11.12.1962
Efri deild: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

6. mál, almannavarnir

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Mér skildist á ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e., að hann vildi telja varnarliðið allt annað mál en það, sem hér er til umr. Hér get ég því miður ekki verið honum sammála, eins og ég hef raunar greinilega lýst í mínum fyrri ræðum. Ég tel einmitt varnarliðið á Íslandi skipta höfuðmáli, þegar um almannavarnir á Íslandi er að ræða. Og ég held, að engum geti blandazt hugur um það við nána athugun. Meira að segja ráðunautur hæstv. ríkisstj. í almannavörnum segir hiklaust, að líklegustu skotmörkin séu þar syðra. Ef þessi skotmörk, herstöðvar og hernaðarflugvöllur, yrðu gerð ónothæf, eru líklegustu skotmörkin úr sögunni. Þetta skiptir líka máli, þegar verið er að ræða um og athuga ráðstafanir til almannavarna.

Eins og sakir standa, er hættan langmest við sunnanverðan Faxaflóa, einmitt vegna hernaðarmannvirkjanna, sem þar eru. Ef þau væru í burtu, væri hættan að vísu til eftir sem áður, en margfaldlega miklu minni. Hættan yrði þá svipuð um allt land, og hún yrði þá svipuð og þar sem hún er minnst talin á landinu, og þó öllu frekar minni en þar, sem hún nú er minnst. Þess vegna er ómögulegt að ræða um almannavarnir í alvöru án þess að gera sér grein fyrir herstöðvunum. Eiga þær að vera hér áfram eða eiga þær ekki að vera hér áfram?

Hv. 2. þm. Reykv. beindi nokkrum orðum til mín. Hún gat þess, að ég hefði sagt í ræðu minni áðan, að í Danmörku væri ekki borgaraleg skylda að gegna þjónustu í þágu almannavarna. Ég sagði þetta, og ég hafði mína heimild fyrst og fremst frá forstöðumanni almannavarna, sem átti viðtal við hv. heilbr: og félmn. nýlega. En hv. þm. staðfesti þetta með því að lesa upp úr grg. frv. Svona er þetta í Danmörku. Það er ekki borgaraleg skylda að gegna störfum í þágu almannavarna þar.

Hv. 2. þm. Reykv. lét orð falla um það, að ég teldi nauðsynlegt, að Ísland segði sig úr varnarbandalagi vestrænna þjóða til þess að firra okkur hættu. Þetta sagði ég raunar ekki. Ég tel ekki nauðsyn á því brýnasta, að Ísland segi sig úr varnarbandalagi vestrænna þjóða. Ég tel brýnustu nauðsyn vera á því að leggja herstöðvarnar niður, gera hernaðarmannvirkin á Suðurnesjum ónothæf. En þetta er allt annað. Við getum prýðilega sagt upp varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna og verið þó eftir sem áður í NATO.

Þá gat hv. 2. þm. Reykv. þess, að ég hefði fyrir nokkrum árum flutt um það till. í bæjarstjórn Reykjavíkur, að loftvarnanefnd Reykjavíkur yrði lögð niður. Og hv. þm. gat þess, með hvaða röksemd ég hefði flutt þessa till. Hún var á þá leið, að n. skyldi lögð niður, þar sem hún hefði ekki starfað síðustu árin. Út úr þessu er ekkí hægt að lesa neinn fjandskap minn við almannavarnir yfirleitt og kannske síður en svo. Ég vildi láta leggja loftvarnanefnd Reykjavíkur niður, af því að hún starfaði ekki og eingöngu þess vegna. Hv. þm. gat ekki alls, sem stóð í þessari till. Ég sagði ekki aðeins, að ég vildi láta leggja n. niður, vegna þess að hún starfaði ekki, heldur kom fram í till. ósk um, að n. skilaði skýrslu um störf sín og till. varðandi tilhögun þessara mála í framtíðinni. Er þetta neikvætt? Ég held, að þetta sé ekki neikvætt. Þetta er einmitt jákvætt. Nefnd, sem starfar ekki, á að leggja niður. Og ég lagði til, að hún skilaði till. sínum um það, hvernig þessum málum yrði bezt hagað í Reykjavík í framtíðinni.

Þá hafði hv. þm. orð á því, að ég hefði sagt í ræðu, að ég vildi ekki hafa rekistefnu ótíndra manna inn á einkaheimilin í sambandi við almannavarnir og eftirlit. Þetta er alveg rétt, ég sagði þetta. Hv. þm. gizkaði á, að ég mundi hafa haft í huga viss lönd, þar sem fólk gæti átt von á óþægilegum heimsóknum á nóttu sem degi. Þetta er alveg rétt. Ég hafði í huga slíkt ástand. Þau lönd hafa verið mörg til og eru enn í dag mörg til. M.a. er eitt af okkar bandalagslöndum, NATO-landið Portúgal, þar er stjórnarfari þannig háttað, að þar geta menn búizt við slíku. En það er þetta, sem ég vil forða okkar landi, okkar þjóð frá, og þess vegna andmæli ég ýmsum ákvæðum í þessu frv., sem mér finnst vera allt of mikil ábending um og aðvörun við því ástandi, sem sums staðar annars staðar tíðkast, en er ekki æskilegt hér.

Ég hafði orð um það áðan, að ég væri ekki andvígur almannavörnum. En ég er andvígur öllum leikaraskap um þessi mál og sviðsetningu í einhverjum annarlegum tilgangi.

Úr því að ég minntist á bæjarstjórn Reykjavíkur í sambandi við almannavarnir, vil ég aðeins minna á það, að fyrir ári var þar gerð samþykkt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna yfirvofandi geislunarhættu og ófriðarhættu felur bæjarstjórn Reykjavíkur loftvarnanefnd í samráði við heilbrigðisnefnd að undirbúa og gera ráðstafanir til almannavarna.“

Það er heilt ár síðan þessi samþykkt var gerð. Ég á sæti í borgarstjórn. Ég hef ekki orðið þess var, að nokkur minnsti hlutur hafi verið framkvæmdur í samræmi við þessa samþykkt bæjarstjórnarinnar. Það kann að vera, að eitthvað hafi verið gert, en ég hef ekki orðið var við það. Það er þá svo lítilfjörlegt, svo ómerkilegt, að fáir einir vita um það. Þannig er heilt ár látið liða, og þó er talað um í samþykktinni„ vegna yfirvofandi geislunarhættu og ófriðarhættu“. Samt er ekkert gert. Það er látið líða heilt ár. Og sennilega verða þau 2, 3, 4, 5 o.s.frv. Það er þetta, sem ég er mótfallinn. Það er þetta, sem gerir fyrst og fremst, að ég lit dálitið efablandinn á alla tilburði hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkanna yfirleitt í almannavarnamálum. Ég er hræddur um og ég hef grun um, að þar sé ekki mikil alvara á bak við. En þetta dæmi, sem ég nefndi frá bæjarstjórn Reykjavíkur, samþykktin frá í fyrra, er mér enn eitt dæmi um þann yfirborðshátt og þá sýndarmennsku. sem viðhöfð er af ábyrgum aðilum í þessu alvarlega máli, sem almannavarnirnar eru.