20.11.1962
Neðri deild: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (2072)

73. mál, gatnagerð bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Geir Gunnarsson):

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér er til umr., fluttu nokkrir þm. Alþb. í þessari hv. d. á síðasta þingi, en það náði þá ekki fram að ganga og er því endurflutt nú.

Bifreiðaeign Íslendinga er orðin mjög mikil og fer stöðugt vaxandi. Munu nú vera hlutfallslega fleiri bifreiðar á Íslandi en í flestum löndum öðrum. Hins vegar stöndum við færri löndum jafnfætis um vegagerð, og aðalumferðarvegir og götur í bæjum eru ófullkomnari en víðast gerist. Því fer mjög fjarri, að á sama tíma og Íslendingar hafa eignazt allar þessar bifreiðar, hafi vegakerfið tekið samsvarandi endurbótum.

Vegna erfiðleika við vegagerð í svo strjálli byggð sem hér er og af þeim sökum, að Íslendingar hafa orðið að byggja upp svo til alla hluti í landinu á tiltölulega mjög skömmum tíma, er naumast við því að búast, að við höfum getað staðið öðrum þjóðum jafnfætis á þessum sviðum. Þó held ég, að óhætt sé að fullyrða, að ósamræmið á milli hins mikla bifreiðakosts þjóðarinnar og slæmra vega sé orðið svo óviðunandi og dýrt, að að því hljóti nú að reka, að gera verði sérstakt átak til úrbóta. Sjást þess og nokkur merki, að sá tími sé að hefjast, að á fjölförnustu umferðarvegi milli bæja verði lagt varanlegt slitlag. Á síðustu árum hefur aukizt mjög áhugi manna á því, að götur í kaupstöðum og kauptúnum verði endurbættar, svo að það verði ekki enn um langt skeið undantekning, að fullgerð gata sjáist í kaupstöðum og mikill meiri hluti gatna jafnt í Reykjavík sem í öðrum bæjum sé malargötur, sem ýmist eru forareðja eða rykkóf. Þarf ekki orðum að því að eyða, hversu mikil óþægindi og óhollusta stafar af ástandi gatnanna. Fullgerðir vegir í bæjum eru ekki aðeins bifreiðaeigendum til hagsbóta, heldur gerbreytist aðbúnaður allra íbúanna við það, að vegir eru lagðir varanlegu slitlagi. Bifreiðaeigendur, sem væntanlega verða æ stærri hluti þjóðarinnar, verða fyrir ómælanlegu fjárhagstjóni af því, hversu akvegir okkar eru skeinuhættir tækjunum, sem um þá aka. Sú eyðilegging, sem allar hinar mörgu bifreiðar Íslendinga eru daglega undirorpnar, er gífurleg. Hjólbarðar og flestir hlutar bifreiðanna endast mörgum sinnum skemur en ef ekið er á sléttum, steyptum eða malbikuðum vegum. Ég hef séð þess getið, að erlendar rannsóknir hafi leitt í ljós, að sé bifreið ekið á malarvegi, endist hjólbarðar aðeins 1/5 hluta af þeim tíma, sem þeir mundu endast við akstur á malbikuðum vegi, ending sé aðeins 20% á malarvegi. Hið sama gildir eflaust um endingu margra annarra hluta í bifreiðunum. Hjólbarðar voru fluttir inn til landsins árið 1961 fyrir um 29 millj. kr. á cif-verði, svo að í krónum reiknað munu þau 80%, sem ætla má að spænist upp af hjólbörðunum við akstur á malarvegum fram yfir hjólbarðaslit við akstur á malbikuðum vegum, nema um 23 millj. kr. á ári, miðað við það, að allir vegir væru malarvegir. Samsvarandi sóun verðmæta á sér stað varðandi marga aðra hluti bifreiðanna, svo að hér er um óhemju sóun verðmæta að ræða.

Þótt ekki sé miðað við annað en hið óeðlilega slit á hjólbörðum einum, má ætla, að það muni nema verulegum hluta af þeirri upphæð, sem lagt er til í frv. þessu að renni í gatnagerðarsjóð af innflutningsskatti af benzíni. Þegar þessa er gætt, er sýnilegt, að ekki aðeins bifreiðaeigendur, heldur þjóðfélagið í heild verður fyrir stórfelldu fjárhagstjóni af þeirri sífelldu eyðileggingu, sem af því hlýzt að kaupa til landsins dýr ökutæki og aka þeim síðan á ófullkomnum vegum. Jafnframt leiðir misþyrmingin á tækjunum til þess, að með aukinni bifreiðaeign þarf sífellt fleiri og fleiri menn til starfa á viðgerðarverkstæðum, á sama tíma og þjóðin þarfnast fólks til framleiðslustarfa. Fjármagn, sem varið er til framkvæmda við lagningu varanlegs slitlags á vegi, er því ekki eyðsla, heldur sparnaður. Það fé, sem til þeirra framkvæmda fer, fær þjóðin aftur í minnkandi endurnýjunar- og viðhaldskostnaði ökutækja og vega, auk þess sem aðbúnaður allra í bæjum gerbreytist, þar sem vegir eru lagðir varanlegu slitlagi og menn losna við rykið og eðjuna.

Eins og ég áður gat um, hafa bæjar- og sveitarfélög að undanförnu sýnt vaxandi áhuga á varanlegri gatnagerð, en fjárskortur hefur hamlað, og sumir aðilar hafa stofnað til verulegra skulda vegna framkvæmdanna. Við því er ekki að búast, að bæjar- og sveitarfélög geti með útsvarstekjum einum gert það átak, sem þörf er á í þessum efnum, og ef við það á að búa framvegis sem hingað til, að ekkert komi í hlut bæjarfélaga af þeim sköttum, sem bifreiðaeigendur greiða vegna ökutækja sinna, er hætt við, að hægt miði framkvæmdunum. Þess vegna er lagt til í frv. þessu, að nokkrum hluta af sköttum þessum og gjöldum verði varið til að styrkja framkvæmdir bæjar- og sveitarfélaga við varanlega gatnagerð.

Eigendur ökutækja greiða í ríkissjóð milljónatugi eða fremur milljónahundruð króna af bifreiða- og benzínskatti og í tolla af innflutningi ökutækja og varahluta. Um skeið var því fé að mestu eða öllu leyti varið til þess að bæta vegakerfið, en hin síðari ár hefur þróunin orðið sú, að stærri og stærri hluti þess fjár hefur verið tekinn til annars rekstrar í ríkisbúinu, og nú mun svo komið, að naumast helmingi af skattlagningu ökutækja er varið til vegamála.

Þegar innflutningsgjald af benzíni var hækkað um 116 aura með lögum nr. 4 1960, var aðeins 28 aurum af þeirri hækkun varið til vegamála, en 88 aurar teknir til ótiltekinna nota. Vegna fjárhagslegs getuleysis bæjar- og sveitarfélaga til að sinna lagningu gatna úr varanlegu efni er hætt við, að eigendur ökutækja verði enn um langt skeið að búa við óeðlilegt slit á ökutækjum, á sama tíma og vaxandi hluti af sköttum þeim, sem þeir greiða af ökutækjunum, verður tekinn til annars en vegabóta, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir til aðstoðar bæjar- og sveitarfélögum. Í þeim tilgangi er í 1. gr. frv. þessa lagt til, að stofnaður verði sjóður er nefnist gatnagerðarsjóður. Tilgangur sjóðsins verði að stuðla að varanlegri gatnagerð í kaupstöðum og kauptúnum með því að veita sveitarfélögum styrk til þeirra framkvæmda. Í frumvarpsgreininni er varanleg gatnagerð skilgreind á þann hátt, að þar sé um að ræða lagningu nýrra vega og gangstétta með slitlagi úr steinsteypu eða hverju öðru efni, sem metið er jafngildi hennar, svo og lagningu varanlegs slitlags á eldri götur og gangstéttir.

Í 2. gr. eru tekjur sjóðsins ákveðnar þær, að í hann renni 40 aurar af þeirri 116 aura hækkun, sem ákveðin var á innflutningsgjaldi á benzíni með lögum um efnahagsmál árið 1960, svo og 20% af þungaskatti bifreiða. Miðað við benzínnotkun má reikna með, að tekjur sjóðsins af innflutningsgjaldi geti numið um 20 millj. kr. á ári og tekjur af þungaskatti um 5 millj. kr. Vitaskuld er álitamál, hve miklar tekjur er rétt að ætla sjóðnum, og viðbúið, að sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Um það, hvernig framlög sjóðsins skuli ákvarðast, segir svo í 3. gr. frv., að þau skuli miðast við fermetra slitlags og ákvarðast af sjóðsstjórn í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og þó ekki nema meira en helmingi af heildarkostnaði við gatnagerðina, nema um sérstaklega erfiðar aðstæður við framkvæmdir sé að ræða, þá megi framlögin nema 60%.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir, að fimm manna stjórn gatnagerðarsjóðs sé kosin af Alþingi hlutbundinni kosningu til 4 ára. Viðskipti bæjar- og sveitarstjórna við sjóðinn eru ætluð á þann veg, að þeir aðilar, sem hyggjast njóta framlaga úr sjóðnum, skuli fyrir 1. des. senda sjóðsstjórn umsóknir ásamt áætlunum um gatnagerðarframkvæmdir næsta árs, síðan skuli sjóðsstjórnin, eftir að hafa metið undirbúning framkvæmdanna, ákveða framlögin og tilkynna viðkomandi aðilum ákvörðun sína fyrir 1. febr. varðandi yfirstandandi ár. Framlögin verði síðan greidd eftir því, sem framkvæmdum miðar áfram skv. staðfestingu trúnaðarmanns sjóðsins.

Í 7. gr. er gert ráð fyrir, að heimilt sé, ef fjárhagur sjóðsins leyfir, að lána bæjar- og sveitarfélögum fé úr sjóðnum til greiðslu á þeirra hluta við gatnagerðarframkvæmdir.

Í 8. gr. er heimilað að veita fé úr gatnagerðarsjóði til rannsókna f sambandi við gatnagerð, en til þeirra hluta hefur allt of litlu fé verið varið til þessa.

Í frv. er ákveðið, að vegamálastjóri sé framkvæmdastjóri gatnagerðarsjóðs og sjái um vörzlu sjóðsins, bókhald og fjárreiður. Ég tel, að ekki verði lengur dregið að gera ráðstafanir til að tryggja auknar framkvæmdir við gatnagerð í bæjum og kauptúnum og eðlilegt megi telja, að til þeirra framkvæmda sé varið sérstaklega hluta af þeim sköttum, sem greiddir eru af ökutækjum til ríkissjóðs.

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.