04.03.1963
Efri deild: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í C-deild Alþingistíðinda. (2567)

146. mál, bústofnslánasjóður

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það má segja, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé ekki áður óþekkt í þessari hv. d., og get ég af þeirri ástæðu verið fáorðaðri um þetta mikilsverða mál en ella hefði orðið. En við framsóknarmenn höfum á tveim undanförnum þingum flutt í þessari hv. d. frv. svipaðs efnis og það, sem hér liggur fyrir, þ.e.a.s. um stofnun sérstakrar lánastofnunar eða sérstaks lánasjóðs, bústofnslánasjóðs, sem hefur verið ætlað það hlutverk samkv. þeim frv. að veita frumbýlingum og efnalitlum bændum hagstæð lán eða stuðning til bústofns- og vélakaupa eða til greiðslu lausaskulda, sem þeir fá ekki undir risið og eru oft efnahag þeirra ofviða og eru þrándur í götu fyrir því, að þeir geti komið efnahag sínum og búrekstri á traustan og heilbrigðan grundvöll. Þessi frv., sem við höfum flutt hér á tveimur undanförnum þingum um þetta efni, hafa ekki náð fram að ganga. Það hefur farið fram um þau 1. umr. hér í hv. d. og þeim verið vísað til n., en Síðan hafa þau ekki komið til meðferðar meir, því að nefnd hefur ekki skilað um þau áliti, og þau hefur dagað uppi á því stigi.

Það frv., sem hér liggur fyrir, gengur í mjög svipaða átt og hin fyrri frv., en þó eru í því nokkrar breytingar frá því, sem verið hefur í hinum fyrri frv.

Eins og kunnugt er, samþykkti siðasta Alþingi sérstök lög um lausaskuldalán bænda, og er sú löggjöf komin til framkvæmda, svo sem menn vita. Af þeim sökum er í þessu frv. ekki gert ráð fyrir því, að bústofnslánasjóður veiti lán til greiðslu lausaskulda. Hvað sem um þau lausaskuldalán, sem veitt hafa verið samkv. l. um lausaskuldalán til bænda, má segja, þá þykir ekki ástæða til að taka upp í þetta frv. sérstök ákvæði um það efni.

Í hinum fyrri frv. var í undantekningartilfellum gert ráð fyrir alveg sérstökum stuðningi eða styrk, þ.e. óafturkræfum styrk, í því skyni, sem í frv. sagði, auk hagstæðra lána. Það ákvæði miðaðist sérstaklega við þá bændur, sem áttu við svo erfiðan hag að búa vegna skulda, lausaskulda og annarra skulda, að það var álitið, að búrekstur þeirra gæti ekki komizt á heilbrigðan grundvöll nema með slíku óafturkræfu láni. Það er hins vegar í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eingöngu gert ráð fyrir lánveitingum úr bústofnslánasjóði, en ekki neinum óafturkræfum styrk.

Efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, er í stuttu máli þetta, að samkv. því skal settur á stofn sérstakur lánasjóður, bústofnslánasjóður, sem nefndur er. Hann á að vera í vörzlu Búnaðarbankans, en lýtur sérstakri stjórn. Þessi sjóður á að hafa það hlutverk að veita frumbýlingum og öðrum þeim bændum, sem eru efnalitlir eða þannig stendur á fyrir, sem nánar segir í 4. gr., lán, — hagstæð lán til bústofns- og vélakaupa. Vextir af þessum lánum eru bundnir við ákveðið hámark í frv., mega ekki vera hærri en 5%. Það eru ákvæði um þær tryggingar, sem má lána gegn, í 5. gr. frv. Samkvæmt því ákvæði er heimilt að veita bústofnslán gegn öðrum tryggingum en þeim, sem nú er krafizt, a.m.k. í framkvæmdinni, þegar um stofnlán er að ræða. Á hinn bóginn er svo gert ráð fyrir tiltölulega skömmum lánstíma. Stofnfé bústofnslánasjóðs er ákveðið 100 millj. kr., þar af 40 millj. kr. óendurkræft framlag ríkissjóðs, en gert er ráð fyrir, að hinn hluti stofnfjárins sé tekinn að láni með ríkisábyrgð. Stjórn sjóðsins er í höndum fimm manna nefndar og fer stjórnin með ákvörðunarvald um lánveitingar úr sjóðnum. Fjórir nm. skulu kosnir af sameinuðu Alþingi með hlutfallskosningu, en fimmti nm., sem jafnframt er formaður n., skal skipaður af ráðh. samkv. tilnefningu Stéttarsambands bænda.

Þetta er höfuðefni þessa frv. Við framkvæmd lána úr sjóðnum mundi að sjálfsögðu þurfa að setja ýmsar ýtarlegri reglur. Það er gert ráð fyrir því, að þær séu settar í reglugerð, og er það til samræmis við það, sem tíðkast um aðrar sambærilegar lánastofnanir.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum í sjálfu sér um nauðsyn þessa máls, og má að verulegu leyti vísa til þess rökstuðnings, sem fram kemur í grg. með þessu frv., svo og til grg. þeirra, sem fylgt hafa fyrri frv. um svipað efni og áður er drepið á.

Það er engum blöðum um það að fletta, að það er mjög mikil og að ég hygg alveg óumdeilanleg þörf á sérstökum lánum í því skyni, sem frv. fjallar um, þ.e.a.s. til bústofnsaukningar og til vélakaupa. Sú þörf er að mínum dómi alveg sérstaklega brýn hjá frumbýlingum, hjá þeim ungu bændum, sem eru að byrja búskap og hafa enn ekki komið sér fyrir, ekki eignazt nægilegan bústofn eða nauðsynlegar búvélar. En þó að þörfin sé að mínu viti þannig brýnust hjá hinu unga fólki, í þessu sambandi hjá frumbýlingunum, þá er þó alveg vafalaust, að mörgum eldri bændum er líka nauðsynlegt — bráðnauðsynlegt — að auka sinn bústofn, til þess að þeir geti haft sæmilega afkomu og staðið straum af framfærslu sinnar fjölskyldu og þeim margvíslegu framkvæmdum, sem þeir hafa lagt í á undanförnum árum á sínum jörðum. Þeir bændur, sem staðið hafa í miklum framkvæmdum, jafnvel þó að þeir hafi ekki dregið seglin saman í því efni allra síðustu árin, vegna þess að þá hafa framkvæmdirnar verið viðráðanlegar, þeir eru margir í miklum skuldum vegna þessara framkvæmda. Sumt af þeim skuldum voru lausaskuldir og því mjög erfiðar við að fást. Því er ekki að neita, að nokkur bót hefur verið á ráðin í því efni með lausaskuldalánunum. En samt er það nú svo, að þó að það sé betra að hafa þannig komið þessum skuldum í fast horf, þá þarf nú að borga þau lán ekki síður en aðrar skuldir, og afborganir af þeim lánum ásamt vaxtagreiðslum eru allháar upphæðir hjá mörgum bændum. En bú margra bænda eru því miður svo smá, að það er naumast sýnilegt, að þeir geti með óbreyttum bústofni staðið undir þeim skuldum, þeim lánum, sem þeir hafa nú fengið, auk svo framfærslu sinnar fjölskyldu, þannig að það virðist einmitt af þeirri ástæðu vera knýjandi nauðsyn á því, að þessir menn geti stækkað sín bú. Með öðrum hætti er ekki sýnilegt, að þeir geti lifað við mannsæmandi kjör og staðið í skilum með greiðslu afborgana og vaxta af sínum skuldum. Og það er jafnframt svo, að með þessum framkvæmdum, sem þeir hafa lagt út í á sínum jörðum, hafa þeir bætt jarðirnar það mikið, margir hverjir a.m.k., að það hafa skapazt þar skilyrði til þess að framfleyta stærri áhöfn á hverri jörð en áður var, einkanlega þegar við bætist aukin vélanotkun.

Um búvélarnar má nokkuð sama segja og um bústofninn. Flestir, sem til þekkja, munu ljúka upp um það einum munni, að búskapur verði nú á tímum ekki stundaður með neinum verulegum árangri nema með nauðsynlegum búvélum. Aðstaða þeirra bænda, sem ekki hafa nauðsynleg tæki eða vélar, má heita vonlaus. Hún verður ekki sambærileg við aðstæður nágrannans, sem hefur vélar og tæki, og þeir, sem þannig er ástatt um að eiga ekki nauðsynlegar búvélar, hljóta að dragast aftur úr, og þeir hljóta í raun og veru að gefast upp innan tíðar, ef ekki verður bót á ráðin, og leita annað, einkanlega þegar atvinnuástand er þannig, að þeim býðst atvinna annars staðar. Þegar svo er, er þess ekki að vænta, að þeir uni því að stunda búskap án þess að hafa nauðsynlegar vélar eða tæki til að stunda búskap, og ég held, að það verði að játa, að þeim sé vissulega ekki láandi, þó að þeir hverfi frá búskap við slíkar aðstæður. Það má líka segja, að þar sem auknar jarðræktarframkvæmdir hafa átt sér stað, þá kalli þær í raun og veru á aukna vélanotkun. Það verða ekki full not af þeim framkvæmdum, sem þannig hafa átt sér stað, nema það sé jafnframt hægt að gripa til aukinnar vélanotkunar. Það ber allt að sama brunni, að það er mjög nauðsynlegt, að búin séu stækkuð og vélanotkunin aukin, sérstaklega er slíkt auðvitað alveg óhjákvæmilegt, þegar um einyrkja er að ræða, en eins og kunnugt er, er nú búskapurinn hér þannig orðinn víðast hvar, að það er um einyrkjabúskap að ræða. Ég skal í þessu sambandi ekkert fara út í það, hvort það fyrirkomulag er æskilegt eða ekki, en það er staðreynd, sem viðast hvar blasir við og fram hjá verður ekki komizt.

En nú er það alkunn staðreynd, sem hér þarf ekki að fara mörgum orðum um, að bústofn og búvélar kosta mikið fé. Frumbýlingar og efnalitlir bændur hafa alls ekki það fé handa á milli, sem til þess þarf að kaupa bústofn eða hæfilegan bústofnsauka eða nauðsynlegar vélar, og allra sízt eftir þá stórkostlegu dýrtíðaraukningu, sem átt hefur sér stað að undanförnu. En það er alkunnugt, að búvélarnar t.d. hafa stórhækkað í verði beinlínis vegna aðgerða þess opinbera, vegna þeirra gengislækkana, sem hér hafa átt sér stað. Erfiðleikar frumbýlinga eru að sjálfsögðu í því sambandi alveg sérstaklega augljósir. kostnaður við bústofnun í sveit er gífurlega mikill og hefur einmitt stóraukizt á undanförnum 3–4 árum, m.a. vegna gífurlegra verðhækkana og óhóflegra vaxtahækkana. Þeir munu því vera mjög fáir frumbýlingarnir, sem hafa, eins og nú háttar, ráð á verulegu fjármagni til þess að festa kaup á jörð, nauðsynlegum áhöldum og vélum af hæfilegri stærð. Það má að vísu segja, að ungir menn geti sparað saman nokkurt fé, og það er vissulega rétt, að nokkru marki, og er út af fyrir sig sjálfsagt að hvetja þá til þess og vissulega þekkir maður þess dæmi, að ungir menn kappkosta nú einmitt að vinna og fara frá sínum heimilum og sækja atvinnu annað til þess að safna nokkru fé einmitt til þess að leggja í kaup á búvélum, annaðhvort fyrir sjáifa sig eða á heimili sinna foreldra. En ég hygg nú samt, að þó að þetta sé rétt og þessi dæmi þekkist, þá sé það sama, þó að ráðdeildarsamir unglingar eigi í hlut, ég hygg, að það komi á daginn, að það verði erfitt fyrir þá að spara og draga saman þær upphæðir, sem duga til þess nú að kaupa jörð og reisa bú og kaupa nauðsynlegar vélar. Ég hygg, að það sé óhjákvæmilegt og nauðsynlegt, að þeir eigi völ á hagstæðum lánum í þessu skyni. Það eiga þeir ekki nú, og mér er kunnugt um ýmis dæmi þess, að ungt fólk er í vandræðum af þessum sökum og verður einmitt af þeim ástæðum að hverfa frá þeirri fyrirætlun sinni að stofna bú í sveit. Það er t.d. tiltölulega nýlegt dæmi, sem mér kemur í hug í því sambandi, að það er ungur maður í sveit, sem hefur hug á að stofna til búskapar og hefur hug á því að fara að undirbyggja þá búskaparstofnun, og hann festi kaup á allverulegum bústofni af sauðfé. En þessi ungi maður, sem er eitthvað rétt um tvítugt eða þar um bil, hafði ekki ráð á því fé, sem til þess þurfti að festa kaup á þessum bústofni, og hann sneri sér til mín og leitaði minnar aðstoðar í því efni, hvort það væru nokkrir möguleikar á því að fá lán í þessu skyni. Ég sneri mér eðlilega til þeirrar lánastofnunar, sem hefur með lán til bænda að gera, Búnaðarbankans, og ég verð að vísu að játa, að mínu erindi var þar út af fyrir sig vel tekið og vandræði þessa unga manns voru þar leyst á þann eina hátt, sem hægt var að gera í þeim banka, þ.e.a.s. að þessi ungi maður fékk víxillán í þessu skyni. En það var ekki heimild til og ekki möguleikar á að lána honum annars konar lán í þessu skyni. En allir sjá, að víxillán duga ekki. Ég get nefnt annað dæmi, sem mér kemur líka í hug, vegna þess að það er alveg nýlega um garð gengið. Til mín komu ung hjón hér í bænum, þau eru 25–26 ára að aldri. Þau eiga orðið þrjú börn. Þau búa í lélegri leiguíbúð. Maðurinn vinnur úti og hefur sæmilegar tekjur, en konan getur auðvitað ekki unnið úti, vegna þess að hún þarf að hugsa um börnin. Þó að maðurinn hafi sæmilegar atvinnutekjur, gera þær alls ekki betur en að hrökkva til framfærslu þessarar fjölskyldu, þannig að þau leggja ekkert fyrir, og fjárhagur þessara hjóna var þannig, að þau áttu alls ekki neitt. En nú langaði þau til þess að fara að flytjast upp í sveit og setjast þar að og töldu, að það mundi henta sér betur að búa í sveit, sérstaklega með tilliti til barnanna. Og ég athugaði þetta mál dálítið fyrir þau. Það voru möguleikar á því að fá jarðnæði, fá leigða jörð, verðið viðráðanlegt, en hvar áttu þá þessi hjón að fá fé til þess að kaupa nauðsynlegan bústofn? Það þýddi ekkert fyrir þau að fara upp í sveit og setjast þar að með tvær hendur tómar. Það varð að hafa þó nokkurt bú til þess að standa undir þessu talsvert þunga heimill. Og ég verð að játa, að ég hef ekki getað bent þessum ungu hjónum á neina leið til þess að fá lán til nauðsynlegra bústofnskaupa með þeim kjörum, sem þeim væru viðráðanleg og nokkurt vit væri í að ráðleggja þeim að ganga að. Þetta er aðeins eitt dæmi, það eru mýmörg dæmi áreiðanlega svona til.

Ég held, að það væri mikil þörf á því að styðja að því einmitt, að ungt fólk, sem vildi fara út í sveitirnar, gæti komizt þangað og komið sér þar sæmilega fyrir. Það er ekki því að neita, að allt of víða blasir það við í sveitum þessa lands því miður, að það er svo, að jafnvel á góðum jörðum sitja eftir gamlar manneskjur eða tiltölulega fullorðið fólk aðeins, gömul hjón kannske víða og gamlar manneskjur, en það vantar einmitt mjög viða unga fólkið. Og það er engin tilviljun, að þessu er þannig farið. En þetta hlýtur að vera mikið áhyggjuefni öllum þeim, sem bera hag íslenzkra bændabyggða fyrir brjósti. En það er, eins og ég sagði, auðvitað ekki tilviljun, að þessu er svo komið. Ég fæ ekki betur séð en við þær aðstæður, sem nú eru, sé mjög erfitt fyrir ungt fólk að hefja búskap í sveit, nema þar sem svo stendur á, að það getur tekið við jörð og búi af foreldrum sínum eða þá komið fótum fyrir sig í skjóli þeirra. En fyrir ung hjón, sem hafa ekki neitt slíkt við að styðjast, er mjög erfitt að afla sér þess, sem til þarf, bæði bújarðar, og þó er það nú auðveldast, eins og nú er komið, vegna þess að nokkuð ber á því allviða, að jarðir hafi farið í eyði, þannig að það er hægt að fá þær leigðar. En þá er eftir að kaupa bústofn og vélar, og það eru sérstaklega vélarnar, sem kosta stórfé, og bústofninn auðvitað líka. Það er ekki nokkrum vafa undirorpið, að það mundi verða mörgum frumbýlingum mjög mikil uppörvun og lyftistöng og gæti beinlínis leyst þeirra vanda, ef þeir ættu völ á föstum og hagstæðum lánum til bústofnsaukningar og vélakaupa. Slík frumbýlingslán gætu óefað stuðlað að því, að fleiri hjón en ella reistu bú í sveit. En eins og ég hef þegar tekið fram í máli mínu hér, þá hefur ekki verið kostur slíkra lána til þessa.

Í l. um stofnlánadeild landbúnaðarins, sem samþykkt voru hér á síðasta Alþingi, er að vísu heimild til lánveitingar til bústofnsaukningar og til búvélakaupa, en slík heimildarákvæði eru auðvitað lítils virði, nema þau séu notuð. Ég skal játa, að það er ekki fullreynt enn um framkvæmd þessara laga, þar sem svo skammt er liðið frá því, að þau voru sett. En þó verður að minnast þess í því sambandi, að þessi heimildarákvæði í l. eru í raun og veru eldri, af því að l. um stofnlánadeildina eru, eins og menn vita, að meginefni til eldri, byggð á hinum eldri lögum um ræktunarsjóð og byggingarsjóð, eru byggð á i. um landnám, ræktun og byggingar í sveitum. En í þeim lögum var ræktunarsjóði heimilað að veita lán til bústofnsauka. Sú heimild var hins vegar aldrei notuð, sem tæplega var heldur von til, þar sem ræktunarsjóðurinn átti jafnan fullt í fangi með að sinna þeim aðalverkefnum, sem honum voru ætluð. Það er nú hætt við því, að framkvæmdin verði að þessu leyti til svipuð og áður var. Enn sem komið er hendir a.m.k. ekkert til þess, að framkvæmdin verði að þessu leyti til önnur og að þessi heimild verði notuð. Hins vegar munu nú hafnar nokkrar lánveitingar úr stofnlánadeildinni til búvélakaupa, og er það að sjálfsögðu góðra gjalda vert, svo langt sem það nær. En eftir því sem ég veit bezt, þá mun gert ráð fyrir lánveitingum til vélakaupa, þ.e.a.s. til kaupa á ákveðnum, tilteknum vélum og nokkru tilteknu fylgifé með þeim. Það er gert ráð fyrir, að 30% af andvirði vélar séu lánuð út til þeirra kaupa. Það er náttúrlega auðsætt, að slík lán, þó að þau séu, eins og ég sagði, góðra gjalda verð og geti verið mikil hjálp, mikilsverð hjálp, þá eru þau lán ekki fullnægjandi, t.d. alls ekki fullnægjandi fyrir frumbýling, sem hefur ekki úr neinu að spila. Hvar á hann að afla sér þess fjár, sem á vantar til nauðsynlegra vélakaupa? Það getur verið svo ástatt um hann, að hann sé litlu nær, þó að hann fái 30% til vélakaupa. Það er alveg nauðsynlegt fyrir hann að eiga kost á viðbótarláni, og það er einmitt gert ráð fyrir því, ef þetta frv. yrði að lögum, að þá gæti slíkur aðili fengið viðbótarlán úr bústofnslánasjóði til þvílíkra vélakaupa.

Það má segja og skal út af fyrir sig játað, að það sé aukaatriði, hvaðan slík lán koma, hvað sá sjóður heitir, hvað sú stofnun heitir, sem veitir lán til bústofnskaupa eða vélakaupa, ef sérstakt fé er ætlað í þessu skyni. Það kann þess vegna sumum að virðast eðlilegri leið að efla stofnlánadeildina, svo að hún geti sinnt þessu hlutverki. En ég verð að játa, að ég hef ekki trú á því, að stofnlánadeildin verði efld svo mjög, að hún verði gerð fær um að sinna þessu verki svo sem þarf. Ef stofnlánadeildin hefur ekki nægilegt fé, þá er ákaflega hætt við

því, að einmitt bústofnslánin yrðu út undan, en frekar yrði sinnt þeim lánum, sem áður hafa tíðkazt í þeim lánastofnunum. Þó að sumir kunni að segja, að það sé tilgangslítið í þessu sambandi að setja upp nýjar lánastofnanir eða fleiri lánastofnanir, aðalatriðið sé að sjá þeim lánastofnunum eða þeirri lánastofnun, sem fyrir er, fyrir nægilegu fjármagni, þá held ég, að það sé heppilegri leið að setja upp sérstaka lánastofnun, sem hefur einmitt þetta sérstaka og afmarkaða hlutverk. Þá er það tryggt, að það fjármagn, sem þeirri stofnun er ætlað, fer ekki annað en einmitt í þetta, þ.e. í lán til bústofnskaupa og til vélakaupa. Það má sjálfsagt segja, að það fé eða það fjármagn, sem þessari lánastofnun, bústofnslánasjóðnum, er ætlað í þessu frv., sé ekki fullnægjandi í þessu skyni. Það má vel vera. En það er alltaf hægara, þegar byrjað hefur verið, að auka þá við, eftir því sem reynslan sýnir að þörf krefur.

Ég held sem sagt, að það sé ekki rétt eða skynsamlegt að byggja sína von í þessu efni á stofnlánadeildinni. Ég hygg, að hún muni eiga fullt í fangi með að sinna þeim verkefnum, sem hún hefur fengizt við að undanförnu. Það hefur að vísu ekki farið fram hjá neinum, að það hefur verið látið mikið af því að undanförnu, að ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að efla stofnlánadeildina og tryggja fjárhag hennar um framtíð alla, að mér skilst. Ég er nú hræddur um, að þeir, sem bundið hafa trú og traust sitt við þann boðskap, eigi eftir að verða fyrir verulegum vonbrigðum. Þeir, sem hafa haldið það og halda það, að með því skattgjaldi, sem lagt hefur verið á bændur, sé það tryggt, að jafnan verði fyrir hendi í stofnlánadeildinni nægur sjóður til þess að fullnægja lánbeiðnum, — ég hygg, að þeir eigi eftir að verða fyrir vonbrigðum. Ég held, að það hljóti að vera öllum auðsætt, sem eru þeim málum kunnugir og sjá vilja, að það skattgjald út af fyrir sig mun ekki leiða til mikillar sjóðasöfnunar hjá stofnlánadeild landbúnaðarins. En ég vil aðeins koma því að í þessu sambandi, að ef það væri svo, að það skattgjald leiddi til sjóðasöfnunar hjá stofnlánadeildinni og ef taka ætti upp þá stefnu að láta hvern atvinnuveg fyrir sig leggja sjálfan til lánsfé, þá er það að mínum dómi alveg fráleitt að leggja það á þá sem skattgjald. Þá á að leggja það á sem stofnsjóðsgjald fyrir þessa menn, sem á að vera þeirra eign í þessum sjóðum, ef um virkilega sjóðasöfnun væri að ræða. En sannleikurinn er auðvitað sá, sem hægt er að segja umbúðalausan, þegar menn vilja, og ég skal ekki fara langt út í í þessu sambandi, það hefur verið gert í sambandi við annað mál, að það skattgjald, sem nú er lagt á landbúnaðinn vegna stofnlánadeildarinnar, fer til þess að greiða þau gengistöp, sem verða hjá þessum sjóðum. Það er sá einfaldi sannleikur umbúðalaus, sem á að sjálfsögðu að segja mönnum í þessu efni. Um hitt geta svo skoðanir verið skiptar, hvort það sé eðlilegt eða ekki að láta bændur bera þessi gengistöp, sem hafa orðið á þessum sjóðum. Frá mínu sjónarmiði er það óeðlilegt og sérstaklega ósanngjarnt, af því að í því efni eru bændur látnir sitja við önnur kjör en aðrir og farið verr með lánastofnun bændanna en aðrar lánastofnanir, vegna þess að þegar genginu var breytt, voru ákvæði um það, að ríkissjóður tók í raun og veru að sér gengistöp gjaldeyrisbankanna, þ.e.a.s. að það átti að stofna sérstakan reikning í Seðlabankanum á nafni ríkissjóðs, og inn á þann reikning voru lögð töp og hagnaður gjaldeyrisbankanna og ríkissjóðs vegna gengisbreytingarinnar. Auðvitað er Búnaðarbankinn og lánastofnanir hans, ræktunarsjóðurinn og byggingarsjóðurinn, lánastofnun algerlega sambærileg við þær lánastofnanir, og það átti auðvitað að láta hann sitja að þessu leyti við algerlega sama borð. Það eru engin rök í því efni að segja, að hann hafi ekki verið gjaldeyrisbanki og þess vegna hafi hann ekki átt að njóta þessarar aðstöðu eins og gjaldeyrisbankarnir. Það er nú önnur saga, að að minni hyggju hefði Búnaðarbankinn fyrir löngu átt að vera búinn að fá gjaldeyrisréttindi, og ég hef barizt fyrir því og flutt till. um það, bæði hér á Alþingi og eins í bankaráði Seðlabankans, án þess að því hafi fengizt framgengt, án þess að það hafi fengizt fram. En að sjálfsögðu á hann ekki að sitja í þessu efni við verri aðstöðu en aðrar lánastofnanir, þó að hann hafi ekki fengið gjaldeyrisrétt, því að það er vitaskuld enginn eðlismunur á þessum lánasjóðum Búnaðarbankans og á öðrum bönkum. Í báðum tilfellum bar auðvitað ríkissjóður þar á fulla ábyrgð. En út í þetta skal ég sem sagt ekki fara nánar í þessu sambandi. Ég vildi aðeins drepa á þetta vegna þess, að ég býst kannske við, að þær röksemdir komi fram, að það sé óþarft að vera að stofna sérstakan sjóð í þessu skyni, stofnlánadeildin geti sinnt þessu verkefni. En ég hef aðeins nefnt þetta til þess að sýna fram á það, að ég held, að það sé tálvon að treysta á stofnlánadeildina til að leysa þetta verkefni. Það verður þá a.m.k. að gera breytingar á því skipulagi, sem nú er.

Ég held þess vegna, herra forseti, í stuttu máli sagt, að það sé mjög mikil þörf á sérstökum bústofnslánasjóði, sem sinni þeim hlutverkum, sem honum eru ætluð í þessu frv. Og ég held, að sú þörf sé alveg hin sama og áður þrátt fyrir hin nýju stofnlánadeildarlög og þrátt fyrir þau heimildarákvæði, sem eru í þeim lögum. Sú þörf, sem fyrir hendi er í þessu efni, er mjög brýn, og það má ekki dragast mjög lengi að koma slíkri lánastofnun á fót, og ég held, að það verði ekki daufheyrzt til lengdar við þessari aðkallandi þörf, þó að það mál kunni að verða leyst í einhverju öðru formi en þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er ekki aðalatriðið, í hvaða formi það verður leyst, en það verður að leysa úr vandræðum þess fólks, sem hér er sérstaklega um að ræða, efnalítilla bænda, sem þurfa að stækka sín bú, og frumbýlinga, sem hafa ekki tök á því að stofnsetja bú í sveit, enda þótt þeir kysu það helzt, af því að þá vantar nauðsynlegt fjármagn og þeir hafa ekki aðgang að hagstæðum lánum í því skyni.