11.02.1963
Neðri deild: 37. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (2133)

118. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir það, sem hæstv. menntmrh. sagði hér í sinni ýtarlegu og yfirgripsmiklu framsöguræðu, hve nauðsynlegt það er, að matið á vísindunum og þeirra starfi fyrir þjóðfélagið breytist. Og ég tel, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé mjög veigamikið spor í þá átt. Ég skal á þessu stigi málsins aðeins til þess að gera nokkra grein fyrir, um hvað höfuðágreiningurinn var í atvinnumálanefnd, sem vann að undirbúningi þess, koma stutt inn á það.

Höfuðágreiningurinn stóð um stjórnir þessara fyrirtækja, þessara rannsóknarstofnana. Álit meiri hl. atvmn. var, að þessar stjórnir skyldu vera samansettar af fulltrúum atvinnurekenda í landinu og að þessar stjórnir skyldu sjálfar ráða forstöðumenn þessara vísindastofnana, þannig að rannsóknarstofnanirnar yrðu stofnanir, sem væru raunverulega undir stjórn atvinnurekenda í landinu og forstjóra, sem þeir réðu, en þjóðfélagið og ríkið borguðu raunverulega höfuðkostnaðinn af því.

Ég var á þeirri skoðun og var með það einnig í minni hl., að það ætti að hafa það svo með þessa rannsóknarstofnun eins og aðrar rannsóknarstofnanir og vísindastofnanir, sem hefur gefizt vel, — við skulum segja t.d. raforkumálastofnunina, — að ríkisstj. útnefndi sjálf framkvæmdastjóra eða forstjóra þessarar stofnunar og þá t.d. hver ráðh. á því sviði, sem stofnunin vinnur á. Ég lagði þess vegna til í mínu minnihlutaáliti, að ríkisstj. eða hinir ýmsu ráðh. útnefndu þessa forstöðumenn eða þessa forstjóra. Mér þykir þess vegna mjög vænt um, að einmitt hæstv. ríkisstj. skuli hafa haft þann hátt á, að hún skuli útnefna sjálf eða hinir einstöku ráðh. forstöðumenn þessara stofnana. Ég álít, að með því móti sé bezt komið fyrir í senn ábyrgð og valdi yfir þessum stofnunum, og þrátt fyrir ýmislegt, sem menn geta fundið að ýmsum forstöðumönnum stofnana, þá held ég, að þetta skipulag sé þó það, sem bezt gefst í þessu efni. Og fyrir ríkið, sem í þessu tilfelli er fulltrúi almennings eða þjóðfélagsins, er eðlilegt, að það verði að bera höfuðábyrgðina í þessum efnum. Ég álít hins vegar, að þær stjórnir, — það þykist ég vita að hæstv. ríkisstj. muni hafa gert sem samkomulagsatriði, kannske bæði við meiri hl. og við atvinnurekendurna í landinu, — þessar stjórnir, sem haldið er enn þá í þessu frv. fyrir hinar ýmsu rannsóknarstofnanir, séu í raun og veru bara óþörf skriffinnska. Og ég mundi eindregið gera það að minni till., að þessar stjórnir séu þurrkaðar út. Ég held, að þær hafi þarna ekkert að gera. Það er greinilegt, að það, sem lagt er til um hinar svokölluðu ráðgjafarnefndir, ólaunaðar ráðgjafarnefndir, þá er það út af fyrir sig gott atriði, og hæstv. ríkisstj. tekur upp í þetta frv. það sem möguleika, að ráðgjafarnefndir geti verið skipaðar af hinum ýmsu samböndum og starfssviðum, félagssamtökum og öðrum slíkum, bæði atvinnurekenda, verkamanna og sérfræðinga.

Þessar ráðgjafarnefndir eru að mínu áliti mjög heppilegar hvað það snertir, að það gefur forstjóra viðkomandi stofnunar svo að segja jarðsamband við atvinnurekendurna, við áhugahópa, við verkalýðssamtökin, við bændasamtökin og við alla þá aðila, sem hafa sérstakan áhuga á þessum ýmsu sviðum, hvort sem það er fiskiðnaður, landbúnaður eða annað slíkt. Og þessar ráðgjafarnefndir er hægt að kalla saman bæði til að segja þeim frá þeim hugmyndum, sem forstöðumaðurinn og vísindamennirnir eru með, ráðgast við þær um það og heyra þeirra tillögur, gefa sem sagt þeim mönnum, sem eru í hinu praktíska lífi og hafa áhuga á þessu, alla möguleika til að koma fram með sínar breytingartillögur, sínar hugmyndir í þessu og ræða þetta. Og þetta álít ég vera ákaflega heppilegt og ákaflega giftusamlegt fyrir stjórn slíkrar ríkisstofnunar, En ef við þurfum svo að segja að hafa þarna hverja silkihúfuna upp af annarri, ráðgjafarnefndina, stjórnina og svo forstöðumanninn, þá verður þetta allt of mikil skriffinnska. Og stundum er þetta þannig, eins og hæstv. ráðh. skýrði frá áðan, að það er kannske sjálfur forstöðumaðurinn, sem er einn maðurinn í þessari 3 manna stjórnarnefnd, annar er annar embættismaður ríkisins og þriðji útnefndur af atvinnurekstrinum. Ég álít þess vegna, að þessar stjórnir séu alveg óþarfur milliliður. Það var skiljanlegt, þegar meiri hl. atvmn. vildi fá í hendur atvinnurekstrarins í landinu eða atvinnurekendanna yfirráð yfir öllum rannsóknarstofnunum ríkisins, að þá vildu þeir hafa þessar stjórnir, til þess að þær réðu þannig, væru toppurinn á öllu saman og þær réðu framkvæmdastjórann sem sinn undirmann. En þegar búið er að breyta þessu þannig, að ríkisstj. skipar á sama hátt og embættismenn eru skipaðir forstjóra stofnunarinnar, þá er þessi stjórn orðin óþörf. Það er gengið út frá því, að þessi stjórn sé launuð. Ég held, að það sé alger óþarfi að bæta þeim kostnaði þarna ofan á. Og þó að mikill vilji sé og vonandi verði að leggja fram fé til þessara rannsóknarstofnana, þá efast ég samt ekki um, að það muni vera nauðsynlegt að reyna þó frekar að spara þann kostnað, sem maður gæti losað sig við. M. ö. o.: ég held, að maður verði að treysta þarna á fyrst og fremst, að ríkisstj. og ráðh. hafi sem mestan áhuga að tryggja þarna sem bezta vísindamenn að þessum stofnunum, bæði sem framkvæmdastjóra og starfsmenn. Í öðru lagi, að þessir forstjórar og starfsmenn, þessir vísindamenn, sem þarna vinna, fái sem allra mest sjálfræði, þeir fái að vinna þarna sjálfir út frá sínum vísindahagsmunum, en það séu ekki einhverjar stjórnir, sem geta meira eða minna sagt þeim fyrir verkum og gripið inn í þeirra verk. Hins vegar geti þeir haft í gegnum ráðgjafarnefndirnar það góða samband, sem nauðsynlegt er, við bæði atvinnurekendur, verkalýðssambönd, áhugamenn og önnur samtök í landinu, sem geta hjálpað þeim til að gera þessa vísindastarfsemi enn hagnýtari og betri. Ég vil eindregið vonast til þess, að hv. menntmn., sem fær þetta frv. til athugunar, athugi þetta mjög gaumgæfilega í samráði við hæstv. ríkisstj., hvort ekki sé hægt enn að gera breyt. á frv. einmitt í þessa átt, að draga úr því, sem ég er hræddur um, að yrði þarna bara skriffinnska, en efla að sama skapi vald vísindamannanna og forstjóranna, sem þarna eru, eins og ríkisstj. hefur unnið réttilega að.

Ég álít líka mjög rétt það, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, að í staðinn fyrir að hafa eina rannsóknardeild viðvíkjandi öllum sjávarútveginum, þá hafi hún þar tvær rannsóknardeildir, rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og hafrannsóknarstofnunina sem sjálfstæða deild. Ég er einmitt mjög sammála þessari skiptingu og veit líka, að hún er mjög í samræmi við það, sem okkar vísindamenn á þessum sviðum hafa lagt til og álíta heppilegast. Og sviðið, sem þarna er, er svo gífurlegt fyrir þjóð eins og okkur, að það mun ekki af veita, að byggð sé sjálfstæð starfsemi á þessum tveimur mikilvægu sviðum.

Þá held ég enn fremur, að það væri rétt við athugun þessa máls í n. að framkvæma það helzt alls staðar að gera kröfu til vísindalegrar menntunar, háskólamenntunar, í sambandi við þá menn, sem eiga að skipa þessi ábyrgðarmiklu störf, og reyna að framkvæma það alls staðar, því að það er nauðsynlegt fyrir okkur að gera hvort tveggja í senn, þegar við förum að meta það gildi, sem vísindin hafa nú, að meta um leið menntun þeirra manna, sem í þessu eru, og gefa þeim tækifæri, sem menntunar hafa aflað sér, til þess frá upphafi að móta þetta og taka þátt í því. Ég held, að það megi ekki annarleg sjónarmið komast þar að.

Það var mjög rétt og mjög tímabært, sem hæstv. menntmrh. undirstrikaði í sinni ræðu, að vísindin eru orðin svo þýðingarmikið — mér liggur við að segja: framleiðsluafl í þjóðfélaginu, að þau eru raunverulega alveg komin við hliðina á því, sem við hingað til höfum kallað framleiðsluöfl, þ.e. verkamönnunum og starfsmönnunum sjálfum og framleiðslutækjunum. Vísindin eru beinlínis að verða eitt mikilvægasta framleiðsluafl nútímans, og þess vegna verður, ef okkar þjóð ætlar að fylgjast með og vinna í samræmi við þann háa standard, sem verið er að skapa um allt það starf nú á tímum, þá verða bæði kröfurnar til vísindalegrar menntunar og aðbúnaðurinn að þeim vísindalegu stofnunum að verða í samræmi við það. Þarna dugir ekki lengur nein þröngsýni hjá okkur. Þarna verður að verða alger breyting á.

Í því sambandi er eðlilegt, að menn komi inn á fjármálin og hvað þar skuli gert, og það er mjög á það bent einmitt af þeim stofnunum, sem atvmn. hafði samstarf við, m.a. Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, hve gífurlegar fjárhæðir það eru orðnar, sem nú eru lagðar fram til vísindalegrar starfsemi, ekki hvað sízt af tveim fremstu ríkjum í þeim efnum í heiminum, Sovétríkjunum og Bandaríkjunum, og er talið, að það geti jafnvel verið svo, enda á það minnzt hér í grg. á bls. 29, að jafnvel 2% af þjóðarframleiðslunni séu lágmark í slíkum efnum. Það mundi þýða hér heima hjá okkur líklega hvorki meira né minna en um 140 millj. kr., svo að menn mega nú fara að íhuga ýmislegt, þegar slíkar tölur eru nefndar. Og ég vil í því sambandi minna bæði hæstv. menntmrh. og eins þá n., sem þetta fer til, á, að það var gerð tillaga af hálfu atvmn. allrar um fjáröflun í þessu skyni, sem ég vil vonast til að hæstv. ríkisstj. hafi fengið, og samkvæmt þeirri till. höfðu verið útvegaðar nokkrar milljónir í þennan byggingarkostnað árlega, og það fé, sem ég held að væri ekkert tjón að taka frá því, sem það nú er veitt í, a.m.k. urðu allir í atvmn. sammála um það, og ég vildi eindregið mælast til þess, að það yrði mjög vel athugað, hvort það væri ekki hægt að gera samkomulag um það í menntmn. að setja ýtarlegri tillögur um fjáröflun inn í frv. en hér er gert. Það, sem er fyrir allar greinarnar, er raunverulega bara, að einkaleyfisgjaldið fyrir happdrættið, sem hingað til hefur verið greitt til ríkissjóðs, eigi nú að fara til þessa, en ekki neitt meira, og ég vildi gjarnan, að hæstv. ríkisstj. athugaði þá till. betur, sem atvmn. í heild gerði í þessum efnum.

Þá vildi ég að síðustu mælast til þess, að hv. menntmn. kalli á sinn fund sérfræðingana, sem hafa komið mjög nærri samningunum um þetta og látið í ljós ýmsar sínar skoðanir, til þess að hún fái tækifæri til þess að setja sig sem bezt inn í hugmyndir vísindamannanna sjálfra um þetta mikla mál og geti þá um leið líka gert þær breytingar á frv., sem hún kynni að geta orðið sammála um. En alveg sérstaklega vil ég skjóta því til hæstv. menntmrh., hvort hæstv. ríkisstj. hefur athugað þá till., sem atvmn. sameiginlega gerði um fjáröflun í þessu skyni og hefði tryggt og mundi tryggja þarna nokkrar milljónir á ári, og álít ég mjög heppilegt, ef hæstv. ráðh. vildi athuga það við menntmn., hvort ekki væri hægt að gera einhverjar ráðstafanir í slíku efni. Það er engum efa bundið, að það þarf að vinda að því bráðan bug að koma þessum stofnunum upp. Það þarf að byggja yfir þær, það er allmikill byrjunarkostnaður, og þar að auki er viðbúið, að ef það eigi að gera sómasamlega við þá menn, sem þarna starfa, þá muni rekstrarkostnaður verða að vera þarna allmikill. Ég tók eftir því, eins og vitað er, að það er meira að segja svo nú í sumum þeim stofnunum, sem nú starfa við atvinnudeild háskólans, að meginið af sérfræðingunum er að fara í burtu. Það þýðir náttúrlega lítið fyrir okkur að fara að hagnýta vísindin sem framleiðsluafl í þjóðfélaginu og hafa svo um leið slíka skipun á þessum málum, að við getum ekki einu sinni haldið þeim sérfræðingum, sem við höfum. Það er mál, sem verður að breytast og breytast fljótt.

Að öðru leyti vil ég taka undir það í ræðu hæstv. ráðh., er hann undirstrikaði nauðsynina á því að gera þá miklu breytingu, sem hér er lagt til á þessu sviði okkar vísindalegu rannsóknarstarfsemi, og um leið láta í ljós ánægju mína yfir þeim breyt., sem ríkisstj. gerði á þessu frv. hvað snertir einmitt sérstaklega skipun forstöðumannanna og hvað snertir það að hafa tvær sjálfstæðar deildir í sjávarútveginum, annars vegar fiskiðnaðinum og hins vegar hafrannsóknunum, sem ég álít hvort tveggja hafa verið til mikilla bóta frá því, sem var í frv. meiri hl.