13.11.1962
Efri deild: 15. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í C-deild Alþingistíðinda. (2537)

71. mál, almannatryggingar

Flm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Þær breytingar, sem felast í þessu frv. til l. um almannatryggingar, eru ekki fluttar hér í fyrsta sinn. Allar þær breytingar, sem í þessu frv. eru, voru bornar fram á Alþ. í fyrra og hafa sumar enda verið fluttar áður. Ég get því haft þessi orð fá og skal aðeins stuttlega gera grein fyrir þeim breytingum, sem hér er um að ræða.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að meira samræmi verði skapað í bótagreiðslum til öryrkja. Eins og nú er, ríkir talsverður mismunur eftir því, hvaða sjúkdómar eða hvort sjúkdómar eða slys hafa valdið örorkunni. Þegar örorkan fer yfir 75%, gildir sama fyrir alla, en sé hún fyrir neðan 75%, er gerður mjög mikill munur á eftir því, hvort slys eða sjúkdómur hefur valdið örorkunni. Þeir, sem misst hafa heilsuna fyrir slys, skulu samkv. l. fá greiddan örorkulifeyri eftir vissum reglum, sé örorkan á milli 50–75%. Hafi hins vegar sjúkdómur valdið örorkunni á þessu stigi, er ekki skylt að greiða neina örorku, heldur er það á valdi Tryggingastofnunar ríkisins og háð því, hvort fé er til eða ekki, hvort örorkustyrkur er greiddur eða ekki.

Í þessu felst að sjálfsögðu mikil mismunun og í raun og veru mikið óréttlæti, því að örorkan er sú sama og aðstaða öryrkjanna hin sama, hvort sem það er slys eða sjúkdómur, sem upprunalega hefur valdið henni.

Í 1. gr. þessa frv. er lagt til, að þessum mismun verði eytt og allir öryrkjar með 50% örorku eða þar yfir skuli að lögum fá greiddar örorkubætur eftir þeim reglum, sem nú gilda um greiðslu bóta til öryrkja vegna slysa.

Í 2. og 3. gr. er fjallað um, að fjölskyldubætur skuli greiddar með hverju barni í þjóðfélaginu. Þótt undarlegt sé, er þessu ekki svo varið nú. Það eru ekki greiddar fjölskyldubætur með öllum börnum. Það er ekki farið eftir því, hvort fyrirvinnan hefur háar tekjur eða lágar, það skiptir engu máli, heldur er farið eftir allt öðrum reglum, sem leiðir til þess, að hér er miklu ranglæti beitt að dómi okkar flm. Fjölskyldubætur eru ekki greiddar með börnum einstæðra mæðra t.d. eða til heimila, sem hafa börn, ef fyrirvinna er ekki á heimilinu. Það leiðir af sjálfu sér, að þetta hefur í för með sér mikið óréttlæti, og hittir einmitt allajafna þá, sem veikastir eru fyrir, en ekki þá, sem sterkastir eru fyrir. Við leggjum því til í þessu frv., að fjölskyldubætur skuli greiddar með hverju einasta barni í þessu þjóðfélagi og þær skuli greiddar þeim aðila, sem annast uppeldi barnsins, hvort sem það eru foreldrar eða aðrir. Ég hygg, að þetta sé í samræmi við þann anda, sem fjölskyldubæturnar hvíla á, einkum síðan 1960. Fjölskyldubæturnar eru eins konar launauppbót og því eðlilegt, að þær falli ekki niður í þeim tilfeltum, þar sem þær gera nú, en komi þeim heimilum til góða, sem ala önn fyrir barninu.

Að sjálfsögðu er það einnig óréttmætt, að fjölskyldubætur falli niður fyrir þá sök, að foreldrið eða foreldrarnir njóti einhverra annarra bóta frá almannatryggingum. Allar þær bætur eru svo lágar, að það kemur ekki til mála, að það geti talizt sanngjarnt að svipta heimili eða fyrirvinnu fjölskyldubótum fyrir þá sök. Yfirleitt er ekki við greiðslu fjölskyldubóta farið eftir efnahag upp á við, og það má ekki heldur fara eftir efnahag niður á við, heldur greiða fjölskyldubæturnar að öllu án undantekninga.

Í 4. gr. er breyting frá gildandi lögum, þess efnis, að allur bótagreiðslufjárhæðir almannatryggingalaga skuli verðtryggðar, að allar fjárhæðirnar skuli vísitölutryggðar, tryggðar samkv. vísitölu framfærslukostnaðar. Þetta er mál, sem við Alþýðubandalagsmenn höfum lagt mikla áherzlu á á undanförnum árum að næði fram. Þetta er réttlætismál, og ég skal ekki fjölyrða um það frekar nú að þessu sinni. Ég vil aðeins benda á það, sem ég hef áður haldið fram, að hér er ekki um atvinnutekjur að ræða, og þar sem hér er ekki um atvinnutekjur að ræða, þá er engin ástæða til að láta endilega sömu reglur gilda um þessar bætur almannatrygginga og venjulegar tekjur. Það er alveg víst, að það mundi ekki leiða til neinnar verðbólgu í þjóðfélaginu, þótt bótaþegar almannatrygginganna fengju þessa verðtryggingu á sinar litlu, mögru bætur. Hér er aðeins um réttlætismál að ræða. Hér er aðeins um sjálfsagt sanngirnismál að ræða, að bætur almannatrygginga séu verðtryggðar.

Síðan þetta frv. var lagt fram, hefur komið frv. frá hæstv. ríkisstj., frv. til l. um bráðabirgðabreyt. á l. um almannatryggingar. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að bætur almannatrygginganna hækki um 7% frá 1. júní 1962. Þetta sýnir betur en margt annað, hversu lítill skilningur er hjá hæstv. ríkisstj. á eðli bótanna til öryrkjanna. 7% hækkun frá 1. júní 1962 er allra lægsta hækkunin, sem nokkur atvinnustétt hefur fengið á árinu. Margar aðrar stéttir hafa fengið 10%, 15% og þar yfir, en bótaþegarnir skulu settir á bekk með þeim atvinnustéttum, sem verst eru sett,ar í baráttunni fyrir bættum kjörum. Bótaþegarnir skulu fá 7% hækkun. Ég hygg, að fátt sýni ljósar en þetta, hversu nauðsynlegt er að lögfesta ákveðna og helzt fulla verðtryggingu bóta almannatrygginganna.

Ég hef svo ekki um þetta fleiri orð, og um síðustu brtt. í frv. þarf ég ekki margt að segja. Hún felur það í sér, að landið allt verði frá 1. jan. 1963 gert að einu verðlagssvæði og að bætur skuli hvarvetna þær sömu og þær yrðu samkv. ákvæðum fyrsta verðlagssvæðis. Þetta er mál, sem við fulltrúar Alþb. höfum flutt á undanförnum þingum. Þetta er mál, sem hefur mætt vaxandi skilningi og viðurkenningu utan þings og innan, og nú er svo komið, að hæstv. ríkisstj. hefur í áðurgreindu bráðabirgðafrv. lagt það til, að verðlagssvæði skuli vera eitt frá 1. jan. 1963. Ég tel því, að líta megi svo á, að þessi breyting í okkar frv. muni eiga greiðan framgang hér þegar á þessu þingi.

Hæstv. forseti. Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn.