06.11.1962
Efri deild: 13. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (2214)

75. mál, lausn á síldveiðideilunni sumarið 1962

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér þótti þetta nokkuð nýstárleg kenning, sem hv. síðasti ræðumaður gaf hér á stjórnarskránni, þar sem hann talaði um það, að ætlazt væri til þess með framlagningu brbl. slíkra sem þessara, að þingið gæfi stjórninni syndakvittun. Ég vildi þá beina því til hv. ræðumanns, hvort þessa kenningu hans eigi að skilja svo, að ráðh. og ríkisstjórn sé alveg óhætt að syndga með útgáfu brbl., því að stjórnarskráin ætlist til þess, að á eftir gefi Alþingi út syndakvittun.

Það er sannarlega vandlifað fyrir hæstv. ríkisstj., ef hún ætti að haga gerðum sínum þannig, að það gæti fallið í góðan jarðveg hjá hv. stjórnarandstæðingum, stjórnarandstöðuflokkunum. Það hefur greinilega komið í ljós í þessu máli, þar sem hv. talsmaður Framsfl., sem talaði hér á undan mér, lagði á það áherzlu, að ríkisstj. hefði gripið of seint inn í þetta mál, hún hefði átt að grípa í taumana miklu fyrr. Aftur á móti var hv. fulltrúi Alþb., sem hér talaði áðan, á allt annarri skoðun. Hann taldi, að ríkisstj. hefði gripið allt of snemma inn í þetta mál og hún hefði helzt aldrei átt að grípa inn í það. Hann virtist halda fram þeirri kenningu, að deilan hefði eiginlega verið að leysast, útvegsmenn hefðu verið að gefast upp og það hefði þess vegna verið alger óþarfi af hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvmrh. að skerast hér í leikinn. Því miður var útlitið ekki þannig, þegar brbl. voru gefin út, og mér virðist það, sem skeð hefur síðan, og sú hatramma deila, sem nú stendur yfir, sýna, að það hafi ekki verið mikilla sátta að vænta með aðilum eða uppgjafar af hendi útvegsmanna.

Þessi hv. þm., 5. þm. Norðurl. e., sagði, að það hefðu verið komnir 20 bátar á miðin, þegar brbl. voru gefin út. Ég skal að vísu játa, að ég hef engin gögn undir höndum um það, hvað margir bátar voru komnir á miðin. Ég hygg þó, að þessi tala sé alger skáldskapur og hv. þm. hafi tekið þetta upp úr Þjóðviljanum og slái því síðan fram sem staðreynd til þess að rökstyðja það, að óþarft hefði verið að grípa hér inn í. En jafnvel út af fyrir sig, þó að 20 bátar hefðu verið komnir á miðin, þá er það auðvitað engin sönnun þess, að útgerðarmenn væru að gefast upp. Þjóðin hefði vitaskuld getað orðið fyrir stórfelldu tjóni, ef svo hefði farið, að ekki nema þriðjungur eða helmingur síldveiðiflotans hefði farið á veiðar, en hinn helmingurinn hefði setið eftir eða ekki farið fyrr en löngu síðar. Hitt veit ég með vissu, að á ýmsum þessum bátum, sem fóru á miðin, áður en brbl. voru gefin út, var skráð upp á væntanleg kjör og væntanlega samninga. Það var ekki skráð upp á gömlu samningana á sumum þessara báta.

Það, sem ég tel að væri raunar miklu frekar hægt að rökræða um í þessu sambandi heldur en það, hvort ástæða hefði verið til að grípa inn í, — ég álít, að flestum mönnum hafi verið ljóst, að hjá því varð ekki komizt, — en ég held, að það sé miklu frekar ástæða til þess að rökræða hitt, á hvern hátt hefði átt að grípa inn í. Átti að gera það á þann hátt, sem gert var með setningu laga um gerðardóm, eða átti að gera það á þann hátt, sem haldið hefur verið fram af ýmsum, átti að gena það á þann veg að lögfesta gömlu kjörin?

Þegar þessi deila er skoðuð, vil ég leyfa mér að varpa hér fram dæmi til þess að reyna að skýra þessa hluti. Við skulum bara hugsa okkur, að það væri hér saumastofa einhvers staðar í bænum og þar ynnu margar saumastúlkur og þær saumuðu t.d. karlmannsbuxurnar fyrir 100 kr. stk., svo kæmi eigandinn og keypti nýjar og miklu fullkomnari og afkastameiri saumavélar og segði við stúlkurnar: „Nú fáið þið bara 80 kr. fyrir að sauma buxurnar: Það má segja: Nú fáið þið bara 80 kr. í staðinn fyrir 100 kr. áður. Þetta er kjaraskerðing, geta stúlkurnar sagt. Í sjálfu sér er sú staðhæfing ákaflega vafasöm. Það getur vel verið, að þrátt fyrir þetta hafi þær miklu meira dagkaup og miklu hærra mánaðarkaup en áður. Það er í raun og veru alveg sama, sem hér er um að ræða. Sjómennirnir eru með önnur skip og önnur tæki en gömlu kjörin gerðu ráð fyrir.

Ég vil í sjálfu sér taka það fram strax, að ég legg ekki eins mikið upp úr þessu tækjaspursmáli og oft hefur verið gert í umræðum um þetta mál, þ.e.a.s. um kraftblökkina og hið sjálfvirka síldarleitartæki, hvort þessi tæki hafi verið sett í skipið eða ekki. Það, sem ég tel að sé miklu þýðingarmeira atriði, eru skipin sjálf, og það er það, að nú er farið að veiða og stunda síldveiðar með hringnót á miklu stærri og fullkomnari skipum en áður var. Ég vil t.d. benda á, að síðast þegar samningar voru gerðir um síldveiðikjör, vorið 1959, þá er í þeim samningum alls ekki gert ráð fyrir, að það sé til stærra skip á hringnótaveiðum en 100 smálestir. Þar er hins vegar gert ráð fyrir miklu stærri skipum á herpinótaveiðum en á hringnótaveiðum. Það sést á ákvæði samningsins um aukauppbót, þegar farið er fram úr vissu aflamagni, en þar er hæst talað um 100 smálesta skip, en um almenn kjör er hæsti flokkurinn 70 smálestir og þar yfir. Í sambandi við hringnótakjörin hafa líka sagt mér menn, sem að þessum samningum stóðu, að það hafi yfirleitt verið algerlega óþekkt fyrirbrigði, að stór skip væru á hringnót. Nú í sumar er það hins vegar svo, að þá eru öll skipin á hringnótaveiðum, meira að segja togari er á hringnótaveiðum, og af 225 skipum, sem voru á veiðum í sumar, hefur 81 skip verið yfir 100 smálestir og þau að sjálfsögðu öll á hringnótaveiðum, þannig að hér er um allt annað að ræða en áður, þegar ákveða skal kjörin.

Ég vil líka benda á það ekki síður, að í þeim samningaviðræðum, sem fóru fram á s.l. vori, buðu sjómennirnir lækkun á aflaprósentunni. Þeir buðu lækkun á aflaprósentunni, þó að sú lækkun væri að vísu lítil. En með því að bjóða þessa lækkun viðurkenna þeir raunverulega, að þörf sé á nýjum skiptakjörum og það sé ástæða til þess að breyta þeim. Ég tel þess vegna, að það hafi verið réttmætt, eins og á stóð í þessu neyðarástandi, sem stóð yfir í sumar, að ákveða, að gerðardómur skæri úr þessum kjörum, en gömlu kjörin væru ekki lögfest, enda er þá raunverulega alveg óvíst nema nokkur hluti af síldveiðiflotanum hefði setið heima, ef það hefði verið gert. Það hafa að vísu verið bornar fram ýmsar mótbárur gegn þessari skoðun. Það hefur t.d., eins og ég hygg að hv. 5. þm. Norðurl. e. hafi komið hér með, verið komið með þau rök, að allir yfirmennirnir hafi fasta samninga og gerðardómur hafi ekki náð til þeirra og það væri ósanngjarnt að lækka skiptaprósentu og kjör hásetanna, þegar kjör yfirmannanna stæðu óskert. Það hefur líka verið bent á það af mörgum andstæðingum gerðardómslaganna, að um þriðjungur af flotanum væri raunverulega með bundna samninga óuppsagða og þess vegna næðu gerðardómskjörin ekki til þeirra. Vil ég nú lítillega gera þessar mótbárur að umtalsefni.

Þá er það í fyrsta lagi hvað snertir yfirmennina, — það er að vísu rétt, að yfirmennirnir voru með bundna samninga, svo að gerðardómur ákvað þeirra kjör ekki beinlínis, — en þó er rétt að geta þess að sjálfsögðu, að um þetta var ekki vitað og ekki skorið úr þessum ágreiningi fyrir félagsdómi fyrr en eftir að brbl. voru sett, þannig að það var ekki hægt að ganga að því vísu, þegar brbl. voru sett, að yfirmennirnir hefðu bundna samninga. En þó að gerðardómurinn næði ekki beinlínis til þeirra, þá segir í samningum yfirmannanna, að þeir, þ.e. vélstjórinn og stýrimaðurinn, skuli hafa einn og hálfan hásetahlut, ein og hálf hásetalaun, eða 1¼ ef það er 2. vélstjóri. Og þess vegna, þar sem gerðardómurinn er búinn að ákveða hásetalaunin eða hásetahlutinn, þá geta ákvæði gerðardómsins verkað á kjör yfirmannanna, vegna þess að yfirmennirnir eru samningslega tengdir kjörum háseta. Um þetta er nú deilt fyrir félagsdómi, og ég skal ekkert segja um, hvernig það mál fer. En það er augljóst, að á þessu stigi málsins er allt of mikið sagt að segja það, að yfirmennirnir búi við óskert kjör.

Þá kemur hitt atriðið, að um þriðjungur af síldveiðiflotanum sé með bundna samninga. Það hefur gengið mál í félagsdómi um einn stað fyrir austan, og mér skilst, að það sé viðurkennt af útvegsmönnum, að um annan stað gildi það sama. Málið snerti að mig minnir Neskaupstað, og hinn staðurinn er Seyðisfjörður. Nú hefur Alþýðusambandið og sjómannasamtök talið, að það væru 13 staðir alls, sem væru með bundna samninga, og talið, að á þessum 13 stöðum væri þriðjungur síldveiðiflotans gerður út. Þessir sömu aðilar hafa birt tölur og sagt, að frá þessum stöðum væru gerð út 65 skip. En í sumar voru 225 skip á síldveiðum, og það er það fyrsta, sem hægt er að benda á í þessu sambandi, að 65 er að sjálfsögðu ekki þriðjungur af 225. En ég hef farið yfir skýrsluna frá því í sumar yfir þau skip, sem síldveiðar stunduðu, og talið upp skipin frá þessum 13 stöðum, og þau eru 58 eða rétt um það bil fjórðungur, þannig að jafnvel þó að allir þessir staðir, þar sem ágreiningur kann að vera um, hvort samningar hafi verið bundnir eða ekki, hefðu bundna samninga, þá væri það ekki nema fjórðungur. Hitt er svo annað mál, að það er ákaflega ólíklegt, að niðurstaðan verði sú, að allir þessir staðir verði með bundna samninga. Þvert á móti tel ég mjög ólíklegt, að það yrði yfir 10% síldarflotans, sem talið yrði hafa bundna samninga. En hitt er svo auðvitað annað mál, að þó að einn dómur væri fallinn á einum stað, var auðvitað ákaflega erfitt við setningu brbl. að gera sér grein fyrir því, hver þessi prósenttala kynni að vera. Og ég veit það líka með vissu, að á sumum þessum stöðum, þar sem haldið er fram að hafi verið bundnir samningar, þá hefur a.m.k. verið skráð upp á nýju samningana eða gerðardóminn, hvað sem sú skráning kann svo að gilda, ef dómstóll lítur öðruvísi á málið. Ég tel mig hafa sýnt fram á, að það séu reyndar stórkostlegar ýkjur, þegar sagt er, að þriðjungur síldveiðiflotans sé með bundna samninga.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. kom hér inn á það, að verkbann L.Í.Ú. hefði verið ólögmætt og þeir hefðu m.a. skapað sér þessa aðstöðu með tryggingavíxlum. Ég er honum alveg sammála um það, að þetta verkbann þeirra var ólögmætt. Það var ekki boðað eða bar ekki að með þeim hætti, sem vinnulöggjöfin tilskilur. Og það má í raun og veru segja hér langt mál um allar þær yfirsjónir, sem L.Í.Ú. framdi í sambandi við undirbúning allrar þessarar deilu og gerðu þessa deilu miklu hatrammari og torleystari en þurft hefði að vera. Það er t.d. alveg einstakt að hugsa sér það, að þetta landssamband kunni ekki að segja upp samningum. Það fær á sama sumrinu á sig 3 dóma, þar sem uppsagnir frá því eru dæmdar ólögmætar. Jafneinfaldan hlut og að segja upp kjarasamningi virðast þeir alls ekki geta nema einstöku sinnum. Og einnig það, að þó að ég skuli að vísu taka fram, að ég telji þá að nokkru leyti hafa haft rök að mæla, þegar þeir voru að krefjast breyttra skiptakjara, þá héldu þeir nokkuð undarlega á sínum málstað, og þeir hömruðu yfirleitt mest á þeim rökunum, sem veikust voru, en létu hitt frekar liggja í þagnargildi, þ.e.a.s. þeir voru alltaf að tala um tækin, alltaf um kraftblökkina og síldarleitartækin, í staðinn fyrir að tala um skipin sjálf, sem voru orðin miklu stærri og dýrari en áður hafði verið. En það verður ekki komizt hjá því í þessu sambandi að átelja líka Alþýðusambandið og Sjómannasambandið, því að hvaða frammistaða er það hjá þessum samtökum að láta L.Í.Ú. haldast uppi ólögmætt verkbann? Hvers vegna fara þessi samtök ekki í mál fyrir dómstólum og láta hnekkja þessu? Það er auðvitað að bjóða svona vinnubrögðum heim af hálfu L.Í.Ú. og annarra atvinnurekendasamtaka, þegar verkalýðssamtökin sitja bara þegjandi hjá og hafast ekkert að.

Þegar rætt er um niðurstöðu gerðardómsins og þá útkomu, sem hún hafði í för með sér fyrir sjómannastéttina, er í raun og veru allsendis ófullnægjandi, eins og mest hefur verið gert, að benda eingöngu á þá almennu skiptaprósentu, sem kemur til skipta milli skipshafnarinnar. En það er eins og vitað var, að þá lækkaði gerðardómurinn hana þó nokkuð, þó að ég telji að vísu, að hann hafi tekið of djúpt í árinni. En það, sem hefur líka töluvert að segja, annað en hvaða prósenta það er, sem skiptist á milli skipshafnar, það er, hvað skipt er í marga staði. Og einmitt á því sviði kom gerðardómurinn alveg til móts við sjónarmið sjómanna. Það eru hér fyrir framan mig tölur frá því í sumar um fjölda skipa og skiptingu í stærðarflokka, en áður var það þannig, að eftir samningi frá 1959 var á hringnótaveiðum á skipum frá 40 til 70 smálestir skipt í 11 staði, en í 12 staði á skipum yfir 70 smálestir. En ég vil aðeins nefna hér tölur nokkrar af 46 bátum, sem voru á veiðum í sumar og voru á stærð, — það eru að vísu ekki alveg glögg merki niður á við, en ef þeir eru minni en 60 lestir — það voru 46 bátar — þá eru samkv. gerðardómnum 10 staða skipti, en áður voru það 11 staða skipti. Og á 89 bátum á stærðinni frá 80 smálestir upp í 120 er nú samkv. gerðardómnum skipt í 11 staði í staðinn fyrir 12 staði áður. Þetta ber að sjálfsögðu að hafa í huga, þegar reiknuð er sú heildarútkoma til heildarbreytingar, sem gerðardómurinn kann að hafa gert á kjörum sjómanna. Breytt hlutastaðaskipting, sem átti sér stað með gerðardómnum, hefur því í mörgum tilfellum orðið til verulegra hagsbóta fyrir sjómenn. Ég tel í raun og veru, að sú tala, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. varpaði hér fram, að það mundi líklega hafa orðið 10 þús. kr. kaupskerðing að meðaltali hjá háseta á síldveiðunum í sumar, sé algerlega úr lausu lofti gripin. Ég hef að vísu ekki nákvæmar tölur, en það er ekki hægt að reikna þetta út nema í sjálfu sér að hafa upplýsingar um hvern einasta bát og hve fjölmenn skipshöfn var. Ég get auðvitað varpað fram einhverri tölu, alveg eins og þessi hv. þm. hefur gert, en ég tel, að þessi tala sé allt of há.

Ég mun þá fara nokkrum orðum um ræðu fulltrúa Framsfl., hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ). Hann talar um, að þarna þyrfti eiginlega ríkisvaldið með fjárframlögum að koma og leysa þessa deilu, því að það væri að hans dómi ekki hægt að skerða hlut sjómanna, þó að ég vilji í sjálfu sér ekki kalla það endilega skerðingu á hlut sjómanna, þó að aflaprósentan sé lækkuð og útvegsmenn fái þar uppbætur til þess að standa undir auknum kostnaði vegna tækja og annars.

Út af þessum hugleiðingum vil ég í fyrsta lagi segja það, að ég tel, að síldarútgerð sé einhver sá atvinnuvegur innan sjávarútvegsins, sem ætti að vera hagkvæmastur, og það væri þess vegna ákaflega óheppilegt og sízt til þess fallið að fara að styrkja þann atvinnurekstur með fjárframlögum úr ríkissjóði, sem ætti að geta staðið undir sér sjálfur. Og ég tel líka, að þeir menn, sem vinna við síldarútveginn, séu yfirleitt, sem betur fer, mjög vel launaðir. Mér finnst, að í þessari till. gæti allmikið þeirra sjónarmiða, sem Framsfl. hefur reyndar oft haldið fram hér í stjórnarandstöðunni, þ.e.a.s. að ríkið eigi að borga. Flokkurinn segir alltaf við stéttirnar: Þið eigið ekki að borga þetta, heldur á ríkið að borga það. — Það er sagt við bændastéttina, að hún eigi ekki að borga í stofnlánadeild landbúnaðarins, neytendurnir eiga ekki heldur að borga. Eins er það, að útgerðarmennirnir eiga ekki að borga þetta. Ríkið á alltaf að borga, þannig að það virðist eins og það sé skoðun Framsfl., að stéttirnar beri ekki það, sem ríkið ber. Það er alkunn saga um karlinn, sem sagði: Hesturinn ber ekki það, sem ég ber. En nú virðist Framsfl. vera búinn að yfirfæra þessa kenningu í það, að stéttirnar beri ekki það, sem ríkið ber. En í sjálfu sér væri svo auðvitað opin leið fyrir aðra til að krefjast uppbóta, ef farið væri inn á þessa leið þeirra framsóknarmanna.

Það hefur verið vikið að því hér, að afstaða Alþfl. sé ólík nú og til gerðardómsins 1942. Í sjálfu sér er hér algerlega ólíkum hlutum saman að jafna. Gerðardómurinn í sumar nær aðeins til einnar stéttar og er aðeins bráðabirgðaúrlausn, sem gildir fyrir eitt sumar til þess að forða þjóðinni frá óbætanlegri framleiðslustöðvun og tjóni, og í slíkum tilfellum tel ég vissulega, að Alþfl. eigi ekki að hika við að fara þá leið, sem farin var.

Það væri ekki rétt að skilja svo við þetta mál að benda ekki á það, sem deilt er hér um, og þá fjármuni, sem sjómenn telja sig hafa misst við það, að kjör þeirra voru ákvörðuð með gerðardómi, en þeir nutu ekki gömlu kjaranna, sem þeir reyndar viðurkenndu að nokkru leyti sjálfir að væru ekki réttmæt lengur, að þá er það augljóst mál um allmikinn hluta af þessu kaupi, sem um er deilt, hvorum megin það hefði átt að lenda, að ef það hefði lent í hlut sjómannsins, þá hefði verulegur hluti af því farið í útsvör og skatta. Ég gæti gert ráð fyrir því, án þess að það hafi nokkuð verið reiknað út, að um 30–50% af þessu kaupi mundu fara í útsvör og skatta. En þá má í því sambandi minna á, að ef ekki hefðu verið gerðar þær mikilvægu skattalækkanir og skattalagabreytingar, sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, mundu sjómennirnir nú þurfa að greiða miklu hærri prósenttölu af þessari upphæð í skatta og útsvör, og það sýnir svo auðvitað, að sú heildarupphæð, sem þeir verða að greiða nú af öllu sínu kaupi, er auðvitað miklu lægri en eftir eldri skattareglum. Það er þess vegna alveg ljóst, að í góðum árum, þegar aflast vel og sjómenn hafa mjög háar tekjur, þá eru ákaflega mikil hlunnindi fyrir þá fólgin í þeim skattalagabreytingum, sem gerðar voru, t.d. svo að ég taki ekki nema bara regluna um það, að útsvörin séu frádráttarhæf, og svo auk þess hina stórkostlegu lækkun á tekjuskattinum. Þá er það auðvitað mjög til hagsbóta fyrir sjómenn, að uppbótakerfið hefur verið afnumið, þannig að núna, þegar gengisbreytingar hafa orðið, hafa þeir fengið að fullu samsvarandi kauphækkun og gengislækkun hefur numið, a.m.k. ef þeir hafa verið upp á hlut og ekki hefur verið um kauptryggingu að ræða, og þannig hafa þeir fengið hærri kauphækkanir og meiri en aðrar launastéttir í landinu, auk þess sem þeir hafa líka fengið verulega aukinn skattfrádrátt. Og afnám uppbótakerfisins þýðir auðvitað það, að öll sú hækkun, sem verður á afurðaverði eða útflutningsverðmæti, kemur sjómönnunum beint til góða, í staðinn fyrir að áður, þegar uppbótakerfið ríkti, þá var alger óvissa ríkjandi um það, hvort sjómaður yrði þar nokkurs aðnjótandi, heldur féll það fyrst og fremst í hlut framleiðandans og útvegsmannsins. Það er þess vegna alveg ljóst mál, að sjómannastéttin í landinu hefur aldrei nokkurn tíma búið við betri kjör en í tíð núv. ríkisstjórnar.