22.11.1962
Neðri deild: 20. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

6. mál, almannavarnir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Eins og allir hv. þm. munu vera sammála um, er hér um að ræða eitt af þeim þýðingarmestu málum, sem við höfum rætt, enda hafa umr., sem um málið hafa orðið, borið þess vott, að mönnum er ljóst, hve mikið getur verið í húfi, svo framarlega sem ekki er höfð hér sú gát, sem nauðsynleg er: Það, sem höfuðágreiningur hefur verið um í sambandi við þetta mál, er gildi þeirra svokölluðu hervarna, sem eru nú á Íslandi. Og það virðist vera ákaflega djúpsettur ágreiningur, — ágreiningur, sem hins vegar, ef þessi mál eru rædd hleypidómalaust og með rökum, ætti að vera hægt að jafna.

Við höfum haldið því fram, fulltrúar Alþb., að af hervörnum, sem hér eru á Íslandi nú, stafi okkur fyrst og fremst hætta. Og við höfum bent á, að það eru algerlega úreltar hugmyndir, sem margir þm. ganga hér með, þegar þeir eru að tala um, að það sé hætta á einhverri innrás í landið, að einhverjir taki landið, eða annað þess háttar, þar sem hættan í sambandi við kjarnorkustyrjöld er, að það sé skotið á landið kjarnorkusprengjum, og gegn því sé raunverulega engin vörn, og þessar almannavarnir, sem hérna er talað um og enn þá eru að mestu leyti sniðnar við það sama og loftvarnirnar voru 1941, verða okkur að tiltölulega litlu gagni, þótt sjálfsagt sé að reyna að gera það, sem hægt sé.

Það kom sérstaklega greinilega fram hjá þeim hæstv. ráðh., sem þetta mál flytur, hæstv. dómsmrh., að hans ótti í sambandi við hugsanlega kjarnorkustyrjöld virtist fyrst og fremst stafa af því, að það væru vondir menn til í veröldinni, sem vildu setja slíka styrjöld af stað. Þegar ég las Morgunblaðið í gær, miðvikudaginn 21. nóv., þótti mér sýnt, að þeir menn, sem annars sitja hér á þingbekkjum hjá okkur og líka hafa skipað forsæti þessarar hv. d., þeir menn, sem eru dálítið nær þeim stöðvum, þar sem þeir finna betur hættuna, sem yfir vofir, þeir virðast hugsa þó nokkuð öðruvísi um þetta mál. Ég á við grein, sem birtist í Morgunblaðinu í gær, eftir Sigurð Bjarnason, sem nú mun vera fulltrúi íslenzku ríkisstjórnarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum, sem heitir: „Styrjaldaróttinn í blöðum og bókmenntum.“ Það er alveg greinilegt, að maðurinn, sem skrifar þessa grein, er gagntekinn af þeim ótta, sem mun hafa gripið menn í Bandaríkjunum, þegar við lá, að kjarnorkustyrjöld hæfist hér á dögunum út af Kúbu. Og í þessari grein lýsir hann mjög skilmerkilega og Morgunblaðið birtir í einum þrem dálkum útdrátt úr einni bók, sem er nýkomin út í Bandaríkjunum eftir Eugene Burdick og Harvey Wheeler og heitir Fail-Safe, og hann þýðir það: „Öryggi, sem brást“, þar sem tveir menn, sem kunnir eru af stjórnmálaritum í Bandaríkjunum, lýsa því, hvernig kjarnorkustyrjöld geti verið að brjótast út. Og hann undirstrikar það, þessi fyrrv. forseti okkar hv. d., hve litlu geti munað. Ég man eftir, að hér við 2. umr. málsins minntist ég á það, að allur kjarnorkusprengjufloti Bandaríkjanna hafði verið settur af stað, vegna þess að á ratsjám hefði komið í ljós eitthvað, sem var að fljúga og menn héldu að mundi vera rússneski flugflotinn, en reyndist vera grágæsahópar, en allur kjarnorkuflotinn var kominn af stað, flugflotinn, til þess að hefja árásir á Sovétríkin. Og þessir menn lýsa því í þessari bók, og Morgunblaðið skýrir frá því, að það sé einmitt svona, sem kjarnorkustyrjöld geti byrjað, það hafi í viðvörunarkerfi Bandaríkjanna komið fram, að það sé flugfloti á leiðinni, og allur flugfloti Bandarfkjanna settur af stað, og síðan verða menn varir við, að þetta er rangt, tæknitækin hafa gefið þarna út falska viðvörun, og forseti Bandaríkjanna lætur afturkalla þetta, en af einhverjum óviðráðanlegum, tæknilegum mistökum nær ekki viðvörunin um afturköllunina til einnar flugsveitar Bandaríkjanna, sem heldur áfram til að bombardera Moskvu. Það er allt í óðagoti. Forseti Bandaríkjanna tekur upp beint samband við forsætisráðherra Sovétríkjanna til þess að láta vita af þessum hryggilegu mistökum, svo að þeir geti ekki afstýrt því, að það verði gerð loftárás á Moskvu, og forseti Bandaríkjanna ákveður síðan, til þess að reyna að sannfæra Sovétríkin um, að þetta sé ekki allt saman bara blekking, að ameríski flugflotinn skuli bombardera New York með jafnmiklu af sprengjum og kastað verði á Moskvu.

Sigurður Bjarnason segir í þessari grein, þegar hann er búinn að lýsa þessu, hvað allt hafi verið þarna tæpt, með leyfi hæstv. forseta:

„En bak við hugmyndaflug höfunda hennar hillir undir ógnþrungna aðvörun við skelfilegan veruleika. Hver treystir sér til þess að fullyrða, að þeir atburðir geti ekki gerzt, sem Fail-Safe snýst um? Það hefur hent stundum áður, að byssurnar hafa byrjað sjálfar að skjóta, þegar vígbúnaðarkapphlaupið hefur verið orðið nægilega tryllt og óviðráðanlegt, svo að leiðtogar þjóðanna hafa misst tökin á atburðarásinni og ógæfan hefur dunið yfir.“

Það er greinilegt, að það þarf ekki meira en slys til, — slys, sem menn eru meira og meira farnir að tala um, og slys, sem hafa allt að því hent, til þess að kjarnorkustyrjöld brjótist út, kjarnorkustyrjöld, sem m.a. mundi hafa þær afleiðingar fyrir okkur, — að líklega yrði meir en helmingnum af Íslendingum eytt, en mundi hafa máske þær afleiðingar fyrir veröldina, að mannkyninu sem slíku yrði að miklu leyti eytt og komandi kynslóðir stórskemmdar með afleiðingum geislaverkunar, svo framarlega sem einhverjir lifðu af. Það virðist þess vegna vera alveg ljóst, að okkur mönnunum fer eins og galdramanninum forðum, við ráðum vart við andana, sem við höfum sært fram. Þegar við erum farnir að geta sprengt frumeindir efnisins, erum við komnir í þá aðstöðu að geta sprengt jörðina undir okkur, geta breytt henni í stjörnu, þar sem enginn möguleiki væri fyrir líf að þróast, fyrr en máske einhvern tíma, þegar milljónir ára væru liðnar.

M.ö.o.: sú gífurlega tæknilega þekking, sem við nú höfum, mennirnir, og gæti orðið grundvöllur að allsnægtum á jörðinni, getur líka orðið, jafnvel fyrir svona slysni, eins og Morgunblaðið er hér að skýra frá, til þess að sprengja hana upp. Það getur verið þess vegna spursmál um líf eða dauða, ekki aðeins Íslendinga, heldur þorra mannkyns, hvort það sé hægt, áður en svona slys verða, að koma vitinu fyrir þá, sem ráða hjá mannkyninu, hvort það sé hægt að fá þá menn, sem eru ákaflega andstæðrar skoðunar, til þess að talast við, búa friðsamlega saman á jörðinni og koma í veg fyrir, að svona slys séu hugsanleg. Og spurningin stendur um að skapa það andrúmsloft, sem gerir slíka friðsamlega sambúð mögulega. Og það andrúmsloft verður ekki skapað með því, að menn í sífellu segi sem svo: Það er aðeins þessi aðili hérna, sem ber sökina. — Við verðum að athuga, hvernig ástandið er báðum megin.

Hæstv. dómsmrh., sá maðurinn, sem nú hefur máske mest valdið í þessum málum, virtist eftir ræðu, sem hann hélt hér við 2. umr. þessa máls vera haldinn af þeim ótta, að það væru vondir menn á jörðinni, kommúnistar, sem undirbyggju stríð til þess að leggja heiminn undir sig, og af þessu stafaði öll hættan. Og látlaust er reynt að koma svona hugmynd inn hjá allmiklum þorra íslenzku þjóðarinnar. Þessi söngur, þessi Rússagrýla, þessi andkommúnismi, er kveðinn dag eftir dag af þeim blöðum, sem auðmannastéttin í landinu gefur út og voldugust eru og áhrifaríkust, og með því móti að skýra þannig aðeins frá þessari ákaflegu röngu skoðun er smám saman verið að byrgja andlegu útsýnina fyrir stórum hluta íslenzku þjóðarinnar. Það er ekki til neins að reyna að mála svona svart og hvítt.

Ég rakti það nokkuð við 2. umr. og reyndi nokkuð að skýra hæstv. dómsmrh. frá, hvernig ég áliti, að þeim þjóðum væri innanbrjósts, og ég þekki að nokkru Sovétþjóðirnar, sem hafa orðið fyrir tveim ægilegum styrjöldum á þessari öld, sem enn hafa ekki að fullu náð sér eftir þá síðari, þar sem hver einasta fjölskylda í því landi átti um sárt að binda eftir þá styrjöld, þá ægilegustu, sem mannkynið enn þá hefur háð. Ég minnti hann á, hvernig kalda stríðið hefði hafizt, strax í miðri síðustu styrjöld vegna þeirrar grundvallarmótsetningar, sem er á milli sósíalisma og auðvalds í heiminum. Ég ætla ekki að endurtaka neitt af því, en ég tala, vegna þess að hann virtist líta á Atlantshafsbandalagið og alla þá, sem að því stæðu, sem hvíta engla í þessu sambandi og þaðan þyrfti enginn hjá mannkyninu að vænta sér neins ills, þá ætla ég aðeins að rifja upp fyrir honum, bregða upp smáspegilmynd fyrir honum af því, hvað Atlantshafsbandalagið í raun og veru er. Þótt nokkrar lýðræðisþjóðir í Evrópu tækju þátt í því bandalagi, þ. á m. við, þá verður það ekki af því bandalagi skafið, að það er fyrst og fremst bandalag nýlenduveldanna og stórveldanna í heiminum, bandalag þeirra stórvelda auðsins, sem hafa ráðið meginhluta heimsins á þessari öld og réðu honum mestöllum í byrjun þessarar aldar. Ég hafði áður minnt hann á það, að þetta bandalag væri á sinn máta eins og í byrjun 19. aldarinnar bandalagið helga, bandalag konunganna og afturhaldsins þá, að móti þeirri framsæknu borgarastétt var þetta Atlantshafsbandalag myndað, á móti sókn verkalýðsins og nýlenduþjóðanna í heiminum, til þess að reyna að halda þeim niðri eða sigrast á þeim. Og ég hafði minnt hann á, hvernig meira að segja þátttökuþjóðir í þessu bandalagi, sem talað er um að eigi að vera varnarbandalag, hafa orðið svo kunnar að árásarhug — og ekki aðeins að árásarhug, heldur líka berar að árásum, að meira að segja Sameinuðu þjóðirnar höfðu neyðzt til þess að fordæma þær, og var þar nefnt til Holland fyrir árásina á Indónesíu, Frakkland og England fyrir árásina á Egyptaland og nú síðast fordæming Sameinuðu þjóðanna á Portúgal fyrir aðfarir þeirra gagnvart Angóla og öðrum nýlendum sínum. Ég vil minna hæstv. dómsmrh. á, að þetta sama Atlantshafsbandalag og eitt höfuðríki þess, Frakkland, hefur nú í 7 undanfarin ár verið að reyna að berja niður frelsishreyfingu þjóðarinnar í Alsír, hefur beitt þar pyntingum, sem gefa ekki í neinu eftir því, sem nazistarnir beittu forðum daga, og nú loks, þegar þessi þjóð sigrar, skilur Frakkland við hana í því hörmungarástandi, að börn og konur svelta, að fjöldi manna deyr af hungri, og arfurinn, sem Frakkland lætur eftir sig eftir 130 ára nýlendustjórn, er blóð og tár einmitt þeirra, sem saklausastir voru í þessum efnum. Ég gæti brugðið upp fyrir hæstv. dómsmrh. myndinni af öðru Atlantshafsbandalagsríki, Grikklandi, þar sem búið er að beita þúsundir fanga hryllilegum aðferðum og drepa fjölda þeirra, þar sem sá maður, sem var þjóðhetja Grikklands í baráttunni á móti nazismanum, sá, sem skar niður hakakrossfánann á Akropolis 1941, hefur nú setið í fangelsi, þótt hann sé þm. í gríska þinginu, og aldrei verið dæmdur að lögum. Ég gæti brugðið upp fyrir honum myndinni af Atlantshafsbandalagsríkinu Portúgal, þar sem tugir þúsunda manna hafa verið myrtir á undanförnum árum, þar sem landið hefur verið svo að segja lokað, á meðan þessar skelfingar hafa farið fram, þangað til loks nú á þessum síðustu tveim árum, að heimurinn hefur fengið að vita um þau hryðjuverk, sem hafa verið unnin þarna með NATO-vopnum af einu helzta ríki Atlantshafsbandalagsins. Og ég gæti brugðið upp fyrir honum myndinni af Íran, af kúgun keisarans þar, af bændunum og menntamönnunum, sem þar sitja tugum þúsunda saman í fangelsi og hafa verið drepnir svo að skiptir hundruðum á undanförnum árum. Ég gæti brugðið upp fyrir honum myndinni af Suður-Ameríku og aðferðunum, sem Bandaríkjaauðvaldið hefur beitt þar, ef ég þætti ekki fara of langt út fyrir umr. í þessum málum, sem þegar hafa teygzt langt út í sögu mannanna á 20. öldinni, og átti ég þó ekki höfuðfrumkvæðið að því. Við skulum því ekki láta okkur detta það í hug, þótt margar sakir sé hægt að bera fram á báða bóga, að Atlantshafsbandalagið sé eitthvað hvítt og engilhreint, heldur þvert á móti, það er eins og auðveldi og stórveldi atað í blóði og tárum. Sekt þess er mikil. En engu að síður, við Atlantshafsbandalagið ætti samt að mega tala eins og hvert annað bandalag um að reyna að afstýra því, að gagnkvæm tortryggni þjóða í milli yrði til þess í misskilningi að tortíma mannkyninu.

Hæstv. dómsmrh. virtist meta það alveg sérstaklega við Atlantshafsbandalagið, að síðan það kom til, hefði ótti hinna vondu kommúnista orðið svo mikill í heiminum, að þeir hefðu ekki lagt nein ný lönd undir sig, og vildi með því móti sýna fram á, að þessi ægilegu árásaröfl í veröldinni, sem hann hélt að kommúnistar væru, óttuðust aðeins eitt og það væri vopnavald Atlantshafsbandalagsins, og þess vegna hefði framsókn kommúnismans, eins og hann kallaði það, í þann veginn stöðvazt, eftir að Atlantshafsbandalagið var myndað.

Atlantshafsbandalagið var myndað 4. apríl 1949. Og síðan það gerðist, hafa stærstu sigrar sósíalismans og þjóðfrelsisbyltingarinnar í heiminum verið unnir. Síðan hefur auðvaldið í veröldinni misst meira tak d heimsálfunum og hraðar en nokkru sinni fyrr. Strax á því sama ári gerðist það, í október 1949, að kínverska byltingin sigrar, alþýðubyltingin í Kína, og fjórði hluti mannkynsins kemst undir kommúnistíska stjórn, eins og þeir mundu orða það, Atlantshafsbandalagsmenn. Og ég veit, að hæstv. dómsmrh. mun hafa kynnt sér þá skýrslu, sem Bandaríkjastjórn gaf út um kínversku byltinguna, þar sem fulltrúar Bandaríkjastjórnar, — gott, ef Marshall var ekki einn aðalskýrslugjafinn, — sýndu fram á, að það hefði ekki verið neitt afl, sem hægt hefði verið að beita til þess að stöðva þá byltingu. Þetta var í senn bylting stærstu bændaþjóðar veraldarinnar og frelsisbylting þjóðar, sem hafði verið gerð að hálfgerðri nýlendu, alræmdri nýlendu evrópska auðvaldsins. Þeir menn, sem skynsamastir voru í stjórn Bandaríkjanna þá, sáu, að hér var um viðburð að ræða, sem var eins og hver annar — svo að segja náttúruviðburður, það var lögmál mannkynssögunnar sjálft, það var þróunarlögmál, sem þarna var að verki, jafnóstöðvandi og sókn borgarastéttarinnar á móti aðlinum og einvöldunum á sínum tíma.

Og síðan byltingin í Kína gerðist, hefur hvert landið á fætur öðru í Asíu og Afríku öðlazt sitt sjálfstæði. Þjóðfrelsisbyltingin hefur farið um. Sums staðar hafa þær orðið að berjast og gera uppreisnir, þessar milljónaþjóðir, sem hafa verið kúgaðar af evrópska auðvaldinu áratugum og öldum saman. Sums staðar hefur sérstaklega brezki hlutinn af auðvaldinu haft vit á því, eins og oft áður, að láta undan í tíma og gefa þeim þjóðum sjálfstæði, sem ella hefðu tekið sér það. Allar fjölmennustu þjóðir veraldarinnar, eins og Indónesar, hafa öðlazt sitt pólitíska sjáifstæði og eru að afla sér síns efnahagslega sjálfstæðis. Alsírbúar hafa með 7 ára styrjöld knúið það fram. Áður höfðu þjóðirnar í því, sem einu sinni var kallað Indó-Kína, knúið slíkt fram með uppreisnum og byltingu.

Stórkostlegasta breytingin næst á eftir Asíu var í Afríku. Þar voru, ef ég man rétt, um það bil, sem Atlantshafsbandalagið var stofnað, 4 sjálfstæð ríki. Nú eru þau orðin 32. Þjóðfrelsisbyltingin hefur sigrað. Þessar þjóðir, sem áður voru undirokaðar nýlendur, eru orðnar sjálfstæðar þjóðir. Og næsta skrefið hjá þeim verður tvímælalaust að verða efnahagslega sjálfstæðar líka, eignast sjáifar sína jörð, sín tæki og ráða sínum auðlindum, eins og við Íslendingar gerðum, þegar við öðluðumst okkar pólitíska sjálfstæði.

En það er ekki nóg með það. Á þessum árum hefur það líka gerzt, nú 1959–1960, að land rétt við bæjardyr ameríska auðvaldsins, Kúba, hefur orðið sósíalistískt land.

M.ö.o.: það var meiningin með Atlantshafsbandalaginu að reyna að viðhalda valdi auðmannastéttanna og nýlendustórveldanna í heiminum. Það hefur brugðizt svo hrapallega, að hver heimsálfan á fætur annarri, Asía, síðan Afríka, er að hrökkva undan valdi auðmannastéttanna í Evrópu, og við bæjardyrnar hjá bandaríska auðvaldinu, voldugasta auðvaldi heims, hefur þjóð Kúbu sjáif tekið örlög sín í sínar hendur og þjóðnýtt meginið af atvinnufyrirtækjum eyjarinnar. Jafnvel þótt öðru hverju hafi verið einhver taugatitringur, eins og t.d. hjá Bandaríkjunum gagnvart Kúbu, jafnvel innrásir framdar, þá hefur þróunin samt sem áður orðið þessi. Þetta er sama þróunin og var á svipuðu tímabili á 19. öldinni, þegar Bandalagið helga smám saman var að missa tökin á Evrópu og borgarastéttir Evrópu voru að hrinda aðlinum og einvöldunum af stóll. Það gat ekki stöðvað útbreiðslu þeirra hugsjóna og þeirra hagsmuna, sem þær stéttir börðust fyrir, sem þá voru að skapa Evrópu 19. aldarinnar, þá borgaralegu Evrópu. Og á sama hátt gerist það nú í heiminum, að jafnvel þótt annað bandalag sé stofnað, Atlantshafsbandalagið, og talið af sumum einhvers konar heilagt bandalag, engilhreint, þá megna engin hernaðarbandalög að halda niðri krafti hugsjónanna og hagsmunum vinnandi og framsæknu stéttanna í heiminum. Þær þjóðir og þær stéttir, sem eru að berjast fyrir sínu frelsi, munu sækja fram, og þeirra barátta verður ekki stöðvuð með vopnavaldi.

Hæstv. dómsmrh. virtist út frá þessum hugmyndum, að það væri styrkleikurinn, aflið, valdið, valdið gegn kommúnismanum, eins og hann talaði um, sem hlyti að vera aðalatriðið til þess að tryggja friðinn í heiminum, halda, að það hefði verið ótti við þetta vald Atlantshafsbandalagsins, sem olli því, að ekki varð styrjöld milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna út af Kúbu. Ég held, að við ættum ekki, sízt af öllu við hér, þessi litla þjóð, að leggja þennan mælikvarða á, þegar risarnir í heiminum eigast við, eins og Bandaríkin og Sovétríkin. Ég held, að það sé fyrst og fremst okkar að fagna yfir því, hvenær sem þeirra forustumenn láta forsjá ráða meira en kapp. Og við ættum ekki að fylla þá blokk, sem reynir að eggja þá hvorn um sig, heldur fylla þann flokkinn, sem segir þeim: Reynið að talast við, áður en ameríski flugvélaflotinn er af misskilningi kominn inn yfir Moskvu, þannig að ameríski flugvélaflotinn verður að bombardera New York líka til þess að sannfæra Sovétríkin um, að þeir séu raunverulega ekki að hefja kjarnorkustyrjöld af ásettu ráði. Það, sem Kúba vill, eins og við og aðrar smáþjóðir, er að fá að vera í friði. Það hefur ein innrás verið gerð frá Bandaríkjunum á Kúbu. Hún hefur verið barin niður. Og það er vitanlegt, að það var önnur í undirbúningi og hún gat orðið tilefni til styrjaldar. Það var gott, að þeir tveir menn, sem hafa forustuna sem stendur hjá Bandaríkjunum og Sovétríkjunum, báru gæfu til að afstýra því, að heimsstyrjöld yrði úr. Það, sem er höfuðatriði fyrir þjóð Kúbu, er að fá að vera í friði og fá að byggja upp sitt land. Það má gjarnan flytja burt allar þær eldflaugar og sprengjuflugvélar og allt, sem þar er, mín vegna. En eitt skulum við gera okkur ljóst. Talað var um og heimtað af ýmsum þeim, sem gerðu Kennedy Bandaríkjaforseta máske dálítið taugaæstan fyrir kosningarnar, að á Kúbu yrði þurrkað burt það, sem þeir kölluðu kommúnista á Kúbu. En af hverju? Af því að Kúba er eins og andleg eldflaugastöð fyrir Suður-Ameríku. Það, sem kúbanska þjóðin er að gera, vekur fögnuð í allri SuðurAmeríku. Þegar menn hafa séð, að ein þjóð gat risið upp, þjóð í eigu amerísku suðhringanna, eignazt sjálf sína jörð, þá vakna tilhneigingar um alla Suður-Ameríku að gera það sama, það sama og við Íslendingar höfum upplifað, eignast sjálfir okkar jörð, ráða sjálfir okkar fossum, ráða sjálfir okkar landhelgi, eiga sjálfir okkar atvinnutæki. Og þegar þjóðir Suður-Ameriku vilja þetta og heimta þetta, eru völd ameríska auðvaldsins yfir Suður-Ameríku búin að vera. Það er þetta fordæmi, sem smitar. 1954 var það svo, þegar róttæk stjórn komst til valda í Guatemala í Suður-Ameríku, að þegar United Fruit Company, ávaxtahringurinn ameríski, sem á meginið af öllu landinu og ræður með einræðisherrum sínum, var hræddur um, að hans miklu ekrur yrðu þjóðnýttar, þá kipptist hann við, og Bandaríkjastjórn lét framkvæma innrás í landið og steypa stjórninni, sem var þar. Þannig hefur það gerzt með hverja stjórnina á fætur annarri í Mið- og Suður-Ameríku, þangað til Kúba tók sér fyrst þjóðfrelsi og byrjaði sína þjóðnýtingu. Þá var ástandið orðið þannig í veröldinni, að nú kostar það heimsstyrjöld, ef á að ráðast á Kúbu og eyðileggja það þjóðfrelsi, sem sú þjóð hefur aflað sér.

Þegar trygging Kennedys var gefin fyrir friðhelgi Kúbu, var allt fengið, sem þurfti. Það, sem þarf, er einmitt, að Kúba fái að vera í friði, fái að sýna þá yfirburði, sem hennar þjóðfrelsi gefur, þjóðum í Suður-Ameríku, sem eiga til að feta í fótspor hennar, og þá skulum við einmitt reyna að sjá um, að friður fái að haldast, til þess að þjóðirnar í SuðurAmeríku ráði sjálfar, hvað þær gera, hvaða þjóðfélagsskipulag þær taka upp.

Hæstv. dómsmrh. talaði í sínum sögulega fyrirlestri við 2. umr. málsins mikið um árásarhug. Ef við tækjum nú þetta lögfræðilega og spyrðum: Hvaða þjóðir eru það í Evrópu, sem gera kröfur til landa annarra þjóða og eru þess vegna það, sem kallað hefði verið á 19. öldinni í árásarhug? Það er fyrst og fremst ein þjóð í Evrópu, sem slíkt gerir, og það er Vestur-Þýzkaland. Það er aðeins ein þjóð í Evrópu, sem er uppi með landakröfur á hendur öðrum ríkjum, og það er Vestur-Þýzkaland. Þar eru valdhafar, sem vilja breyta núv. landamærum Evrópu. Þar eru valdhafar, sem halda því fram, að það verði jafnvel að gera leifturárás í Austur-Þýzkaland eða Pólland eða Tékkóslóvakíu, og þar er verið að magna upp sveitir, sem eru reiðubúnar til slíkra innrása, þannig að þó að við tækjum þetta hreint lögfræðilega séð þannig og brygðum okkur út fyrir þau miklu reikningsskil á milli sósíalisma annars vegar og auðvalds hins vegar, þá er þarna um það land að ræða, sem bein hætta stafar af. Og það er land, sem þegar hefur tvívegis á þessari öld hafið styrjöld. Enn eru það sömu mennirnir, sem ráða því landi, eins og réðu því þá, Krupp og hans fjölskylda, stálhringurinn þýzki, IGF, allir þessir voldugu auðhringar ráða enn Vestur-Þýzkalandi, þeir sömu hringar, sem dæmt var eftir styrjöldina að skyldu leystir upp, þeir sömu auðjöfrar, sem þjóðnýta skyldi samkv. ákvörðunum, sem Sameinuðu þjóðirnar gerðu eftir stríðið. Í Vestur-Þýzkalandi er nú gamli fasisminn að reisa sig aftur. Og það þarf ekki annað en sjá, — þó að það sjáist sjaldan í borgaralegum blöðum hér, þá kom í Tímanum nýlega þýðing á grein í Politiken, — þá má sjá oft í skandinavísku blöðunum, hvaða ótti er uppi við þann árásarhug, sem er að vaxa upp í Vestur-Þýzkalandi. Það er gamla svívirðilega yfirstéttin, sem þar ræður enn þá. Það er gamla þróunin, eins og átti sér stað í Weimar-lýðveldinu, sem á sér stað þar enn. Aðfarirnar gagnvart Spiegel núna undanfarið bregða nokkru ljósi á það, hvernig fasisminn er að grafa um sig í Þýzkalandi aftur. Það er sama gamla, harðvítuga, spillta ríkisvaldið, það eru sömu mútuðu dómararnir, það er sama æsta herforingjaklíkan, sem þarna ræður. Mennirnir, sem voru herforingjar Hitlers á stríðsárunum, eru núna með leiðandi mönnum, jafnvei í sjálfu herforingjaráði Atlantshafsbandalagsins. Og hver var yfirlýsing Strauss, þess ráðh. Þýzkalands, sem nú er mest deilt um fyrir hans fasistísku aðferðir? Hans yfirlýsing var sú, að Vestur-Þýzkaland skyldi vera búið að fá atómvopn fyrir árslok 1962. Halda menn nú, að t.d. Sovétþjóðirnar eða Tékkóslóvakía eða Pólland, þær þjóðir, sem hafa orðið verst fyrir barðinu á þýzka auðvaldinu á undanförnum áratugum, halda menn, að þær horfi á þessa þróun með jafnaðargeði? Halda menn, að þeir, sem hafa misst, eins og þessar þrjár þjóðir, yfir 30 millj. manna í síðustu styrjöld af völdum nazismans, halda menn, að þessar þjóðir biði eftir því að vera leiddar á höggstokkinn aftur? Nei, menn verða að reyna, ef menn vilja dæma í svona málum, að setja sig ofur lítið inn í aðstöðu þeirra, sem orðið hafa fyrir barðinu á vestur-þýzka auðvaldinu og vestur-þýzka hervaldinu, og skilja, að þeir ætla ekki að láta fara eins með sig og þá. Þess vegna, ef lögfræðilega séð nokkurs staðar er ótvíræður árásarhugur hjá einni ríkisstj. um að breyta núverandi landamærum Evrópu, þá er hann í Vestur-Þýzkalandi. Hvað hitt snertir, þá djúpstæðu grundvallarmótsetningu milli sósíalisma og kapítalisma, þá er um að gera, að sú mótsetning verði ekki leyst með styrjöld á milli þessara andstæðu þjóðfélagsskipulaga, heldur að það geti gengið eins og það gekk á sinum tíma að miklu leyti, þegar kapítalisminn var að leysa gamla lénsskipulagið af. Það getur gerzt án heimsstyrjalda á milli þjóðskipulaganna.

Þá beindi hæstv. dómsmrh. til mín fsp. út af því, hvort ég vissi um það, sem annars væri heiminum ókunnugt, hvort Sovétríkin hefðu látið Kína fá leyndarmál kjarnorkusprengjunnar. Ég hafði sagt í minni ræðu um Kínverjana eitthvað á þá leið: Munu þeir þó ekki hafa fengið aðstoð til slíks. — Það er opinbert leyndarmál, menn geta lesið jafnt um það hjá Walter Lippmann sem annars staðar, að það er gengið út frá því, að bandamenn bæði Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, m.a. Kína annars vegar og Vestur-Þýzkaland hins vegar, hafi farið fram á það við þessi atómstórveldi, að þau fengju aðgang að leyndarmáli kjarnorkusprengjunnar. Og það er almennt álitið í heiminum, og við það studdist ég og það hygg ég að sé rétt, að þessi miklu kjarnorkustórveldi hafi ekki orðið við þessum óskum bandamanna sinna. Við munum alveg sérstaklega eftir, hvað Kennedy hefur a.m.k. fram á síðustu daga verið varfærinn um spurninguna meira að segja, hvort Atlantshafsbandalagið fengi kjarnorkuvopn, öðruvísi en að Bandaríkjamenn réðu þeim einir. Og það er alveg greinilegt, að í þessu hefur birzt frá hálfu Bandaríkjanna, Englands og Sovétríkjanna aðgát sú, sem þessi kjarnorkustórveldi vilja að sé höfð um kjarnorkusprengingar, vegna þess að þau óttast, m.a. kannske vegna þess, að þau finna sjálf, hvað litlu kynni að muna, að þau sjálf færu að hagnýta þetta hvert á móti öðru, jafnvel af misskilningi, og þeir menn, sem ráða þeim, sýna þá ábyrgðartilfinningu, að þeir finna, að því fleiri, sem hafa þetta með höndum, því meiri hætta sé á, að styrjöld geti brotizt út. En gagnvart þessu stöndum við frammi fyrir því, að þessar þjóðir, sem sjálfar hafa mikið af sérfræðingum í sinni þjónustu, þjóðir eins og Vestur-Þjóðverjar og Kínverjar, eru náttúrlega sjálfar með sínar tilraunir, og enginn veit, hve langt þeir eru komnir. Jafnvel segja sumir, að á þessu eða næsta ári kunni þær að vera búnar að finna þetta út.

Hæstv. dómsmrh. fór að spyrja mig út í Kína og Indland. Við vorum komnir anzi langt í þessum umr. okkar. Ég vil nú segja honum, að ef heimurinn tæki t.d. upp á því að fela okkur tveimur að eiga að fara að gera út um þetta, þá held ég, að ég mundi a.m.k. reyna að læra það af honum sem lögfræðiprófessor fyrrv. að byrja á því fyrst að rannsaka, áður en ég dæmi, og hlýða á báða málsaðila, áður en ég dæmi. Og ég mundi ekki telja mig færan um að kveða upp dóm í þeim efnum, fyrr en ég hefði gert slíkt. Nú verð ég að segja, að þessar þjóðir virðast ekki vera í styrjöld, þótt þær berjist. Stjórnmálasamband heldur áfram á milli þeirra, og hvorug hefur slitið stjórnmálasambandi við hina, þannig að lögfræðilega séð sýnist mér þarna ekki vera styrjöld, heldur mjög harðvítugar landamæraskærur. Kínverjar segja, að Indverjar hafi ráðizt á sig, og Indverjar segja, að Kína hafi ráðizt á sig, klögumálin ganga á víxl. Hvað snertir staðhæfingu kínversku ríkisstj., Pekingstjórnarinnar, halda þeir því fram, að Indverjar hafi tekið land, sem þeir telja kínverskt land, og svo mikið veit ég, að alþýðustjórnin í Kína mun ekki vera ein um þessa skoðun. Ég held, að ég viti það rétt, að um það bil 1950 eða hvenær sem það nú gerðist, að indverska stjórnin tók upp stjórnmálasamband við Pekingstjórnina og sleit stjórnmálasambandi við Chang-kaj-Chek, þá var síðasta verkið, sem ambassador Chang-kaj-Cheks hafði gert í Nýju-Delhi, að mótmæla því, að Indverjar hefðu lagt undir sig þau héruð, sem þarna er deilt um, þannig að þarna virðist jafnt kínverska alþýðustjórnin sem sú stjórn, sem sat að völdum á undan henni í Kína og enn er viðurkennd af Bandaríkjunum, halda því fram, að Indverjar hafi fyrir 12 árum lagt undir sig land, sem raunverulega ætti að tilheyra Kína og alltaf hafi verið haldið fram af kínversku keisurunum og slíkum, að Kína hafi tilheyrt, þannig að þeir miklu andstæðingar Mao-tse-Tung og Chang-kaj-Chek virðast jafnvel vera sammála að þessu leyti. Indverjar hins vegar halda því fram, að Kínverjar hafi ráðizt á þá. Og það er ekki aðeins indverska ríkisstj., sem heldur þessu fram, indverski kommúnistaflokkurinn heldur þessu fram líka. Hann er á sömu skoðun og stjórn Nehrús, þannig að fyrsta hugmyndin, sem maður fær með því að reyna að kynna sér eitthvað frá báðum hliðum í þessum efnum, er, að þarna sé um að ræða þjóðernislega deilu um ákveðin landamæri.

Ef við hæstv. dómsmrh. ættum að fara að reyna að leysa svona deilu, mundum við vafalaust fyrst og fremst athuga svona hlut frá því sjónarmiði, hverjir búa þar, hverrar þjóðar eru þeir menn, sem búa þarna, að svo miklu leyti sem þessi svæði eru byggð. Þeir menn, sem búa þarna, eru Tíbet-búar. Ég mundi þess vegna segja: Um svona mál er bezt að reyna að rannsaka þetta, hlýða á alla aðila, athuga málsskjöl og reyna síðan að kveða upp dóm, en ekki byrja bara með því að segja: Þarna eru vondir kommúnistar, þeir eru auðvitað árásarmenn. Þar með er málið leyst. Svona einföld eru ekki deilumálin í heiminum. Það eru vafalaust þarna í Asíu ótal óglögg landamæri og ótal deilur á milli aðila, sem annars væru kannske mjög vinsamlegir hvor öðrum. Og það er sorglegt, þegar það þarf að koma til þess, að slíkir aðilar fari að beita vopnum. Þess vegna skulum við ekki vera svona fljótir að lýsa bara því yfir, hvar sem barizt sé, að það séu vondir kommúnistar, sem að því standi, og það sé eina vandamálið, sem við sé að etja í heiminum nú.

Nei, vandamálið í heiminum er allt, allt annað. Fyrir utan allar þær þjóðlegar mótsetningar, sem kunna að vera á milli einstakra þjóða, stórra eða smárra, eru sjálfar stéttamótsetningarnar í heiminum og mótsetningarnar á milli þjóðfélagskerfanna í heiminum. Það hefur hvert þjóðfélagskerfið tekið við af öðru í veröldinni á undanförnum öldum, án þess að tilvera mannkynsins hafi verið í hættu. Borgarastéttin og hennar skipulag, kapítalisminn, tók við og flutti mannkyninu þær miklu framfarir, sem kapítalisminn hefur skapað því. Hann varð að berjast öldum saman við gamla lénsskipulagið, kollvarpa því, stundum með byltingum, stundum jafnvel með stríðum og stundum friðsamlega. Ef svo á að fara í veröldinni, að það verði sósíalisminn, sem leysir kapítalismann af, þá er bezt, að slíkt gerist friðsamlega. Og það, sem við ættum að reyna að koma okkur saman um, er, að þjóðirnar í hverju landi fái sjálfar að ráða þessu, en þau miklu stórveldi, sem forustuna hafa sitt hvorum megin í þessum herbúðum sósíalismans annars vegar og kapítalismans hins vegar, fari ekki að skipta sér af þessari baráttu á þann hátt að fara út í heimsstyrjöld sín á milli. Þetta held ég, að hljóti að vera það, sem við hér í okkar landi, sem höfum komið á allmiklu lýðræði hér hjá okkur og álitum, að okkar þjóð eigi sjálf með atkvgr. að fá að ráða, hvaða þjóðfélagsskipulag hún hefur, þetta held ég, að við ættum að geta verið sammála um að slá föstu sem grundvallaratriðum: að sú þróun, sem fái að gerast í veröldinni, fái að gerast friðsamlega. Hættan er hins vegar sú, af því að vopnin, sem mennirnir hafa nú, eru geigvænlegri en þau, sem þeir hafa haft nokkurn tíma fyrr, þá er það meira spursmál nú, það er jafnvel spursmál um líf eða dauða mannkynsins, að til þessara vopna verði ekki gripið til þess að útkljá þessa deilu.

Þróunin mætti frá mínu sjónarmiði ganga miklu seinna í veröldinni, sósíalisminn sigraði miklu seinna, ef það mætti aðeins ganga svo, að yfir mannkynið yrði ekki leidd sú hörmung sem heimsstyrjöld. Og ég held, að það, sem við verðum að einbeita okkar kröftum að, sé að leggja fram okkar skerf til þess, að slíkum skelfingum verði afstýrt. Við höfum látið ginnast inn í bandalag, sem að mínu áliti er bandalag auðveldanna og stórveldanna í heiminum, bandalag, sem mörg ríkin í hafa þegar sýnt sig opinberlega að árásum á aðrar þjóðir, og það sem enn þá verra er, við höfum látið blekkjast til að koma hér upp allmiklum herstöðvum í þeirri trú þeirra, sem að því hafa staðið, að það væri til þess að tryggja líf okkar þjóðar betur. Þetta er okkar harmsaga í þessum efnum. Þeir menn, sem ráðið hafa þessu, hafa ekki áttað sig á því enn, að þessar herstöðvar eru okkar þjóð ekki nein vernd, ef til styrjaldar kemur, heldur draga þær að okkur sprengjurnar, valda okkur hættu. Þær eru ekki heldur sú ógn gagnvart vondum kommúnistum, sem hræðir þá frá því að leggja út í heimsstyrjöld. Þeir hafa jafnlítinn hug á heimsstyrjöld og við Íslendingar. Þjóðir, sem komu sundurflakandi í sárum út úr síðustu styrjöld, langar sannarlega ekki í nýja heimsstyrjöld. Þjóðir, sem loksins eftir aldaáþján og eymd eru að vinna bug á sinni fátækt og lyfta sér upp á það iðnaðarstig, sem þjóðir Vestur-Evrópu standa á, þær hafa fyrst og fremst löngun til þess að fá að lifa í friði og þróa sitt þjóðfélag í friði. Ég held, að það, sem við þurfum á að halda og ættum að skoða sem okkar verkefni, sé að bera hug sáttar og skilnings á milli þessara stórvelda. Við erum sjálfir ekki svo stórir í heiminum, að við getum talað við hvern sem er og reynt að skýra fyrir þeim, og það skoðar það enginn sem neina minnkun frá okkur, þó að við reynum að tala svo að segja eins og börnin, sem vilja ekki, að fullorðnir séu að slást. Við vitum, hvað metnaðurinn er óskaplegur þáttur og óskapleg hætta, sem í honum felst, ef stórveldin eiga í hlut. Við, smáþjóðin, þurfum ekki að óttast neitt slíkt. Við eigum að geta talað bara eins og menn, sem bera hag okkar litlu þjóðar og hag mannanna yfirleitt fyrir brjósti. Þess vegna vildi ég mega vonast til þess, að enn yrðu þessi mál athuguð betur og rædd.

Það var svo við 2. umr. þessa máls, að frsm. heilbr.- og félmn., hv. 4. landsk., hafði kvatt sér hljóðs og var síðan forfallaður frá því að geta talað, þegar það mál var afgreitt. Ég vil aðeins skjóta því til forseta, hvort ekki mundi vera viðkunnanlegt, að þessu máli væri frestað eða ekki lokið umr. um það nú, ef frsm. minni hl. heilbr.- og félmn. hefði kjörið að koma fram með brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir, eftir að hans rökst. dagskrá var felld. Ég þykist að mínu leyti hafa gert nokkra grein fyrir því, sem er langstærsta atriðið í þessu máli, sumpart að gefnu tilefni, og vildi mega vona, að það gæti orðið til þess, að við íhuguðum þessi mál af meiri skilningi og minna kappi en okkur hefur kannske öllum annars hætt við að gera.