08.11.1962
Efri deild: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (2220)

75. mál, lausn á síldveiðideilunni sumarið 1962

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) virðist alls ekki reyna til þess að benda á neina leið til að leysa þann vanda, sem reis í sumar, þegar síldveiðiflotinn var stöðvaður og mjög alvarleg framleiðslustöðvun var fram undan fyrir þjóðina. Hann heldur sér eingöngu við það, að það hafi enginn vandi verið á ferðum. Hann reynir að skjóta sér undan því með því að segja: Það var enginn vandi á ferðum. Deilan var að leysast eftir einn eða tvo daga. En þetta er því miður allt saman hreinn tilbúningur, og hann hefur ekki heldur getað fært nein rök að þessu. Ríkisstj. varð auðvitað að líta á þetta mál með hliðsjón af því, að þarna var mjög alvarleg deila, sem því miður var ekki neitt útlit fyrir að væri að leysast, og þessi deila hefur nú endurtekið sig, þegar gerðardómurinn er úr gildi, og er enn mjög alvarleg og lítur út fyrir að ætla að verða langvinn.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. virðist vera því mjög andvígur, að ríkisvaldið hafi afskipti af vinnudeilum, öðruvísi en þá í sáttaskyni og annað slíkt, og sérstaklega því, að vinnudeilur séu leystar með brbl. eða löggjöf, hversu mikið sem í húfi sé. En þetta hefur sem betur fer ekki alltaf verið skoðun þessa hv. þm., að ég hygg. Ég man eftir því, að sumarið 1957 var hér alvarlegt verkfall. Það voru yfirmenn á kaupskipaflotanum, sem voru í verkfalli. Þá var það vitað mál, að þáv. félmrh. hafði mikinn hug á því að leysa þá deilu með lagasetningu, og hann var farinn að safna áskorunum frá ýmsum verkalýðsfélögum, sem hann taldi sig eiga stuðningsmenn í, þar sem hvatt var til þess, þó ekki kannske alveg með berum orðum, þá var alveg auðskilið, hvað við var átt. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa hér upp yfirlýsingu frá 25. júlí 1957, sem er frá verkalýðssamtökunum á Akureyri, en eins og kunnugt er, þá er hv. 5. þm. Norðurl. e. formaður stærsta verkalýðsfélagsins þar og hefur sjálfsagt átt sinn mikla þátt í að semja þessa yfirlýsingu, en hún hljóðar á þessa leið:

„Verkfallið (hér er átt við farmannaverkfallið) hefur þegar vegna dæmafárrar ósáttfýsi beggja deiluaðila leitt af sér stórfellt þjóðhagslegt tjón, og er nú almenn stöðvun framkvæmda og atvinnu fyrirsjáanleg á næstu tímum, ef ekki verður að gert, og lífsafkomu láglaunafólks stefnt í bráða hættu. Einnig er auðsætt, að sú beiting verkfallsréttar, sem í deilunni höfð í frammi, þar sem svo fámennur hópur manna stefnir að því að stöðva mikilvægustu atvinnuvegi þjóðarinnar, er alþýðusamtökunum og réttindum þeirra mjög hættuleg.“

Ég vil meina, að margt af því, sem stendur í þessari yfirlýsingu, geti fyllilega átt við þá deilu, sem hér reis í sumar, og það skilja allir, hvað í þessu felst. Það er áskorun til ríkisvaldsins um það að grípa fram í og leysa deiluna, en bíða þess ekki, að hún leysist með samningum milli deiluaðilanna. Það er eftirtektarvert, þegar verið er að tala um „fámennan hóp“, það er átt við yfirmennina á kaupskipaflotanum. Ætli útgerðarmennirnir séu nokkuð fleiri, sem stóðu að þessu verkfalli? Og ég mundi nú álíta, að það væri ekkert síður skoðun þessa hv. þm., úr því að hann vill láta ríkisvaldið grípa inn í, þegar það eru launþegarnir, sem eiga upptökin, að þá fyndist honum ekkert síður ástæða til þess, þegar það eru atvinnurekendur.

Þessi hv. þm. varpaði fram þeirri spurningu í ræðu sinni, hver hefði haft rétt fyrir sér í gerðardómnum. Það er auðvitað mikið matsatriði. Ég get náttúrlega ósköp einfaldlega svarað þessari spurningu fyrir sjálfan mig. Það var ég, sem hafði rétt fyrir mér. Og ég vil meira að segja vitna til þess, að í þessari deilu, sem nú er komin og er bara framhald af síldveiðideilunni í sumar, hefur sáttasemjari ríkisins lagt fram sáttatillögu, sem er mjög svipaðs efnis og sú till., sem ég lagði til að gerðardómurinn samþykkti, en því miður ekki varð. Og ég vil einmitt af því, að það átti sér stað, að skiptakjörin voru lækkuð, einnig benda á þessa sáttatill., að ríkissáttasemjari er af öllum aðilum talinn hlutlaus maður og hefur mikið traust meðal bæði launþega og atvinnurekenda og reyndar allrar þjóðarinnar, og ég vil fullyrða, að slíkum manni dytti ekki í hug að leggja til, að það yrðu breytt skiptakjör frá síðustu samningum, nema hann teldi það fyllilega réttlætanlegt og væri vel hægt að rökstyðja það.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. talaði hér nokkuð um kjör sjómanna og þá einkum síldveiðisjómanna og taldi síður en svo, að kjör þessara stétta hefðu batnað í tíð núverandi ríkisstj. Um kjör sjómanna almennt get ég vísað til þeirra kjarabreytinga, sem urðu í ársbyrjun 1961, en þá taldi málgagn þessa hv. þm., að sjómenn hefðu fengið 20–25% kjarabætur. Það voru vissulega hærri kjarabætur en ég man eftir að aðrar stéttir fengju á því ári. En um kjör síldveiðisjómannanna sérstaklega er hægt að minna á það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. kom hér inn á, og það eru lögin frá 1958 um útflutningssjóð o.fl., og hvernig þá var búið að síldarútveginum. En síldarútvegurinn, a.m.k. sumarsíldarútvegurinn, hafði þá 55% uppbætur, þegar aðrar útflutningsgreinar höfðu 80 og sumar 70. Það er auðvitað alveg augljóst mál, að sú atvinnugrein, sem er svona afskipt og fær svona miklu lægri uppbætur en aðrar, hlýtur þar af leiðandi að vera síður fær um að borga starfsmönnum sínum laun en aðrar atvinnugreinar. Og það, sem þessi atvinnuvegur missir í uppbótum til þess að vera jafn við aðra, það missa að sjálfsögðu þeir, sem við hann starfa, alveg á hliðstæðan hátt. Auk þess er ég ekki kominn til að segja það, að sjómennirnir hafi einu sinni notið allra þessara uppbóta, sem síldarútvegurinn fékk, sem voru minni en aðrir útflutningsatvinnuvegir fengu. Það er því alveg ljóst, að þegar uppbótakerfið var afnumið í sjávarútveginum og gengislækkunin gerð 1960, þá var það auðvitað stórkostlegur ávinningur fyrir síldarútveginn og fyrir alla, sem við hann starfa.

Að síðustu vil ég aðeins koma örlítið inn á þau rök, sem lágu til þess, að réttlætanlegt var talið að breyta skiptakjörunum. Hér hefur reyndar allt of mikið í þessu máli verið einblínt á skiptakjörin, eins og menn haldi, að öll afkoma sjómannsins og allur hans hagur sé kominn undir því, hver sú heildarprósenta er, sem skiptist milli skipshafna. Það kemur auðvitað margt fleira inn í, eins og síldarverð og hvað margir eru á skipi og hvað skipt er í marga staði o.fl., o.fl. En ég hef verið nokkuð gagnrýndur fyrir það að vera að ámæla útvegsmönnum fyrir að hafa ekki borið fram sín sterkustu rök, sem ég teldi í þessu máli, þ.e.a.s. að benda á það, að skipin væru orðin miklu stærri, aftur á móti hefðu tækin minna að segja í mínum augum. Ég sagði, hygg ég, orðrétt, að ég gagnrýndi útvegsmenn fyrir það að halda þessum rökum minna á lofti en öðru. Það er alls ekki rétt, að útvegsmenn hafi ekki borið þessi rök fram, og þau komu fram í grg., sem birtist í blöðunum, þegar brbl. voru sett, og þau komu fram í grg. til gerðardómsins. En út á við gagnvart almenningi í landinu og í blaðagreinum var langmest áherzla lögð á tækin, þ.e.a.s. sjálfvirk síldarleitartæki og kraftblökkina, að það væri svo mikill tilkostnaður, sem lægi í þeim. Ég vil algerlega standa við það, að ég tel, að í kjaradeilu sé auðvitað, hvort sem það er atvinnurekandi eða stéttarfélag, sem á í hlut, þá sé það alltaf skynsamlegt og heppilegt að bera fram sín beztu og sterkustu rök, en flíka ekki því, sem veikara er eða hrein vitleysa. Ég álít einmitt, að með því að bera fram haldbeztu rökin séu líkur til þess, að gagnkvæmur skilningur ríki og það geti náðst samkomulag. En þetta virðist nú a.m.k. Tíminn ekki skilja, eftir því sem hann skýrði frá þeirri ræðu, sem ég hélt hér áður, þegar 1. umr. þessa máls hófst.

Ég kem þá að síðustu örlítið inn á ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ). Hann viðurkennir í sjálfu sér réttilega, að það hafi verið mikið vandamál þarna á ferðum. Hann vildi aðeins láta ríkisstj. leysa þetta á annan veg en hún gerði og þá fyrst og fremst með því að reyna að halda skiptakjörunum óbreyttum, en bæta þá útvegsmönnum upp það, sem þá kynni að skorta til þess að telja sig geta gert út við þau kjör, og það yrðu þá bætur úr ríkissjóði eða eitthvað þess konar.

Ég skal í raun og veru játa, að þessi hv. þm. kom núna með þau rök, sem langsamlega eru sterkust fyrir því, að skynsamlegt hefði verið að fara þessa leið, en það var með því að vitna til laganna frá 1956 og 1958 og sýna fram á, hvað síldarútvegurinn var vanhaldinn í tíð vinstri stjórnarinnar og hann eigi þarna raunverulega siðferðilega kröfu á ríkisvaldið. Mér finnst þessi athugasemd þessa hv. þm. vera alveg rétt. En mér finnst hún einmitt alveg sérstaklega athyglisverð vegna þess, að Framsfl. hefur alltaf haldið því fram, að í tíð vinstri stjórnarinnar hafi verið miklu betur búið að útgerðinni en í tíð þessarar stjórnar og það hafi nú skipt um stórkostlega til hins verra. En nú bendir þessi hv. þm. réttilega á, að ein grein sjávarútvegsins eigi þarna siðferðilega kröfu til einhvers framlags vegna þess, hve hún var vanhaldin í tíð vinstri stjórnarinnar.

Hitt er svo annað mál, að mér finnst stefna Framsfl. í þessu vera oft nokkuð torskilin satt að segja, því að a.m.k. skildist mér það í fyrra, þegar gengislækkunin var gerð, að þá segðu framsóknarmenn, að gengislækkunin væri alveg óþörf, útflutningsatvinnuvegirnir gætu vel tekið á sig þær kauphækkanir, sem orðið höfðu þá fyrr um sumarið, og gengislækkunin væri alveg óþörf. Nú skilst mér hins vegar, að framsóknarmenn líti svo á, að útgerðin geti ekki einu sinni búið við sömu skiptakjör gagnvart sjómönnum lengur, nema því aðeins að fá uppbót úr ríkissjóði til að standa undir óbreyttum kjörum, en í fyrra átti hún ekki að þurfa neitt til að hækka kaupið.