20.11.1962
Neðri deild: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

11. mál, ríkisábyrgðir

Fram. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Hæstv. forseti. Mál þetta hefur verið til meðferðar í fjhn. hv. d., og það hefur orðið ágreiningur um afgreiðslu þess.

Á undanförnum þingum hafa ríkisábyrgðir allmikið verið ræddar hér á Alþingi og m.a. nýverið verið samþ. tvenn lög, önnur um ríkisábyrgðasjóð og hin um ríkisábyrgðir. Þar sem svo skammt er hjá liðið, að gagnger endurskoðun hefur átt sér stað á þessari löggjöf, og ekkert virðist hafa sýnt sig af þeirri reynslu, sem þegar er fengin, að endurskoðunar sé þörf, þá leggur meiri hl. n. til, að frv. þetta sé fellt.