09.11.1962
Sameinað þing: 11. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil aðeins láta þess getið, að í morgun var okkur í ríkisstj. ekki kunnugt um annað en að fyrir þessum fundi lægi það eitt að afgreiða kjörbréf, en svo sem öllum hv. þm. er kunnugt, hefur sú venja skapazt á þessu þingi að halda ekki reglulega fundi á föstudögum. Sérstaka nauðsyn bar til þess að afgreiða kjörbréf það, sem hér hefur verið afgreitt nú í dag. Af þessum sökum ráðstafaði hæstv. sjútvmrh. sér til skyldustarfa annars staðar á þessum tíma og er því ekki staddur hér í hv. Sþ. í dag, en ég mun skýra honum frá ræðu hv. þm.