11.02.1963
Efri deild: 39. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2046)

132. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þegar ég í fyrri ræðu minni ræddi um þá grein frv., sem fjallar um vextina, gerði ég að umtalsefni annars vegar þá hliðina, sem snýr að bændastéttinni, og hins vegar þau áhrif, sem vaxtapólitíkin hefur, þ.e.a.s. stofnlánavextir landbúnaðarins hafa á verðlagsþróunina í landinu. Þetta kallaði hv. 6. þm. Norðurl. e. að slá úr og í. Ég vík að þessu nú í upphafi þessarar ræðu, því að mér finnst ræða hans, hv. 6. þm. Norðurl. e., vera mótuð þessum einkennum að slá úr og í. Það er sumt gott af þessu, en þetta er bara ekki hægt. Og það er ekki eðlilegt form á því að setja ákvæði um veðdeildina inn í lög um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, segir hv. þm. En ég vil nú minna á, að við flm. þessa frv. höfum fordæmi fyrir því að breyta mörgum lögum með einni löggjöf, — eða hvað er að segja um sjálft testamenti ríkisstj., viðreisnarlöggjöfina? Er ekki hún byggð þannig upp, að þar er breytt mörgum lögum, vaxtaákvæðum í búnaðarbankalögum og fjöldamörgum ákvæðum á víð og dreif í íslenzkri löggjöf, svo að það má segja, að hv. 6. þm. Norðurl. e. komist seint að raun um það, að þetta form á lagasetningu sé ekki heppilegt. Ég skal ekki fara lengra út í þetta, en snúa mér að einstökum efnisatriðum þessa máls.

Það kemur fram nú eins og á fyrri þingum í umr. um þessi mál, að það er sagt af hálfu stuðningsmanna ríkisstj., að Framsfl. hafi ekkert gert fyrir stofnlánasjóði landbúnaðarins, meðan hann var í stjórn. Ég hef satt að segja enga ánægju af að vera að rekja þessa sögu, því að hún hefur verið rakin hér áður. En svona ummælum er þó ekki hægt að taka án þess að gera við þau aths., og hið sanna er, að þessir stofnlánasjóðir landbúnaðarins eru í öndverðu stofnaðir fyrir baráttu Framsfl. gegn andmælum íhaldsmannanna, sem voru fyrirrennarar Sjálfstfl., sem nú er, á stjórnmálasviðinu. Og Framsfl. hefur alla tíð borið hag þessara sjóða mjög fyrir brjósti. Hann hefur árum saman haft yfirstjórn þeirra, bæði í sambandi við landbúnaðarmálin og fjármálin, og hefur ávallt haft fullan hug á að sjá fjárhag þeirra borgið. Það hefur verið birt opinberlega, hvað þessir sjóðir hafa lánað frá fyrstu tíð. Ég ætla ekki í þessari ræðu að fara að rekja það með dæmum og samanburði um einstök stjórnartímabil, en ef hv. 6. þm. Norðurl. e. langar að leiða umr. út á þann grundvöll, þá verður tækifæri til þess síðar.

Það liggur einnig fyrir, svo að langt mál sé gert stutt, að í árslok 1957 var hagur stofnlánasjóða landbúnaðarins með blóma. Þeir áttu þá höfuðstól, sem nam á 2. hundrað millj. kr. samtals, eins og ég sýndi fram á með tilvitnun í opinberar tölur í fyrri ræðu minni. Á árinu 1958 var að sönnu lögfest yfirfærslugjald, sem hafði áhrif á stöðu þessara sjóða, þegar frá leið, en þetta var ekki lögfest fyrr en í maí, að mig minnir, vorið 1958, og kom ekki til framkvæmda gagnvart stofnlánasjóðunum fyrr en frá leið, þannig að þegar vinstri stjórnin fór frá völdum hinn 4. des. 1958, var áhrifa af þessari ráðstöfun mjög lítið farið að gæta á stöðu sjóðanna, og þá munu ekki hafa verið komnar til útborgunar af þessum sökum nema tæpar 2 millj. kr. af sjóðanna hendi. Þegar vinstri stjórnin sagði af sér 4. des. 1958, hlaut hún vitanlega að draga við sig að koma með tillögur um úrræði í þessu efni, því að þá færðist öll starfsemi stjórnmálanna inn á nýtt svið að því leyti, að það var ný valdasamsteypa, sem kom til, og kjördæmamálið var sett í fyrirrúm og stjórnmálaþróunin og stjórnmálabaráttan á næstu mánuðum snerist um það, þannig að minni tími en ella gafst þá til athugunar á ýmsum fjárhagsvandamálum þjóðfélagsins, bæði þessu og öðrum.

Þegar kosningarnar voru svo um garð gengnar haustið 1959, er núv. ríkisstj. mynduð, skömmu eftir að kosningunum er lokið, og fyrsta daginn, sem hún sýnir sig hér á hv. Alþingi, birtir hún þá yfirlýsingu í stjórnarboðskap sínum, að eitt af þeim viðfangsefnum, sem hún taki að sér að leysa, sé að koma stofnlánasjóðum landbúnaðarins á réttan kjöl eða rétta halla þeirra. Þar með var þá þegar komin yfirlýsing um það frá ríkisstj., að hún hefði tekið að sér þetta verkefni, og þá var það vitanlega Framsfl. að bíða eftir því, hver úrræði kæmu frá hendi ríkisstj. Þau úrræði komu svo fram með frv., sem lögfest var í fyrra um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum.

Áður en ég vík nánar að því, vil ég sérstaklega minnast þeirra orða hv. síðasta ræðumanns, hv. 6. þm. Norðurl. e., að möguleikarnir til að fá hækkað framlag ríkissjóðs í fyrra, byggðust á því, að lagt var fé á móti. Ég leyfi mér að spyrja: Hver ræður þessu? Er það ekki löggjafarvaldið? Og hver var hemillinn á það, að ekki var hægt að þoka málinu í betra horf en gert var í fyrra? Var það viljaleysi Sjálfstfl. eða annarra stjórnarliða, eða hvað annað var hér í vegi? Ég veit ekki betur en það sé algerlega á valdi Alþingis, hvernig um hnúta er búið að þessu leyti. Og þegar á að meta það, hvað er hægt að setja í lög og hvað ekki, þá verður vitanlega að skoða það í ljósi þess hugarfars og þess vilja, sem til staðar er hjá þeim, sem meirihlutavaldið hefur hér á hv. Alþ. hverju sinni.

En þá vil ég þessu næst víkja nánar að þeirri leið, sem farin var með lagasetningunni í fyrra. Frv. þá fylgdu töflur og útreikningar, sem eiga að sýna efnahagsafkomu, rekstrarafkomu og uppbyggingu stofnlánadeildarinnar um 14 ára skeið, frá 1962 til 1975. Ef við lítum nú á þessar töflur og gerum okkur grein fyrir, hvaðan þetta fé á að koma, sem til stofnlánadeildarinnar á að renna þennan tíma, þá lítur þetta þannig út, ég ætla að taka hér árið 1975, því að þá á þróunin að vera búin að ná hámarki og löggjöfin að sýna, hvað hún hefur að bjóða bændunum til handa: Þá eiga samkv. þessum reikningum heildartekjur stofnlánadeildarinnar á því ári að nema 94 millj. 531 þús. kr., og þessar tekjur fást þannig, að 59 millj. 194 þús. kr. greiða bændurnir sjálfir í vöxtum inn í stofnlánadeildina, framlag bændanna og mótframlag ríkissjóðs er í einum lið 23 millj. 496 þús. kr., og af þessu greiða bændurnir einnig helminginn, þannig að bændurnir eiga sjálfir að greiða yfir 70 millj. af þeim 94, sem stofnlánadeildin á að fá í tekjur á árinu 1975. Við skulum taka annað dæmi: Allar tekjur stofnlánadeildarinnar á tímabilinu 1962–1975 eiga samkv. þessum útreikningum að nema 953 millj. kr. Og þessar tekjur á að draga saman á þennan hátt samkv. löggjöfinni: Stofnfé í eitt skipti fyrir öll samkv. 3. gr. l. samtals 60.5 millj. kr. Framlag ríkissjóðs á móti 1% frá bændum samtals á tímabilinu 132.7 millj. kr. Árlegt framlag ríkissjóðs á tímabilinu 4 millj. á ári í 14 ár, 56 millj. kr. Neytendagjaldið á tímabilinu 85.5 millj. kr. Þessir tekjustofnar skila inn í stofnlánadeildina samtals á tímabilinu 335 millj. kr. Hitt eiga bændur að greiða sjálfir í vöxtum, viðreisnarvöxtunum, og með 1% gjaldinu, og það er á tímabilinu 618 millj. kr., eða m.ö.o.: bændurnir eiga sjálfir að greiða inn í sinn stofnlánasjóð á 14 ára tímabili allt að því 35 hluta alls fjárins, sem stofnlánadeildin á að fá. Þetta kalla svo sjálfstæðismenn, að verið sé að byggja upp lánasjóði landbúnaðarins.

Sannleikurinn er sá, að í þessu felst hinn mikli stefnumunur. Meðan Framsfl. stjórnaði þessum málum, voru lánasjóðir landbúnaðarins byggðir upp vegna landbúnaðarins fyrst og fremst. En nú á landbúnaðurinn að fara að byggja upp lánasjóðina með fé, sem dregið er úr höndum bændanna sjálfra, og öll uppbyggingin er miðuð við það, að viðreisnarvextirnir haldist allt tímabilið til 1975, og vaxtaliðurinn, eins og ég greindi áðan, er langsamlega hæsti tekjuliður stofnlánadeildarinnar, einkum þegar frá líður, en sá vaxtaliður er miðaður við, að viðreisnarvextirnir haldist til 1975. Þetta er hornsteinn byggingarinnar, sem reist var í fyrra að þessu leyti, og sá hornsteinn er þess eðlis, að það þarf ekki að efnagreina hann nánar en ég hef þegar gert. En ef vöxtunum verður breytt til lækkunar og hornsteinninn springur, þá riðlast öll byggingin, skekkist eða riðar til falls. Þetta er nú smíðin, sem gengið var frá á síðasta þingi. Þetta eru tölur teknar beint upp úr þeim skýrslum, sem lagðar eru til grundvallar fyrir lagasetningunni, og fram hjá þessu verður ekki komizt.

Ég held, að það séu ekki fleiri atriði að svo stöddu, sem ég tel ástæðu til að bæta við þetta mál, en mun þó notfæra mér ræðumannsrétt minn og gera aths. síðar, ef mér þykir þörf á.