06.03.1963
Neðri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (2419)

180. mál, aðstoð til vatnsveitna

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Við fjórir þm, þessarar hv. d. höfum leyft okkur að flytja frv. til l. um breyt. á I. nr. 93 frá 1947 um aðstoð af ríkisins hálfu til vatnsveitna. Í þessum lögum er kveðið á um efnahagslega aðstoð ríkissjóðs við sveitarfélög, sem koma sér upp vatnsveitu. Ákvæði l. um þetta atriði og reyndar fleiri eiga einnig við um vatnsveitufélög, sem stofnuð eru samkv. vatnalögunum frá 1923. Styrkur sá, sem heimilt er að veita í þessu skyni úr ríkissjóði, má nema allt að helmingi kostnaðar við stofnæðar, vatnsgeyma, dælur og jarðboranir.

Þessi löggjöf frá 1947 hefur reynzt um margt hin nýtasta og gert mörgum sveitarfélögum kleift að leggja í tiltölulega dýrar vatnsveitugerðir með hliðsjón af því að fá kostnað að þessu leyti endurgreiddan. En í framkvæmd hefur þó sá hængur komið á ljós á þessari löggjöf, sem okkur flm. og enda fleirum kemur saman um að þörf sé á að ráða bót á. Það hefur komið í ljós, að þessi styrkur, sem heimilt er að veita úr ríkissjóði, getur orðið æðilitill, þegar sérstaklega háttar, og langt umfram það, sem ætla má að löggjafinn hafi á sinni tíð hugsað sér. Það er í tilfellum, þegar stofnæð svokölluð, sem er einn af fjórum flokkum þeim, sem styrkja má, er tiltölulega lítill hluti af öllu vatnsveitukerfinu. Þá koma svokallaðar aðaldreifiæðar til mjög snemma, og miðast þá styrkurinn við stofnæð, en ekki við dreifiæðar. Svo kemur hitt og til í slíkum tilvikum, að mannvirkjagerð að öðru leyti, sem er styrkhæf, svo sem jarðboranir, vatnsgeymar og dælur, er teljandi lítill hluti kostnaðarins. Þegar svo er, miðast styrkurinn samkv. löggjöfinni einungis við stofnæðina sjálfa, og hún er skilgreind af hálfu þeirra aðila, sem styrkjum úthluta, sem sá hluti vatnsæðar, sem liggur frá vatnsbóli eða upptöku vatns að fyrstu greiningu. Við þessa skilgreiningu er svo styrkurinn bundinn hverju sinni. Við flm. drögum það ekki í efa út af fyrir sig, að þessi túlkun af hálfu þeirrar nefndar, sem úthlutar styrkjum, sé rétt, en hitt er auðsætt, að þegar svo háttar sem ég hef litillega greint, þá er nauðsynlegt, að styrkurinn nái einnig til aðaldreifilínukerfisins að einhverju leyti, ef gagn á að vera að styrkjum úr ríkissjóði. Þessi aðstaða getur komið til, bæði í kauptúnum, þorpum og ekki hvað sízt í sveitum, þar sem strjálbýli er mikið og dreifingarkerfið hlýtur að verða æðiviðáttumikið oftast nær. Við þessar aðstæður getur svo beinlínis framkvæmd vatnsveitugerðarinnar stöðvazt eða orðið allsendis ónóg, nema ríflegur styrkur komi til, en þá skortir heimildir í löggjöfinni til nauðsynlegrar aðstoðar, en þörfin hvað brýnust.

Til þess að ráða bót á þessu höfum við flm. gert till. um það í þessu frv., að heimildir til styrkja við vatnsveitugerð verði færðar nokkuð út og þannig, að styrkur úr ríkissjóði skuli einnig ná til aðaldreifiæða. Þetta er að okkar dómi, flm., mjög aðkallandi, þar sem við vitum, að vatnsveitugerðir eru áformaðar, þar sem nauðsynlegt er að geta komið við hærri styrkjum en annars væri, og víða sjáifsagt í kauptúnum og þorpum mun þannig haga til, að þessarar breytingar er þörf. Við flm. teljum, að ekki muni ágreiningi valda þessi okkar stefna í höfuðatriðum, og við lestur á ræðum og grg. frá því 1947, þegar frv. til l. um aðstoð til vatnsveitna var á ferðinni hér í hv. þingi, má ljóslega greina, að meining löggjafans hafi verið sú að geta hverju sinni greitt allt upp í 50% styrk til vatnsveitna á vegum sveitarfélaga eða einstakra vatnsveitufélaga, enda hefur oft komið til þess, að styrkurinn hafi numið allt að þeirri fjárhæð. Að öðru leyti hlýtur sú nefnd, sem þessum styrkjum til vatnsveitna úthlutar, að viðhafa mat um mörg atriði, og svo yrði að sjálfsögðu að nokkru leyti um túlkunina á svokölluðum aðaldreifiæðum, en við fim. erum óhræddir um að leggja slíkt á vald þeirrar nefndar, sem fjallar um úthlutun styrkja.

Sé ég ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um frv., en óska þess, að málinu verði vísað að þessari umr. lokinni til 2. umr. og til heilbr.- og félmn.