05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í C-deild Alþingistíðinda. (2458)

200. mál, fiskveiðar í landhelgi

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. ráðh. segir, að þegar þeir hafi hugsað sér fulla aðild, á hafi þeir hugsað sér hana með fyrirvara. g skal ekki draga það í efa. En á hinn bóginn hugsuðu þeir sér og útilokuðu alls ekki, eins og ég sagði, fulla aðild. Það náttúrlega þýddi að ganga undir samstjórnina í þeim málum, sem þar eiga hlut að máli, og aðalákvæði Rómarsamningsins. En ég skal láta útrætt um það nú.

En varðandi Steingrím Hermannsson og það, sem hæstv. ráðh, sagði um hann, tel ég, að það hafi verið ósmekklegt, eins og hann gerði það. Sérstaklega sakna ég þess, að hæstv. ráðh. skyldi ekki verða við þeirri áskorun minni, sem var sanngjörn og eðlileg á alla lund, að hann héldi áfram og gæfi heildarmynd af skoðunum Steingríms Hermannssonar varðandi efnahagsbandalagsmálið og erlent fjármagn með því að gera grein fyrir því, sem hann sagði í Tímanum 9. febr. 1962. Það var hæstv. ráðh. í lófa lagið, ef hann vildi koma drengilega fram í þessu. En það gerði hann því miður ekki.

Loks vil ég svo segja, að hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið haft samráð við stjórnarflokkana sumarið 1961. Það er nú upplýst, að þetta er ekki rétt, vegna þess að síðustu samráð voru 2. júní 1961 og þá því lýst yfir, að stjórnin teldi ekki koma til greina að sækja um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu að svo vöxnu. Síðan var haft um sumarið samráð við hin og önnur félagssamtök, en stjórnmálaflokkana ekki. Þetta var það, sem ég sagði, og það er það rétta í þessu og nú allt upplýst og játað af hæstv. ráðh., en þá átti hann ekki heldur að vera að segja annað.