngreinum og á þeim landssvæðum, þar sem sameiginlegi markaðurinn veldur röskun. Stofnaður skal fjárfestingarbanki, er hafi það hlutverk að veita lán til framkvæmda í lítt iðnvæddum landshlutum, draga úr aðlögunarerfiðleikum vegna tilkomu sameiginlega markaðarins og veita lán til stórframkvæmda, sem aðildarríkin hafa sameiginlegan áhuga á. Stjórn bandalagsins er í höndum þings, ráðs, framkvæmdastjórnar og dómstóls. Ákvörðunarvald er í höndum ráðsins; en í því eiga sæti fulltrúar ríkisstjórna aðildarríkjanna. Ráðið getur tekið bindandi ákvarðanir. Sé ágreiningur, ræður meiri hl. úrslitum í flestum málum. Hafa Frakkland, Ítalía og Þýzkaland þá fjögur atkvæði hvert, Belgía og Holland 2 atkv. hvort og Lúxemborg 1 atkv. Framkvæmdastjórnin hefur mikil völd og sterka aðstöðu til áhrifa á stefnu bandalagsins. Þinginu er fyrst og fremst ætlað eftirlit með gerðum framkvæmdastjórnarinnar.

Strax eftir undirritun Rómarsamningsins í marz 1957 komst mikill skriður á viðræður um viðskiptamál Vestur-Evrópu yfirleitt, og fóru þær fyrst og fremst fram innan Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu í París. Þegar á því ári hóf Efnahagssamvinnustofnunin að undirlagi Breta athugun á skilyrðum þess að tengja þetta nýja tollabandalag öðrum aðildarríkjum Efnahagssamvinnustofnunarinnar. Í ársbyrjun 1957 ákvað ráð Efnahagssamvinnustofnunarinnar að efna til viðræðu um stofnun svonefnds fríverzlunarsvæðis, sem tæki til allra aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunarinnar. Meginhugmyndin var sú, að öll ríki Efnahagssamvinnustofnunarinnar skyldu gera með sér viðskiptasáttmála þess efnis, að felldir yrðu niður tollar og höft á viðskiptum ríkjanna innbyrðis, en hverju ríki skyldi hins vegar frjálst að ákveða tolla sína gagnvart þeim ríkjum, er ekki stæðu að samkomulaginu.

Þessar viðræður innan Efnahagssamvinnustofnunarinnar báru ekki árangur, og lauk þeim seint á árinu 1958. Orsök þess, að þannig fór, má einkum telja, að aðildarríki Efnahagsbandalagsins og þó sérstaklega Frakkland kröfðust þess, að öll aðildarríki fríverzlunarsvæðisins tækju á sig svipaðar skuldbindingar og lönd Efnahagsbandalagsins hefðu tekið á sig. Til þessa voru ríkin, sem utan Efnahagsbandalagsins stóðu, og þó sér í lagi Bretland, ekki reiðubúin. Aðalágreiningsefnin voru samræming tollanna gagnvart löndum utan fríverzlunarsvæðisins, stefna í landbúnaðarmálum og það, hvernig stjórn fríverzlunarsvæðisins skyldi hagað. Efnahagsbandalagsríkin töldu nauðsynlegt, að um tollabandalag yrði að ræða, þ.e. bandalag, sem hefði sameiginlegan toll gagnvart löndum utan samtakanna, og vildu þau yfirleitt hafa efnahagssamvinnuna sem nánasta og viðtækasta og í sem mestu samræmi við ákvæði Rómarsáttmálans. Hin ríkin vildu hins vegar, að hin nýju samtök yrðu fríverzlunarsvæði, þar sem hvert land héldi tollum sínum gagnvart löndum utan samtakanna og þar sem samvinna á öðrum sviðum efnahagsmála yrði ekki eins náin og innan Efnahagsbandalagsins.

Þegar ljóst var orðið, að ekki mundi takast að koma á fót fríverzlunarsvæði allra aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunarinnar, hófu 7 af aðildarríkjum hennar viðræður sín í milli um stofnun Fríverzlunarbandalags. Þessi lönd voru Austurríki, Bretland, Danmörk, Noregur, Portúgal, Sviss og Svíþjóð. Þau náðu samkomulagi og undirrituðu sáttmála sín í milli í Stokkhólmi 4. jan. 1960.

Stokkhólmssáttmálinn svonefndi fjallar fyrst og fremst um afnám tolla og annarra viðskiptatálmana milli aðildarríkjanna. Ákvæði hans taka aðallega til viðskipta með iðnaðarvörur, en sérreglur gilda um viðskipti með landbúnaðarvörur og sjávarafurðir. Sumar sjávarafurðir, svo sem freðfiskur, eru þó taldar þar til iðnaðarvarnings, og gilda um viðskipti með þær sömu reglur og viðskipti með iðnaðarvörur, þótt sérreglur gildi að vísu um innflutning freðfisks til Bretlands. Tilgangurinn með stofnun Fríverzlunarbandalags sjöveldanna var tvíþættur. Annars vegar vildu aðildarríkin styrkja aðstöðu sína í samkeppninni við Efnahagsbandalagsríkin með því að veita hvert öðru tollalækkanir, sem sexveldin yrðu ekki aðnjótandi. Hins vegar vildu þau styrkja sameiginlega samningsaðstöðu sína, ef til þess kæmi, að reynt yrði að koma á allsherjarsamkomulagi um viðskiptamál í Vestur-Evrópu.

Með stofnun Fríverzlunarbandalagsins var Vestur-Evrópa klofin í tvær viðskiptaheildir. 13 aðildarríki Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu höfðu skipað sér í tvær fylkingar, 6 í aðra, en 7 í hina. 5 aðildarríki Efnahagssamvinnustofnunarinnar, Grikkland, Írland, Ísland, Spánn og Tyrkland, stóðu utan beggja bandalaganna. Finnar, sem eru ekki aðilar að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, sóttu brátt um aukaaðild að Fríverzlunarbandalaginu, og tókust samningar um það efni um mitt ár 1961.

Þegar á árinu 1961 hafði hvort bandalagið um sig lækkað tolla innbyrðis um 30%. Misræmið í tollum milli bandalaganna var því orðið tilfinnanlegt og hlaut að valda samdrætti í viðskiptum milli Evrópuþjóðanna frá því, sem ella hefði getað orðið, Í Vestur-Evrópu var þess vegna vaxandi hætta á efnahagssundrungu. Í kjölfar hennar mátti búast við sundrungu í stjórnmálum. Meðal stjórnmálamanna í Evrópu óx því mjög áhugi á, að reynt væri til þrautar að kanna, hvort ekki væri unnt að brúa það bil, sem skapazt hefði, og sameina Vestur-Evrópu á viðskiptasviðinu.

Á síðari hluta árs 1960 og fyrri hluta árs 1961 fóru fram ýtarlegar, en óformlegar viðræður milli Breta og Frakka um þessi mál. Að þeim viðræðum loknum ráðfærði stjórn Breta sig við stjórnir samveldislandanna og bandalagsþjóðir sínar í Fríverzlunarbandalaginu. Síðan lýsti MacMillan, forsætisráðherra Breta, því yfir í neðri málstofu brezka þingsins 31. júlí 1961, að ríkisstj. sín hefði í hyggju að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu samkv. 237. gr. Rómarsáttmálans. Í þessu fólst það, að brezka ríkisstj. teldi bandalagið ekki eiga að freista þess að ná samkomulagi sín í milli, heldur ætti hvert ríki um sig að sækja um þess konar aðild að bandalaginu, sem það teldi sér henta, þ.e. ýmist fulla aðild eða aukaaðild. Brezka stjórnin taldi tvenn rök liggja til grundvallar ákvörðun sinni. Annars vegar vildi hún koma í veg fyrir, að klofningur Evrópu í tvö viðskiptabandalög ylli frekari efnahagstjóni en orðið væri. Hins vegar vildi hún stuðla að stjórnmálaeiningu í Evrópu. Aðildarbeiðni Breta fylgdu hins vegar þau skilyrði, að viðhlítandi lausn yrði að finna á vandamálum varðandi viðskipti við samveldislöndin og í sambandi við brezkan landbúnað, og enn fremur, að öðrum aðildarríkjum Fríverzlunarbandalagsins yrði að stand.a til boða að öðlast tengsl við það með sanngjörnum kjörum.

Litlu síðar óskuðu bæði Danir og Írar fullrar aðildar að Efnahagsbandalaginu, og í maí s.l. sóttu Norðmenn um fulla aðild. Bandalagið féllst á að hefja viðræður við allar þessar þjóðir um fulla aðild þeirra að Efnahagsbandalaginu. Fyrstu viðræðufundirnir milli Efnahagsbandalagsins annars vegar og Breta og Dana hins vegar fóru fram í okt. 1961. Viðræðurnar við Breta stóðu síðan sleitulaust þar til í ágúst í sumar, er þeim var frestað vegna ýmissa ágreiningsefna, sem virtust torleyst. Þær hófust síðan á ný í október, eins og kunnugt er. Viðræður við Norðmenn eru að hefjast þessa dagana, og viðræður við Íra hefjast á næstunni.

Eins og kunnugt er, hefur Grikkland gerzt aukaaðili að bandalaginu, og viðræður um aukaaðild Tyrklands hafa staðið lengi. Nú nýlega hefur einnig náðst samkomulag um aukaaðild 18 Afríkuríkja, sem áður voru nýlendur Belga og Frakka. Í des. 1961 sóttu þau 3 aðildarríki Fríverzlunarbandalagsins, sem öll fylgja hlutleysisstefnu í utanríkismálum, þ.e. Austurríki, Sviss og Svíþjóð, um aukaaðild að Efnahagsbandalaginu samkv. 238. gr. Rómarsamningsins. Spánn hefur enn fremur sótt um aukaaðild, og Portúgal hefur æskt tengsla við bandalagið án þess að taka fram, á hvaða grundvelli þau skuli vera. Þrjú lönd utan Evrópu, Ísrael, Íran og Líbanon, hafa æskt viðræðna um tengsl við Efnahagsbandalagið, en engin ákvörðun hefur enn verið tekin um þær viðræður. Finnland er eina landið í Vestur-Evrópu fyrir utan Ísland, sem hefur ekki æskt tengsla við Efnahagsbandalagið.

Sökum þess að aukaaðildarsamningur Grikkja er eini samningur af því tagi, sem Evrópuþjóð hefur gert við Efnahagsbandalagið, þykir mér rétt að gera nokkra grein fyrir efni hans. Þessi samningur var undirritaður 9. júlí 1961 og gekk í gildi 1. nóv. s.l. Með honum var stofnað til tollabandalags milli Grikklands og Efnahagsbandalagsins. Grikklandi var þó veitt langt aðlögunartímabil, allt að 22 árum, til þess að fella niður tolla og höft á viðskiptum með iðnaðarvörur, sem framleiddar eru í landinu. Það fær framkvæmdalán að upphæð 125 millj. dollara til þess að örva efnahagsþróun í landinu. Það skuldbindur sig til þess að fylgja stefnu Efnahagsbandalagsins í landbúnaðarmálum. Framkvæmd samningsins er í höndum aukaaðildarráðs, þar sem Grikkland er aðili. Það á hins vegar ekki sæti í ráði Efnahagsbandalagsins og getur því engin bein áhrif haft á mótun og stefnu þess, nema að því er snertir tóbak, sem er ein helzta útflutningsvara Grikklands. Með samningsgerð þessari féllst Efnahagsbandalagið á, að Grikkland gæti ekki tekið á sig skuldbindingar Rómarsamningsins þegar í stað. Hins vegar er allur samningurinn við það miðaður, að Grikkir muni með tímanum verða færir um að taka á sig þessar skuldbindingar og munu þá gerast fullgildir aðilar. Aukaaðild Grikkja er því að vissu leyti tímabundin, enda þótt um þetta séu ekki bein ákvæði í samningnum. Austurríki, Sviss og Svíþjóð, sem sótt hafa um aukaaðild, hafa hins vegar lagt á það áherzlu, að þau æski þess, að aukaaðild þeirra sé varanleg.

Það, sem nú skiptir mestu máli varðandi framhald þeirrar þróunar í viðskiptamálum, sem ég hef verið að lýsa, er, hver niðurstaðan verður í samningaviðræðum Efnahagsbandalagsins og Breta. Þær umr. hafa nú staðið í rúmt ár, en í upphafi töldu Bretar, að viðræðurnar gætu tekið allt frá sex mánuðum til tveggja ára. Fyrr á þessu ári fóru Bretar fram á, að leitazt yrði við að ljúka samningaviðræðunum í höfuðatriðum fyrir mánaðamótin júlí–ágúst í sumar, þannig að niðurstaðan gæti verið kunn, er forsrh. brezka samveldisins kæmu saman til fundar í september. Þetta tókst ekki, svo sem kunnugt er. Fyrir fund forsætisráðherra samveldislandanna hafði þó tekizt að semja um ýmis veigamikil atriði, sem varða innflutning samveldislandanna til stækkaðs efnahagsbandalags. Margir forsætisráðherrar samveldisins töldu þá niðurstöðu engan veginn fullnægjandi á fundinum í sept. s.l. Niðurstaða þess fundar varð þó sú, að Bretar sjálfir yrðu að taka lokaákvörðun í málinu. Eftir fundinn hefur MacMillan forsrh. ítrekað þá skoðun sína, að bezta leiðin til þess að tryggja hagkvæma lausn á efnahagsvandamálum samveldislandanna sé sú, að Bretar gerist fullgildir aðilar að Efnahagsbandalaginu. Þing brezka íhaldsflokksins hefur síðan stutt þessa stefnu ríkisstj., og frjálslyndi flokkurinn er, eins og hann hefur lengi verið, mjög fylgjandi aðild Breta að Efnahagsbandalaginu. Á hinn bóginn er verkamannaflokkurinn þeirrar skoðunar, að samkomulag það, sem þegar hefur náðst, sé ófullnægjandi. Endanlega afstöðu sína mun verkamannaflokkurinn marka, þegar heildarsamkomulag liggur fyrir. Takist samningar á annað borð, má gera ráð fyrir, að það verði á þessum vetri og að aðild Breta muni þá öðlast gildi í ársbyrjun 1964.

Þrátt fyrir þá miklu erfiðleika, sem komið hafa í ljós í samningunum bæði á s.l. sumri og aftur nú í okt., eru í Evrópu taldar yfirgnæfandi líkur á því, að samningar Breta og Efnahagsbandalagsins muni takast. Mun þá verða mjög fast sótt á Efnahagsbandalagið af hálfu annarra þjóða í Vestur-Evrópu um að gerast annaðhvort fullgildir aðilar eða aukaaðilar. Flestir telja víst, að samningar takist mjög fljótlega þar á eftir milli Efnahagsbandalagsins og Dana. Hins vegar er talið, að samningar við Norðmenn og Íra muni vera meiri erfiðleikum bundnir. Bandalagið hefur ekki enn markað stefnu sína gagnvart hlutlausum löndum, sem sótt hafa um aukaaðild, né heldur gagnvart Spáni og Portúgal. Af þessu er ljóst, að mikill vafi er enn á um mörg atriði, sem miklu hljóta að skipta fyrir ákvörðun Íslendinga í þessu máli. Á hinn bóginn benda allar líkur til þess, að úr þessum vafamálum fáist skorið á næsta ári, og skilyrði munu þá skapast fyrir Íslendinga til að mynda sér rökstudda skoðun á því, hvernig þeir eigi að bregðast við þeim nýju viðhorfum, sem nú eru að myndast í þessum efnum.

Þá skal ég rekja, hvert hefur verið viðhorf íslenzkra stjórnarvalda til þeirrar þróunar, sem átt hefur sér stað í viðskiptamálum Vestur-Evrópu og ég hef nú lýst.

Ísland gerðist aðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu þegar við stofnun hennar. Sú aðild hefur verið okkur mikilvæg og reynzt okkur gagnleg á margan hátt. Á árunum 1948–1953 urðu Íslendingar aðnjótandi hinnar rausnarlegu efnahagsaðstoðar Bandaríkjanna. Íslendingar hafa margvíslegt hagræði af greiðslukerfi því, sem stofnunin kom á fót og leysti af hólmi þá tvíhliða viðskipta- og greiðslusamninga, sem áður höfðu verið grundvöllur milliríkjaviðskiptanna. Þetta kerfi hafði sérstaklega mikla þýðingu fyrir Íslendinga vegna þess, að okkur henta ekki mikil kaup í ýmsum þeirra landa, þar sem góður markaður er fyrir útflutningsvörur okkar. Þótt hægt miðaði í fyrstu, er þó nú þannig komið, að svo að segja öll aðildarríki Efnahagssamvinnustofnunarinnar hafa afnumið innflutningshöft á sjávarafurðum, öðrum en nýjum fiski. Að tillögu Íslendinga hafa verið gerðar ýtarlegar athuganir á sjávarútvegsmálum Vestur-Evrópu, og innan Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, sem nú hefur leyst Efnahagssamvinnustofnunina af hólmi, hefur verið komið á fót sérstakri sjávarútvegsmálanefnd, sem starfa skal stöðugt að athugunum á sjávarútvegsmálum aðildarríkjanna og stuðla að því, að viðskipti með sjávarafurðir verði sem frjálsust, en nefnd þessari var komið á fót að frumkvæði Íslands.

Loks er þess að geta, að Evrópusjóðurinn, sem er ein af stofnunum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, veitti Íslandi mikilvæga fjárhagsaðstoð í sambandi við þá endurskipulagningu á efnahagsmálum þjóðarinnar, sem hafin var 1960, með því að veita Íslandi lán gegn lágum vöxtum. Ísland hefur og orðið aðnjótandi margvíslegrar tækniaðstoðar frá Efnahags- og framfarastofnuninni.

Þegar bent er á það hagræði, sem Íslendingar hafa haft af aðild sinni að Efnahagsstofnuninni, verður þó einnig að hafa það í huga, að Íslendingum var lengi vel erfitt að sækja mál sitt af festu innan stofnunarinnar, vegna þess að þeir sjálfir höfðu litla viðleitni uppi til þess að koma á jafnvægi í efnahagsmálunum og afnema gjaldeyris- og innflutningshöft. Á þessu varð, svo sem kunnugt er, gagnger breyting á árinu 1960.

Bandaríkin og Kanada eru fullgildir aðilar að hinni nýju Efnahags- og framfarastofnun, er leysti Efnahagssamvinnustofnunina af hólmi á s.l. ári. Er stofnuninni ætlað að vinna að því nýja verkefni að samræma aðstoð aðildarríkjanna við lönd, sem skammt eru á veg komin í iðnþróun.

Þess er rétt að geta, að hin nýja stofnun mun ekki hafa sömu þýðingu fyrir viðskiptasamvinnu Evrópuríkjanna og fyrirrennari hennar, Efnahagssamvinnustofnunin, hafði. Ástæðan er sú, að helzta vandamálið, sem nú er við að etja á sviði efnahagsmála, lýtur að tollamálum, en hin nýja stofnun mun ekki frekar en fyrirrennari hennar fjalla um tollamál. Það viðfangsefni er á sviði viðskiptabandalaganna tveggja í Evrópu eða arftaka þeirra auk Alþjóðatollamálastofnunarinnar, GATT. Ísland hefur ekki gerzt aðili að Alþjóðatollamálastofnuninni og hefur því að sjálfsögðu engin áhrif getað haft á þær umr., sem þar hafa farið fram um lækkun tolla. Segja má, að á undanförnum árum hafi Ísland átt lítið erindi í alþjóðasamtök, sem hafa það að höfuðmarkmiði að vinna að lækkun tolla og innflutningsgjalda, þar sem Íslendingar hafa hvað eftir annað á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina þurft að hækka slík gjöld vegna óraunhæfs gengis. Á hinn bóginn hefur Ísland notið þeirra tollalækkana á útflutningsvörum sínum, sem orðið hafa í markaðslöndunum, vegna þess að í viðskiptasamningum okkar við þau hafa verið ákvæði um svonefnd beztu kjör báðum aðilum til handa. Vegna þeirra breytinga á efnahagsmálum þjóðarinnar, sem orðið hafa á síðustu árum, hefur nú skapazt grundvöllur fyrir aðild að Alþjóðatollamálastofnuninni, og tei ég, að taka ætti hana til athugunar, þegar þeirri endurskoðun á íslenzkri tollalöggjöf, sem unnið hefur verið að undanfarið, er að fullu lokið, en vonir hafa staðið til þess, að Alþingi það, er nú situr, geti fengið frv. til nýrrar tollskrár til meðferðar.

Íslenzk stjórnarvöld tóku þátt í þeim viðræðum, sem fram fóru innan Efnahagssamvinnustofnunarinnar árin 1957–1958 um stofnun fríverzlunarsvæðis allra aðildarríkja stofnunarinnar. Augljóst var, að þar var um að ræða mál, sem mjög snerti viðskiptahagsmuni Íslendinga. Ef keppinautar okkar í fiskútflutningi og markaðslönd okkar yrðu ein viðskiptaheild, en við stæðum utan hennar, hlaut aðstaða okkar í samanburði við keppinautana mjög að versna. Værum við hluti af slíku fríverzlunarsvæði, mundum við annars vegar öðlast frjálsan aðgang að mörkuðum þess, en hins vegar verða að fá viðurkenningu á sérstöðu okkar að ýmsu leyti. Átti það raunar ekki við um Ísland eitt, að sérstaða væri talin nauðsynleg. Grikkir, Írar, Portúgalsmenn og Tyrkir töldu sig einnig þurfa á ýmiss konar sérstöðu að halda, ef af stofnun fríverzlunarsvæðis yrði.

Árið 1958 flutti ég hinu háa Alþingi tvær skýrslur um þetta mál og rek því ekki einstök atriði þess nánar hér.

Fríverzlunarumræðurnar fóru út um þúfur í árslok 1958, svo sem ég hef þegar getið. Á það reyndi aldrei, hvort við hefðum getað fengið viðurkenningu á þeirri sérstöðu okkar, sem lögð hafði verið áherzla á. Mér er þó óhætt að segja, að í undirbúningsviðræðum virtist ríkja skilningur á sérstöðu okkar, sem og þeirra landa annarra, er ég nefndi.

Þegar hafinn var undirbúningur að stofnun Fríverzlunarbandalags sjöveldanna, var Íslendingum ekki boðið að taka þátt í þeim undirbúningi og ekki heldur Grikkjum, Írum og Tyrkjum. Var sú afstaða sjöveldanna eðlileg með tilliti til þeirrar sérstöðu, sem við höfðum haft, og eins með tilliti til þess, að Fríverzlunarbandalaginu var fyrst og fremst ætlað að vera fríverzlunarsvæði fyrir viðskipti með iðnaðarvörur og ekki ætlað að taka nema að takmörkuðu leyti til landbúnaðar- og sjávarafurða.

Stofnun viðskiptabandalaganna tveggja gat í fyrstu ekki haft mikil áhrif á utanríkisviðskipti Íslendinga. Stafaði þetta af því, að tollalækkanir innan bandalaganna áttu sér stað smám saman, og hins vegar skyldi sameiginlegur tollur Efnahagsbandalagsins á sjávarafurðir ekki byrja að koma til framkvæmda fyrr en í ársbyrjun 1962. Þar að auki mátti búast við, að nokkur dráttur yrði á því, að bandalögin mörkuðu stefnu sína í sjávarútvegsmálum.

Ríkisstj. taldi því rétt að bíða átekta um skeið, en láta vinna hér innanlands að athugunum á áhrifum þessara nýju viðhorfa í íslenzkri utanríkisverzlun á íslenzkan þjóðarbúskap yfirleitt. Komst skriður á þetta starf síðari hluta sumars 1960, og var það unnið á vegum þeirrar embættismannanefndar, sem komið hafði verið á fót í sambandi við fríverzlunarumræðurnar árið 1957.

Eins og ég minntist á áðan, fóru áhyggjur manna í Vestur-Evrópu vegna viðskiptaklofningsins vaxandi, eftir því sem tollalækkuninni innan bandalaganna miðaði áfram. Í ársbyrjun 1961 var talið, að í undirbúningi væru viðræður um einhvers konar sameiningu bandalaganna. Ríkisstj. tók þá til athugunar, hvort ráðlegt væri að leita aðildar að Fríverzlunarbandalaginu. Tilgangurinn hefði fyrst og fremst verið sá að öðlast samstöðu með fríverzlunarbandalagslöndunum í samningum við Efnahagsbandalagið, svo og að leita innan Fríverzlunarbandalagsins hagkvæmrar lausnar á sérstökum vandamálum okkar í því skyni, að sú lausn yrði fordæmi, er lagt yrði til grundvallar í samningum við Efnahagsbandalagið. Það mælti einnig með því, að þessi möguleiki væri athugaður, að Fríverzlunarbandalagið hafði afráðið að hefja umr. um stefnu sína í sjávarútvegsmálum á árinu 1961 og að í samningum Finna við Fríverzlunarbandalagið hafði tekizt að finna lausn á vandamálum þeirra, að því er snerti viðskipti við Austur-Evrópu, er hugsanlega gætu orðið okkur fordæmi.

Í sambandi við þessar athuganir áttu íslenzkir embættismenn óformlegar könnunarviðræður við embættismenn nokkurra aðildarríkja Fríverzlunarbandalagsins og framkvæmdastjórn þess.

Þegar komið var fram í maí, var hins vegar orðið ljóst, að Fríverzlunarbandalagið mundi ekki semja sem heild við Efnahagsbandalagið, heldur mundu einstök lönd þess hvert um sig leita aðildar að Efnahagsbandalaginu og freista þess að fá hvert í sínu lagi lausn á sérvandamálum sínum, þótt gert væri að vísu ráð fyrir, að þau hefðu samráð sín í milli. Þegar svo var komið, taldi ríkisstj. það ekki geta verið til gagns, að Ísland leitaði aðildar að Fríverzlunarbandalaginu, og var athugun málsins því hætt.

Þess má geta, að umr. um sjávarútvegsmál innan Fríverzlunarbandalagsins var frestað, þegar ljóst varð, hvert stefndi.

Með tilliti til þeirra nýju viðhorfa, sem voru að skapast í þessum málum, ákvað ríkisstj. í maí 1961 að leita um þau samráðs við helztu hagsmunasamtök í landinu. Hafa síðan verið haldnir fundir með fulltrúum þessara samtaka, þar sem þeim hefur verið kynnt viðhorf málanna og þeir hafa gert grein fyrir sjónarmiðum sínum. Um mitt s.l. ár, þegar vitað var, að Bretar og Danir höfðu afráðið að sækja um aðild að Efnahagsbandalaginu, var ekki álitið ósennilegt, að hinar ýmsu þjóðir Vestur-Evrópu mundu eiga samleið í viðskiptum sínum við Efnahagsbandalagið og þær færu fram samtímis. Ríkisstj. taldi því rétt, að Íslendingar byggju sig undir að geta tekið þátt í slíkum viðræðum, ef til kæmi. Þess vegna var leitað álits hagsmunasamtakanna á því, hvort Ísland ætti að leita viðræðna um tengsl við bandalagið, að sjálfsögðu þó án allra skuldbindinga. Voru fulltrúar hagsmunasamtakanna, að undanskildum fulltrúa Alþýðusambands Íslands, hlynntir því, að svo yrði gert. Reyndin varð hins vegar sú, að engar sameiginlegar viðræður fóru fram, heldur viðræður milli Efnahagsbandalagsins og hvers einstaks ríkis, sem um aðild eða önnur tengsl hafði sótt. Ríkisstj. taldi því ekki ástæðu til að hafast frekar að í málinu að sinni.

Í septembermánuði 1961 sátum við hæstv. fjmrh. Gunnar Thoroddsen ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, sem þá var haldinn í Vínarborg. Ákveðið hafði verið að reyna að nota þetta tækifæri til viðræðna við prófessor Erhard, efnahagsmálaráðh. Þýzkalands, og embættismenn hans um vandamál þau, er stofnun viðskiptabandalaganna bakaði Íslandi.

Vegna þingkosninganna í Þýzkalandi kom prófessor Erhard ekki til Vínarborgar, en bauð okkur hins vegar að koma til Bonn til viðræðna þar. Hinn 28. sept. 1961 áttum við Gunnar Thoroddsen, ásamt Jónasi H. Haralz og Pétri Thorsteinsson sendiherra, fund með prófessor Erhard og ýmsum þýzkum embættismönnum. Kynntum við þeim þau vandamál, sem Íslandi væru á höndum í þessum efnum. Af hálfu Þjóðverja kom fram mikill skilningur á þessum vandamálum. Að loknum viðræðunum voru báðir aðilar á einu máli um, að æskilegt væri, að frekari viðræður ættu sér stað milli embættismanna til skýringar á ýmsum atriðum. Fóru þær viðræður fram í Bonn í nóvemberlok 1.961, og tóku þátt í þeim af Íslands hálfu þeir Jónas H. Haralz, Pétur Thorsteinsson, Sigtryggur Klemenzson, Davíð Ólafsson og Einar Benediktsson. Að þessum viðræðum við Þjóðverja loknum ákvað ríkisstj. að fylgja þeim eftir með viðræðum við fulltrúa annarra aðildarríkja Efnahagsbandalagsins og framkvæmdastjórn þess. Tilgangur þeirra viðræðna skyldi vera að kynna vandamál Íslands vegna stofnunar Efnahagsbandalagsins og væntanlegrar stækkunar þess. Engar tillögur skyldi gera um hugsanlega lausn á þessum vandamálum, en leitast við að kynnast þeim sjónarmiðum, sem uppi væru innan aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar í þeim efnum, er mest snertu þessi vandamál.

Þegar eftir að þingi lauk á s.l. vori, fór ég þess vegna ásamt Jónasi H. Haralz í þessu skyni til Parísar og Rómar. Í París ræddum við ásamt Hans G. Andersen sendiherra við utanrrh. Frakka, Couve de Murville, og franska embættismenn og í Róm við viðskmrh. Ítalíu, Colombo, og aðstoðarráðherra þann, sem fer með utanríkisviðskipti, Stronchi, ásamt ítölskum embættismönnum. Um mánaðamótin júní-júlí fóru síðan fram viðræður við ráðherra og embættismenn í Hollandi, Belgíu, Lúxemborg og Þýzkalandi og við meðlimi framkvæmdastjórnar Efnahagsbandalagsins í Brüssel. Í Haag var rætt við de Yous efnahagsmálaráðherra og hollenzka embættismenn. Í Brüssel var rætt við Fayat aðstoðarutanrrh., sem fer með málefni Efnahagsbandalagsins í belgísku ríkisstj., og í Lúxemborg við Schaus utanríkisráðherra. Í Bonn var enn rætt við prófessor Erhard efnahagsmálaráðherra og embættismenn úr ráðuneyti hans, sem og við Lahr ráðuneytisstjóra í utanrrn. og aðra þýzka embættismenn. Þeir meðlimir framkvæmdastjórnar Efnahagsbandalagsins, sem rætt var við í Brüssel, voru prófessor Walter Hallstein, forseti framkvæmdastjórnarinnar, Jean Rey, sá af framkvæmdastjórunum, sem fer með málefni landa utan bandalagsins, og dr. Sicco Mansholt, varaforseti framkvæmdastjórnarinnar og sá af meðlimum hennar, sem fjallar um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál. Auk mín tók Jónas H. Haralz þátt í viðræðunum og sömuleiðis sendiherrar Íslands hjá hlutaðeigandi ríkjum, Henrik Sv. Björnsson í Hollandi, Pétur J. Thorsteinsson í Belgíu og Lúxemborg og við framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins og Magnús V. Magnússon í Bonn.

Í öllum þessum viðræðum var gerð ýtarleg grein fyrir þeim vandamálum, sem stofnun Efnahagsbandalagsins og stækkun þess hlýtur að hafa í för með sér fyrir utanríkisviðskipti Íslendinga, og skýrð nauðsyn okkar á því að halda viðskiptatengslum okkar við Efnahagsbandalagssvæðið. Engar tillögur voru af Íslands hálfu gerðar um það, hvernig ráða ætti fram úr þessum vanda, en á hinn bóginn komu fram af hálfu fulltrúa aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar ýmis atriði, er miklu máli skipta við mat þeirra leiða, er til greina koma.

Mér er óhætt að fullyrða, að hjá öllum þeim aðilum, sem við var rætt, hafi komið fram mikill skilningur á vandamálum Íslands og þeirri sérstöðu, sem Íslendingar hljóta að hafa vegna fámennis og einhæfra atvinnuhátta.

Þá er og rétt að geta þess, að vandamál Íslands hafa verið kynnt og skýrð á fundum viðskiptamálaráðherra Norðurlanda, en þeir hafa haft með sér mjög náið samband undanfarin ár, einmitt vegna þróunarinnar í viðskiptamálum Vestur-Evrópu. Málið hefur og verið rætt á öðrum norrænum ráðherrafundum, á fundum efnahagsmálanefndar Norðurlandaráðs og á fundum norrænna embættismanna. Undanfarin tvö ár hafa yfirleitt farið fram miklar athuganir og umr, á Norðurlöndum um vandamál þeirra í sambandi við tengsl við Efnahagsbandalagið, og hefur af okkar hálfu verið vandlega fylgzt með þeim.

Að tillögu Íslands var komið á fót sérstakri norrænni embættismannanefnd til þess að kynna sér vandamál sjávarútvegsins í sambandi við tengsl við Efnahagsbandalagið. Önnur norræn embættismannanefnd hefur fjallað um vandamál á sviði atvinnurekstrarréttinda og fjármagnshreyfinga.

Á s.l. vori var ákveðið að koma þeim athugunum, sem unnið hafði verið að hér heima, á breiðari grundvöll, þannig að fulltrúar hagsmunasamtaka gætu tekið þátt í þeim. Voru því stofnaðir starfshópar, er í áttu sæti fulltrúar hagsmunasamtaka ásamt embættismönnum, og skyldu þeir fjalla um vandamálin á einstökum sviðum. Eru þessir starfshópar fimm að tölu og fjalla um sjávarútvegsmál, iðnaðarmál, landbúnaðarmál, félags- og vinnumarkaðsmál og viðskipta- og tollamál. Hafa þeir gert ýtarlegar athuganir á því, hvaða erfiðleika stofnun og væntanleg stækkun Efnahagsbandalagsins mundi hafa í för með sér fyrir Íslendinga á hinum ýmsu sviðum, ef við stæðum utan bandalagsins, og hvaða vandamál hugsanleg tengsl okkar við bandalagið mundu hafa í för með sér. Sumum þessum athugunum er nú að mestu eða öllu lokið, en aðrar eru komnar skemmra á leið. Verður þeim haldið áfram, og munu þeir fulltrúar hagsmunasamtakanna, sem ég gat um áðan, fylgjast með framvindu málsins framvegis eins og hingað til.

Þá hefur embættismannanefnd sú, sem ég einnig gat um áðan, stöðugt haldið áfram störfum. Á hennar vegum hefur undanfarið aðallega verið unnið að ýtarlegum athugunum á þeim vandamálum, er snerta réttindi til atvinnurekstrar, þjónustustarfsemi og frjálsar hreyfingar fjármagns og vinnuafls. Er þessum athugunum að mestu lokið.

Ég skal nú gera grein fyrir þeim vandamálum, sem Íslendinga bíða vegna stofnunar og stækkunar Efnahagsbandalagsins.

Fari svo, að Bretar verði aðilar að Efnahagsbandalaginu, má telja líklegt, að flest eða öll önnur Vestur-Evrópuríki komi í kjölfar þeirra og tengist Efnahagsbandalaginu, annaðhvort sem fullgildir aðilar eða aukaaðilar. Fyrir þau lönd, sem utan Efnahagsbandalagsins standa, hefur þetta fyrst og fremst þá þýðingu, að tollar Efnahagsbandalagsins munu þá koma í stað þeirra tolla, sem nú gilda í Vestur-Evrópu, en tollar falla niður og viðskiptahöft verða afnumin milli þeirra ríkja innbyrðis, sem í Efnahagsbandalaginu eru.

Undanfarin ár hefur yfirleitt 40–50% af vöruútflutningi Íslendinga farið til Vestur-Evrópu, og árið 1961 fóru 61% útflutningsins þangað. Þessi útflutningur er auðvitað að langmestu leyti sjávarafurðir. Áhrif þeirra breytinga, sem tollur Efnahagsbandalagsins á sjávarafurðir mun hafa í för með sér, hafa verið athuguð gaumgæfilega. Hinn sameiginlegi tollur Efnahagsbandalagsins á sjávarafurðir er yfirleitt miklu hærri en þeir tollar, sem nú eru í gildi í helztu viðskiptalöndum okkar, og okkur því mjög óhagstæður. Áhrif þess eru enn alvarlegri, þegar það er haft í huga, að innan Efnahagsbandalagsins verða væntanlega þær þjóðir, sem auk Íslendinga eru helztu framleiðendur sjávarafurða í Vestur-Evrópu. Innan Efnahagsbandalagsins munu þessar þjóðir fá bætt skilyrði til þess að auka framleiðslu sína á þessu sviði vegna verndartollanna á sjávarafurðum, auk þess sem einnig er hugsanlegt, að um einhver innflutningshöft verði að ræða.

Þá skal ég gera nánari grein fyrir, hver aðstaðan verður fyrir helztu útflutningsafurðir okkar.

Á nýjum fiski verður 15% tollur og 20% á nýrri síld. Þegar sameiginleg stefna Efnahagsbandalagsins í sjávarútvegsmálum verður mörkuð, er auk þess ekki ósennilegt, að settar verði reglur, er geri ríkjum utan bandalagsins örðugra að landa þar nýjum fiski en nú er. Á saltfiski og skreið verður 13% tollur, en nú er enginn tollur á þessum vörum á Ítalíu og í Portúgal.

Fyrst í stað má gera ráð fyrir, að leyft verði að flytja inn nokkurt magn af þessum vörum til Efnahagsbandalagssvæðisins tollfrjálst með veitingu svonefndra tollkvóta. En ekki er hægt að búast við, að slíkir tollkvótar verði lengi í gildi. Saltfisks- og skreiðarmarkaðir okkar í Vestur-Evrópu yrðu þá í hættu fyrir keppinautum okkar á þessu sviði, Norðmönnum, Dönum og Frökkum, nema við létum okkur lynda að selja vörur okkar á 13% lægra verði en þeir. Á saltsíld verður 12–23% tollur. Ekki er ósennilegt, að um innflutningshöft geti einnig orðið að ræða á þessari vöru. Ef Svíar yrðu aukaaðilar að bandalaginu, væri saltsíldarmarkaður okkar í Svíþjóð í alvarlegri hættu, ef við stæðum utan bandalagsins, og vonir okkar um aukinn saltsíldarútflutning til annarra landa Vestur-Evrópu yrðu að engu. Á freðfiski og freðsíld verður hvorki meira né minna en 18% tollur. Freðfisksútflutningur okkar til Bretlands hefur farið mjög vaxandi undanfarin ár, og vonir hafa staðið til þess, að sala freðfisks til meginlands Evrópu gæti aukizt mjög á næstu árum. Íslenzkir freðfisksútflytjendur hafa undanfarið unnið dyggilega að því að auka sölu sína á þessum mörkuðum og lagt í verulegan kostnað í því skyni. Það er samhljóða álit þeirra, að hvergi í heiminum séu jafnmiklir möguleikar á aukinni sölu freðfisks á næstu árum og einmitt í Vestur-Evrópu, vegna þess að þar standi nú fyrir dyrum sams konar breyting í greiningu matvæla og neyzluvenjum og átt hefur sér stað í Bandaríkjunum síðustu 20 árin. Ekki er ósennilegt, að í skjóli hinnar miklu tollverndar Efnahagsbandalagsins muni frysting í skipum ryðja sér til rúms í Bretlandi og Þýzkalandi og frystiiðnaður í landi eflast mjög í Danmörku og Noregi. Freðfiskiðnaður Íslendinga er nú stærri en nokkurs annars Evrópuríkis. Það er hins vegar augljóst, að standi Íslendingar utan Efnahagsbandalagsins, kemur 18% tollur algerlega í veg fyrir, að íslenzkur frystiiðnaður njóti góðs af stækkandi markaði fyrir frystar vörur í Vestur-Evrópu. Á niðursoðnum sjávarafurðum verður tollur mjög hár, 20–25%. Slíkur tollur mundi að sjálfsögðu gera okkur ókleift að afla markaðs fyrir niðursoðnar vörur í Vestur-Evrópu. Á fiskimjöli og lýsi verður sameiginlegi tollurinn aðeins 4–5%. Á því sviði verður því röskunin minnst, Þó er þess að geta, að þessar vörur eru að langmestu leyti seldar til Vestur-Evrópu og tollurinn mundi valda því, að við fengjum 4–5% lægra verð fyrir þessar afurðir okkar heldur en t.d. Norðmenn, ef þeir væru innan bandalagsins, en við stæðum utan þess. Reiknað hefur verið út, að tollur á útflutningi Íslands á sjávarafurðum til Vestur-Evrópu hefði numið 11% árið 1961, ef tollur Efnahagsbandalagsins hefði þá verið kominn á að fullu, og þau lönd, sem sótt hafa um aðild eða aukaaðild, hefðu tengzt Efnahagsbandalaginu. Með núverandi gengi hefði tollurinn numið um 180 millj. kr. Áætlað hefur verið, að tollur á þennan útflutning hefði numið 6% að meðaltali samkv. þeim tollum, er áður giltu. Tollur Efnahagsbandalagsins veldur þess vegna því, að meðaltalstollurinn, sem Íslendingar verða að greiða af útflutningi sínum til Vestur-Evrópu, mun næstum því tvöfaldast. Erfitt er að segja, hver aðstaða landbúnaðarafurðanna verður, fyrr en samningum Breta við Efnahagsbandalagið er lokið og stefna Efnahagsbandalagsins í landbúnaðarmálum hefur verið mörkuð að fullu. Útflutningur okkar á landbúnaðarafurðum fer nú að langmestu leyti til þeirra landa, er væntanlega verða innan stækkaðs Efnahagsbandalags. Sá útflutningur hlyti að verða miklum erfiðleikum bundinn, ef ekki með öllu útilokaður, ef við stæðum utan bandalagsins. Á hinu væntanlega bandalagssvæði er hins vegar mikill markaður fyrir helztu útflutningsvöru landbúnaðarins, kindakjötið.

Vandamál Íslands í sambandi við stækkun og stofnun Efnahagsbandalagsins eru ekki einvörðungu þau, að tollur mundi stórvaxa á útflutningi okkar þangað og hann auk þess sumpart verða torveldaður með höftum eða öðrum viðskiptatálmunum. Það er augljóst, að eigi þjóðarframleiðslan að geta vaxið á næstu árum og áratugum svo ört sem nauðsynlegt er, til þess að lífskjör geti hér batnað a.m.k. til jafns við það, sem líklegt má telja í nágrannalöndum, þá er nauðsynlegt að koma hér á fót nýjum iðngreinum, sem framleiða útflutningsvörur. Ef við stæðum utan bandalagsins, liggur í augum uppi, hverjir erfiðleikar yrðu á að koma hér á fót iðnaði til framleiðslu á vörum, sem selja ætti í Vestur-Evrópu, ef um er að ræða vörur, sem Efnahagsbandalagið leggur toll á. Má nefna alúminíumframleiðslu sem dæmi í þessu sambandi. Tollur Efnahagsbandalagsins á alúminíum hefur verið ákveðinn 9%. Í viðræðum sínum við Efnahagsbandalagið hafa Bretar að vísu lagt áherzlu á, að þessi tollur verði lækkaður og helzt afnuminn. En ósennilegt er talið, að Efnahagsbandalagið fallist á annað en tiltölulega litla lækkun. En verði tollurinn á alúminíum svipaður og nú hefur verið ákveðið og standi Ísland utan Efnahagsbandalagsins, kæmi stofnun alúminíumverksmiðju á Íslandi til framleiðslu fyrir Evrópumarkað varla til greina.

Um það getur ekki verið ágreiningur, að Íslendingar mundu missa mikla markaði í Vestur-Evrópu, ef ekki tekst samstarf við Efnahagsbandalagið í einhverri mynd. En þá má spyrja, hvaða skilyrði Íslendingar hafi til þess að afla sér markaða utan Vestur-Evrópu í stað þeirra, sem þar töpuðust.

Í Bandaríkjunum eiga Íslendingar, svo sem kunnugt er, mikinn og góðan markað fyrir freðfisk. Þótt vonir standi til, að sá markaður fari stækkandi, getur hann ekki tekið við mjög auknu magni á skömmum tíma, án þess að af því leiddi verðfall, og engar horfur eru á, að freðfisksmarkaður í Bandaríkjunum á næstu árum vaxi eins ört og Evrópumarkaðurinn, þar eð þær breytingar í þessum efnum, sem nú eru fram undan í Evrópu, hafa þegar átt sér stað í Bandaríkjunum.

Skilyrði eru án efa á því að auka sölu skreiðar og saltfisks í löndum Afríku og Mið- og Suður-Ameríku. Mjög er hins vegar hætt við því, að aukin sala til þessara landa yrði að vera á jafnkeypisgrundvelli að meira eða minna leyti. En slíkum viðskiptum væru settar þröngar skorður vegna þess, hversu litlar þarfir við höfum fyrir þær vörur, sem þessi lönd framleiða. Því má ekki heldur gleyma, að markaður í þessum löndum er fremur þröngur og ekki í örum vexti og að þessi lönd sjálf keppa nú mjög að því að auka eigin fiskveiðar sínar. Útflutningur til Austur-Evrópulanda getur aðeins átt sér stað á grundvelli jafnvirðiskaupa. Aðalerfiðleiki Íslendinga í viðskiptunum við Austur-Evrópu hefur ætíð verið sá að finna þar nógu mikið af vörum, sem henta okkur og við getum keypt þar á eðlilegu verði. Við flytjum nú inn ýmsar vörur frá Austur-Evrópu, sem uppfylla ekki þær kröfur, sem gerðar eru hér á landi til gæða og útlits. Og fyrir þessar vörur verðum við stundum að greiða verð, sem er allmiklu hærra en annars staðar í heiminum.

Þótt viðskipti við Austur-Evrópuríkin og þá ekki sízt Sovétríkin hafi verið okkur mikilvæg og það hljóti að vera stefna okkar, að þau geti haldið áfram, þá verðum við að gera okkur ljóst, að einmitt vegna þess, að þau eru á jafnkeypisgrundvelli og hversu úrval þeirrar vöru, sem okkur hentar, er lítið í þessum löndum, þá eru skilyrðin til aukningar á þessum viðskiptum takmörkuð.

Það er skoðun ríkisstj., að ekki sé unnt að draga nema eina ályktun af þeim staðreyndum, sem ég hef nú lýst, sem sé þá, að Íslandi sé á því brýn nauðsyn að tengjast Efnahagsbandalagi Evrópu með einhverjum þeim hætti, sem gerir okkur kleift að selja afurðir okkar til Vestur-Evrópu á grundvelli jafnréttis við aðra framleiðendur álfunnar. Ef ekki verður um slík tengsl að ræða, hlýtur efnahagur okkar að verða fyrir miklu áfalli og horfur á aukinni velmegun og bættum lífskjörum hér á landi á komandi áratugum að verða stórum verri en ella. Þetta eru efnahagsrökin, sem liggja til grundvallar skoðunum ríkisstj. í þessu máli.

Auk þeirra má svo nefna önnur rök fyrir nauðsyn tengsla við Efnahagsbandalagið, og eru þau í rauninni sízt veigaminni. En þau eru, að það væri Íslendingum hættulegt að einangrast á sviði viðskipta- og efnahagsmála frá þeim þjóðum, sem eru okkur skyldastar og standa okkur næst á sviði menningar- og stjórnmála. Slíkri einangrun mundi bráðlega fylgja einangrun á öðrum sviðum. Þróun í þá átt yrði Íslendingum ekki til góðs, hvorki í bráð né lengd.

En þótt Íslandi sé brýn nauðsyn á tengslum við Efnahagsbandalagið, telur ríkisstj. á hinn bóginn þau tengsl ekki mega vera með þeim hætti, að umráðum okkar yfir atvinnulífi landsins og auðlindum þess sé á neinn hátt stefnt í nokkra hættu né heldur menningu okkar og þjóðerni. Rómarsamningurinn er mótaður af því meginsjónarmiði, að fullt jafnrétti skuli ríkja milli borgara aðildarríkjanna að því er snertir rétt til atvinnurekstrar, atvinnu og fjárfestingar hvar sem er á bandalagssvæðinu. Markmið þessarar grundvallarreglu er að sjálfsögðu, að sem mestur efnahagsárangur hljótist af því að koma sameiginlega markaðinum á fót. En skilyrðislaust jafnrétti hlýtur að fela í sér mikla hættu fyrir litla þjóð, sem á sér gamla arfleifð og býr við sérstæða menningu, en er að ýmsu leyti skammt á veg komin í þróun atvinnuvega sinna og byggir auk þess afkomu sína að verulegu leyti á forgengilegum náttúrusuðlindum. Í raun og sannleika er aldrei um að ræða fullt jafnrétti milli hins veika og sterka. Það er einmitt einn af hornsteinum þroskaðra þjóðfélagshátta á Vesturlöndum, að hinn veiki er varinn fyrir misbeitingu valds, er leitt gæti af óskoruðu jafnrétti hins sterka og veika. Á hliðstæðan hátt hlýtur smáþjóð eins og Íslendingar að telja sér nauðsyn á að vernda sig, ef hún tekur upp náin efnahagstengsl við miklu stærri og sterkari þjóðir. Rómarsamningurinn gerir ekki beinlínis ráð fyrtr slíkum vandamálum, enda bar þau ekki verulega á góma meðal þeirra ríkja, sem stofnuðu Efnahagsbandalagið í upphafi. Þó var sérstaða minnsta ríkisins, Lúxemborgar, viðurkennd á tveim mikilvægum sviðum með sérstökum bókunum eða fyrirvörum við undirskrift Rómarsamningsins. Vandamál okkar Íslendinga er fólgið í því, að við þurfum annars vegar að ná þeim viðskiptatengslum við Efnahagsbandalagið, sem eru okkur nauðsynleg, en hins vegar að fá tryggingu fyrir því, að jafnréttisákvæði Rómarsamningsins geti ekki orðið okkur að fjörtjóni. Auk þess þarf að finna lausn á þeim vandamálum, sem leiðir af mikilli tollvernd viss hluta íslenzks iðnaðar og hinum tiltölulega miklu viðskiptum okkar við jafnkeypislönd. Hér er um flókin og erfið vandamál að ræða, svo flókin og erfið, að engin lausn á þeim er auðveld, hversu góður vilji, sem ríkjandi væri á báða bóga.

Ég skal þá gera grein fyrir, hvernig tengsl Íslands við Efnahagsbandalagið gætu hugsanlega orðið. Nauðsynlegt er að byrja þá grg. með því að taka fram, að á þessu stigi málsins er ekki hægt að segja um það með vissu, hvað hver tegund tengsla felur í sér. Úr því getur ekki fengizt skorið, fyrr en ýmis atriði í samningum Efnahagsbandalagsins og þeirra ríkja, sem sótt hafa um aðild eða aukaaðild, hafa verið til lykta leidd. Einmitt af þessari ástæðu telur ríkisstj. ekki tímabært að taka nú neina ákvörðun í málinu. Þrátt fyrir það tel ég gagnlegt að gera grein fyrir, hverjar eru í aðalatriðum leiðir þær, sem til greina koma.

Ríki getur í grundvallaratriðum tengzt Efnahagsbandalaginu á þrennan hátt: með fullri aðild, aukaaðild og viðskiptasamningum um gagnkvæma lækkun tolla og afnám innflutningshafta á grundvelli sáttmála Alþjóðatollamálastofnunarinnar, GATT. Ég skal nú ræða hverja af þessum leiðum um sig.

Viðskiptaerfiðleikarnir, sem við er að etja, mundu að sjálfsögðu leysast á gagngerastan hátt, ef Ísland gerðist fullgildur aðili að Efnahagsbandalaginu. Við losnum þá við greiðslu tollsins, engar tálmanir yrðu á útflutningi okkar til alls Efnahagsbandalagssvæðisins, sameiginlegi markaðurinn opnaðist okkur að fullu. En því hagræði fylgdi einnig, að Íslendingar yrðu að taka á sig skuldbindingar Rómarsáttmálans, ef ekki að öllu, þá a.m.k. að langmestu leyti. Þær undanþágur, sem við kynnum að geta fengið frá ákvæðum Rómarsamningsins samfara fullri aðild, yrðu sennilega annaðhvort að vera tímabundnar eða mjög almenns eðlis. Reglur Rómarsáttmálans um jafnan rétt til atvinnurekstrar hvarvetna á bandalagssvæðinu og um frjálsar hreyfingar fjármagns og vinnuafls, yrðu því sennilega að taka til Íslands að langmestu leyti, ef um fulla aðild væri að ræða. Enn er ekki vitað með vissu, hvernig reglurnar um jafnan rétt til atvinnurekstrar verða túlkaðar, að því er snertir rétt einstakra þjóða til að hafa eigin fiskveiðilögsögu. En Íslendingar gætu að sjálfsögðu aldrei tekið á sig þá kvöð að veita borgurum og fyrirtækjum annarra ríkja sama rétt og Íslendingum til veiða innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu, þar eð slíkt gæti á skömmum tíma haft í för með sér eyðingu fiskimiðanna við landið og kippt þar með grundvellinum undan aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. Telja má næstum víst, að ekki sé unnt að fá fullnægjandi fyrirvara á þessum sviðum samfara fullri aðild. Ríkisstj. telur þess vegna fulla aðild að Efnahagsbandalaginu ekki koma til greina.

Þá skal ég ræða aðra leiðina, sem ég nefndi, aukaaðild að Efnahagsbandalaginu. Í 238. gr. Rómarsamningsins er ráð fyrir því gert, að ríki geti leitað aukaaðildar að Efnahagsbandalaginu. En hvorki sú grein né aðrar greinar samningsins kveða nánar á um, hvað í aukaaðild felist. Ljóst er af ummælum forustumanna Efnahagsbandalagsins, að þeir telja aukaaðildarsamninga geta verið með ýmsum hætti og geta falið í sér mikil tengsl eða lítil tengsl, eftir því sem ástæður þykja til. Eini aukaaðildarsamningurinn, sem gerður hefur verið, er samningur Grikkja við Efnahagsbandalagið. Með þeim samningi hafa Grikkir tekið á sig ýmsar mikilvægar kvaðir Rómarsáttmálans án mikilla fyrirvara, og samningurinn í heild er við það miðaður, að Grikkir öðlist fulla aðild að bandalaginu, þegar efnahagslíf þeirra er talið hafa náð nægilegum þroska. Vandamál Grikkja eru fyrst og fremst afleiðing þess, að iðnþróun er skammt á veg komin í landi þeirra, en landbúnaður er aðalatvinnuvegurinn. Samningurinn við Grikki ber vott um vilja Efnahagsbandalagsins til að leysa vandamál þeirra ríkja, sem skammt eru á veg komin í þróun efnahagsmála sinna og geta ekki tekið á sig allar kvaðir fullrar aðildar að sinni. Á hinn bóginn eru vandamál Íslendinga í grundvallaratriðum svo ólík vandamálum Grikkja, að aukaaðildarsamningur þeirra gæti ekki nema að mjög takmörkuðu leyti orðið fyrirmynd að hugsanlegum aukaaðildarsamningi Íslendinga.

Ef Íslendingar hygðust leysa vanda sinn á grundvelli aukaaðildar, yrði grundvallaratriði slíks aukaaðildarsamnings að vera um tollabandalag Íslands og Efnahagsbandalagsins, þannig að Íslendingar nytu tollfrelsis við útflutning sinn til aðildarríkja Efnahagsbandalagsins og yrðu ekki háðir neinum þeim innflutningshöftum eða viðskiptatálmunum, sem gilda kynnu gagnvart ríkjum utan bandalagsins. Á hinn bóginn yrðu Íslendingar á ákveðnu tímabili að fella niður tolla á útflutning annarra aðildarríkja til Íslands, afnema innflutningshöft gagnvart þeim og taka upp hinn sameiginlega toll Efnahagsbandalagsins gagnvart löndum, sem utan þess stæðu. Til greina kæmi einnig, að aukaaðildin yrði á grundvelli fríverzlunarsvæðis. Það mundi hafa í för með sér, að Íslendingar þyrftu ekki að taka upp sameiginlega tollinn, a.m.k. ekki á öllum vörum, en gætu sjálfir ákveðið tolla sína gagnvart löndum utan bandalagsins.

Tollabandalag mundi skapa alvarleg vandamál, er snertu annars vegar þann innlenda iðnað, sem notið hefur tollverndar og innflutningshafta, og hins vegar viðskiptin við jafnkeypislöndin. Enda þótt sá iðnaður hér á landi, sem á tilveru sína að þakka verndartollum og innflutningshöftum, hafi vaxið mikið á undanförnum áratugum, er hann ekki sérlega stór þáttur í þjóðarbúskapnum. Árið 1960 voru birtar niðurstöður athugunar um þessi efni, og leiddi hún í ljós, að árið 1957 störfuðu um 4200 manns í þeim iðngreinum í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri, sem eiga tilveru sína að þakka slíkri vernd. Á hæfilegum tíma ættu þessar iðngreinar að geta lagað sig að hinum nýju skilyrðum, ef þær fá til þess fjárhagsaðstoð. Að öðrum kosti ætti að vera hægt að búa þeim mönnum, sem þar vinna, aðra atvinnu. Í því sambandi skiptir að sjálfsögðu miklu máli, hver vaxtarskilyrði í öðrum atvinnugreinum og þá einkum sjávarútvegi og nýjum útflutningsiðnaði yrðu búin vegna aukaaðildarinnar að Efnahagsbandalaginu. Ýtarleg athugun fer nú fram á þessum vandamálum í samráði við iðnrekendur.

Ef innflutningshöft væru algerlega afnumin, væri hætt við, að viðskiptin við jafnkeypislöndin legðust að mestu niður. Sameiginlegi tollurinn mundi og torvelda þau. Vegna þess, hversu nauðsynleg þessi viðskipti eru íslenzkum þjóðarbúskap, yrði aukaaðildarsamningur að veita Íslendingum undanþágu til þess að halda innflutningshöftum á þeim vörum, sem mikilvægastar eru í jafnkeypisviðskiptunum, og sömuleiðis að veita Íslendingum rétt til að ákveða tollkvóta fyrir nokkrar þeirra.

Afnám tolla mundi auðvitað valda tekjuöflunarvandamáli hjá ríkissjóði. Í stað fjáröflunartollanna yrði að finna nýja tekjustofna. Hér er fyrst og fremst um tæknilegt vandamál að ræða, en víðtækar breytingar á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs mundu þó án efa geta leitt til talsverðrar röskunar á verðlagi.

Þau vandamál, sem ég hef nú rætt, hafa það sameiginlegt, að þau eiga rót sína að rekja til þeirrar skipunar, sem nú er á efnahagsmálum okkar. Til þess að þær breytingar, sem nauðsynlegar yrðu í sambandi við aukaaðildarsamninga af því tagi, sem ég nefndi, geti gerzt með sársaukaminnstum hætti, þurfa þær að geta orðið á alllöngum tíma. Ýmsar beinar ráðstafanir mætti þó gera til þess að flýta fyrir breytingum, svo sem útvegun fjármagns til þess iðnaðar, sem verður að laga sig að nýjum framleiðsluskilyrðum. Aukaaðildarsamningur Grikkja við Efnahagsbandalagið snýst einmitt að miklu leyti um lausn vandamála af þessu tagi.

Á hinn bóginn mundi aukaaðildarsamningur hafa í för með sér önnur vandamál, sem eru annars eðlis og standa ekki í sambandi við sjálft tollabandalagið, heldur þarf samvinnu á öðrum sviðum, sem Efnahagsbandalagið hefur talið nauðsynlega, til þess að kostir frjálsa vörumarkaðsins innan bandalagsins fái notið sín. Hér er fyrst og fremst um að ræða ákvæði Rómarsáttmálans um jafnan rétt til atvinnurekstrar á bandalagssvæðinu, frjálsar fjármagnshreyfingar og frjálsan vinnumarkað. Ástæður þess, að Íslendingar geta ekki gengizt undir reglur Rómarsáttmálans um þessi atriði, liggja ekki í skipan efnahagsmála okkar, heldur í smæð þjóðarinnar og einhæfni þeirra náttúruauðlinda, sem hún byggir afkomu sína á. Við getum því ekki gert okkur kleift að gangast undir þessar reglur með neins konar breytingum á skipan efnahagsmála okkar, og orsakir vanda okkar í þessum efnum geta ekki horfið úr sögunni á ákveðnum tíma, heldur eru varanlegs eðlis. Í hugsanlegum aukaaðildarsamningi yrði þess vegna að viðurkenna sérstöðu Íslendinga að þessu leyti og heimila okkur að setja þær takmarkanir á rétt til atvinnurekstrar og frjálsrar hreyfingar fjármagns og vinnuafls, sem við teldum nauðsynlegar til verndar brýnum hagsmunum okkar.

Á þessu sviði eru aðalvandamálin í sambandi við hugsanlegan aukaaðildarsamning við Efnahagsbandalagið. Það er mikilvægt, að á þessi vandamál sé litið af fullu raunsæi og skilningi. Ég held t.d., að það sé á misskilningi byggt að telja vandamálin eingöngu fólgin í þeirri hættu, sem okkur getur stafað af erlendu vinnuafli og erlendu fjármagni, er til landsins flyttist, og draga síðan þá ályktun, að við þurfum umfram allt að geta haldið erlendu vinnuafli og erlendu fjármagni frá landinu. Hinu má ekki gleyma, að hvorki við né nokkur önnur þjóð, stór eða smá, hefur getað þróað atvinnulíf sitt nema með aðstoð erlendrar tæknikunnáttu og erlends fjármagns. Og smáþjóðirnar eiga að sjálfsögðu meira undir þessari aðstoð en stærri þjóðirnar. Sú framtíðarþróun íslenzkra atvinnuvega, sem við gerum okkur vonir um, er án efa útilokuð, nema til komi veruleg aðstoð erlends fjármagns og erlendrar tæknikunnáttu: Lausn vandamálanna getur því ekki verið fólgin í því einu að byggja múr gegn erlendu fjármagni og erlendu vinnuafli, heldur í því að skapa þau skilyrði, að erlent fjármagn og sérhæft erlent vinnuafl geti starfað hér á landi undir því eftirliti, sem við sjálfir teljum nauðsynlegt.

Ég held einnig, að það sé óraunhæft að ætla, að tengst við Efnahagsbandalagið mundu leiða til ákafrar ásóknar erlendra aðila um að stunda atvinnu og reka fyrirtæki hér á landi. Sannleikurinn er sá, að mikill skortur er á vinnuafli í Evrópu og verður í fyrirsjáanlegri framtíð og mikil tregða er á flutningi verkafólks á milli landa. Atvinnurekstur hér á landi er útlendingum ekki heldur eftirsóknarverður nema á fáum sviðum. Þetta breytir að sjálfsögðu ekki því, að við þurfum að geta haft fullt vald til þess að vernda okkur fyrir hugsanlegum hættum. En það er ekki aðeins skaðlegt að loka augunum fyrir þeim, heldur einnig að gera of mikið úr þeim.

Mér virðist kjarni málsins vera þessi: Annars vegar getur atvinnurekstur útlendinga og störf sérmenntaðra erlendra manna hér á landi orðið okkur til mikilla hagsbóta. Í því sambandi er sérstaklega vert að benda á, að tæknikunnáttu er oft og tíðum ekki hægt að verða aðnjótandi nema í sambandi við hagnýtingu erlends fjármagns. Hins vegar fylgir atvinnurekstri útlendinga og erlendri fjárfestingu hér á landi sú hætta, að útlendingar gætu náð úrslitaáhrifum í einstökum atvinnugreinum og starfsemi þeirra stuðlað að eyðingu náttúruauðlinda. Gegn þessu hvoru tveggja verðum við að geta tryggt okkur. Við verðum að hafa það á valdi okkar, hvern atvinnurekstur útlendingar megi stunda hér og hver áhrif þeirra í hverri atvinnugrein megi verða. Fiskveiðar útlendinga innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu koma að sjálfsögðu ekki til greina. Hugsanlegur aukaaðildarsamningur yrði að veita Íslendingum rétt til þess að setja reglur um þessi efni. Aðalspurningin í sambandi við aukaaðildarsamning eins og þann, sem ég hef hér rætt, yrði að sjálfsögðu, hvort Efnahagsbandalagið teldi slík ákvæði, sem takmörkuðu skyldur okkar, samrýmanleg því, að við hefðum tollfrjálsan og ótakmarkaðan aðgang að sameiginlega markaðinum.

Þá skal ég ræða þriðju leiðina til tengsla við Efnahagsbandalagið, viðskiptasamning um gagnkvæma lækkun tolla og afnám innflutningshafta á grundvelli sáttmála Alþjóðatollamálastofnunarinnar.

Efnahagsbandalagið hefur átt viðræður við aðrar þjóðir innan Alþjóðatollamálastofnunarinnar um lækkun sameiginlega tollsins. Var þar í fyrsta lagi um að ræða viðræður vegna þeirrar tollahækkunar, sem sameiginlegi tollurinn felur í sér fyrir lönd utan Efnahagsbandalagsins. Og hafa þessar viðræður verið nefndar „compensations”-viðræðurnar. Lítill árangur varð af þeim. Á þessu ári var hins vegar undirritaður samningur milli Efnahagsbandalagsins og Bandaríkjanna og Efnahagsbandalagsins og nokkurra annarra þjóða um 20% lækkun sameiginlega tollsins á nokkrum iðnaðarvörum gegn sams konar tollalækkunum gagnaðilans. Þessir samningar voru árangur viðræðna, sem fram höfðu farið innan Alþjóðatollamálastofnunarinnar að frumkvæði Bandaríkjanna og hafa yfirleitt verið kenndar við núverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Mr. Dillon, og nefndar Dillon-viðræðurnar. Bandaríkjastjórn er mjög áfram um að halda áfram á þeirri braut að lækka tolla í viðskiptum á milli Bandaríkjanna og ríkja Efnahagsbandalagsins. Hefur bandaríska þjóðþingið nú nýlega heimilað forsetanum allvíðtækar tollalækkanir. Samkvæmt lögum þeim, sem þingið samþykkti og bera nafnið Trade Expension Act, getur Bandaríkjaforseti samið um allt að 50% lækkun tolla og algert afnám tolls á þeim fáu vörutegundum, sem Bandaríkin og Efnahagsbandalagsríkin verzla svo til einvörðungu með sín á milli. Búast má við, að viðræður um tollalækkanir skv. þessum lögum hefjist innan Alþjóðatollamálastofnunarinnar á næsta ári. Skv. reglum stofnunarinnar verða auðvitað öll aðildarríki hennar aðnjótandi þessara lækkana skv. beztu kjaraákvæðum milliríkjasamninga.

Þessar viðræður Bandaríkjanna og Efnahagsbandalagsins munu þó engan veginn leysa vandamál Íslands, því að þær taka ekki til sjávarafurða, en Bandaríkin og Efnahagsbandalagsríkin verzla sáralítið með sjávarafurðir sín í milli. Þessar umr. munu líklega ekki heldur snúast um aðrar vörur, sem okkur skipta máli. Það er mikilvægt, að menn geri sér þessa staðreynd ljósa, þ.e. að væntanlegar tollaviðræður Efnahagsbandalagsins og annarra ríkja innan Alþjóðatollamálastofnunarinnar munu ekki leiða til lækkunar tolla á þeim vörum, sem við höfum áhuga fyrir. Það er enn fremur nauðsynlegt, að menn geri sér ljóst, að engin önnur þjóð en við hefur verulegan áhuga á lækkun tolla á sjávarafurðum, nema Norðmenn og Danir. Búast má hins vegar við, að áhugi þeirra á lækkun tolla á sjávarafurðum hverfi úr sögunni, þegar þeir eru orðnir aðilar að Efnahagsbandalaginu og háir tollar þess á sjávarafurðum eru orðnir verndartollar fyrir þá. Íslendingar yrðu því sjálfir að hafa forgöngu um samninga um tollalækkanir. Ef Íslendingar velja þann kostinn að standa algerlega utan Efnahagsbandalagsins, tel ég sennilegt, að þeir gætu með samningum við bandalagið komið fram einhverri lækkun sameiginlega tollsins á sjávarafurðum gegn samsvarandi lækkun tolla á þeim iðnaðarvörum, sem Íslendingar flytja inn. Fari svo, að aðrar fiskútflutningsþjóðir í Evrópu gerist aðilar að bandalaginu, mundu ekki aðrar þjóðir en við Íslendingar í reynd njóta góðs af þessum lækkunum í verulegum mæli fyrst um sinn, og ætti það að auðvelda samninga.

Slíkir samningar um tollalækkanir gætu að sjálfsögðu dregið verulega úr því fjárhagstjóni, sem Íslendingar að öðrum kosti yrðu fyrir, af þeir stæðu utan Efnahagsbandalagsins. Það er hins vegar mikilvægt, að menn geri sér ljóst, að þeim árangri, sem ná má með þessari leið, eru takmörk sett. Í fyrsta lagi verður að gera ráð fyrir, að ekki takist að ná samningum um afnám tollanna, heldur aðeins um lækkun þeirra. Í öðru lagi er hinn sameiginlegi tollur bandalagsins á sjávarafurðum tiltölulega hár, þannig að um tilfinnanlegan tollmúr yrði að ræða, jafnvel þótt veruleg lækkun á tollinum fengist. Íslendingar mundu því varla geta öðlazt jafna samkeppnisaðstöðu við keppinauta sína með þessu móti, þar eð allir helztu keppinautarnir yrðu væntanlega innan bandalagsins. Í þriðja lagi er hugsanlegt, að hin sameiginlega stefna bandalagsins í sjávarútvegsmálum feli það í sér, að tekið verði upp einhvers konar markaðsskipulag á viðskiptum með sjávarafurðir, er torveldi fisksölu þjóða, sem utan bandalagsins standa. Í fjórða lagi er sennilegt, að samningar um tollalækkanir fengjust ekki gerðir nema til tiltölulega skamms tíma. Ef svo færi, mundi því veruleg óvissa vera ríkjandi í þessum efnum, og er hætt við, að það dragi úr viðleitni til að efla útflutning til Efnahagsbandalagssvæðisins. Í fimmta lagi mundu slíkir samningar eflaust aðeins taka til tollalækkana á sjávarafurðum. Lítil von er til þess, að Efnahagsbandalagið vildi okkar vegna breyta því skipulagi, sem væntanlega verður á viðskiptum með sauðfjárafurðir og ætlað er til verndunar sauðfjárrækt á Efnahagsbandalagssvæðinu, enda mundu þá um leið verða opnaðar gáttir fyrir stórframleiðendum eins og Nýja-Sjálandi. Það er einnig óhugsandi, að Efnahagsbandalagið verði reiðubúið til þess að draga úr vernd alúminíumiðnaðar síns gegn risaiðnaði Bandaríkjanna og Kanada, hvað þá að afnema hana til þess eins að suðvelda Íslendingum að koma upp alúminíumiðnaði hjá sér.

Þá er þess einnig að geta, að tollasamningsleiðinni fylgir hliðstæður vandi og aukaaðildarleiðinni að því er snertir innlenda iðnaðinn, jafnkeypisviðskiptin og fjármál ríkisins, því að útilokað er, að Íslendingar gætu komið fram verulegri lækkun tolla á sjávarafurðum og afnámi innflutningshafta nema lækka sjálfir tolla sína og afnema innflutningshöft.

Höfuðmunur tollasamningsleiðarinnar og aukaaðildarleiðarinnar er í rauninni fólginn í því, að með aukaaðildarleiðinni er auðveldara að tryggja Íslendingum hagkvæma viðskiptaaðstöðu. En það kostar samninga um viðkvæm mál, eins og rétt útlendinga til atvinnurekstrar hér á landi og innflutning erlends fjármagns og erlends vinnuafls. Ef tollasamningsleiðin er farin, kemur hins vegar aldrei til slíkra samninga, en útilokað virðist, að viðskiptaaðstaða Íslendinga geti með því móti nokkurn tíma orðið eins góð og hún getur orðið á grundvelli aukaaðildarsamnings. Þá er það að sjálfsögðu meginmunur á aukaaðildarleiðinni og tollasamningsleiðinni, að aukaaðili tekur með einum eða öðrum hætti þátt í störfum bandalagsins og getur að vissu leyti haft aðstöðu til þess að geta haft áhrif á stefnu þess, en ríki, sem gerir tollasamning við Efnahagsbandalagið, er utan þess og tekur að sjálfsögðu engan þátt í störfum þess né hefur aðstöðu til að hafa áhrif á stefnu þess.

Ríkisstj. telur, að leitast eigi við að finna lausn á þeim vandamálum, sem stofnun Efnahagsbandalagsins og stækkun þess býr Íslendingum, þannig að brýnir viðskiptahagsmunir okkar í Vestur-Evrópu séu tryggðir án þess að hagsmunum okkar á öðrum sviðum sé jafnframt teflt í hættu. Það er mikilvægt, að slík lausn finnist, ekki aðeins til þess að verja Íslendinga efnahagstjóni í bráð, heldur ekki síður til þess að tryggja vaxandi framfarir og batnandi lífskjör á Íslandi, þegar á lengri tíma er litið. Síðast, en ekki sízt, er þess að geta, að slík lausn mundi treysta samband okkar við nágranna okkar í Evrópu og tengja okkur fastar því samstarfi vestrænna þjóða, sem við höfum verið aðilar að frá stríðslokum. Á hinn bóginn hefur það ekki verið unnt og er ekki enn að gera sér endanlega grein fyrir því, með hvaða hætti þessi lausn ætti að verða, þ.e. hvort stefna eigi að því, að tengsl Íslands við Efnahagsbandalagið verði á grundvelli aukaaðildarsamnings eða tollasamnings. Ríkisstj. hefur talið það skyldu sína að kanna málið ýtarlega, bæði með athugunum hér heima fyrir og með viðræðum við ríkisstj. aðildarríkja bandalagsins og framkvæmdastjórn þess. Það hlaut að teljast bezti undirbúningurinn undir ákvörðun í málinu, þegar hún yrði óhjákvæmileg. Á þennan hátt var einnig hægt að vekja þann skilning á aðstöðu okkar erlendis, sem okkur er nauðsynlegur við lausn vandans. Mér er óhætt að fullyrða að hjá aðildarríkjum Efnahagsbandalagsins og framkvæmdastjórn þess er ríkjandi skilningur á aðstöðu Íslands og samúð með málstað þess.

Ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að enn þá sé ekki kominn tími til ákvarðana í máli þessu. Áður en þær eru teknar, er nauðsynlegt, að fengin sé niðurstaða í þeim samningum, sem nú fara fram í Brüssel milli Efnahagsbandalagsins og Breta, og helzt einnig niðurstaða í þeim viðræðum, sem eiga eftir að fara fram á milli Efnahagsbandalagsins og annarra ríkja, er sótt hafa um aðild eða aukaaðild að bandalaginu. Meðan beðið er þessarar niðurstöðu, þurfa Íslendingar að einbeita sér að þrennu: Við þurfum að halda áfram athugunum hér heima fyrir á ýmsum hliðum þessa máls, við þurfum að fylgjast sem bezt með framvindu þess erlendis, og við þurfum að keppa að því að fá aðstöðu til þess að koma sjónarmiðum okkar á framfæri í sambandi við undirbúning að mótun sameiginlegrar stefnu Efnahagsbandalagsins í sjávarútvegsmálum. Þegar niðurstöður hafa fengizt í þeim samningaviðræðum, sem ég gat um áðan, hefur væntanlega fengizt grundvöllur til þess að ganga endanlega úr skugga um, hvaða kostir geti staðið Íslendingum til boða. Þá fyrst er fyrir hendi nægjanleg vitneskja til þess, að unnt sé að mynda sér endanlega rökstudda skoðun á því, hvers konar tengsl við Efnahagsbandalagið tryggi bezt hagsmuni Íslendinga.

Finnbogi R. Valdimarsson: Herra forseti. Það er skylt að þakka hæstv. viðskmrh. fyrir þá löngu skýrslu ríkisstj. um efnahagsbandalagsmálið, sem hann hefur nú flutt á hv. Alþingi. Fullur helmingur þessarar löngu skýrslu fjallaði um þá þróun, sem hefur átt sér stað í viðskiptamálum Vestur-Evrópu á undanförnum árum, allt frá stríðslokum og til þessa dags. Sá hluti skýrslu hæstv. ráðh. var með öðru sögulegt yfirlit um aðdraganda og þróun bandalaganna, sem myndazt hafa í Evrópu á þessum tíma, og þá ekki sízt þeirrar ríkjasamsteypu, sem hér gengur undir nafninu Efnahagsbandalag Evrópu. Það heiti á þessari ríkjasamsteypu er því miður komið inn í íslenzkt mál, svo að erfitt er að breyta því úr þessu, en það er öllum kunnugt, sem þekkja hið opinbera heiti þessarar ríkjasamsteypu á erlendum málum, þeirra þjóða, sem að henni standa, að þetta er ekki rétt þýðing, heldur mjög villandi. Því miður verð ég að segja það strax um þennan langa hluta af skýrslu hæstv. ráðh., að hann var engan veginn eins hlutlaus frásögn um þróun þessara mála, sem fleiri en honum er kunnugt um, eins og ég hefði viljað vænta af hæstv. ráðh. Frásögn hans bar öll blæ þess áróðurs, sem hafður hefur verið í frammi af hálfu þeirra manna, sem virðast telja það sjálfsagt mál, að Ísland gerist aðili að Efnahagsbandalaginu, og reyna þess vegna að draga með öllu fjöður yfir þann reginmun, sem er á Efnahagsbandalaginu og annarri alþjóðlegri samvinnu í efnahagsmálunum. Þeir menn vilja fela pólitískt eðli og tilgang þessarar ríkjasamsteypu og þá staðreynd, að hún stefnir að því að reisa tollmúra umhverfis sig og torvelda þannig og jafnframt með beinum höftum og viðskiptatálmunum frjáls viðskipti þjóða í milli. Þetta bandalag stefnir auk þess að því að þvinga aðildarríki sín til þess að lúta stjórn yfirþjóðlegra stofnana, sem eiga að hafa vald til þess að ákvarða og binda stefnu þjóðanna, sem í því eru, í mestu hagsmunamálum þeirra, jafnvel gegn vilja þjóðþinga og ríkisstjórna þessara þjóða og gegn lögum og stjórnarskrá þessara þjóða, og það ekki aðeins um skamman tíma, heldur um aldur og ævi. Þessi ákvæði, sem ég nú hef nefnt, eru í stjórnarskrá þeirrar ríkjasamsteypu, sem hér er kölluð Efnahagsbandalag Evrópu, og verður ekki um það villzt, að ég fer hér með rétt mál.

Síðari helmingur ræðu hæstv. ráðh. fól í sér skýrslu um ferðalög hans og trúnaðarmanna ríkisstj. í fyrrahaust og á s.l. sumri til höfuðborga allra aðildarríkja Efnahagsbandalagsins og til höfuðstöðva þess bandalags í Brüssel. Hæstv. ráðh. skýrði frá því í þessari skýrslu, að hann og fylgdarmenn hans hefðu átt viðræður við ýmsa ráðherra í þessum löndum, hann taldi þá upp með nöfnum og titlum, og enn fremur þrjá af aðalforráðamönnum efnahagssamsteypunnar í Brüssel, framkvæmdastjóra hennar. Frá þessum viðræðum við þessa miklu ráðamenn Efnahagsbandalagsins skýrði hæstv. ráðh. hins vegar á engan hátt í einstökum atriðum. Hann sagði aðeins, að það hefðu komið fram af hálfu fulltrúa Efnahagsbandalagsins ýmis atriði, sem miklu máli skiptu við mat þeirra leiða, sem til greina kæmu af hálfu Íslendinga um afstöðu til Efnahagsbandalagsins. En um það, hver þessi mikilvægu atriði eru, eru hv. alþm. jafnófróðir nú eftir skýrslu hæstv. ráðh. og áður.

Meðan ég hlustaði á þennan kafla af skýrslu hæstv. ráðh., tók ég fram hjá mér Morgunblaðið frá 21. júlí í sumar. Þar var birt skýrsla, sem hæstv. viðskmrh. flutti í ríkisútvarpið að kvöldi hins 20. júlí í sumar um þessi ferðalög sín og viðræður við forráðamenn Efnahagsbandalagsins. Ég gat ekki með neinu móti séð, að hæstv. ráðh. hafi nú í skýrslu sinni til hv. Alþ. skýrt á nokkurn hátt ýtarlegar frá neinu, sem hafi komið fram í viðræðum hans og fylgdarmanna hans við forráðamenn Efnahagsbandalagsins, heldur en hann gerði fyrir hlustendum ríkisútvarpsins og lesendum Morgunblaðsins í júlí í sumar. M.ö.o.: alþm. yfirleitt hafa nú eftir skýrslu hæstv. ráðh,. nákvæmlega sömu aðstöðu til þess að mynda sér skoðun á málunum og almennir útvarpshlustendur og lesendur Morgunblaðsins höfðu, eftir að þeir höfðu heyrt og lesið þessa skýrslu hæstv. ráðh. í sumar. Alþm. yfirleitt standa nú í nákvæmlega sömu sporum og almennir útvarpshlustendur og blaðalesendur í þessu landi til þess að mynda sér skoðun á mikilvægustu atriðum þessa máls eftir að hafa hlustað á skýrslu hæstv. ráðh. hér fyrir hv. Alþ. Þeir vita á engan hátt meira en hinn almenni hlustandi og blaðalesandi í landinu. Þeir hafa ekki fengið neinar nýjar efnislegar upplýsingar í málinu, allra sízt um þessi ýmsu atriði, sem mestu máli skipta, ef menn vilja mynda sér hlutlæga skoðun á því, hverjar leiðir séu færastar Íslendingum í þessu máli.

Hæstv. ráðh. gat þess, að ýmis atriði, sem miklu máli skiptu í þessu sambandi, hefðu komið fram af hálfu forráðamanna Efnahagsbandalagsins í viðræðum hans og fylgdarmanna og trúnaðarmanna hans. En hv. alþm. hafa ekkert fengið að vita um þessi mikilvægu atriði nánar en aðrir. Þó er e.t.v. hugsanlegt, að tveir hv. alþm. hafi sérstöðu í þessu efni og viti meira um þetta, því að það vill svo til, að einmitt skömmu eftir að Morgunblaðið birti skýrslu hæstv. ráðh. í sumar, þá skýrðu stjórnarblöðin, Alþýðublaðið og Morgunblaðið, frá því undir stórum fyrirsögnum, að ríkisstj. hefði í meira en eitt ár veitt tilteknum tveimur hv. alþm. aðstöðu til að fylgjast nákvæmlega með öllum viðræðum, sem ráðh. og aðrir trúnaðarmenn ríkisstj. hafa átt við aðrar þjóðir um Efnahagsbandalagið. Jafnframt sögðu blöðin, að þessir tveir hv. þm. hefðu fengið aðgang að öllum skjölum og upplýsingum um málið og mörg tækifæri til að ræða allt þetta efni við tvo hæstv. ráðh., hæstv. viðskmrh. Gylfa Þ. Gíslason og hæstv. dómsmrh. Bjarna Benediktsson. Þessir tveir hv. þm., sem e.t.v. hafa forréttindaaðstöðu fram yfir alla aðra alþm. í þessu efni, þannig að þeir geti vitað allt um þetta mál, þegar aðrir alþm. vita ekkert um það, sem mestu máli skiptir, þeir eru hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, og hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson. En í útleggingum sínum og skýringum um forréttindi þessara tveggja hv. þm. og sérstöku t.rúnaðarmanna hæstv. ríkisstj. sögðu stjórnarblöðin í sumar, — þau voru svo háttvís í þessu sambandi, — að það hefði alltaf þurft að múta Framsfl. til þess að fylgja stefnu Sjálfstfl. og Alþfl. í utanríkismálum. Þau létu sér ekki nægja að gefa í skyn, heldur sögðu beinlínis, að stundum hefði þetta kostað hvorki meira né minna en það að taka Framsfl. alls óverðugan inn í samvinnu um stjórn landsins, til þess að fylgja þessum góðu flokkum, Sjálfstfl. og Alþfl., að málum í utanríkismálum. Nú er það fjarri mér að taka undir þetta og gefa í skyn, að þau forréttindi, sem þessir hv. þm. njóti hjá ríkisstj. í þessu máli umfram aðra þm., séu byrjun að sams konar viðskiptum við Framsfl. og stjórnarblöðin segja að flokkur þeirra hafi áður átt við hann til þess að laða hann og lokka til fylgis við sig í utanríkismálum. En ég vil skora á þessa tvo hv. þm., eins og ég skora á hæstv. viðskmrh., ef þeim er kunnugt um mikilvæg atriði, sem hafa þegar komið fram í viðræðum við forráðamenn Efnahagsbandalagsins og gætu auðveldað óbreyttum alþm. að mynda sér skoðun á því, hverjar leiðir séu færastar fyrir Íslendinga í þessum málum, að skýra frá þeim atriðum nú þegar, þegar þetta mál er nú í fyrsta skipti tekið til umr. hér á hv. Alþingi, því að til hvers væri að bíða með það? Það kemur að því, að öll slík atriði þessa máls eiga eftir að koma fram og fyrir augu alþjóðar.

Það hafa ýmsir mætir menn og dómbærir, einnig í liði hæstv. ríkisstj., kveðið svo að orði, að þetta mál sé stærsta og örlagaríkasta málið, sem hafi komið í hlut Íslendinga að taka ákvörðun um á þessari öld, og vil ég ekkert draga úr því. En menn verða að vona enn, að slíku máli verði ekki ráðið til lykta með neinu leynimakki, hvorki milli hæstv. ráðh. og trúnaðarmanna þeirra annars vegar og hins vegar forráðamanna Efnahagsbandalagsins úti í löndum né heldur milli forustumanna stjórnmálaflokka hér á landi. Menn verða að vona og krefjast þess, að hvert atriði þessa máls verði lagt á borðið afdráttarlaust, svo að hver Íslendingur, ekki aðeins hver einasti alþm., geti myndað sér skoðun um þetta mál, um þau atriði og þetta mál í heild, hlutlæga skoðun og tekið afstöðu sína samkv. því.

Ég vil nú spyrja bæði hæstv. viðskmrh. og aðra hv. þm., sem um það kunna að vita: Hver voru þau atriði, sem samkv. frásögn hæstv. viðskmrh. komu fram af hálfu ráðh. aðildarríkja Efnahagsbandalagsins og framkvæmdastjóra þess í viðræðum við hæstv. viðskmrh. og trúnaðarmenn hans í sumar, þau atriði, sem samkv. umsögn hæstv. ráðh. skipta mestu máli um mat þeirra leiða, sem til greina koma fyrir Íslendinga í þessu máli? Hver voru þessi mikilvægu atriði, sem komu fram, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, í viðræðunum við ráðh. í sumar? Eru þessi atriði, sem skipta svo miklu máli og eru komin fram frá æðstu forráðamönnum Efnahagsbandalagsmálsins, leyndarmál fyrir íslenzkum alþm., — og þá, hve lengi eiga þau að vera leyndarmál?

Ég skal nú nokkuð reyna að víkja að því og reyna að geta mér þess til í allri minni fáfræði, hver þessi atriði kunna að hafa verið. Hæstv. ráðh. ræddi í síðari hluta ræðu sinnar þrjár leiðir, sem til greina komi fyrir Íslendinga að fara um afstöðu til Efnahagsbandalagsins: Í fyrsta lagi fulla aðild, í öðru lagi svokallaða aukaaðild og í þriðja lagi viðskiptasamninga um gagnkvæma lækkun tolla og afnám innflutningshafta á grundvelli eða innan ramma alþjóðatollamálasamkomulagsins, sem skammstafað er með stöfunum GATT. Hann lýsti yfir fyrir hönd ríkisstj., að ríkisstj. teldi, að full aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu kæmi ekki til greina. Rökin voru eftirtektarverð. Hæstv. ráðh. sló því föstu, að það væri víst, — alveg víst, — að ekki væri með fullri aðild hægt að fá fyrirvara eða undanþágur frá reglum Rómarsamningsins um jafnan rétt til atvinnurekstrar, sem tryggðu, að Íslendingar yrðu ekki skyldaðir til að veita öllum borgurum og fyrirtækjum innan ríkja Efnahagsbandalagsins alls, jafnvel stækkaðs, jafnan rétt á við Íslendinga til veiða í íslenzkri fiskveiðilögsögu. En slíkt þýddi auðvitað, eins og hæstv. ráðh. játaði, eyðingu fiskimiðanna á skömmum tíma og kæmi því ekki til mála. En það er rétt að minna á það í þessu sambandi, að samkv. skýringum og yfirlýsingum forráðamanna Efnahagsbandalagsins, og hæstv. ráðh. játaði það í ræðu sinni hér áðan, þá hefur hugtakið aukaaðild hingað til verið túlkað svo, að hvert það ríki, sem tengdist Efnahagsbandalaginu með þeim hætti, stefndi einnig að því, að það ríki tækist á hendur fulla aðild að Efnahagsbandalaginu á sínum tíma og þá allar skuldbindingar þess, þ. á m. skuldbindinguna um að veita jafnan rétt erlendum borgurum Efnahagsbandalagsins til atvinnurekstrar, sem hæstv. ráðh. telur nú víst, að ekki verði veittar undanþágur frá, sem tryggðu, að hægt væri að vernda íslenzka fiskveiðilögsögu fyrir útlendingum. Það er rétt að minna á þetta strax, vegna þess að öll rök og málflutningur hæstv. ráðh. í skýrslu hans hneig að því, að það væri einmitt aukaaðild Íslands að Efnahagsbandalaginu, sem væri líklegasta og færasta leiðin fyrir Íslendinga í málinu. En aukaaðild þýðir, eins og ég áðan sagði, samkv. yfirlýsingum forráðamanna Efnahagsbandalagsins og samkv. þeim eina. aukaaðildarsamningi, sem gerður hefur verið á vegum Efnahagsbandalagsins, það, að hvert ríki, sem gerir slíkan samning, takist á sínum tíma á hendur allar skuldbindingar Rómarsamningsins og fulla aðild að Efnahagsbandalaginu.

Yfirlýsing hæstv. ríkisstj. um, að full aðild Íslands komi ekki til greina, kemur mér ekki á óvart og er engin stórfrétt í mínum augum, þótt að vísu engir angurgapar í liði stjórnarflokkanna hafi oft haldið því fram, bæði í ræðu og riti, að full aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu væri hið eina rétta og bæri að sækja um hana strax. Hitt kemur mér ekki heldur á óvart, að allur málflutningur hæstv. ráðh. hnígur nú, eins og ég áðan sagði, að því, að eins og málið horfir við í dag, sé það aukaaðild með sérstökum samningum, sem sé líklegasta leiðin fyrir Íslendinga. En það, sem mér þótti nýstárlegt í málflutningi hæstv. ráðh. um þetta, var, að hann komst svo að orði í þessu sambandi, að það gæti einnig komið til greina aukaaðild á grundvelli fríverzlunarsvæðis, þ.e. að Íslendingar þyrftu ekki að taka upp hinn sameiginlega ytri toll Efnahagsbandalagsins gagnvart öllum öðrum ríkjum, sem utan þess stæðu. Ég veit ekki, hvað hæstv. ráðh. hefur fyrir sér í því, að þetta komi til mála af hálfu Efnahagsbandalagsins, og vildi gjarnan óska þess, að hann útskýrði þetta atriði nánar. En það, sem allra athyglisverðast er við málflutning hæstv. ráðh., er, að hann gerir nú fullkomlega ráð fyrir því, að auk fullrar aðildar og aukaaðildar sé til þriðja leiðin í samskiptum Íslendinga við Efnahagsbandalag Evrópu. Hann sagði nú í ræðu sinni, að ef Íslendingar veldu þann kostinn að standa algerlega utan Efnahagsbandalagsins, þá teldi hann sennilegt, að þeir gætu náð samningum við Efnahagsbandalagið um einhverja lækkun sameiginlega tollsins á sjávarafurðum gegn samsvarandi lækkun tolla á innfluttum vörum til Íslands frá Efnahagsbandalaginu. Hann benti sérstaklega á, að það ætti að geta auðveldað slíka samninga Íslands við Efnahagsbandalagið, að ekki mundi verða um aðrar fiskútflutningsþjáðir í Evrópu að ræða utan Efnahagsbandalagsins en Íslendinga eina, því að hann gerir ráð fyrir því alls staðar í ræðu sinni, að bókstaflega allar þjóðir Vestur-Evrópu gangi í Efnahagsbandalagið. Nú veit ég ekki betur en hæstv. ráðh. og ýmsir helztu ráðunautar og sérfræðingar hans hafi hingað til haldið fram alveg gagnstæðum skoðunum um þetta atriði. Þeir hafa fullyrt, að tvíhliða samningur Íslands við Efnahagsbandalagið án formlegrar aukaaðildar kæmi áreiðanlega ekki til greina, en samningar um gagnkvæma tollalækkun á grundvelli alþjóðatollasamkomulagsins kæmi Íslandi hins vegar að engu haldi. Þessu hvoru tveggja hélt t.d. dr. Jóhannes Nordal bankastjóri fram mjög eindregið í ræðu, sem hann hélt á svonefndri ráðstefnu félagsins Frjálsrar menningar um Efnahagsbandalagsmálið 27. jan. s.l. Þessi ræða hefur síðan verið prentuð. Og hæstv. ráðh. sjálfur sagði m.a. á sömu ráðstefnu: Það er engin ástæða til þess að gera sér von um, að við frekar en nokkur annar mundum geta fengið að tala við Efnahagsbandalagið nema á grundvelli umsóknar, annaðhvort um fulla aðild eða aukaaðild. — Hið þriðja taldi hann ekki vera til. Nú talar hann jöfnum höndum um tvær leiðir eða tvær lausnir, sem séu vel sambærilegar og fullkomlega raunhæfar, þ.e.a.s. annars vegar aukaaðild og hins vegar tollasamningsleiðina. Hann játar að vísu, hæstv. ráðh., að enn sé ekki unnt að gera sér endanlega grein fyrir, hvort stefna eigi að því, að tengsl Íslands við Efnahagsbandalagið verði á grundvelli aukaðildarsamnings eða tollasamnings. En hann gerði á ýmsan hátt mjög eftirtektarverðan samanburð á þessum tveimur leiðum, kostum þeirra og göllum, frá hans sjónarmiði og frá ýmsum sjónarmiðum. Nú held ég, að enginn, sem hlustaði á hæstv. ráðh., geti verið í vafa um, að hvorri leiðinni hann hallaðist skv. sínum málflutningi að þessum samanburði loknum. Það er auðvitað aukaaðildarleiðin. Og ég held, að óhætt sé að gera ráð fyrir því, þótt hæstv. ráðh. segði það ekki berum orðum, að hann hafi í þessu sem öðru talað fyrir hönd hæstv, ríkisstj. allrar. En í sambandi við þennan samanburð á þessum leiðum tveimur, sem hæstv. ráðh. telur vel færar fyrir Íslendinga í þessu stórmáli, sagði hæstv. ráðh. eina setningu, sem ég skrifaði hjá mér og ég tel hiklaust hina langathyglisverðustu í allri hans löngu ræðu. Hann sló því fyrst alveg föstu, að aukaaðildarleiðin væri heppilegri til þess að tryggja Íslendingum góða, hagkvæma viðskiptaaðstöðu, en ráðh. bætti við: En það kostar samninga um viðkvæm mál. — Aukaaðildarleiðin kostar samninga um viðkvæm mál, sagði hæstv. ráðh. Hann dró ekki dul á, hvaða viðkvæm mál þetta væru. Það er réttur útlendinga til atvinnurekstrar hér á landi, réttur þeirra til frjáls innflutnings erlends einkafjármagns og erlends vinnuafls. Hæstv. ráðh. játaði líka strax á eftir, að með tollasamningsleiðinni kæmi aldrei til samninga um þessi viðkvæmu mál, þess þyrfti ekki.

Ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. ráðh. fyrir hreinskilni hans um þessi atriði. Hann fullyrðir, að samningar við Efnahagsbandalagið á grundvelli aukaaðildar hljóti að kosta samninga um viðkvæm mál. Aðrir formælendur aukaaðildar Íslands að Efnahagsbandalaginu hafa yfirleitt hingað til viljað gera lítið úr þeim skyldum, sem kynnu að koma á herðar Íslendinga í sambandi við slíkan aukaaðildarsamning. Þeir hafa sagt jafnvel, að það þyrfti ekki að gera ráð fyrir nema svo sem 1% af skyldunum, sem lagðar eru á þjóðir skv. Rómarsamningnum, þær þjóðir, sem gerast fullir aðilar að Efnahagsbandalaginu. Þær þjóðir, sem gerðust aukaaðilar, mundu ekki þurfa að taka á sig nema svo sem 1% af þeim skyldum. En hæstv. ráðh. dregur enga dul á það, hvað aukaaðild þýði í þessu sérstaka atriði. Hún þýðir það, og hann hefur fengið fulla vitneskju um það, að aukaaðild kostar það, að Efnahagsbandalagið muni krefjast þess, að Íslendingar veiti útlendingum, þ.e. borgurum og fyrirtækjum innan Efnahagsbandalagsins, a.m.k. einhvern rétt til atvinnurekstrar á Íslandi, til innflutnings einkafjármagns og til innflutnings vinnuafls.

Á öðrum stað í ræðu sinni undirstrikar hæstv. ráðh., að við yrðum, þótt um aukaaðild væri að ræða, að hafa rétt til að takmarka erlenda fjárfestingu hér á landi, þannig að útlendingar gætu ekki náð úrslitaáhrifum, eins og hann komst að orði, í einstökum atvinnugreinum, og við yrðum að hafa það á okkar valdi, hvern atvinnurekstur útlendingar fengju að stunda hér á landi og hver áhrif þeirra í hverri atvinnugrein mættu verða. Ég verð að játa, að mér er ekki ljóst, hvernig ætti að setja lög og reglur, sem leyfðu atvinnurekstur og áhrif útlendinga í hverri einustu atvinnugrein að einhverju vissu marki, en bönnuðu hvort tveggja, ef farið væri yfir það mark.

En ég er alveg sammála hæstv. ráðh., þegar hann kemst að þeirri aðalniðurstöðu í þessu máli, að aðalspurningin í sambandi við aukaaðild Íslands að Efnahagsbandalaginu er sú, hvort Efnahagsbandalagið mundi telja, að slík ákvæði, sem að settum og takmörkuðu skyldur okkar til að veita útlendingum, útlendum borgurum og fyrirtækjum frá löndum Efnahagsbandalagsins, rétt til atvinnurekstrar, innflutnings einkafjármagns og vinnuafls, — hvort þau gætu samrýmzt því, að við hefðum hjá Efnahagsbandalaginu tollfrjálsan innflutning á öllum okkar útflutningi án nokkurra hafta. Þetta er auðvitað aðalspurningin í sambandi við hugsanlega aukaaðild Íslands að Efnahagsbandalaginu. En hvernig stendur þá á því, að einmitt þessari spurningu skuli ekki hafa verið svarað í þeim könnunarviðræðum, sem hafa farið fram úti um öll lönd undir forustu hæstv. ráðh. frá því í fyrra? Hvernig stendur á því, að þessari spurningu hefur ekki verið svarað a.m.k. að einhverju leyti? Eða hefur henni ef til vill verið svarað, þó að hæstv. ráðh. vilji ekki skýra alþm. frá því í skýrslu sinni um þessi mál og ferðalög sín? Er þetta mikilvægasta atriði ef til vill eitt af þeim ýmsu mikilvægu atriðum, sem komu fram í þeim viðræðum, sem hæstv. ráðh. sagði frá, en vill ekki segja alþm. frá í einstökum atriðum? Á maður að trúa því, að hæstv. ráðh., sem segir hér á Alþingi: Mér er það ljóst, að aukaaðild þýðir samninga um viðkvæm mál, þessi viðkvæmu mál, — á maður að trúa því, að hann hafi ekki lagt þá spurningu t.d. fyrir framkvæmdastjóra Efnahagsbandalagsins, sem vitað er að eiga skv. stjórnarskrá Efnahagsbandalagsins einmitt að gera alla aukaaðildarsamninga? Á maður að trúa því, að hæstv. viðskmrh. og allir sérfræðingar hans, þessir lærðu menn, sem hann hafði til fylgdar, hafi ekki lagt neinar spurningar fyrir framkvæmdastjóra Efnahagsbandalagsins um það, hvaða skyldur mundu í þessum viðkvæmu atriðum koma á herðar okkar Íslendinga samfara aukaaðild? Ég trúi því ekki, af því að ég álít hæstv. viðskmrh, ekkert flón. Ég tel víst, að einmitt vegna þess, að hann fullyrðir nú frammi fyrir Alþingi, að aukaaðild kosti samninga um þessi viðkvæmu atriði, þá hafi hann fengið fulla vitneskju um þetta beint frá forráðamönnum Efnahagsbandalagsins, hann viti það m.ö.o., þá að hann segi ekki alþm. frá því, að þess mundi verða krafizt af hálfu Efnahagsbandalagsins samfara samningum um aukaaðild Íslands að því, að við Íslendingar veittum útlendingum rétt til atvinnurekstrar hér á landi, þeir mundu að öðrum kosti ekki veita okkur réttindi til tollfrjáls útflutnings allrar okkar útflutningsvöru til þeirra eigin landa. Ég verð einnig í þessu sambandi að minna á fyrri ummæli hæstv. viðskmrh., sem lúta einmitt að þessu atriði. Hann sagði í ræðu, sem hann hélt í Verzlunarráði Íslands í fyrravetur, að við mundum ekki komast hjá því að athuga stefnu okkar varðandi rétt útlendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera, ef til aðildar okkar að Efnahagsbandalaginu ætti að koma. Honum var þetta ljóst þá þegar, að við mundum ekki komast hjá því að endurskoða lög okkar og reglur — það átti ráðh. við — um rétt útlendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera.

Ég vil nú spyrja: Hvaða atvinnurekstri á Íslandi mundu borgarar og fyrirtæki í löndum Efnahagsbandalagsins helzt hafa áhuga á, ef við yrðum, um leið og við semdum um aukaaðild við þá, einnig að semja um þetta viðkvæma mál, hvort þeir ættu að hafa einhvern rétt til atvinnurekstrar hér? Ég geri mér ekki í hugarlund, að það væri neyzluvöruiðnaður okkar, sem þeir hefðu áhuga á. Ég hef líka takmarkaða trú á því, að það væri sú stóriðja, alúminíumverksmiðjur eða annað, sem þeir reyndust hafa mestan áhuga á. Við vitum það vel, að erlendir togaraútgerðarmenn hafa áratugum saman haft mikinn áhuga á því að fá aðstöðu til fisklöndunar og fiskiðju á Íslandi.

En við höfum séð við því með sérstakri löggjöf til þess að koma í veg fyrir þetta.

Við vitum, að í löndum Efnahagsbandalagsins á sér stað mikill samdráttur auðs og fjármagns í fáar hendur, á hendur stórra, voldugra auðhringa. Við höfum sjálfir komizt í kynni við voldug áhrif brezkra útgerðar- og fisksöluhringa. Við vitum, að útgerð í löndum Efnahagsbandalagsins er annars vegar í höndum fátækra fiskimanna á heimamiðum, sem haldið er uppi með styrkjum og tollvernd, og hins vegar stórútgerð, sem er víða búin að eyðileggja heimamið og leitar því einmitt hingað til Íslands, til okkar. Við vitum vel, að sú stórútgerð, fisksöluhringar í sambandi við hana, mundi áreiðanlega vilja fá aðstöðu til fisklöndunar og rekstrar fiskiðjuvera á Íslandi, ef útlendingum væri veittur nokkur réttur til atvinnurekstrar hér, t.d. í sambandi við samninga um aukaaðild að Efnahagsbandalaginu. Þeir vita það t.d., brezkir stórútgerðarmenn, betur en sumir Íslendingar virðast vita það, þeir sem nú tala mest um möguleika á stóriðju á Íslandi, sem opnist með aðild okkar að Efnahagsbandalaginu, — þeir vita það, útlendingarnir, að fiskimiðin okkar við Ísland eru mesta auðlind og fjársjóður okkar Íslendinga og að í sambandi við nýtingu þeirra eru mestu möguleikarnir til stóriðju á Íslandi. Og nú spyr ég að síðustu hæstv. viðskmrh.: Dettur þeim í hug, að hægt sé að gera samning um aukaaðild Íslands að Efnahagsbandalaginu, sem veitti okkur Íslendingum full réttindi til tollfrjáls innflutnings allra okkar sjávarafurða til landa Efnahagsbandalagsins, á þeim grundvelli, að við bönnuðum útlendingum með öllu atvinnurekstur t.d. við fiskiðju á Íslandi? Ég þykist sjá á ummælum hæstv. ráðh. sjálfs í fyrra og nú, að honum komi ekki til hugar, að þetta sé hægt, en samt leyfi ég mér að skora á hann að svara þessari spurningu og það afdráttarlaust.

Lokaniðurstaða hæstv. viðskmrh., sem hann lýsti yfir í nafni allrar ríkisstj., var sú, að ríkisstj. sé nú þeirrar skoðunar, að það sé langt frá því, að enn sé kominn tími til ákvörðunar af hálfu Íslendinga í þessu máli, því að áður en Íslendingar geti tekið ákvörðun, sé nauðsynlegt, að samningar Breta og Efnahagsbandalagsins verði til lykta leiddir, og í öðru lagi, að helzt verði einnig fengin niðurstaða í öllum þeim samningsviðræðum, sem eiga eftir að fara fram milli Efnahagsbandalagsins og allra annarra ríkja, sem sótt hafa um aðild eða aukaaðild. En þau eru, eins og mönnum er kunnugt: Danmörk, Noregur, Írland, Svíþjóð, Sviss, Austurríki og jafnvel Spánn og Portúgal. Þá fyrst, þegar öllum þessum samningum og samningsviðræðum er lokið, segir hæstv. ráðh. í nafni allrar hæstv. ríkisstj., — þá fyrst fást væntanlega grundvöllur til að ganga úr skugga um, hvaða kostir geta staðið Íslendingum til boða. Þá fyrst, en fyrr ekki, verður fyrir hendi nægileg vitneskja til þess, að unnt sé að mynda sér endanlega rökstudda skoðun á því, hvers konar tengsl við Efnahagsbandalagið tryggi bezt hagsmuni Íslendinga. Þetta voru lokaorð og lokaniðurstaðan í ræðu hæstv. ráðh.

Ég fagna út af fyrir sig þessari yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. Ég vona, að þar fylgi hugur máli, og vil, að við þessa yfirlýsingu verði staðið.

Ég hef einmitt fyrir mitt leyti, af því að þetta mál kom á dagskrá hér, haldið, að það væri erfitt að vega og meta t.d. og alveg sérstaklega hin efnahagslegu rök í þessu máli, fyrr en alveg væri vitað, um hvaða kosti væri að velja. Og ég hef einnig frá upphafi gert mér þá hugmynd um gang málanna um samninga innan Efnahagsbandalagsins, að örugg og endanleg vitneskja fengist ekki um aðstöðu Íslands, fyrr en öllum þeim samningum væri ráðið til lykta. En hitt er allt annað mál, að menn hafa getað og geta enn gert sér hugmynd um það, hvað aðild og aukaaðild Íslands að Efnahagsbandalagi þýði fyrir sjálfsforræði Íslendinga í framtíðinni, beint út frá þeirri vitneskju, sem þegar liggur fyrir í stjórnarskrá, sem ég nefni svo, þessarar ríkjasamsteypu, Rómarsamningnum frá 1957, og öðrum upplýsingum, sem liggja fyrir frá þessari ríkjasamsteypu.

Þó að ég fagni út af fyrir sig, eins og ég áðan sagði, þeirri yfirlýsingu hæstv. ríkisstj., að það sé algerlega ótímabært og ómögulegt að mynda sér rökstudda skoðun á þeim kostum, sem um kunni að vera að velja, og þeim leiðum, sem færar kunni að vera fyrir Íslendinga í þessu stórmáli, þá verð ég að segja, að ég held, að þessi yfirlýsing hæstv. ríkisstj. nú kunni að koma nokkuð kynlega fyrir þeim mönnum, sem af hálfu hæstv. ríkisstj. og sýnilega í fullu samráði við hana hafa haldið uppi heiftarlegum áróðri fyrir því nú á annað ár, að Ísland gerðist annaðhvort fullur aðili eða a.m.k. aukaaðili að Efnahagsbandalaginu. Í hópi þessara áróðursmanna eru fyrst og fremst allir hagspekingar hæstv. ríkisstjórnar, margir hagfræðilegir ráðunautar hennar, m.a. menn, sem eiga hér sæti á hv. Alþingi. Ég gæti, ef tími væri til, sýnt fram á það, hvernig þessir menn hafa staðhæft þegar í fyrrahaust og fyrravetur, að það væri alveg sjálfsagt mál fyrir Ísland að leggja þá þegar inn inntökubeiðni, helzt um fulla aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu. Hæstv. ríkisstj. kennir nú þessum mönnum, að þeir hafi ekki haft til þessa dags og hafi ekki í dag neinn grundvöll til þess að byggja skoðanir sínar á, þeir hafi ekki neinn grundvöll til þess að mynda sér rökstudda skoðun á þessu máli í dag. Og þetta er rétt hjá hæstv. ríkisstj. En þetta er líka nokkur dómur um þessa hagspekinga og ráðunauta hæstv. ríkisstj.

Hæstv. viðskmrh. vék að því snemma í ræðu sinni, að það kynnu að vera til þeir menn hér á landi, sem óskuðu, að verzlunar- og menningarviðskipti Íslands og Vestur-Evrópuþjóða væru sem minnst. Ég veit ekki svo nákvæmlega, hvað hæstv. ráðh. á við með þessum orðum. Ég þekki enga menn og engin öfl hér á landi, sem hafi unnið að því að torvelda viðskipta- eða menningarsambönd Íslendinga og Vestur-Evrópuþjóða, og ég held, að það yrði lítið úr rökstuðningi hæstv. ráðh. fyrir slíkri staðhæfingu, að slíkir menn eða öfl séu til hér á landi. En ég þekki öfl, sem hafa unnið að því að rjúfa viðskipta- og menningartengsl Íslands við Vestur-Evrópu, en þau öfl eru ekki hér á landi, heldur í Vestur-Evrópu, og það eru voldug öfl, sem bæði hæstv. ráðh. og við allir þekkjum. Það voru hinir voldugu útgerðar- og fisksöluhringar í Bretlandi, sem fyrir nokkrum árum settu viðskiptabann á Íslendinga, löndunarbann á íslenzkan fisk til Bretlands, með góðu samþykki og vitund brezkra stjórnarvalda og það þvert ofan í gerða samninga um efnahagssamvinnu Íslands og Bretlands innan Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu. Með þessu viðskiptabanni var stefnt að því að svelta Íslendinga til hlýðni við þetta brezka útgerðarvald og brezku ríkisstjórnina, kúga Íslendinga til þess að breyta íslenzkum lögum, sem höfðu verið sett í fyllsta samræmi við alþjóðalög og rétt, breyta þessum lögum í samræmi við hagsmuni brezka útgerðarauðvaldsins, sem hafði eindreginn stuðning hins brezka ríkisvalds, og það sendi síðar, þegar tilraun til að svelta Íslendinga til hlýðni bar ekki árangur, herflota sinn til Íslands til þess að kúga Íslendinga til að breyta lögum sínum um landhelgi Íslands. Þetta tókst fyrir aumingjaskap íslenzkra ráðamanna — og þar með talinn hæstv. viðskmrh. En hæstv. ráðh. er til einskis að tala hér fjálglega um þann háska, sem íslenzkri menningu sé búinn vegna þess, að öll viðskipta- og menningartengsl Íslands við Vestur-Evrópuþjóðir kunni að rofna með öllu og Íslendingar standa uppi einangraðir, sviptir öllu sambandi við þjóðir Vestur-Evrópu, ef Íslendingar gangi ekki inn í Efnahagsbandalag Evrópu annaðhvort sem fullir aðilar eða aukaaðilar. Hæstv. ráðh. veit vel, að þessi háski er ekki til. Hann veit vel, að hér á landi eru engir menn, sem vinna að því, að þetta verði. Sjálfur sver hann og sárt við leggur, að hann vilji halda sem allra mest hinum hagkvæmu viðskiptum okkar við Austur-Evrópulönd og vilji m.a. vinna það til að halda einhverjum höftum á innflutningi frá Vestur-Evrópu, og til eru menn, sem eru honum sammála um þetta, og það margir. En hæstv. ráðh. veit það líka vel að Íslendingar eru ekki líklegir til þess að gleyma fljótlega þeim kúgunartilraunum, sem þeir hafa orðið fyrir bæði af hálfu brezks útgerðarauðvalds og brezka ríkisvaldsins sjálfs.

Íslendingar munu gera sér ljóst, að eini háskinn, sem yfir þeim getur vofað á næstu árum í viðskiptalegum efnum, er sá, að brezkt útgerðarauðvald og sams konar auðhringar í löndum Efnahagsbandalags Evrópu kynnu að fá aðstöðu til þess að sölsa undir sig auðlindir Íslands, eins og við vitum, að þeim leikur hugur á. En ég trúi því, að Íslendingar verði á verði um þetta og að þessi öfl komi ekki fram vilja sínum hér á Íslandi á næstu árum, t.d. vegna einhverra samninga Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu.

Hæstv. ráðh. hefur játað í þessari löngu ræðu sinni, að eins og málin standi í dag sé Íslendingum engin nauðsyn á því að gera svo mikið sem aukaaðildarsamning að Efnahagsbandalagi Evrópu. Það er auðvitað auðvelt að sýna fram á það, að sú aukaaðild, sem hæstv, ráðh. talar svo mjög um og mælir svo mjög með, er jafnháskaleg fyrir þjóð eins og Íslendinga eins og full aðild. Í þessu sambandi mætti t.d. vitna í orð utanrrh. Norðmanna, Halvards Lange, sem í dag er að hefja viðræður fyrir hönd Norðmanna í Brüssel. Hann lýsti því yfir í Stórþinginu norska, að það væri sín skoðun, að aukaaðild væri háskalegri en full aðild fyrir Norðmenn og verri kostur á allan hátt. En hæstv. viðskmrh. hefur nú einnig játað í sinni ræðu áðan, að það sé til önnur leið fyrir Íslendinga en aukaaðildarleiðin, þ.e.a.s. venjulegir viðskiptasamningar Íslands við Efnahagsbandalagið.

Ríkisstj. hefur lýst yfir, að það sé algerlega ótímabært að taka nokkra ákvörðun í þessu máli. Með þessari ákvörðun hæstv. ríkisstj., sem ég út af fyrir sig fagna, eins og ég áðan sagði, gefst Íslendingum svigrúm til þess að hugsa sitt ráð, kynna sér eðli og uppbyggingu og hagkerfi Efnahagsbandalagsins og þau áhrif, sem það mundi hafa á sjálfsforræði Íslands og sjálfstæði að ganga inn í þetta bandalag.

Ég hafði hugsað mér að taka nokkuð til meðferðar hér sérstaklega þær blekkingar allar, sem hafa verið hafðar í frammi af ýmsum háttsettum fylgismönnum hæstv. ríkisstj., sem hafa gerzt háværastir áróðursmenn fyrir því, að Íslendingar létu það ekki dragast að sækja um aðild að Efnahagsbandalaginu. En tímans vegna vil ég ekki fara út í þetta nú. Til þess gefst ef til vill tilefni síðar í þessum umr., sem ég geri ráð fyrir að nokkurt framhald verði á.