21.02.1963
Neðri deild: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (2406)

153. mál, menntaskóli Vestfirðinga á Ísafirði

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 5. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Vestf., þ.e.a.s. Sigurði Bjarnasyni, sem nú situr í stað 1. þm. Vestf., Gísla Jónssonar, leyft mér að flytja frv. til l. um menntaskóla Vestfirðinga á Ísafirði. Þetta frv. hefur verið flutt tvivegis áður, og hefur flutningi frv. bæði fyrr og nú verið hagað þannig, að þm. Vestf. í hv. Nd. flyttu frv., en að því standa einnig aðrir hv. þm. Vestf., þeir sem í Ed. eiga sæti. Málið er þannig flutt af öllum þm. Vestf.

Ég hef tvívegis fyrir hönd okkar flm. flutt allrækilega framsöguræðu fyrir þessu máli og gert grein fyrir öllum meginþáttum þess, og ef ég færi nú í þriðja sinn að rekja það, yrði það að langmestu leyti endurtekning. Ég ætla því ekki að gera það, en ég tek það fram, að við teljum það, flm., að þetta sé mjög mikið hagsmunamál fyrir fólkið, sem á Vestfjörðum býr, og af fskj., sem málinu fylgja, má það vera ljóst, að mörg félagssamtök og einstaklingar á Ísafirði láta sig málið mjög skipta og leggja áherzlu á það, að Vestfjarðaþingmenn fylgi því fast fram.

Í einu fskj. er t.d. sagt, að þess sé vænzt og það sé skorað mjög eindregið á alla þm. Vestf., að þeir standi við yfirlýst loforð og flytji málið á þingi. Þessi orðsending var okkur send — og til þess var full ástæða — skömmu eftir síðustu kosningar, þegar við vorum að undirbúa flutning málsins í fyrsta sinn. Frambjóðendur höfðu mjög eindregið og ákveðið heitið þessu máli stuðningi sínum og það þm. Vestf. eða frambjóðendur í öllum flokkum.

Það er sannfæring okkar, að menntaskólar eigi að risa í öllum landshlutum, það eigi að gera menningarlega aðstöðu fólksins sem jafnasta í landinu, þannig að sérhver ungur maður og ung stúlka, sem áhuga hefur á framhaldsskólanámi, eigi sem jafnasta aðstöðu til þess að fara þá menntabraut, ef hugur og hæfileikar standa til. Þess vegna er það sannfæring okkar flm., að stefna beri að því, að það sé rétt stefna að menntaskólar rísi af grunni í öllum landsfjórðungum. Þá er það og álit flestra uppeldisfræðinga, að skólar séu því betri uppeldisstofnanir fyrir æskulýðinn, ef þeir eru ekki mjög stórir, og það mælir einnig með því að dreifa menntaskólunum um landið, hafa þá ekki alla sem stór skólabákn hér í Reykjavík, heldur smærri menntaskóla úti á landsbyggðinni.

Það er vissulega rétt, að Reykjavík á að hafa góða aðstöðu í þessu efni, og það má segja, að hún hafi það. Hún hefur hinn aldna og virðulega menntaskóla í Reykjavík. Hér er og annar skóli í Reykjavík, sem útskrifar stúdenta, og í nágrenni Reykjavíkur hér á Suðvesturlandinu er hinn þriðji menntaskóli, og til stendur, að því er virðist, að reisa hinn fjórða, þ.e.a.s. hinn þriðja í Reykjavík, en hinn 4. á Suðvesturlandinu, og þætti okkur þá ójafnt skipt aðstöðunni til framhaldsnáms fyrir unga fólkið, ef synjað væri síendurteknum kröfum og óskum fólksins á Vestfjörðum og Austfjörðum um menntaskóla, en Norðlendingar fengu eftir langa baráttu sínum skólamálum borgið í höfn.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um málið að þessu sinni, vísa til fyrri framsöguræðna minna og til ýtarlegrar grg., sem fylgir málinu, og til fskj., sem einnig eru prentuð með því að þessu sinni. Ég vona, að málið fái nú myndarlega og afdráttarlausa afgreiðslu að ósk okkar flm.

Ég legg svo til, þegar þessari umr. er lokið, að þá verði málinu vísað til hv. menntmn.