06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

Efnahagsbandalagsmálið

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er nú orðið alllangt síðan ég kvaddi mér hljóðs í þessu máli, það eru víst einir 3 mánuðir, og ýmislegt hefur gerzt síðan það var. Ég held, að engu að síður verði ég að taka upp þráðinn, þar sem hætt var þá, þó að ýmsar breytingar hafi orðið.

Ég er á því, að sú mikla hætta, sem var yfirvofandi fyrir nokkrum mánuðum, þegar við ræddum þetta mál, sé ekki yfirvofandi nú, en hún getur orðið það aftur eftir kannske eitt eða tvö ár. Og það er engum efa bundið, að það er unnið að því af sterkum kröftum að reyna að fá England inn í Efnahagsbandalagið, og þá mundi hættan viðvíkjandi Danmörku og Noregi rísa upp á ný. Og alveg sérstaklega verður þessi hætta gífurleg í sambandi við 1966, því að fram að þeim tíma reyna bæði bandalögin, Fríverzlunarbandalagið og Efnahagsbandalagið, að samræma nokkuð sínar tollalækkanir, þannig að það verði ekkert í veginum fyrir því, ef pólitískar forsendur ekki hindra, að þau gætu þá sameinazt. Ég held hins vegar, að það, sem er alveg sérstaklega nauðsynlegt að við gerum okkur ljóst í þessu sambandi, sé, að við erum að ræða hér um að fara inn í þá auðhringasamsteypu Vestur-Evrópu, sem Efnahagsbandalagið fyrst og fremst er, og það er það, sem þarf fyrst og fremst að hafa í huga, en ekki bara almenna ríkjasamsteypu, sem þarna er verið að ræða um. Ég hafði hins vegar ekki hugsað mér að gera þeim málum sérstaklega skil hér. Það hafa aðrir af félögum mínum í þingflokknum áður gert og það mjög rækilega. En það var eitt atriði, sem ég vildi sérstaklega taka af því, sem fram kom í skýrslu hæstv. viðskmrh. og hefur ekki verið tekið fram að þessu. Og það er sá hlutur, þar sem hann ræddi sérstaklega um menningartengslin, sem við hefðum við Vestur-Evrópu, og vegna vestrænnar menningar væri okkur brýn nauðsyn á að fara inn í þetta Efnahagsbandalag. Hæstv. viðskmrh. hafði um það eftirfarandi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslendingar eru hluti af Vestur-Evrópu, og þar er ekki aðeins stærsta viðskiptasvæði þeirra, heldur er menning Íslendinga fyrst og fremst grein af vestur-evrópskri menningu. Íslendingar hafa komið á í ríki sínu þjóðfélagsháttum, sem eru grundvallaðir á sömu hugsjónum um lýðfrelsi og mannhelgi, sem mótað hafa iðnaðarríki Vesturlanda.“

Og síðan segir svo: „Allt bendir þetta til þess, hve ríka hagsmuni Íslendingar hafa af því, að sú mikilvæga þróun, sem nú á sér stað í viðskiptamálum V.-Evrópu, verði ekki til að losa um tengsl þeirra og ríkjanna, sem eru miðdepill þessarar þróunar, ekki aðeins vegna þess að viðskiptahagsmunir séu í hættu í bráð, heldur vegna hins, að þegar til lengdar lætur er um að tefla allsherjartengsl okkar, menningarsamband okkar og stjórnmálasamband við þær þjóðir, sem okkur eru skyldastar, búa við líkast þjóðfélag því, sem hér er, og við höfum öldum saman haft mest saman við að sælda.“

Það er þessi yfirlýsing hæstv. ráðh., sem myndar svo að segja grundvöllinn að hans röksemdafærslu um, að það sé ekki aðeins hættulegt fyrir viðskipti og þar með hagsmuni Íslendinga, heldur sé það beinlínis hættulegt fyrir okkar menningu að slíta þessi tengsl með því að gera ekki það, sem við getum, til þess að tengjast Efnahagsbandalagi Evrópu. Ég vildi þess vegna gera að umtalsefni okkar viðskipti menningarlega séð við þessi lönd Vestur-Evrópu. Það, sem hefur einmitt einkennt íslenzka menningu, er, að við höfum aldrei verið hluti af þessu menningarsvæði. Við höfum alltaf verið sjálfstæðir gagnvart þessu menningarsvæði. Við höfum þegið af því, og við höfum líka staðið gegn því. Strax í fornöld, eins og við köllum það, á miðöldunum sýnum við okkur í því, að okkar menning stendur hærra en menningin þá í þessum Vestur-Evrópulöndum. Við höfum jafnvel hugmynd um gerð heimsins, sem er ólík þeim, sem ríktu í hinum kaþólska hluta Vestur-Evrópu þá. Okkar stjarnfræðingar hér á Íslandi hafa vitað, að jörðin er hnöttótt, á 11. og 12, öld, þegar kaþólsk kirkja í Vestur-Evrópu trúir því, að hún sé flöt eins og pönnukaka. Og okkar tengsl við þann arabíska heim á þeim tíma, suður á Spán og austur eftir til Garðaríkis, eru ákaflega sterk, á sama tíma og Vestur-Evrópa stendur að baki, Vestur-Evrópa er ríki lítilla þorpa samanborið við stórborgir og hámenningu þess þáverandi Arababandalags. Við Íslendingar höfum reynt í allri þeirri menningu, sem hefur einkennt okkur bezt, að vera óháðir Vestur-Evrópu og hennar menningarstraumum, en taka frá henni allt það, sem nýtilegast var. Þegar lénsskipulagið, aðalsskipulagið hefur rutt sér til rúms í Evrópu, þá viðhöldum við sjálfstæðu bændaþjóðfélagi, sem aðeins örfáum smáættflokkum í Evrópu heppnaðist að gera. Við stöndum upp á móti því þjóðfélagi, sem þá ryður sér til rúms um alla Mið- og Vestur-Evrópu og Austur-Evrópu þá líka á eftir. Þegar þessi yfirstétt Vestur-Evrópu skapar sér nýtt mat, sem líka brýzt fram í hennar bókmenntum, þar sem ýmist furstar og aðalsmenn eða dýrlingar eru aðalhetjurnar, þá sköpum við bókmenntir, þar sem bændur eru hetjurnar. Við varðveitum manngildishugmyndina, þegar þessar yfirstéttir Evrópu hafa dýrkað hefðina og þessar voldugu yfirstéttir. Þegar latínan verður mál yfirstéttanna í Evrópu, þá stöndum við uppi og höldum við okkar tungu. Við reynum að dragast ekki með í þá þróun, sem þá átti sér stað í Evrópu, og sköpuðum þá einmitt þær sérstæðu bókmenntir, sem við sköpuðum. Þegar þýzka menningin ryður sér til rúms á Norðurlöndum og fer í krafti aðalsveldisins að eyða tungu Norðurlanda og breyta henni í hálfþýzkar mállýzkur að meira eða minna leyti, þá stöndum við uppi gegn allri þessari menningarþróun. Svo erfitt sem það var, þá hjálpaði einangrunin okkur. Við höldum öllum tengslunum við okkar þjóðlíf og tekst þannig að varðveita íslenzkt þjóðerni. Nú eru þessar hættur á menningarsviðinu fyrst og fremst tengdar engilsaxneskum áhrifum á Íslandi, enda engin tilviljun, að um leið og England fer að hreyfa sig í sambandi við að fara inn í Efnahagsbandalagið, þá er hæstv. ríkisstj. hér á Íslandi stokkin til og vill fá að hlaupa á eftir. Við Íslendingar höfum þess vegna reynt alla okkar sögu út í gegn að standa sjálfstæðir gagnvart þessu menningarsviði í Vestur-Evrópu, taka aðeins það af því, sem tæknilega séð mátti okkur að gagni verða, en reyna að hindra, að það, sem sérstaklega sérkenndi yfirstéttamenningu Vestur-Evrópu, yrði drottnandi hér á Íslandi líka. Við skulum þess vegna ekki, þegar við rekjum okkar sögu, gera þetta að svona miklu úrslitaatriði eins og hæstv. ráðh. hætti við, vegna þess að það þýddi að gera of lítið úr þeim sjálfstæða þætti Íslendinga sjálfra í því að skapa sína menningu, og sá sjálfstæði þáttur þarf að geta verið til áfram hjá okkur núna, þannig að það, sem gildir fyrir okkur, er að vera á verði gagnvart þessari hættu, en ekki að gera sem mest úr, að við séum ekki neitt, svo framarlega sem við séum einangraðir frá henni.

Ég skal ekki fara að rekja hér það slæma í menningu Vestur-Evrópu, sem við höfum fengið að kenna á. Ég ætla ekki að fara að rekja imperíalismann og hans sögu síðustu áratugina eða þá kúgun, sem lýðræðisríki Vestur-Evrópu, sem nú eru, hafa beitt aðrar þjóðir heims, í Afríku, Suður-Ameríku, Asíu. Ég ætla ekki að fara að rekja þrælasöluna né neinar af þeim svívirðingum og hörmungum, sem þjóðir Vestur-Evrópu hafa leitt yfir heiminn í kringum sig. Við höfum stundum fengið að kenna á slíku, en til allrar hamingju höfum við aldrei verið þátttakendur í því. En ég skal hins vegar minnast á nokkra þá hluti, sem við höfum fengið frá Vestur-Evrópu og eru ákaflega þýðingarmiklir fyrir okkur, og ég skal nefna sérstaklega þrennt og athuga í sambandi við það, hvernig horfir með Efnahagsbandalag Evrópu. Við skulum taka í fyrsta lagi þingræðið, hvernig er með sjálfa þingræðishugmyndina og framkvæmd hennar, sem við höfum ótvírætt, eins og þingið var hér, þegar það var endurreist og breytt frá því, sem verið hafði, fengið frá Bretlandi og öðrum þingræðislöndum Evrópu og höfum þar fengið ákaflega þýðingarmikið skipulag. Hvernig háttar um það í Efnahagsbandalagi Evrópu? Efnahagsbandalag Evrópu er bókstaflega myndað til þess að brjóta á bak aftur þingræði Vestur-Evrópuþjóðanna. Bretum var það sjálfum ljóst, þegar þeir sóttu um inngöngu, að þeirra gamla þing var verið að lækka í tign og valdi, um leið og Bretar gengju að þeim skilmálum, sem þeim hingað til hafa staðið til boða, inn í Efnahagsbandalag Evrópu. Öll þingin í Þýzkalandi, Frakklandi, Belgíu og annars staðar, sem gerzt hafa þátttakendur í Efnahagsbandalagi Evrópu, hafa afsalað svo og svo miklu af sínu þingræði og þar með eyðilagt svo og svo mikið af sínu sjálfstæði. Þegar belgíska þingið samþykkir að halda áfram að reka vissar kolanámur, þá eru þau lög belgíska þingsins ómerk og eru eyðilögð á eftir, vegna þess að þau rekast á við ákvarðanir kola- og stálhringsins, sem eru æðri en það, sem þingið ákveður. M.ö.o.: það er búið á vissum sviðum að afnema þingræðið í þessum löndum og búa til stofnanir, sem eru æðri en það. Það er verið af því auðhringavaldi, sem verið er að byggja upp, að brjóta niður þingræði Vestur-Evrópu, einmitt í þeim löndum, sem upphaflega höfðu skapað það, barizt fyrir því í sínum byltingum og mótað það og gefið þjóðum eins og okkur það. Það er þess vegna ekki ástæða vegna þeirrar þingræðishugsjónar og þingræðisskipulags, sem Vestur-Evrópa hefur gefið okkur, að fara inn í Efnahagsbandalagið. Efnahagsbandalagið er andvígt, er fjandsamlegt þeirri hugsjón.

Þá skulum við taka mannréttindahugsjónir frönsku byltingarinnar og þær þjóðfrelsiskenningar, sem hún efldi og sumpart skóp um alla Evrópu. Einmitt í sambandi við amerísku og frönsku byltinguna í lok 18. aldar er hrundið af stað öllum þeim þjóðfrelsisbyltingum og þeim borgaralegu byltingum, sem fram fara í veröldinni á 19. öldinni og enn þá halda áfram, þótt undir öðru formi sé. Við byggðum okkar höfuðkröfur á þessum byltingum, þó að við styddum þær formlega með Gamla sáttmála, og þessar byltingar, þegar þær voru framkvæmdar úti í Evrópu, gáfu okkar frelsisbaráttu alltaf byr undir báða vængi. Hvernig stendur Efnahagsbandalag Evrópu gagnvart þjóðfrelsishugsjóninni, sjálfstæðisbaráttunni, bæði okkar og annarra? Efnahagsbandalag Evrópu er fjandsamlegt, er andvígt þessari þjóðfrelsishugsjón. Efnahagsbandalag Evrópu er skapað til þess að brjóta á bak aftur þjóðfrelsishugsjónir 18. og 19. aldarinnar og brjóta undir járnhæl fámennrar auðmannaklíku þjóðfrelsishugsjónir þessara landa, sem fyrir einni öld og jafnvel tveim öldum sumar höfðu risið upp og skapað sér þjóðfrelsi, þannig að hvað snertir mannréttindahugsjónir og þjóðfrelsiskenningarnar, sem við hlutum svo mikinn stuðning af í okkar sjálfstæðisbaráttu hér heima, þá er Efnahagsbandalag Evrópu fjandsamlegt þeim, svo að vegna þeirra mikilvægu erfða, sem þær eru fyrir okkur, bæri okkur ekki að reyna eð sameinast Efnahagsbandalaginu. Efnahagsbandalagið miðar í fyrsta lagi að því að eyðileggja þjóðernislegt sjálfstæði og jafnvel að eyðileggja sjálft þjóðernið, því að það, sem er að gerast með Efnahagsbandalaginu, og svo framarlega sem því tekst að halda því áfram, er að hræra þessar þjóðir saman. Þjóðflutningarnir frá Ítalíu til Ruhr eru gott dæmi um það, þegar 300–400 þús. ítalskir verkamenn eru fluttir til Ruhr, og það er alveg greinilegt, að það, sem vakir fyrir auðjöfrunum, sem þarna standa að, er ein allsherjarsamsteypa þessara þjóða, ekki alveg ólíkt því kannske, sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum, og ég held það sé síður en svo til fyrirmyndar menningarlega séð. Það eru svo ótrúleg mannleg verðmæti, sem eru eyðilögð með því, að þjóðerninu er þannig kippt burt.

Í öðru lagi setur Efnahagsbandalagið peningavald auðfurstanna ofar öllu manngildi Það eina, sem mark er tekið á í Efnahagsbandalaginu, eru hagsmunirnir, peningagildið, peningaáhrifin, og þar með er þurrkað burt meira eða minna allt, sem snertir þá mannlegu hlið í þjóðlífinu. Þegar menn athuga t.d. aðferðina á að rykkja bændastéttinni í Frakklandi og Þýzkalandi upp með rótum, hvernig á að leggja niður á næsta áratug líklega upp undir þriðjunginn af bændunum þarna, bændabýlunum, þá sjáum við, hvílík ógnarbylting er, sem þarna er verið að framkvæma, og hvað hún muni koma til með að þýða upp á tengsl þessara þjóða við sína fortíð. Þess vegna er það engum efa bundið, að allar þær mannréttinda- og þjóðfrelsiskenningar, sem við höfum fengið svo mikinn stuðning af, ekki sízt á síðustu öld, frá Vestur-Evrópu, þær eru ekki röksemdir fyrir því að tengjast Efnahagsbandalagi Evrópu, heldur þvert á móti. Það hefur verið einkennandi fyrir íslenzka menningu að vera andvíg valdi auðsins, vera andvíg því að meta allt til peningagildis. Og Íslendingar hafa haldið þessu mati á mannlífi og mönnum, alveg fram á þessa áratugi, sem við nú lifum. Og við höfum að því leyti verið frábrugðnir borgaralegu þjóðunum í kringum okkur. T.d. menntaðir Bandaríkjamenn, sem hingað komu í síðasta stríði og gátu dálítið bæði lært íslenzku og kynnzt okkar þjóðlífi sem menntaðir menn, þeir höfðu einmitt orð á því, hve gerólíkir Íslendingar væru því, sem menn væru til dæmis í Bandaríkjunum. Ef spurt væri um einhvern mann hér á Íslandi, þá væri fyrst spurt um, hvort hann væri gáfaður. Ef spurt væri um mann í Bandaríkjunum, þá væri fyrst spurt, hvað hann eigi mikla peninga. Mannmatið á Íslandi hefur verið annað en í löndunum í kring. Við erum enn þá ekki gagnsýrðir af því borgaralega mannmati. Hið borgaralega þjóðfélag — þjóðfélag borgarastéttarinnar — hefur ekki enn þá náð að marka okkur með þessu soramarki að meta allt til peninga, mennina líka. Þess vegna höfum við verið frábrugðnir þjóðunum í Vestur-Evrópu, þar sem þetta mat hefur meira eða minna rutt sér til rúms, þó að það hafi ekki gert það í alveg eins ríkum mæli og í Bandaríkjunum, vegna þess að þjóðarerfðirnar í þessum löndum Vestur-Evrópu standa á móti því, þær eru mótvægi á móti þessu peningagildismati. En í Bandaríkjunum hefur ekkert verið, sem hefur staðið á móti því, m.a. af því að þeir áttu ekki sögu, a.m.k. ekki sögu, sem þeir vildu viðurkenna. Ef þeir hefðu kunnað að taka Indíánana sem sína raunverulegu brautryðjendur að nema það land, þá hefðu þeir getað lært af þeim að vera menn og falla ekki fyrir peningum og sökkva eins djúpt og þeir hafa fallið núna. Og það fann Benjamín Franklín strax í lok 18. aldarinnar, þegar hann lýsir afstöðunni, sem Indíánarnir hafa, og ber það saman við tilhneigingarnar hjá Bandaríkjunum meira að segja strax þá. Þess vegna er það, að ef við Íslendingar ætlum að reyna að halda því, sem auðvaldsskipulagið reynir að eyðileggja hjá okkur í þessum efnum, þá megum við ekki ánetjast Vestur-Evrópu og Efnahagsbandalaginu, þá þurfum við að varðveita okkar sjálfstæði líka hvað snertir þjóðlífið sjálft og matið á manngildinu. Vestur-Evrópa með sínu Efnahagsbandalagi getur þar aðeins flutt okkur eyðilegginguna á því, sem við höfum alið upp sjálfir hjá okkur, og við höfum þegið líka á vissum tíma góð áhrif frá þeim.

Það þriðja mikilvæga, sem Vestur-Evrópa hefur gefið okkur einmitt á þessu stjórnmálalega sviði, er Marxisminn, sósíalisminn. Það er og má ekki gleymast, að einmitt þegar sósíalisminn og þar með sú sósíalistíska verkalýðshreyfing var flutt hingað til Íslands, þá kemur það til okkar frá Vestur-Evrópu. Marxisminn er vestur-evrópsk hugmynd. Marxisminn er, eins og hæstv. ráðh. veit, samsettur af þeirri ensku hagfræði, þeirri þýzku heimspeki og þeim franska útopíska sósíalisma. Og upp úr þessum þremur stofnum er það, sem Marxisminn vex. Hann er eitt af því stórfelldasta í sögu þjóðfélaga í heiminum, sem Vestur-Evrópa hefur gefið mannkyninu, og þó að það hafi farið svo, að aðrir hafi orðið til að framkvæma sósíalísmann á undan okkur í Vestur-Evrópu, þá er okkar heiður í Vestur-Evrópu ekki að minni fyrir það. Það urðu líka aðrir en íbúar Gyðingalands til þess að framkvæma kristindóminn á sínum tíma. Og ég þarf víst ekki að rökræða við hæstv. ráðh. um, að það sé mikil hætta á, að Efnahagsbandalag Evrópu mundi fara að eyðileggja nokkuð af þeirri erfð. Það er sjálft svo andvígt Marxismanum, þó að það neyðist nú til þess í sínum efnahagslegu ráðstöfunum að læra nokkuð margt af honum, þá er það hins vegar það andvígt einmitt þessari hugsjón, að ég þarf ekki að flytja margar röksemdir fram til þess að sýna fram á, að ekki þurfum við að sameinast Efnahagsbandalagi Evrópu til þess að viðhalda þessu, sem við höfum fengið frá Vestur-Evrópu, Marxismanum eða sósíalismanum. Það er þvert á móti svo, að það er eitt af því, sem haldið hefur verið fram, að við þyrftum að sameinast Efnahagsbandalagi Evrópu til þess að hjálpa til þess að slá sósíalismann niður. Það er ein höfuðröksemdin og var í Morgunblaðinu 19: ágúst 1961, í leiðaranum, sem mikið hefur verið vitnað í, að það yrði sótt um inngöngu í Efnahagsbandalagið, að við mundum einangrast og verða kommúnismanum að bráð, svo framarlega sem við gengjum ekki inn í Efnahagsbandalagið. Og þá var haldið, að innan skamms lentu öll Evrópulönd í Efnahagsbandalaginu, eins og þar stóð. Þar stóð áfram: „Ef við Íslendingar tökum ekki þátt í þessu samstarfi, verðum við einangraðir efnahagslega, og þá mundi vafalítið til þess koma, að við yrðum til neyddir til þess að taka þátt í Efnahagsbandalaginu.“ Og það var haldið áfram með leiðarann þá, að allir þeir, sem væru andvígir því, að við tækjum þátt í Efnahagsbandalaginu, væru bara að þjóna heimskommúnismanum, eins og segir í síðari leiðaranum í Morgunblaðinu þann dag, og Alþýðusambandinu þá borið það á brýn, að það sé að þjóna heimskommúnismanum með því að vera á móti því að ganga inn í Efnahagsbandalagið. Ég fer nú að halda stundum, að hæstv. ríkisstj. fari að fá það framan í sig líka, að af tómri þjónustu við heimskommúnismann hafi hún hætt við að ganga inn í Efnahagsbandalagið og sverji það svona hrottalega af sér.

Öll þau tengsl, sem við höfum haft við vestræna menningu og við höfum bezt fengið þaðan, þingræðishugmyndirnar, mannréttinda- og þjóðfrelsiskenningarnar og Marxisminn, ekkert af þessu þrennu eru rök fyrir því, að við eigum að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu, heldur þvert á móti. Ef við viljum varðveita þessa hluti, eigum við að halda okkur utan við það. Þess vegna er ákaflega fjarri því, að vegna okkar menningarsambands og vegna okkar stjórnmálasamstarfs við Vestur-Evrópu sé okkur nauðsynlegt að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu og að við stöndum í nokkurri hættu fyrir því að slitna úr slíku sambandi, svo framarlega sem við höldum okkur þarna utan við, hvað snertir vestræna menningu og okkar samband við hana. Okkar samband við vestræna menningu og allt það, sem er gott í henni, verður alveg nákvæmlega jafnsterkt eða jafnveikt, hvort sem við stöndum í Efnahagsbandalagi Evrópu eða ekki og hvort sem við höfum nokkurt samband við það eða ekki, hvort sem það heitir aukaaðild, tollasamband, viðskiptasamband eða annað slíkt. Það, að við og Vestur-Evrópa eigum ýmislegt saman menningarlega séð, er fjarri því að vera röksemd fyrir, að við eigum að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu eða tengjast því einhverjum sérstökum böndum. Dettur hæstv. ráðh. í hug, að bókmenntir Vesturlanda, að Byron, Shelley og Shakespeare og aðrir slíkir séu ekki nákvæmlega jafnlifandi fyrir okkur, hvort sem við erum í Efnahagsbandalagi Evrópu eða ekki? Við skulum gá að því, að það er ekki sú andlega erfð, sem við fáum frá Shakespeare, Thomas Mann eða Heine, sem þarna er um að ræða. Það er þarna um að ræða, hvort það sé Unilever og Krupp, sem eigi að ráða yfir því efnahagskerfi, sem við séum hluti af. Áhrif málaralistarinnar í París, hvort sem er Picasso eða aðrir, þeir hafa nákvæmlega jafnsterk áhrif, hvort sem við værum eða á hvern hátt sem við værum í Efnahagsbandalagi Evrópu eða ekki. Heimspekingar, hvort sem það væri Kant eða Hegel eða Sartre, væru jafnáhrifamiklir, hvort sem við værum í Efnahagsbandalaginu eða ekki. Við getum einangrað okkur frá eða tekið á móti menningu Vesturlanda alveg án tillits til þess, hvort við erum í Efnahagsbandalaginu eða ekki.

Okkar menningartengsl við Vestur-Evrópu, bæði góð og slæm, eru engin röksemd í þessu sambandi. Við höfum haft okkar tengsl við vestræna menningu án þess að verða hluti af hennar efnahagskerfi, verða innlimaðir í hana. Og okkar tengsl hafa kannske verið einmitt því dýrmætari og við höfum einmitt getað tekið upp og metið hér einmitt þá menn, sem yfirstéttir Vestur-Evrópu hundeltu, hvort sem þeir hétu Byron eða Heine, einmitt vegna þess að við höfum haft aðra afstöðu, allt aðra stjórnmálalega afstöðu, og létum ekki mótast af þeirri stjórnmálalegu afstöðu, sem drottnaði í Vestur-Evrópu. Ég held einmitt þvert á móti, að okkar andlegu og bókmenntalegu og listrænu tengsl við Vestur-Evrópu yrðu því betri, því sjálfstæðari og því blessunarríkari fyrir okkar þjóð, því fjær sem við værum því að vera undir járnhæl Hallsteins og Co. í Brüssel eða vera undirgefnir Unilever og Krupp. Við Íslendingar þekkjum það, að einmitt okkar sambönd við framandi þjóðir hafa batnað, þegar við losnuðum við að vera undir sama stjórnmálakerfi og þær. Þegar við vorum taldir af Dönum hluti af danska ríkinu, þá var á vissan hátt jafnvel fjandskapur á milli þjóðanna. Við það, að þessi tengsl hurfu, kom upp miklu meiri vinátta en hafði þó verið á milli sumra aðila þar áður. Það hefur sýnt sig einmitt fyrir okkur Íslendinga, að okkar afstaða gagnvart Dönum og danskri menningu hefur batnað við að losna úr þeim stjórnmálalegu tengslum við þá, og ég efast ekki um, að ef við lentum í svona stjórnmálatengslum við Vestur-Evrópu, þá mundi það skapa andstöðu við Vestur-Evrópu fyrst og fremst, vegna þess að við yrðum sá aðili þar, sem yrði kúgaður.

Við skulum þess vegna ekki ræða, þegar við erum að ræða um Vestur-Evrópu, um nein tengsl við lýðræðisríki Vestur-Evrópu. Það eru ekki þau, sem við erum að tengjast. Alls, sem lýðræðisríkin og lýðræðið í Vestur-Evrópu er — hið borgaralega lýðræði í Vestur-Evrópu, þess njótum við nú þegar. Og við varðveitum nú meira að segja það, sem þessar þjóðir sjálfar eru að drepa niður hjá sér. Frakkland er að drepa niður þingræðið hjá sér. Vestur-Þýzkaland er komið á gömlu Hitlersbrautina, að byrja að banna flokka eða ofsækja. Því fjær sem við höldum okkur stjórnmálalega frá Vestur-Evrópu, því betra fyrir okkar lýðræði og þingræði. Við skulum gá að því, að það er nýtt ríki auðfurstanna í Vestur-Evrópu, sem þarna er að vaxa upp. Það er endurtekning á þeim þremur stórveldum, sem á síðustu þúsund árum hafa verið sköpuð þarna. Það er endurtekning á því, sem Karla-Magnús gerði á sínum tíma. Það er endurtekning á því, sem Napóleon var að gera fyrir 150 árum. Og það er endurtekning á því, sem Hitler var að reyna að framkvæma fyrir hönd þýzku auðfurstanna. Franska borgarastéttin gerði sína tilraun að ná Vestur-Evrópu undir sig á tímum Napóleons. Þýzka auðmannastéttin gerði sína tilraun að ná Vestur-Evrópu undir sig á tímum Hitlers. Og nú er verið að gera þessa sömu tilraun með því að bræða saman þýzku og frönsku auðhringana og byrja á því að bræða saman það, sem venjulega hefur verið andstæðast, kola- og stálhagsmunina þýzku og frönsku. Við skulum þess vegna aðeins gera okkur ljóst, að það er verið að reyna að skapa þarna ríki voldugra auðfursta og endurtaka þannig friðsamlega það, sem þeim Napóleon og Hitler tókst ekki að skapa varanlega með stríði. Ég mundi þess vegna vilja algerlega snúa við því, sem hæstv. ráðh. segir í sínum forsendum, þegar hann ræðir um menningaratriðin í þessu sambandi. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir menn, sem vilja, að viðskiptatengsl og menningartengsl og stjórnmálatengsl séu sem minnst og þjóðfélag okkar sé í grundvallaratriðum öðruvísi en þjóðfélög vestrænna landa, hljóta að sjálfsögðu að líta á málið öðrum augum en hinir, sem vilja leggja áherzlu á að varðveita tengslin við Vestur-Evrópu og telja, að þjóðfélagið eigi að mótast af sömu grundvallarsjónarmiðum og þjóðfélög vestrænna landa.“

Þarna fer hæstv. ráðh. mjög skakkt með. Ef við viljum viðhalda hér á Íslandi einmitt því, sem við höfum fengið dýrmætast og bezt frá Vestur-Evrópu, þá megum við ekki ánetjast því auðhringaríki furstanna í Vestur-Evrópu, sem nú er að vaxa upp. Þeir, sem vilja viðhalda okkar raunverulegu menningu og okkar stjórnmálalífi, eins og við höfum mótað það, standa eiginlega á móti því, að við tengjumst á þennan hátt stjórnmálaböndum við Vestur-Evrópu. Það er þess vegna ekki til þess að einangrast menningarlega og stjórnmálalega frá þeim hugsjónum, sem beztar hafa verið í Vestur-Evrópu, að við viljum halda Íslandi sjálfstæðu gagnvart henni, heldur vegna þess að við viljum viðhalda þessum hugsjónum og þróa þær. Við höfum áður gert það í okkar sögu, þegar Evrópa hefur drepið niður frelsi og manngildi, eins og var um gömlu ættasamfélögin í Evrópu, þegar feudalisminn brauzt til valda, þá viðhéldum við þessu hér á Íslandi og mótuðum það og þróuðum. Og við eigum að gera það sama nú. Við eigum ekki að láta þessa auðfursta í Vestur-Evrópu ráða því, hvað gerist hér hjá okkur. Við getum haft við þá öll þau viðskipti, sem við viljum. Það er allt annað mál. Við höfum hingað til getað haft viðskipti við löndin í Evrópu, þótt við förum ekki að ganga í þau. Við gengum ekki í Spán, þegar við seldum okkar saltfisk svo að segja allan saman eða mestallan þangað á árunum. Það hefur aldrei hingað til verið notað sem röksemd fyrir, að við ættum að ganga í annað ríki, þó að við seldum svo og svo mikið af fiski þangað. Þess vegna býst ég við einmitt, að hæstv. ráðh, hafi viljað nota þessi menningarlegu rök, og þess vegna vildi ég einmitt taka það fyrir til þess að sýna fram á, að það væru engin rök fyrir inngöngu í Efnahagsbandalag Vestur-Evrópu, heldur þvert á móti. Okkar þjóðfélag hefur verið öðruvísi, okkar mat á manngildi og þjóðlífi hefur verið annað en Vestur-Evrópu, og einmitt okkar menning og okkar stjórnmálakerfi er röksemd þess vegna fyrir því að ganga ekki í Efnahagsbandalagið og hafa aðeins þau efnahagslegu tengsl við það, sem hver önnur verzlun gerir óhjákvæmileg. Því er það, að þar sem hæstv. ráðh. reynir að byggja á þessum menningarsamböndum við Vestur-Evrópu, þá er það síður en svo rökstuðningur fyrir inngöngu í Efnahagsbandalagið, heldur alveg þvert á móti. Við vitum, að það, sem raunverulega er að gerast með Efnahagsbandalaginu, er, að þessir voldugu vestur-þýzku auðjöfrar eru í samfélagi við frönsku hringana að reyna að framkvæma með friðsamlegum aðferðum það, sem mistókst að vinna með stríði.

Þá skal ég aðeins fara nokkrum orðum um þá viðureign, sem fór hér fram í upphafi þessara umræðna, þar sem hv. 7. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Austf. höfðu deilt nokkuð við hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. Þeir komu þar inn á, hvers eðlis þetta Efnahagsbandalag væri. Hv. 7. þm. Reykv. hélt því þá fram, að það mætti treysta mjög mikið á þá forustumenn, sem þá væru fyrir Efnahagsbandalaginu, var bjartsýnn á foringjana þar, hélt auðsjáanlega, að þetta væru einhverjir elskulegir unnendur lýðræðishugsjóna og annað slíkt, sem mundu gjarnan vilja vera góðir við smælingja. Og hv. 1. þm. Austf. lýsti því yfir, að hann vildi ekki trúa neinu illu um þennan vestræna heim, sem Íslendingar væru að reyna að komast í nánara samband við.

Menn eru kannske farnir að átta sig meir á því nú en þeir gerðu í upphafi viðræðnanna. Ég held, að það sé nauðsynlegt, að fylgjendur þeirra flokka, sem standa með Atlantshafsbandalaginu hér heima og vafalaust hafa haft ýmsar tálvonir um Efnahagsbandalagið líka, geri sér alveg ljóst, að það eru ekki lýðræðisríkin í Vestur-Evrópu, sem þeir eru að semja við um þessa hluti. Það eru harðsvíraðir auðmenn, harðsvíraðir auðhringar, sem þeir eru að komast í klærnar á. Hæstv. forsrh. leit svolítið raunsæjar á þetta. Honum var auðsjáanlega ljóst, að þetta voru kaldhjartaðir auðdrottnendur, sem þarna væri verið að eiga við, sem mundu vægðarlaust brjóta alla undir sig, sem þeir kæmust í tygi við, ef þeir gætu það. Og einmitt vegna þess, hve mikið hefur verið þvaðrað hérna um, að Efnahagsbandalag Evrópu væri eitthvert samfélag lýðræðissinna eða lýðræðislanda eða eitthvað þess háttar, þá er alveg nauðsynlegt, að menn geri sér þetta ljóst, svo að menn vakni ekki upp við vondan draum á eftir. Það er um villidýr að ræða, sem menn eru að reyna að komast í samfélag við, villidýr auðsins, þau sterku, voldugu, sem traðka niður smælingjana, sem útrýma þeim efnahagslega séð. Það er engin tilviljun, að það á að útrýma tugum þúsunda bænda í Frakklandi. Það á að gerbreyta öllum landbúnaðinum í Frakklandi, umbylta honum. Og þess vegna vilja þeir ekki fá samkeppnina frá kornlöndum brezka heimsveldisins. Það er vegna þess, að það stendur fyrir dyrum að umbylta frönskum landbúnaði og eyðileggja smábændurna þar gersamlega, rífa þá upp með rótum og búa til álíka landbúnað og í Bandaríkjunum.

Við skulum ekki vera með einhverjar tálvonir um, hvers konar aðilar það séu, sem við viljum komast í félagsskap við. Það er alveg nóg, að menn blekki sig í sambandi við Atlantshafsbandalagið með slíku. Það er engin ástæða til þess að blekkja sig í sambandi við Efnahagsbandalagið. Þar erum við þó að ræða um efnahagsmál. Það er engum efa bundið, að þeir menn, sem við eigum þarna við og ætlum að fara að semja við, verða ekki neitt mjúkir í viðskiptum við okkur. Það er ekki neitt sentimentalítet, ekki nein viðkvæmni, sem þarna ræður. Það eru grjótharðir peningarnir og ekkert annað. Og það er nauðsynlegt, að menn læri af því, hvernig menn reka sig á. Löndunarbann Breta á Íslendinga var tilraun til þess að svelta okkur, til þess að brjóta okkur á bak aftur. Af hverju gátum við boðið þeim byrginn? Af hverju bognaði ekki helmingaskiptastjórnin 1952, er Sjálfstfl. og Framsfl. stóðu að því að færa landhelgina út í 4 mílur? Af hverju bognaði hún ekki? Af því að hún var óhrædd, þótt afturhaldssöm væri, að taka upp stóra viðskiptasamninga við Sovétríkin og selja þangað fiskinn, sem vinir okkar, ástmenn lýðræðisins í Bretlandi, auðmennirnir brezku, settu bann á, að seldur væri þar, þegar þeir voru í sérstakri efnahagssamvinnu við okkur, áttu sérstaklega að hjálpa okkur og aðstoða, svo að maður ekki tali um að vernda. Það, sem hefur verið okkar hjálparhella í þessu, er, að við höfum þorað að hafa viðskipti við sósíalistísku löndin og boðið þessum vestur-evrópsku auðhringum byrginn. Við höfum sagt þeim: Við erum ekkert upp á ykkur komnir, og þið skuluð hafa hitann í haldinu, þið skuluð vera dauðhræddir um, að Ísland fari í allt of mikil viðskipti við austurveldin. — Ef við höldum þeim hræddum, þessum auðhringum, þá getum við talað vel um þá sem jafningja. En ef við gerum okkur þá hugmynd, að þeir séu með einhverja ást á lýðræði eða þjóðfrelsi eða eitthvað slíkt, þá erum við að blekkja sjálfa okkur og táldraga okkar þjóð.

Hæstv. viðskmrh. orðaði það svo í upphafi þessarar umr. einu sinni, að þeir, sem tengjast Efnahagsbandalaginu með aðild eða aukaaðild, eru svo náið tengdir, að þeir verða að teljast til Efnahagsbandalagssvæðis. Það er rétt náttúrlega. Þeir, sem á einn eða annan máta komast inn undir þeirra efnahagslegu áhrif, eru ofurseldir þessum auðhringum. Viðvíkjandi fiskiðnaðinum og fiskútflutningnum hér á Íslandi er gefið, að þó að við héldum mjög fast á því, að við gerðum einhverja samninga við Efnahagsbandalagið, að gefa ekki neitt eftir af landhelginni eða fiskveiðunum, þá geta þeir náð nákvæmlega sömu tökunum á okkur gegnum fiskiðnaðinn og fisksöluna, og ég vil bara benda á, að það eru nú þegar komnar upp tilhneigingar um þetta. Það eru nú þegar komnar upp þær tilhneigingar, að útlendur auðhringur, t.d. norskur, fari að láta hraðfrystihús á Íslandi eða niðursuðu- eða niðurlagningarverksmiðjur á Íslandi fara að framleiða fyrir sig vöru í sínum umbúðum, sem hann selur síðan erlendis. Og þetta voru Unilever og Findus International farnir að undirbúa að gera hér á Íslandi, um leið og farið var að taka upp fyrstu viðtölin við Vestur-Evrópuríkin, og það var þegar farið að hugsa um að setja upp stór hraðfrystihús eða réttara sagt fá stór hraðfrystihús í Sandgerði, Rifi og víðar til þess að fara að framleiða þar freðfisk í umbúðum erlendra auðhringa.

Þegar við athugum, hvernig við rekum hlutina hér heima, þegar við lítum á, að það eru t.d. sjö hraðfrystihús í Keflavík, og förum að rannsaka dálítið allan þennan rekstur og hættum að snakka um einhverja hagræðingu, þá rekum við okkur á, hve langt fyrir neðan allar hellur þessi rekstur er, að örfáum fyrirtækjum undanteknum, og hvernig stórhringarnir úti mundu raunverulega sópa þessu burt sem úreltu drasli, sem yrði einskis virði, eftir að þeir væru búnir að setja hér upp sín nýtízku hraðfrystihús og gætu kannske bæði gefið hærra verð fyrir fiskinn, borgað hærra kaup og selt í sínum umbúðum út um allan heim. Við skulum gera okkur ljóst, að kaupið á Íslandi er það lægsta, sem til er í Vestur-Evrópu, fiskimiðin og afköstin í fiskveiðunum eru þau mestu, sem þekkjast í veröldinni. Og aðeins fyrir ómögulegt stjórnarfar á efnahagssviðinu erum við eins langt niðri í þrældómnum og við erum núna, þannig að ef útlenda auðvaldið fengi að komast að hér með sína hagræðingu og sína skipulagningu, sín sambönd, þá þurrkar það út íslenzka borgarastétt, því að á henni þarf það ekki að halda. Það þýðir, að þessi sama skammsýna borgarastétt, sem nú í Reykjavík berst fyrir því að sameinast Efnahagsbandalaginu og skrifar vitleysurnar í Morgunblaðið, það er þessi sama borgarastétt, sem verður slegin af af auðhringunum, sem hún er að biðja um að koma hingað til landsins. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti, sem íslenzk höfðingjastétt svíkur sitt land og er sjálfri slátrað fyrir á eftir. Þeir gerðu það líka á Sturlungaöld, og seinustu íslenzku höfðingjarnir hurfu nokkrum öldum seinna sem bláfátækir menn. Þróunin mundi ganga hraðar núna. Auðhringar Vestur-Evrópu eru fljótari en aðallinn í Skandinavíu þá. Það gerist nú á nokkrum áratugum, það, sem þá þurfti margar aldir. Þess vegna mætti íslenzk borgarastétt, íslenzk atvinnurekendastétt passa sig ofur lítið betur og hugsa ofur lítið meir, áður en hún anar með þjóðina út í það forað, sem hún hefur lagt til við hana að fara út í.

Það var íslenzk bændastétt ásamt íslenzkum menntamönnum, sem barðist fyrir okkar sjálfstæði og knúði það fram. Og það er íslenzk verkamannastétt, sem sumpart með íslenzkri bændastétt hefur reynt að halda í hemilinn á borgarastéttinni, síðan hún varð drottnandi stétt hérna á 20. öld. En sá auður, sem auðmannastéttin nú hefur fengið, virðist hafa blindað hana svo gersamlega, að hún virðist ekki kunna fótum sínum forráð, hvað þá fótum þjóðarinnar. Þess vegna er það, að við Íslendingar þurfum fyrst og fremst á því að halda nú að vera óhræddir við að standa sem sjálfstæð þjóð, standa með útsýn um víða veröld og viðskipti um allan heim, eins og við höfum alltaf staðið, þegar okkur vegnaði bezt. Við Íslendingar vorum þá mestir sem þjóð, þegar við höfðum annan hátt og sjálfstæðari hátt á öllu okkar þjóðlífi en þjóðir Vestur-Evrópu. Við Íslendingar vorum þá mestir, er við höfðum engan konung, þótt kardínálum erlendra yfirstétta þætti það miður. Við Íslendingar höfum stundum verið andlegt stórveldi, þegar við höfum staðið utan við ríkjasamsteypurnar í Vestur-Evrópu, og það er hart, að ríkasta yfirstéttin, sem upp hefur komið á Íslandi, auðmannastétt Reykjavíkur nú, skuli einmitt vera að gera Ísland að vesælum hrepp í Efnahagsbandalagi Evrópu, og því verður að afstýra.

Það hefur verið stundum rætt um það í sambandi við þessi mál, að okkur Íslendingum bæri að fagna því, að nú væru þjóðir í Vestur-Evrópu að sættast, sem hefðu áður borizt á banaspjót. Ég held, að hæstv. viðskmrh. hafi komið nokkuð inn á það í sambandi við Frakka og Þjóðverja. Við skulum ræða þessa hluti án allrar viðkvæmni og án allra tálvona.

Það er engin sérstök frönsk-þýzk vinátta að skapast núna. Það, sem er að gerast, er, að franskir og þýzkir auðmenn eru að taka höndum saman um að reyna að brjóta á bak aftur sameiginlega alþýðu þessara tveggja landa.

Þeir eru að sameinast í fjandskapnum á móti verkamönnum og bændum Frakklands og Þýzkalands. Og það er ekki í fyrsta skiptið, sem þeir gera það. Þeir háðu sitt stríð 1870–1871, þá sameinuðust þeir líka að lokum. Þegar verkalýðurinn hafði tekið völdin í París, þegar fyrsta verkalýðsbyltingin í heiminum var framkvæmd 1871, í marz, þá sameinuðust þeir líka, tóku höndum saman um að murka lífið úr verkalýð Parísarborgar, svelta hann og myrða hann síðan. Bismarck og Thiers eru fyrirmyndin að því, sem þeir de Gaulle og Adenauer eru að gera núna. Það er ekki neitt nýtt, að þessir auðhringar sameinist. Þeir gerðu það reyndar líka 1923, þegar Frakkar höfðu hernumið Ruhrhéruðin og þýzku furstarnir sviku sitt land þá. Það er þess vegna ekki vinátta á milli þjóðanna, sem þarna er verið að skapa, það er vinátta á milli yfirstéttanna til að berjast á móti vinnandi stéttunum hjá þessum þjóðum. Og við höfum séð það bezt núna, þegar átti að beita valdi þessara yfirstétta gegn franska verkalýðnum og þegar Efnahagsbandalagið og de Gaulle fengu loksins að vita það, eftir að hafa beygt alla aðra undir sig, að þar hafa þeir orðið að láta í minni pokann. Franskur verkalýður var reiðubúinn til þess að svelta til að halda sínu frelsi, og hann braut de Gaulle á bak aftur og sýndi Efnahagsbandalaginu, að það var ekki hægt að framkvæma þá kúgun, sem auðfurstarnir höfðu ákveðið. Það er franskur málmur og þýzk kol, sem eru að sameinast. Það er það tvennt, sem er að ná saman, og það, sem veldur svo, er bitinn í ofanálag, það er, að fransk-þýzka auðvaldið fær aðgang að 14 ríkjum, sem áður voru nýlendur Frakka í Afríku og á að reyna að halda í nýlenduafstöðu efnahagslega séð. Og þessar 14 nýlendur eru með ríkustu nýlendum heimsins, með gnótt allra þeirra málma, sem Þýzkaland og Frakkland vantar, og þess vegna vill einmitt þýzka og franska auðvaldið mikið til vinna að geta skapað náin efnahagstengsl við þessar þjóðir, sem eru komnar skemmra á, sjálfstæðisbrautinni en ýmsar aðrar þjóðir í Afríku, og er þess vegna að reyna að halda öllu þessu saman í einni efnahagslegri heild, sem er svo framkvæmt með því, eins og kunnugt er, að þessi 13–14 Afríkuríki verði með sérstakri aukaaðild að Efnahagsbandalaginu. Við skulum gera okkur ljóst um leið, að það er ekki af neinum almennum þjóðernishroka de Gaulle, að þessir samningar fóru út um þúfur núna. Það eru allt aðrir hlutir, sem þarna eru að gerast. Við skulum ekki fara að gera okkur neinar tálvonir í því sambandi. Hvort sem de Gaulle lifir eða deyr, eru hagsmunir þýzka og franska auðvaldsins eftir sem áður þeir að vera óháðir ameríska auðvaldinu. Það, sem hefur gerzt, er það, að þegar gullforðinn í Bandaríkjunum hefur minnkað um 1500 millj. dollara á tímabili, hefur gullforðinn í Frakklandi og Þýzkalandi vaxið um 1700 millj. á sama tímabili, og þessi Vestur-Evrópulönd eru að slá Bandaríkin út í hraðri framleiðsluaukningu og ríkidæmi hvað snertir gullið, að kraftahlutföllin milli Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu hafa breytzt, og það eru þau kraftahlutföll, sem koma fram núna í því, að de Gaulle býður Bandaríkjunum og Bretum byrginn. Við vitum, að átökin, sem verið hafa í Kongó, eru átök á milli Bandaríkjaauðvaldsins annars vegar, sem hefur staðið á bak við ríkisstjórnina í Kongó og auðhringa Efnahagsbandalagsins hins vegar, sem stóðu á bak við Tshombe í Katanga. Við skulum alveg gera okkur ljóst, að þessir auðhringar í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum hins vegar eru að berjast um, hvor hafi aðstöðu til þess að arðræna hvor annan, til þess að arðræna fólkið, alveg jafnt hvort það er í Afríku, Evrópu eða annars staðar. Þess vegna er það alveg ófært að ræða þessi mál alveg eins og við værum að tala um einhver unaðsleg, bókmenntaleg sambönd, okkar gömlu menningarlegu sambönd við Þjóðverja, Frakka eða aðra slíka. Við megum ekki venja okkur á að ræða svona mál án þess að kryfja þau til mergjar, skilja þeirra undirstöðu.

Ég er ákaflega hræddur um, og ég hef orðið var við það hér heima, að það er bókstaflega hætta á því, að ýmsir okkar stjórnmálamenn séu að dragast alveg aftur úr, vegna þess að þeir vita ekki, hvað er að gerast í heiminum í kringum þá, og hugsa þess vegna enn þá í hugtökum kalda stríðsins gamla, þegar heimurinn er orðinn breyttur í kring. Það er kalt stríð núna milli Bandaríkjanna og Bretlands annars vegar og Frakklands og Þýzkalands hins vegar, og við skulum gera okkur grein fyrir því kalda stríði. Það er ekki bara kalt stríð á milli kommúnismans og kapítalismans í heiminum. Af hverju fer de Gaulle út í þau ævintýri, sem mönnum finnst það vera að fara að hugsa um að byggja upp eigin kjarnorkuher? Hver er ástæðan? Hver er ástæðan, að hann er svona harðvítugur, eftir að Kúbudeilan var leyst? Vegna þess að hann gerir sér ljóst, eins og Kennedy hefur auðsjáanlega gert sér ljóst líka, að það er ekki stríðshætta að austan, að stjórnmálakreppan, sem var í sambandi við Kúbu, sýndi þeim, að Sovétríkin mundu ekki ætla sér í stríð, og Kennedy dró þá ályktun af því, að það væri hægt að hafa samstarf við Krúsjeff og forustumenn Sovétveldanna, Og de Gaulle dregur sömu ályktanir: Það er ekki stríðshætta að austan. Mér er óhætt að beita mér gagnvart Bandaríkjunum. Atlantshafsbandalagið er ekki neitt höfuðatriði lengur. Höfuðatriðið er, hvernig fransk-þýzka auðvaldinu gengur annars vegar og hvernig bandaríska auðvaldinu gengur hins vegar, og við merjum brezka auðvaldið á milli okkar. — Það eru þessi viðhorf, sem hafa breytzt við það, að efnahagslegur máttur Þýzkalands og Frakklands hefur vaxið og máttur Bandaríkjanna hefur minnkað að sama skapi, sem gerir það að verkum, að de Gaulle og Adenauer standa uppi í hárinu á Kennedy, en de Gaulle segir það hreint út, en Þjóðverjarnir hræsna, af því að þeir kunna ekki við sem það gamla stríðsveldi, sem sá gamli fjandmaður Bandamanna, sem ekki er farið að gera friðarsamninga við enn þá, að tala eins djarft og de Gaulle getur talað.

Við þurfum að átta okkur á þessum hlutum. Við Íslendingar, sem erum hér mitt í öllum þessum hring, þurfum að gera okkur alveg ljóst, hvernig þetta er, og ekki blekkja okkur sjálfa með neinum tálvonum og þvaðri um lýðræði og eitthvað þess háttar eða menningu og eitthvað þess háttar. Við þurfum bara að bjarga okkur í heimi, þar sem þessi villidýr í þessum frumskógi auðvaldsins traðka okkur niður og rífa okkur í sig, ef við ekki pössum okkur, og við eigum ekki að reyna að mála þau, eins og þetta væru einhverjir englar. Hið gamla kalda stríð, það hefur reyndar verið stríðið milli kommúnismans og kapítalismans. Höfuðaðilarnir þar eru að átta sig á, að þeir verða að reyna að lifa saman á jörðinni og sprengja hana ekki undan sér. En auðmannastéttirnar í heiminum eru farnar að kljást skarpar en þær hafa gert áður. Sú blóðgjöf, sem Bandaríkin gáfu Vestur-Evrópu eftir stríðið, er að bera ávöxt í því, að Vestur-Evrópa gefur þeim spark og segir: Nú þarf ég ekkert meira á þér að halda, góði.

Þess vegna held ég, að það, sem við þurfum að gera praktískt í sambandi við þessi mál, sé að fylgjast nægilega vel með, hvaða þróun er að verða í þessari viðskiptabaráttu í heiminum. Við þurfum fyrst af öllu að gæta þess að viðhalda og efla okkar viðskipti austur frá, í sósíalistaheiminum, vegna þess að þau viðskipti eru okkur alltaf bakhjarlinn í þeirri baráttu, sem við heyjum í auðvaldsheiminum, því erfiða stríði fyrir okkar vörum, sem við heyjum þar. Ég get að vísu ekki frekar en aðrir spáð um það, hvað muni gerast, en það veit ég hins vegar, að það er mjög ofarlega, að Bretland og brezka heimsveldið reyni að styrkja sín sambönd við EFTA og gera það að voldugri samsteypu en það var áður. Ég álít, að fyrir okkur sé rétt að hafa nánari samvinnu við Norðurlönd en við höfum haft fram að þessu, reyna að hafa við þau samstarf m.a. um áætlunargerð um aukningu iðnaðar og stóriðju og um markaðsbaráttu, jafnvel sameiginlega markaðsbaráttu. Við skulum muna það, að við og Norðmenn, Færeyingar, Danir og Grænlendingar, öll þessi lönd og þessar þjóðir ráða yfir einhverju mesta fiskveiðisvæði heimsins, og við erum stórveldi á þessum svæðum, ef við vinnum saman. Og ég álít, að við eigum mjög alvarlega að athuga samstarfið án þess að fórna okkar sjálfstæði á þessum sviðum og alveg þó sérstaklega samstarf, sem byggist á því að varðveita hlut fiskimannanna í þessum löndum á móti þeim auðhringum, sem eru að reyna að gleypa þessi lönd. Unilever-hringurinn brezki hefur haft mikil ítök í Noregi, á helminginn af norska hvalveiðiflotanum og á þar mikið af verksmiðjum og allar lýsisherzluverksmiðjur. Við Íslendingar höfum verið heldur óháðari þeim hring heldur en Norðmenn hafa verið. Nú er Findus International, þessi nýi stórhringur, að reyna að gleypa Norðmenn, og hann mundi reyna að gleypa okkur, ef við stæðum ekki öll á móti. Það þýðir, að við eigum að reyna að hafa samstarf við fiskimennina, hvort sem er í Færeyjum, Danmörku, Noregi eða annars staðar, á móti þessum voldugu auðhringum, og slíka pólitík ættum við að marka og að slíku ættum við að miða. En höfuðatriði í öllu saman er, að það efnahagslega sjálfstæði Íslands, sem við að miklu leyti höfum varðveitt enn þá, þurfum við að varðveita áfram. Þess vegna megum við ekki tengjast þessu auðhringasambandi Vestur-Evrópu á neinn þann hátt, sem getur orðið okkar sjálfstæði að fjörtjóni. Við eigum að gera við það viðskiptasamninga eins og hver önnur lönd og reyna að berjast þar fyrir að útvega okkur markaði eins og við getum, en við eigum ekki að vera háðir því.

Ég ætla svo ekki að fara neitt frekar út í þær umr., sem orðið hafa hér, en aðeins með þessu móti segja frá því, sem ég fann sérstaka ástæðu til fyrir 3–4 mánuðum að skrifa hjá mér aths. um út af því, sem bæði hæstv. viðskmrh. og nokkrir aðrir hv. þm. þá höfðu sagt.