11.02.1963
Neðri deild: 37. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (2395)

131. mál, stuðningur við togaraútgerðarfyrirtæki

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., á þskj. 236, var flutt í lok síðasta þings og varð þá eigi afgreitt.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að undanfarin ár hefur togaraútgerð á Íslandi verið rekin með halla og mjög verið að togaraútgerð þrengt. Sífellt fleiri togarar hafa helzt úr lestinni og þeim skipum fækkað, sem stöðugt hafa stundað veiðar. Flestir, sem um mál togaraútgerðarinnar hafa fjallað, hafa þrátt fyrir allt þetta verið þeirrar skoðunar, að rekstri togaranna beri að halda áfram, þótt illa hafi árað um skeið, þar til séð verður, hvort aflaleysið er tímabundið eða varanlegt. Hafa því flestir litið svo á, að vegna þess, hversu ríkan þátt togaraútgerðin hefur átt í uppbyggingu atvinnulífsins á Íslandi, beri að gera þjóðfélagslegar ráðstafanir til þess að fleyta henni yfir erfiðleikaskeiðið. Í samræmi við þessar skoðanir hefur hv. Alþingi samþ. með sérstökum lögum um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins að veita togarafélögum bætur vegna taprekstrar árin 1960, 1961 og síðan, ef um aflabrest verður að ræða, miðað við meðaltal næstliðinna 5 ára. Auk þess eru á fjárl. þessa árs ætlaðar 15 millj. kr. til stuðnings togaraútgerð.

Ég mun ekki ræða hér, hvort líkur eru á, að sú aðstoð, sem ég hef getið um, muni nægileg til þess, að unnt sé að gera togarana út, né heldur koma að því vandamáli, hvort unnt væri annars vegar að gera aðrar fjárhagslegar ráðstafanir, t.d. í vaxtamálum og lánamálum, eða hins vegar tæknilegar breytingar á skipunum, er dygðu til úrbóta, en vil þó leggja áherzlu á, að ekki dugir til lengdar að gera einungis þær ráðstafanir, sem auðvelda reksturinn, heldur verði þær beinlínis að gera hann kleifan, ef ráðamenn þjóðfélagsins vilja framfylgja þeim skoðunum sínum, að ekki beri að leggja togaraútgerð niður á Íslandi.

Þetta frv. miðast þannig ekki við rekstur togaranna sjálfra, en ég vil með flutningi þess leggja til, að tekið sé á alveg sérstöku vandamáli sumra togarafyrirtækja, en lausn á því vandamáli mundi mjög auðvelda þeim fyrirtækjum að standaundir taprekstri togara sinna. Svo hagar rekstri sumra þeirra togarafyrirtækja, sem hvað verst eru sett nú, að þau hafa komið sér upp stórum og miklum fiskvinnslustöðvum, sem gætu mjög bætt afkomu fyrirtækjanna, ef ekki kæmi það til, að þau skortir hráefni vegna aflaleysis togaranna og siglinga þeirra með aflann á erlendan markað. Afleiðing þess, að hin dýru fiskiðjuver, sem hafa mikla afkastagetu, nýtast ekki sem skyldi vegna hráefnisskorts, er sú, að þau togarafyrirtæki, sem eiga þau, eru hvað verst stödd allra togarafyrirtækja, vegna þess að þau verða auk taprekstrar togaranna að standa undir nýrri og dýrri fjárfestingu í vannýttum fiskvinnslustöðvum. Hins vegar ætti þessi eign togarafyrirtækjanna og yfirráð yfir slíkum fiskiðjuverum einmitt að geta orðið til þess að létta þeim tapreksturinn á togurunum, ef þau hefðu aðeins nægjanlegt hráefni til vinnslu, svo að minni þörf væri á beinum rekstrarstyrk til togara þeirra úr opinberum sjóðum.

Þótt það sé þjóðinni að sjálfsögðu dýrt að gera út togara með tapi, þá er jafnvel enn dýrara að láta undir höfuð leggjast að gera ráðstafanir til þess að tryggja skynsamlega nýtingu fullkominna fiskvinnslustöðva, sem varið hefur verið tugum millj. kr. til að reisa. Vitaskuld væri eðlilegt að álykta sem svo, að einfaldasta ráðið fyrir þau togarafyrirtæki, sem skortir hráefni til fiskvinnslustöðva sinna, væri að hætta að láta togarana sigla og láta aflann fremur í sínar eigin fiskvinnslustöðvar. En málið er því miður ekki svo einfalt og auðleyst. Eins og sakir standa og hag togarafyrirtækjanna er komið og með tilliti til margvíslegra atriða, vaxtakostnaðar, erfiðleika við útvegun rekstrarfjár, fiskverðs á erlendum markaði, miðað við afurðaverð til frystihúsa, erfiðleika við útvegun vinnuafls, ef ekki er siglt, og fleiri atriða, sem valda því, að stórum erfiðara er að koma togara út í nýja veiðiferð eftir að hafa landað heima heldur en ef landað hefði verið erlendis, þá tel ég, að togarafyrirtækjunum sé að óbreyttu mjög illkleift að fella niður siglingarnar, og er það miður farið. En þetta mun almenn skoðun þeirra, er til rekstrar togara þekkja. Siglingarnar eru sannarlega algert neyðarúrræði fyrir þau togarafyrirtæki, sem sjálf vantar hráefni til fiskvinnslustöðva sinna, en þau eiga því miður naumast á öðru völ, eins og málum er nú háttað.

Hverjar sem menn vilja telja orsakirnar til stórminnkaðs aflamagns togaranna, hafa afleiðingar þess, hversu mjög hefur minnkað það aflamagn, sem þeir hafa lagt á land hérlendis, orðið þær að hinar dýru og fullkomnu fiskvinnslustöðvar einstakra togarafyrirtækja hefur skort hráefni og verið starfslitlar og verkafólk, sem vinnur við fyrirtækin, orðið að búa við stopula og ótrygga vinnu, þótt vinnudagur sé hins vegar oft langur, þegar vinnslufiskur fæst. En það getur reynzt slíkum fyrirtækjum erfitt að fá fólk til starfa, þegar á þarf að halda, ef ekki er hægt að tryggja jafna og stöðuga vinnu, því að verkafólki er ekki hægt að bjóða þau kjör, að það sé lagt til hliðar eins og dautt verkfæri, þegar ekki þarf á vinnu þess að halda.

Afkoma fiskvinnslustöðva togarafyrirtækjanna hefur orðið þeim mun óhagstæðari, sem hjá þeim er um að ræða dýrari fjárfestingu með hárri vaxtabyrði og fastur kostnaður að því leyti mun meiri en hjá eidri fiskvinnslustöðvunum. En það, sem hinar nýju vinnslustöðvar hafa fram yfir hinar eldri í fullkomnari tækni, nýtist ekki vegna hráefnisskorts. Afkastageta frystihúsa í eigu togarafyrirtækja mun vera nálægt 550 tonnum af hráefni á dag, og fjárfesting, sem í þeim er bundin, miðað við núverandi verðlag, mun nema eigi minna en 185 millj. kr. Samanlagður vaxtakostnaður af þeirri fjárhæð næmi með 8% vöxtum um 15 millj. kr. á ári og fyrning af húsum og tækjum álíka upphæð. Samtals gætu vextir og afskriftir af frystihúsum togarafyrirtækja numið um 30 millj. kr. á ári. Það riður því á miklu fyrir þjóðina alla, að slík fjárfesting sé nýtt til hins ýtrasta. Reynslan hefur hins vegar orðið sú, í sumum tilfellum a.m.k., að þessi nýtízku fyrirtæki, sem ættu að geta orðið togarafyrirtækjunum öflugur fjárhagsstuðningur, hafa ekki bætt afkomu fyrirtækjanna sem skyldi eða eins og unnt væri, ef þeim væri veitt sérstök aðstoð ríkisvaldsins til þess að bæta úr hráefnaskortinum. Í þeim tilgangi, að þær ráðstafanir verði gerðar, er þetta frv. flutt.

Ég vil nú í nokkum orðum gera grein fyrir því, hvert það fiskmagn, sem togararnir hafa lagt á land undanfarin ár, hefur varið. En þær tölur sýna ljóslega, hver þróunin hefur verið að undanförnu og hve brýn nauðsyn er á að gera ráðstafanir til þess, að fiskvinnslustöðvum togarafyrirtækjanna verði gert kleift að auka við þann vinnslufisk, sem þær hafa fengið frá togurum sínum.

Árið 1948 nam afli togaranna 209 þús. tonnum eða 39% af öllum afla landsmanna, árið 1959 166 þús. tonnum eða 28%, 1960 120 þús. tonnum eða 22%, árið 1961 81 þús. tonnum eða 11%. Árið 1962 lágu togararnir svo að mánuðum skipti vegna verkfalls, svo að það ár er ekki hæft til samanburðar, en úr aflabrögðum hefur ekki rætzt sem skyldi. Auk þess sem heildarafli togaranna hefur minnkað ár frá ári, hefur einnig sífellt minni og minni hluti af afla þeirra verið lagður á land hérlendis, svo að hlutur fiskvinnslustöðva togarafyrirtækjanna hefur rýrnað enn meir en heildaraflamagnið sýnir, enda er ein orsökin til minnkandi heildarafla togaranna sú, að vegna siglinganna eru þeir meira frá veiðum en ella.

Árið 1958 voru 188 þús. tonn eða 94% af afla togaranna unnin innanlands, árið 1959 143 þús. tonn eða 92% unnin hérlendis, árið 1960 88 þús. tonn, 77%, og árið 1961 45 þús. tonn eða 66%. Jafnhliða því, sem heildaraflinn minnkar þannig stöðugt, fer hlutfallslega meira og meira af hráefninu á erlendan markað. Það magn, sem lagt hefur verið á land af togarafiski til frystingar, segir nokkuð til um verkefni frystihúsa togarafyrirtækjanna. Í því sambandi er athyglisvert að bera saman, hve mikill hluti alls þess afla, sem lagður er á land til frystingar á ári hverju, er frá togurunum. Árið 1958 var togarafiskur til frystingar 143 þús. tonn, en bátafiskur 114 þús. tonn. Árið 1959 var togarafiskur til frystingar 112 þús. tonn, en bátafiskur 124 þús. tonn. Árið 1960 var togarafiskur 62 þús. tonn, en bátafiskur 137 þús. tonn. Árið 1961 var togarafiskur til frystingar 28 þús. tonn, en bátafiskur 116 þús. tonn, þ.e.a.s. á sömu árum og magn bátafisks til frystingar vex úr 114 þús. tonnum í 116 þús. tonn, þá minnkar magn togarafisks til sömu vinnslu úr 143 þús. tonnum í 28 þús. tonn. Hlutur togarafisks af öllum afla til frystingar var árið 1958 55%, 1959 47%, 1960 31% og 1961 20%. Sé miðað við, að afkastageta frystihúsa togarafyrirtækjanna sé um 550 tonn af hráefni á dag, svara þessar tölur til þess, að árið 1958 hafi frystihús togarafyrirtækjanna haft hráefni frá togurunum til 262 daga vinnslu, árið 1959 til 203 daga vinnslu, árið 1960 til 113 daga vinnslu og árið 1961 til 51 dags vinnslu.

Ætti hverjum manni að vera ljóst, hver áhrif þessi þróun hefur haft á afkomu þeirra frystihúsa, sem togarafyrirtækin hafa byggt upp á síðustu árum. Það fer ekki á milli mála, hver áhrif þetta hefur haft á afkomuöryggi þess verkafólks, sem starfað hefur við frystihús og aðrar vinnslustöðvar togarafyrirtækjanna. Auk alls þess kemur svo hið þjóðfélagslega tap, sem hlýzt af vannýtingu þess gífurlega fjármagns, sem í fiskiðjuverin hefur verið lagt. Það ætti því að vera augljóst, að hvað sem líður frekari ráðstöfunum hins opinbera til þess að gera kleifan rekstur togaranna sjálfra, þá er það brýnt hagsmunamál allra aðila, að vandamál togaranna sjálfra verði ekki látið bitna svo á rekstri fiskvinnslustöðva togarafyrirtækjanna sem verið hefur og því fólki, er þar vinnur. En vegna erfiðleikanna við rekstur togaranna er togarafyrirtækjum miklum mun erfiðara en ella að gera ráðstafanir til þess að afla fiskvinnslustöðvum sínum hráefnis annars staðar frá en frá togurunum. Augljóst er, að á ýmsum stöðum á landinu, þar sem fiskvinnslustöðvar togaranna eru vannýttar, væri hægt að bæta mjög hag þeirra með því að fá til báta, sem legðu þar upp afla til vinnslu. Vegna langvarandi taprekstrar á togurunum er þessum fyrirtækjum þó um megn að afla sér þeirra báta, sem til þyrfti. Hentugir bátar kosta um 8 millj. kr. hver, svo að til viðbótar lánum fiskveiðasjóðs þyrftu togarafyrirtækin að leggja fram 2–21/2 millj. kr. fyrir hvern bát eftir því, hvort hann er byggður hér á landi eða erlendis. Þrátt fyrir þá aðstoð, sem togaraútgerðinni hefur verið veitt, tel ég, að hag hennar sé svo illa komið, að þeim, sem mest þurfa bátanna við, sé um megn að festa kaup á þeim án sérstakrar aðstoðar. Aðstoðin til togaranna er til þess eins að halda þeim úti.

Fyrirtækjunum er beinlínis fjárhagslega um megn að gera þær ráðstafanir, sem hagkvæmastar væru til þess að bæta rekstur fiskiðjuveranna og auðvelda þeim þannig að halda áfram rekstri togaranna. Þess vegna hef ég með frv. því, sem hér liggur fyrir, lagt til, að ríkisstj. sé heimilað að taka lán allt að 35 millj. kr. til að framlána til kaupa á nýjum fiskibátum þeim togarafyrirtækjum, sem skortir hráefni til vinnslustöðva sinna vegna aflabrests togaranna og siglinga á erlendan markað. Auk þess verði ríkisstj. heimilað að veita sömu aðilum ríkisábyrgð á láni samtals að upphæð 20 millj. kr. vegna bátakaupanna. Fyrirgreiðslan gagnvart einstökum togarafyrirtækjum yrði þá á þann veg, svo sem fram kemur í 3. gr. frv., að samanlögð lán úr fiskveiðasjóði og lán veitt með þeirri aðstoð, sem frv. gerir ráð fyrir, mættu nema allt að 90% af kaupverði hvers báts og ríkisábyrgð væri heimilt að veita fyrir eftirstöðvunum. Sú upphæð, sem hér er lagt til að ríkisstj. verði heimilað að taka að láni og framlána í þessu skyni, 35 millj. kr., ætti að duga til aðstoðar við kaup á 20–30 fiskibátum eftir því, hvort er um að ræða báta smiðaða innanlands eða utan.

Þrátt fyrir að ekki muni vera fyrir hendi á hv. Alþingi samstaða um efnahagslegar ráðstafanir til að breyta aðstöðu togaraútgerðarinnar varðandi rekstur togaranna sjálfra, vænti ég þess, að fallizt verði á að styðja með lánveitingum og ríkisábyrgðum þau togarafyrirtæki, sem auk rekstrartaps togaranna eiga við að etja vannýtingu á dýrum fiskvinnslustöðvum, sumum hverjum hinum fullkomnustu á landinu, vegna hráefnisskorts, sem bæta mætti úr með því að veita þessum fyrirtækjum þá aðstoð, sem hér er lagt til, svo þau geti aflað sér hentugra fiskibáta. Sú upphæð, sem hér er lagt til að ríkisstj. verði heimilað að taka að láni í þessu skyni, 35 millj. kr., er svipuð upphæð og vextir og afskriftir frystihúsa togarafyrirtækjanna nema á einu ári. Ég tel, að ráðstöfun sú, sem hér er lögð til, væri þjóðarbúinu til hagsældar og auðveldaði togarafyrirtækjunum að standa undir rekstri togaranna.

Sú aðstoð, sem hér er gerð till. um að sé veitt togarafyrirtækjum, er, eins og ég hef áður tekið fram, ekki lausn á því vandamáli sem rekstur togaranna sjálfra er og verða kann enn um sinn. En með þessum hætti ætti að vera unnt að auðvelda mörgum togarafyrirtækjum að bera þau áföll, sem af aflaleysi togaranna leiðir, og stuðla að því, að minna fjármagn þurfi í beina styrki til þeirra. Ég held, að það sé ekki sízt nauðsynlegt að leita jákvæðra leiða til að aðstoða togarafyrirtækin, — leiða, sem miða að því að nýta betur en gert hefur verið það fjármagn, sem í þeim er bundið. Með þeirri aðstoð, sem hér er lagt til að veitt verði, verður gert þrennt í senn: Í fyrsta lagi: tryggð yrði betri og jafnari fjárhagsafkoma þess verkafólks, sem við fiskvinnslustöðvar togarafyrirtækjanna vinnur. Í öðru lagi: bætt yrði rekstrarafkoma þeirra togarafyrirtækja, sem eiga fiskvinnslustöðvar, sem hafa verið vannýttar vegna hráefnisskorts. Og í þriðja lagi er það þjóðfélagslega hagkvæmt að nýta betur en verið hefur þær fiskvinnslustöðvar, sem hefur verið varið hundruðum millj. kr. til að reisa á undanförnum árum.

Ég vænti þess, að frv. þetta hljóti jákvæða afgreiðslu að þessu sinni, og legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. í fjhn.