21.11.1962
Sameinað þing: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

Efnahagsbandalagsmálið

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að orðlengja mjög um þetta mál, þó að það sé í tölu merkustu mála, sem liggja fyrir þessu Alþingi og raunar þó að lengra væri farið aftur í tímann, en þó hefur mér þótt rétt að kveðja mér hljóðs, vegna þess að ég tel, að í ræðu hv. 7. þm. Reykv., Þórarins Þórarinssonar, gæti misskilnings eða missagna, sem ég álít óhjákvæmilegt að leiðrétta. Sá hugsunarháttur, sem þar var á ferð, getur verið þjóðinni hættulegur. Hæstv. viðskmrh. og ég höfum látið liggja að því, að svo gæti farið, að Íslendingar yrðu utan tollmúranna. Hafði ég orðað það eitthvað á þá leið, að ekki væri víst, að við ættum fyrir inngangseyrinum, þ.e.a.s. að svo gæti farið, að við teldum okkur ekki færa um að ganga að þeim skilyrðum, sem okkur yrðu sett fyrir þeim tengslum við Efnahagsbandalagið, sem við teldum okkur nauðsynlegt að ná. Ég hafði í þessu sambandi orð á því, að í þessum efnum yrði áreiðanlega að treysta á vináttu bandalagsþjóðanna og skilning þeirra á sérstöðu okkar Íslendinga. Á þessu vildi ég byggja án þess að telja víst, að farsællega réðist fram úr vanda okkar. Það eru þessar getsakir, þ.e.a.s. að ekki sé víst, að við fáum allar okkar óskir uppfylltar, sem hv. 7. þm. Reykv. vítir okkur fyrir, og telur með öllu ómaklegt vantraust og vantrú, eins og hann komst að orði, á leiðtogum Efnahagsbandalagsins. Og það er þessi skoðun hv. þm., sem ég tel hættulegt að láta standa ómótmælta.

Við skulum athuga málið lítið eitt nánar. Það var árið 1957, sem 6 þjóðir Vestur-Evrópu gerðu með sér samning um víðtæk og gagnkvæm réttindi og skyldur. Reynslan hefur nú skorið úr um það, að þessar þjóðir telja sig allar hafa hagnazt á þessum samningi. Þegar svo var komið, komu ýmsar aðrar þjóðir, sem utan við stóðu og hafa nú sótt um upptöku í þetta bandalag, og er nú liðinn mánuður og ár, án þess að þær hafi komizt inn fyrir tollmúrana. Og enn veit enginn, hvort eða hvenær þessar óskir þeirra rætast. Af þessu er ljóst, að það er ekki auðleikið að komast inn fyrir tollmúrana, enda þótt aðilinn bjóðist til þess að ganga skilmálalaust að öllum þeim skilyrðum, sem stofnsamningurinn, hinn svokallaði Rómarsamningur, kveður á um.

Það, sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson krefst, er, að Íslendingar verði aðnjótandi allra fríðinda Efnahagsbandalagsins, sem þeir þurfa á að halda, án annars endurgjalds en einhverra tollalækkana á þeim vörum, sem Íslendingar kaupa frá þjóðum Efnahagsbandalagsins, en við vitum ekkert um, hvort þær þjóðir meta að nokkru eða ekki. Hv. þm. veit þó, að enn hefur engin þjóð, að stofnþjóðunum einum undanskildum, nema Grikkir, sem fengið hafa aukaaðild, komizt inn fyrir tollmúrana, enda þótt fast hafi verið eftir leitað. Krafa þm. er sú, að það, sem Efnahagsbandalagið enn hefur ekki viljað selja neinni þjóð einhvern hluta af fyrir hátt verð, sbr. óskir Svía og nokkurra annarra þjóða um aukaaðild, og ekki heldur látið Bretum, Norðmönnum eða Dönum í té, allt fyrir fulla greiðslu, þ.e.a.s. að þeir gerðust aðilar bandalagsins og undirgengjust allar kvaðir Rómarsamningsins, beri því nú viðstöðulaust og skilmálalaust að afhenda okkur Íslendingum fyrir endurgjald, sem við a. m. k, ekki enn vitum, hvort þeir meta mikils eða einskis. Ég tek skýrt fram, að ég ber óskorað traust til þjóða Efnahagsbandalagsins og vona, þar til annað reynist eða kemur í ljós, að auðnast megi að ná einhverjum þeim tengslum við bandalagið, sem okkur nægja, án skuldbindinga, sem við getum ekki fallizt á. En þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir slíkar vonir mínar, má enginn telja það illmæli í garð Efnahagsbandalagsins eða ráðamanna þess, að menn beri kvíðboga fyrir, að slíkir samningar verði ekki auðfengnir. Við verðum að gera okkur ljósan þann vanda, sem við er að etja. Við verðum að láta okkur skiljast, að örðugt mun verða að ná því, sem við þurfum, án þeirrar endurgreiðslu, sem við getum ekki gengið að. Og að sjálfsögðu er þetta með öllu útilokað, ef fylgt verður ráðum Framsfl. um að slíta öllum viðræðum við þessar þjóðir og loka með því þeirri einu leið, sem við kunnum að eiga í málinu, en hún er að skýra mál okkar til hins ýtrasta og skapa með því samúð fyrir málstað okkar. En annars óttast ég, að Íslendingar verði ekki lengi fullgildir í tölu siðaðra menningarþjóða, ef þeir í öllum viðskiptum við þær temja sér það, sem kallað er stundum hér í þingsölunum Framsóknarhugsunarháttur, en hann er sá að krefjast alls af öðrum, en láta helzt ekkert af sínu í staðinn. Sá hugsunarháttur er Íslendingum skaðlegur, eins og það er líka hæpinn greiði að telja mönnum trú um, að ef við fáum ekki allt frá öðrum fyrir ekki neitt, þá stafi það einvörðungu af fjandskap í okkar garð. Af þessu stafar m.a. sú hætta, að Íslendingar slíti vináttuböndin vegna blindrar kröfuhörku og einangrist með því frá þjóðum, sem við eigum samleið með vegna sameiginlegra hugsjóna, hagsmuna, menntunar og menningar. Þetta má aldrei henda okkur.

Þá hélt hv. þm. því fram, að okkur bæri að bíða átekta og sjá, hverju fram yndi í málinu, sem líka er alveg rétt, þetta ber okkur að gera. En hann ætlaði þó ekki að nota biðina til þess að útskýra málstað okkar og vinna okkur með því vinsemd og skilning viðsemjenda. Við þá vildi hann, að við töluðum ekki neitt, — alls ekkert. Ég veit ekki, hvernig honum hefur sjálfum reynzt í lífinu að tala við þá, sem hann þarf að sækja fríðindi til. Mér hefur reynzt það ágætlega og tekizt langt um betur, ef ég hef getað náð tali af þeim og útskýrt minn málstað til fulls. Og það er ef til vill þess vegna, ef honum hefur reynzt þetta öðruvísi, sem við erum hvor á sínu máli um, hvað Íslendingum beri að gera undir svona kringumstæðum.

Og hv. þm. vildi ekki heldur nota biðina til þess að velja á milli tollasamninga og aukaaðildar, sem eru þær leiðir, sem hér er rætt um á Alþingi, þegar vitneskja lægi fyrir um, hverra kosta við ættum völ eftir hvorri leiðinni um sig, því að hv. þm. tilkynnti þingheimi öllum, að Framsfl. afneitaði aukaaðildinni alveg, hvernig svo sem hún yrði eða væri, hefði hins vegar ákveðið að fara tollaleiðina, nær að segja með hvaða kjörum sem hún yrði. Hann afneitaði með öllu aukaaðildinni, en taldi, að gata okkar mundi liggja yfir tollaleiðina. Rökin fyrir þessu, að við mættum ekki vel ja aukaaðildina, voru, að mér skilst, m.a. og jafnvel aðallega þessi:

Í fyrsta lagi taldi hann, að aukaaðild væri aldrei annað en upphaf fullrar aðildar. Þessu til sönnunar benti þm. á gríska samninginn. En hér gætir mikils misskilnings hjá hv. þm. Enn liggur ekkert fyrir um það, að aukaaðild þurfi nokkru sinni að verða að fullri aðild, heldur þvert á móti liggur það alveg ótvírætt fyrir, að svo er ekki. Ég nefni m.a., að mikil sókn hlutlausu þjóðanna, eins og Svía, Austurríkis og Sviss, um það að fá aukaaðild sýnir, að þær vita, að aukaaðild þarf ekki að leiða til fullrar aðildar, því að þessar þjóðir lýsa fyrir fram yfir, að þær vilji ekki fallast á pólitísk ákvæði, en Rómarsamningurinn kveður skýrt á um, að full aðild þýði í verulegum efnum einmitt það. Og varðandi gríska samninginn er það að segja, að enginn hefur enn þá orðað það, svo að ég viti, að skoða beri hann sem fyrirmynd að öðrum aukaaðildarsamningum. Gríski samningurinn er eins og hann er vegna ástæðna Grikkja og líka vegna þess, að þeir sækjast beinlínis eftir því að verða fullir aðilar þegar í stað, þegar þeir telja sig færa um að takast á hendur þær skuldbindingar, sem fylgja fullri aðild.

Í öðru lagi vitnaði hv. þm. Þórarinn Þórarinsson í ummæli, sem hann hafði eftir Lange utanríkisráðherra Norðmanna um, að Lange teldi Norðmönnum farsælla að fá fulla aðild heldur en aukaaðild, vegna þess að með aukaaðild yrðu Norðmenn að taka á sig nær allar sömu kvaðir og með fullri aðild, en fengju hins vegar ekki sömu aðstöðu til að hafa áhrif á gang málanna sem aukaaðili eins og sem fullur aðill. Hv. þm. taldi þetta sanna sitt mál um haldleysi aukaaðildarinnar, að nokkuð það sama hljóti að gilda um Íslendinga eins og Norðmenn. En hér gætir einnig mikils misskilnings hjá hv. þm. Hið rétta er, að ráðamenn Efnahagsbandalagsins munu hafa talið, að iðnþróunin í Noregi væri það langt áleiðis komin, að fyrir Norðmenn væri ekki grundvöllur til þess að sækja um eða fara fram á sérstakar undanþágur. Um Ísland gegnir hins vegar allt öðru máli, eins og ég hygg að hv. þm. hljóti að gera sér ljóst, vegna þess að sérstaða okkar er bæði vituð og játuð af Efnahagsbandalaginu, sem fyrir atbeina íslenzku ríkisstj. og vegna þeirra viðræðna, sem fram hafa farið um málið, hafa fengið fullan kunnugleik á málstað Íslendinga, eða a.m.k. mikinn kunnugleik. Vonir okkar um hagstæða samninga Íslandi til handa eru einmitt byggðir á skilningi Efnahagsbandalagsins eða forustumanna þess á þörfum okkar vegna smæðar þjóðar okkar annars vegar, en hins vegar á skilningnum á því, að sjávarútvegurinn er Íslendingum fátæka mannsins einasta lamb. Það er þetta, sem við höfum verið að reyna að skýra fyrir viðsemjendum, og það er þetta, sem við viljum mega trúa á, að megi verða til þess, að við fáum sérstaka skilmála hjá bandalaginu. Auðvitað skal ég ekki fullyrða neitt um það, fyrr en reynslan sker úr um það.

Í þriðja lagi fór hv. þm. mörgum orðum um, að smáþjóðir mundu glata sjálfstæði sínu, ef þær hefðu einhver tengsl við Efnahagsbandalagið önnur en tollasamning fyrir milligöngu GATT. En hér byggir hv. þm. þessa rakalausu staðhæfingu á þeim misskilningi, sem ég gat um áðan, að aukaaðild sé eitt og hið sama og full aðild. Ég skal ekki að þessu sinni ræða um, hvaða líkur eru á hagkvæmum GATT-samningum eða tollsamningum fyrir milligöngu GATT. Hitt mun sjálfsagt mörgum torráðin gáta, hvers vegna Holland, Belgía og Lúxemborg, allar þessar smáþjóðir, eru enn ánægðari með veru sína í bandalaginu nú en þær höfðu gert ráð fyrir í öndverðu, og líka hvers vegna Svíþjóð, Austurríki, Írland og Sviss og fleiri smáþjóðir sækja svo fast eftir því að ná aðild sem aukaaðili, ef þær með þessum hætti glötuðu sjálfstæði sínu. Ég spyr hv. þm.: Finnst honum líklegt, að allar þessar smáþjóðir, sem áreiðanlega eins og við þrá sitt sjálfstæði og ekki fyrir neinn mun vilja farga því, væru að sækja og sækja fast eftir aukaaðild, ef afleiðing aukaaðildar væri afsal sjálfstæðis? Ég held, að þetta sé alveg byggt á misskilningi. Ég veit, hvaðan þessar hugleiðingar eru komnar, og það er alls ekki neitt til hnjóðs hv. þm. Ég býst við, að hann hafi sumar af þeim frá Gunnari Myrdal, en ekki lesið alveg ofan í kjölinn það, sem hann hefur sagt um það.

Mér finnst yfirleitt, að þessi rök, sem voru aðalrökin í ræðu hv. þm., séu svo veigamikil, að þeim beiti ekki aðrir en þeir, sem af einhverjum ástæðum geta ekki sagt eða vilja ekki segja allan hug sinn í málinu, eins og hann er í raun og veru.

Frá mínu sjónarmiði og ég hygg mjög margra annarra er kjarni málsins augljóslega sá, að enn sem komið er getum við alls ekki tekið endanlega ákvörðun í málinu. Til þess skortir okkur m. a. frumskilyrðin til að byggja á. Við vitum í fyrsta lagi ekki, hverju við getum fengið áorkað með tollasamningi, og í öðru lagi vitum við ekki heldur, hversu mildar skyldur við þurfum að taka á okkur með aukaaðildinni. En fyrr en vitneskja um þetta liggur fyrir, er valið og hafnað í algerri blindni. Enginn lýðræðisflokkur má gerast sekur í þessu mikla máli um að velja í blindni. Og geri flokkur það að alvöru sinni að bíða ekki frekari upplýsinga, þá á hann á hættu að torvelda eða jafnvel eyðileggja málstað þjóðarinnar í þessu mikla velferðarmáli hennar, auk þess sem hann náttúrlega sjálfur leggst undir rökstuddan grun um, að það séu annarleg sjónarmið, sem ráða aðgerðum hans í þessu mikla máli. Ég ætla þess vegna að leyfa mér að vona, að hv. Framsfl. geti orðið okkur sammála um, að það er ekki nóg aðeins að bíða í málinu, ef biðin er ekki notuð til neins. Hver er þá vinningurinn við biðina, ef ekki á að nota hana til einhvers sérstaks? Og það, sem frá mínu sjónarmiði verður að nota hana til, er einmitt þetta: að skýra mál okkar og ná hylli, samúð og skilningi þeirra manna, sem við eigum að semja við. Það finnst mér meginmálið annars vegar, en hins vegar að fá alveg úr því skorið, hverra kosta er völ eftir hvorri leiðinni sem er af þessum tveimur, sem Alþingi virðist hallast að, tollabandalagi eða aukaaðild.

Það var ýmislegt fleira í ræðu hv. þm., sem var ekki alveg rétt, en ég leiði hjá mér að svara því, og ég leiði líka hjá mér að svara ýmsum skekkjum, — ég orða það hóflega og kurteislega, — í ræðu hv. 4. þm. Austf., líka af því, að ég tel nokkuð víst, að það muni verða gert af öðrum.