31.01.1963
Efri deild: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í C-deild Alþingistíðinda. (2545)

115. mál, söluskattur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Þó að víða væri að vísu að mínu áliti hallað réttu máli í framsöguræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. fyrir þessu frv., mun ég ekki lengja verulega umr. með því að elta ólar við það í einstökum atriðum, vegna þess að flest af því, sem hann sagði, hefur oft verið rætt hér í hv. deild í sambandi við skatta- og efnahagsmálin, þegar þau hafa að undanförnu verið til umr. Þó get ég ekki stillt mig um að leiðrétta aðeins örfá atriði, sem fram komu í framsöguræðu hv. þm.

Út af fyrir sig er enginn ágreiningur um það, að æskilegt sé að lækka verðlagið, skapa skilyrði fyrir vinnufriði og bæta kjörin. Þó verður ekki fallizt á meginröksemdina fyrir þessu frv., sem er sú, að nauðsyn beri til að bæta upp þá geysilegu kjaraskerðingu að áliti hv. þm., sem efnahagsmálaráðstafanir þær, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, hafi haft í för með sér. í fyrsta lagi má á það benda, að eins og fram kom á sínum tíma, þegar efnahagslöggjöfin frá því í febrúar 1960 var lögð fyrir, voru aðstæður í efnahagsmálum landsins þá á þann veg vegna viðskilnaðar vinstri stjórnarinnar, að óhjákvæmilegt var að gera ráðstafanir, sem hefðu í för með sér nokkra kjaraskerðingu. Það voru þá gerðar ýtarlegar áætlanir um það, hvað sú kjaraskerðing yrði mikil, sem beinlínis leiddi af þessum ráðstöfunum, og í reyndinni hefur kjaraskerðingin sízt orðið meiri en þá var gert ráð fyrir, heldur jafnvel töluvert minni. Til þess benda m.a. athuganir, sem nýlega hafa verið gerðar á kaupmætti atvinnutekna sjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna, en samkv. niðurstöðum þeirra athugana rýrnaði kaupmáttur launa aðeins um milli 1 og 2% á árinu 1960, eða töluvert minna en gert hafði verið ráð fyrir með efnahagslöggjöfinni. Hitt er vitanlega auðvelt, að finna háar og villandi tölur í þessu efni með því bæði að miða við það kaupgjald, sem minnst hefur hækkað, og í öðru lagi að miða aðeins við hluta af vísitölunni, eins og hv. stjórnarandstæðingar hafa að jafnaði gert. Þeir miða aðeins við þá verðhækkun, sem orðið hefur á vísitölu vöru og þjónustu, eins og það er kallað. Hún nemur rúmlega 40%, það er alveg rétt, en það er ekki nema hluti af vísitölunni, og þegar meta á þá kjaraskerðingu í heild, sem orðið hefur, ber auðvitað að miða við vísitöluna alla. Væri það gert, má gera ráð fyrir því, að vísitalan hafi hækkað um 4–5% vegna efnahagsmálaráðstafana 1960. En sé miðað við kaupmátt atvinnutekna, hefur rýrnunin aðeins orðið 1–2%. Og það er ekki rétt, sem haldið hefur verið fram, að þetta stafi af lengingu vinnutímans. Þar kemur margt fleira til greina, eins og aukin afköst í framleiðslunni, ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til þess að taka upp ákvæðisvinnu, tilfærsla milli launaflokka o.s.frv.

En þó að samkv. þessu verði ekki á það fallizt, að kjaraskerðingin hafi orðið svo gífurlega mikil vegna efnahagsráðstafana, þá var það auðvitað rétt, að á hverjum tíma ber alltaf að gera tiltækar ráðstafanir til þess að lækka dýrtið og bæta kjörin. Og það er rétt hjá hv. þm., að vitanlega hefur hækkun verðlagsins orðið meiri að undanförnu en æskilegt hefði verið. Þá ber að hafa hugfast, að það er ekki nema örlítill hluti af verðhækkuninni, sem er bein afleiðing efnahagsmálaráðstafananna. Að mestu er hún í fyrsta lagi þannig til komin, að samið hefur verið um meiri kauphækkanir en atvinnuvegirnir hafa getað staðið undir að óbreyttu verðlagi, auk þess sem utanaðkomandi aðstæður kunna að hafa haft þarna einhver áhrif, þó að þess gæti minna. Og í því sambandi vildi ég leiðrétta það, sem ég tel alveg rangt með farið hjá hv. þm., þegar hann talaði um, að þeirri stefnu hefði verið fylgt í verðlagsmálum að láta verðlagið hækka alveg sjálfkrafa til samræmis við kauphækkanir, sem orðið hafa. Þessu vil ég mótmæla, vegna þess að ég er þessum málum nokkuð kunnugur, þar sem ég hef að undanförnu átt sæti í verðlagsnefnd. Mér er vel kunnugt um það, að þess eru fjölmörg dæmi, að atvinnugreinar, sem taldar hafa verið færar um það, hafa með öllu verið látnar bera þær kauphækkanir, sem orðið hafa að undanförnu, og ekki fengið eyrishækkun á grundvelli þeirra. Þess eru mörg dæmi. Hitt er svo auðvitað annað mál, að ef bersýnilegt er, að reksturinn hlýtur að stöðvast, ef ekki er leyft að hækka verðið til samræmis við hækkaðan tilkostnað, þá þýðir auðvitað ekki að berja höfðinu við steininn í þeim efnum, og ekki er það verkalýðnum í hag, að framleiðslutækin stöðvist.

Í sambandi við þá hækkun vísitölunnar, sem orðið hefur síðan á s.l. vori, ber að hafa það hugfast, að ein af meginástæðunum til þeirrar hækkunar er hækkunin, sem varð á verði landbúnaðarvara á s.l. hausti, en um þá hækkun náðist, eins og kunnugt er, samkomulag á milli fulltrúa bænda annars vegar og launþega hins vegar, og hafa ekki komið fram raddir um það mér vitanlega úr hópi stjórnarandstæðinga, að sú hækkun hafi verið óeðlileg. Auk þess er rétt að hafa hugfast í því efni, að það var ekki eingöngu verkamannskaup, sem hækkaði á s.l. vori, heldur líka flest kaup annað og jafnvel meira en verkamannskaupið, og þegar kauphækkanir verða það almennar, þá fer aldrei hjá því, að þær hljóti að einhverju leyti að koma fram í hækkuðu verði. Annars er auðvitað aðalgallinn á þessu frv. sá, að það er ekki gerð nein grein fyrir því, hvernig bæta megi ríkissjóði þann tekjumissi, sem hann hlýtur að verða fyrir, ef frv. fæst samþykkt. Nú er það að vísu rétt, að frv. þetta gengur skemmra en hv. stjórnarandstæðingar gerðu till. um, þegar framlenging bráðabirgðasöluskattsins var til meðferðar fyrir jólin, þar sem þeir vildu láta fella hann alveg niður. En þá var svar þeirra við ábendingu um það, að slíkt væri ekki hægt vegna fjárhagsástæðna ríkissjóðs, það, að eftir væri að afgreiða fjárlög, og létu þeir þá í veðri vaka, að þeir mundu vera fúsir til þess að taka þátt í því að bæta ríkissjóði með öðru móti tekjumissinn eða framkvæma sparnaðarráðstafanir. Nú hafa fjárlög verið afgreidd, eins og kunnugt er, og í sambandi við afgreiðslu fjárl. hafa engar till. komið fram frá hv. stjórnarandstæðingum, hvorki um öflun nýrra tekna né heldur sparnaðartill., sem neinu nema a.m.k. Og þar sem ágreiningur var ekki um það við afgreiðslu fjárl., að þar var tefit á tæpt vað, þá er sýnilegt, að ef skera á verulega niður helztu tekjustofna ríkissjóðs, eins og lagt er til í þessu frv., þá hlýtur að verða tekjuhalli á fjárlögum. Hvaða leiðir eru þá opnar til þess að jafna þann tekjuhalla? Það verður ekki komið auga á annan möguleika en þann, að ríkissjóður taki þá lán í bönkunum. En annaðhvort hlyti slíkt að valda aukinni dýrtíð, sem mundi þá vega upp á móti verðlækkunaráhrifum, sem lækkun söluskattsins í sjálfu sér hefur í för með sér, eða þá að bankarnir yrðu að draga saman útlán sín til annarra aðila í þjóðfélaginu, ef þeir taka að sér að standa undir hallanum á ríkissjóði. En auðsýnt er, hvaða áhrif það hefði á lánsfjármarkaðinn, og ekki mundi það bæta úr lánsfjárskortinum, sem ekki sízt hv. stjórnarandstæðingar hafa kvartað undan. Hvað sem þessu líður, og þótt mér sýnist þannig, að í rauninni vanti allan botn í þetta frv., þá mun ég þó fyrir mitt leyti styðja það, að málið fái þinglega afgreiðslu, verði vísað til n. og athugað þar á sínum tíma.