06.12.1962
Efri deild: 27. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2228)

110. mál, fullnusta norrænna refsidóma

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er sama efnis og sams konar frv., sem um þessar mundir eru lögð fyrir þjóðþing hinna Norðurlandanna fjögurra. Frv. um þessi efni hafa verið undirbúin af dómsmálastjórnum Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, en við athugun kom í ljós, að í þeim frv. var ekkert, sem gæti ekki einnig átt við hér á landi. Það þótti því rétt, að Ísland gerðist aðili að því samkomulagi, sem liggur til grundvallar frv. Í grg. segir, að mælzt hafi verið til þess, að Ísland gerðist aðili að þessu samstarfi, og hefur að athuguðu máli þótt rétt og eðlilegt að verða við því. En þetta er e.t.v. ekki alveg rétt til orða tekið, vegna þess að við töldum sjálfir að athuguðu máli, að það væri æskilegt fyrir Íslendinga að gerast aðili, og fór þar saman okkar eigin ósk og það, sem hinir aðilarnir töldu æskilegt.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta frv. hafi ákaflega mikla raunhæfa þýðingu fyrir Ísland, að það verði ekki sérlega mörg tilfelli, þar sem ákvæðum þess þurfi að beita hér eða um okkar fólk í öðrum löndum, þó að enginn geti að vísu sagt um það fyrir fram. En engu að síður tel ég mikilsvert, að við samþykkjum þetta frv. og gerumst þar með aðili að samkomulaginu um lögfestingu þess, vegna þess að ég hygg, að það sé í fyrsta skipti, sem fullvalda ríki setja slíka löggjöf, þar sem teknir eru gildir dómar kveðnir upp í öðrum löndum um þau efni, sem hér um ræðir. Löggjöfin sýnir því mikið gagnkvæmt traust aðildarríkjanna á réttarskipun þeirra hvers um sig, og ég tel það bæði metnaðarmál fyrir Íslendinga og heiður, að hin Norðurlöndin, sem óumdeilanlega eru öll meðal fremstu og sum elztu réttarríkja í heiminum, skuli telja það sjálfsagt, að Ísland sé í þeirra flokki einnig varðandi þessi málefni, þó að við skulum jafnframt játa, að einmitt í þessum efnum er okkur að sumu leyti meira áfátt en sæmilegt er, ekki varðandi öryggi réttarskipunarinnar eða dómstólanna, heldur að fangelsismál okkar eru enn því miður langt frá því að vera í því horfi, sem þau þurfa að vera. En þetta frv. má þá einnig verða okkur áminning um, að þar eigum við mikið verk óleyst, — verk, sem ekki má dragast lengi úr þessu að hafizt verði handa um af fullum krafti að viðunandi lausn fáist á.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meir um frv., en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.