04.03.1963
Efri deild: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

146. mál, bústofnslánasjóður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég stend hér ekki upp til þess sérstaklega að fara að mótmæla röksemdum hv. 1. flm. þessa frv. fyrir frv. sjálfu. Hann benti þar á mörg atriði, sem við erum sammála um og flestir þeir, er þekkja til vandamála bænda, gera sér grein fyrir að eru rétt. Það eru hins vegar nokkrar hugleiðingar í sambandi við málið, sem ég vildi koma hér að.

Áður en ég kem þó að því, langar mig til þess rétt aðeins að drepa á þau atriði, sem hv. 1. flm. minntist á í lok sinnar ræðu og í rauninni koma þessu máli ekki við, eins og hann sagði, en það er hin gamla deila út af stofnlánadeildinni og skipulagningu hennar. Hann hélt því hér fram, sem mér að vísu þótti einkennilegt að heyra frá jafnsanngjörnum manni og honum, að raunverulega væri skattgjald bænda til stofnlánadeildarinnar ekki til annars en að borga gengistöpin á sjóðunum. Þetta er auðvitað alger misskilningur. Með skipulagningu stofnlánadeildarinnar er framlag bænda aðeins einn hluti af því fjármagni, sem til hennar var tryggt, því nýja fjármagni, sem stofnlánadeildinni var tryggt. Skattgjaldi bænda er mætt með jöfnu framlagi frá ríkissjóði til viðbótar því fastaframlagi, sem verið hefur undanfarin ár, og auk þess með framlagi frá neytendum, þannig að hlutur ríkissjóðs og neytenda er verulega miklu hærri en framlag bænda, auk þess sem stofnféð, sem deildinni var afhent og er algerlega frá ríkissjóði, kemur þarna til viðbótar. Það er því alls ekki með neinum rétti hægt að halda því fram, að það sé sérstaklega skattgjald bænda, sem gengur til þess að borga gengismuninn. Auðvitað er viss hluti þessarar fjárhæðar notaður til þess. En með skattgjaldi bændanna var auðið að leggja grundvöll að því og rökstyðja það með fullum rétti, að það væri eðlilegt, að ríkissjóður legði til þessa sjóðs fé, sem hann leggur ekki til neinna stofnsjóða, vegna þess mótframlags, sem kom hér frá bændum og í þriðja lagi frá neytendum. Og þetta nýja fé gerir miklu meira en greiða gengishallann á sjóðunum, vegna þess að árlegu framlögin nú fyrstu árin eru meira en tvöfaldur gengishallinn, og síðan fer það vaxandi ár frá ári með vaxandi framleiðslu. Og það, sem hefur gefið mönnum ástæðu til að halda, að með þessum hætti væri hægt að leggja traustan grundvöll að stofnlánadeildinni, er einmitt það, að með aukinni framleiðslu landbúnaðarvara og sölu þeirra hækkar ár frá ári einnig skylduframlagið frá ríkissjóði, þannig að hér er um að ræða tekjustofn, sem hlýtur að vaxa, eftir því sem verðhækkanir á þessum vörum verða meiri.

Hv. frsm. vék einnig að gengismálinu á sínum tíma og því, að ríkissjóður hefði verið látinn taka á sig gengishalla gjaldeyrisbankanna. Það hefur margsinnis verið á það bent, að þetta er ekki rétt að því leyti til, að gengishagnaður gjaldeyrisbankanna var notaður til þess að greiða gengistöp ríkissjóðs og Seðlabankans, og það var vitanlegt fyrir fram, að það yrði gengishagnaður hjá gjaldeyrisbönkunum sem slíkur. Ég er hins vegar ekki að mótmæla því, að það hefði vel getað verið og hefði verið mjög æskilegt, að það hefði verið hægt að létta af sjóðum Búnaðarbankans þessum gengistöpum. En þá hefðu komið einnig til greina fleiri aðilar, og það hefði þá orðið að framkvæma þetta ákvæði með öðrum hætti en var gert t.d. við gengisbreytinguna 1950 og enginn maður hafði þá neitt við að athuga. Og þegar gengisbreytingalögin síðari, sem hv. frsm. minntist á, voru til umræðu hér í þingi, kom engin till. fram um það frá neinum aðila að breyta þessari reglu og láta þennan gengisjöfnuð einnig ná til annarra lántaka en hinna almennu viðskiptaskulda bankanna. Og það er nokkurn veginn ljóst, að eftir þeirri reglu, sem fylgt var, hefði það ekki gagnað, þó að Búnaðarbankinn hefði verið gjaldeyrisbanki, því að hin föstu lán, sem höfðu verið tekin fyrir sjóði bankans, alveg eins og átti sér stað með fiskveiðasjóð, hefðu ekki fallið undir þennan gengisútjöfnuð, ef svo má segja, nema því aðeins að meginreglum í þessu efni væri breytt.

Hitt er svo annað mál, sem ég skal fúslega þakka og leggja áherzlu á að beri að virða, og það er það sjónarmið hv. frsm., sem hann hefur látið í ljós bæði hér í hv. d. og víðar, t.d. með tillöguflutningi hér, að það væri eðlilegt, að Búnaðarbankinn fengi gjaldeyrisréttindi. Það er auðvitað sjálfsagt, og hann hefði átt fyrir löngu að vera búinn að fá þau, og fyrir því er engin forsvaranleg vörn að neita honum um þau, en út í þá sálma skal ég ekki fara í sambandi við þetta mál frekar.

Varðandi þetta frv. sjálft, þá er það alveg rétt hjá frsm., að hér er um vandamál að ræða. En vandamálið er töluvert viðtækara en hann vék að í sínu máli, því að það er ekki eingöngu um það að ræða, að það vanti peninga til að lána í þessu skyni, heldur koma hér einnig til greina önnur vandamál, sem ég veit að hann sem lögfræðingur þekkir mætavel, og það er veðsetningarsjónarmiðið. Í raun og veru eru vélar alls ekki veðhæfar, og í raun og veru er bústofn alls ekki veðhæfur, hvað sem líður því ákvæði, sem er í veðlögum og í vissum undantekningarákvæðum í því sambandi. Þau ákvæði geta gengið, ef um er að ræða mjög stutt lán, en lán til lengri tíma út á bústofn er ákaflega erfitt að veita, ekki sízt eins og ástatt hefur verið með bústofn, ekki sízt fjárbústofn, hér á landi á undanförnum árum, þegar féð hefur getað hrunið niður og horfið á skömmum tíma, þannig að hér er vitanlega um mjög veruleg áhættulán að ræða, og ég hygg, að það hafi m.a., auk fjárskortsins, ráðið því á undanförnum árum og ég vil segja áratugum, að ekki hefur verið talið fært af stjórn Búnaðarbankans að hefja lánveitingar í þessu skyni út á þessi veð ein út af fyrir sig. Það er svo aftur allt annað mál, ef hægt væri með einhverju móti að finna aðrar veðsetningar, eða þá ef það væri hugsun manna, að það væri rétt beinlínis að taka upp aðrar lánareglur, þ.e.a.s. nokkurs konar bein áhættulán, sem væru að nokkru leyti út frá styrktarsjónarmiði. Þá mætti vel hugsa sér, að væri hægt að byggja upp lánakerfi sem þetta. En ég áiít, að við megum ekki gagnvart bændum villa mönnum sýn um það, að hér er við vandamál að glíma, sem er ekki eingöngu fjárhagslegs eðlis, heldur einnig stafar það af því, að það er mjög torvelt að koma fyrir slíkum lánveitingum. Og það er ekki einstakt hér. Það voru t.d. hafin bústofnslán í Danmörku, en horfið frá þeim, vegna þess að það var ekki talið, að mögulegt væri að lána út á bústofn einan saman. Þetta er atriði, sem ég tel nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir, án þess að ég með því sé á nokkurn hátt að mótmæla þeirri nauðsyn, sem er fyrir hendi að finna einhver úrræði til þess að leysa þann vanda, sem hér er við að glíma.

Hitt er svo aftur spurning, hvort rétt er að hugsa sér að leysa þetta mál með því að taka það eitt út úr og segja í rauninni, að þetta sé meira vandamál en ýmis önnur fjárfestingarmál landbúnaðarins, þannig að um það eigi að stofna sérstakan sjóð. Hv. frsm. benti réttilega á, að í lögum um stofnlánadeild landbúnaðarins eru fullgildar heimildir fyrir lánveitingum til beggja þeirra þarfa, sem þetta frv. fjaliar um, bæði til kaupa á bústofni og búvélum. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki ákaflega mikið gagn í því að fara að stofna nýjan lánasjóð í þessu skyni, nema því aðeins ef það væri hugsunin, að úr þeim sjóði ætti að lána út frá öðrum sjónarmiðum og eftir öðru viðhorfi til veðsetninga og trygginga heldur en gert er með stofnlánadeild landbúnaðarins. Þá væri hægt að hugsa sér það viðtækara vandamál en þetta eitt, fjárfestingarmál landbúnaðarins. Fjárfestingarlán til landbúnaðar hafa verið of lág, og það er m.a. ástæðan til þess, að bændur hafa safnað lausaskuldum. Nú var sú ráðstöfun gerð, sem tvímælalaust er mjög mikilsverð, að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Og það væri auðvitað höfuðnauðsyn að reyna að leggja áherzlu á það, að fjárfestingarlánum landbúnaðarins yrði komið í það horf, að lausaskuldir þyrftu ekki að myndast í stórum stíl að nýju. Síðustu árin hafa lánveitingar úr stofnlánadeild landbúnaðarins, nú síðast úr ræktunar- og byggingarsjóði, verið hækkaðar mjög verulega, þannig að í ýmsum tilfellum er nú ekki langt frá því, að grunntölur þær, sem miðað er við, séu raunhæfar. Og þó að það sé að vísu rétt, að verðlag hefur auðvitað hækkað og framkvæmdir orðið dýrari, þá hefur samt þokazt allverulega í þá átt, að grundvöllur sá, sem miðað er við, þegar lánveitingar eru ákvarðaðar, er nær því raunhæfa marki, miðað við núgildandi verðlag, heldur en var t.d. fyrir 3 árum, miðað við þágildandi verðlag. Og það ber auðvitað að stefna að því, að byggingarlánin og lán til ræktunar og annarra framkvæmda á jörðum komist upp í það mark, að það sé hægt að lána hámarkslán miðað við raunhæft mat á kostnaði framkvæmdanna.

Í annan stað verður svo smám saman að reyna að taka upp nýjar lánveitingar, eins og hefur verið gert nú upp á siðkastið, en þó þannig að ganga ekki lengra en svo, að það sé hægt að uppfylla þau loforð eða þær vonir, sem menn geta byggt á slíkum lánveitingum. Ég álít það ekki heppileg vinnubrögð að ákveða t.d. lán úr stofnlánadeild landbúnaðarins svo há, að það sé sýnt, að stofnlánadeildin geti ekki risið undir því og verði að fara að velja umsækjendur úr. Það álft ég ekki heppilegt. Og af þeim sökum hefur þótt eðlilegra, t.d. með ákvarðanir um lán út á vélar, að hafa lánin lægri, en reyna þá að sjá til þess, að það væri öruggt, að þeir menn, sem vélarnar keyptu, gætu treyst á að fá þessi lán. Hitt er alveg rétt hjá hv. frsm., að þau lán eru auðvitað ekki há. Hins er aftur á móti að gæta, að lán út á vélar geta auðvitað aldrei orðið hlutfallslega eins há og út á aðrar fjárfestingarframkvæmdir, byggingar og slíkt. Það er auðvitað alveg rétt, að það skortir mikið á, að það sé hægt að ná þar saman endum, og vitanlega ber að stefna að því, að þau lán geti hækkað. Ég er jafnframt þeirrar skoðunar, að vissar framkvæmdir bænda, svo sem t.d. súgþurrkun, sem Stéttarsamband bænda hefur lagt mikla áherzlu á að hafnar yrðu lánveitingar út á, það sé verkefni, sem þurfi mjög rækilega að gefa gaum og reyna að leysa þann vanda svo skjótt sem auðið er, en ég álít, að einnig beri að leysa þann vanda út frá því sjónarmiði, að menn geti þá treyst á að fá slík lán, en það verði ekki aðeins pappírsgagn.

Varðandi búvélarnar að öðru leyti er það vandamál, sem er töluvert erfitt viðureignar, eins og ég áðan sagði, fyrst og fremst út frá veðsjónarmiðum. Það er nógu erfitt með dráttarvélarnar, vegna þess að þær eru í rauninni alls ekki veðhæfar, nema þær séu kaskótryggðar í fyrsta lagi, sem er mjög dýrt, og í öðru lagi eru þær tæplega veðhæfar, þó að það sé, vegna þeirra mjög ófullkomnu reglna, sem gilda um lausafjárveð, og aðrar vélar, sem ekki eru einu sinni skrásettar, eru að sjálfsögðu gersamlega óveðhæfar. Hitt er svo annað mál, að þetta mætti hugsa sér að leysa, ef það væri til veðhæfi í jörðum, og það hefur varðandi dráttarvélarnar verið farið út í það að taka veð í jörðunum, m.a. til þess að gera þetta léttara fyrir bændur, þar sem þeir losna þá við þann mikla kostnaðarauka að kaskótryggja vélarnar. Bústofnslán má auðvitað hugsa sér á þessum grundvelli einnig, og ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að það megi hugsa sér að taka upp það mál. Það væri kannske hugsanlegt. Ég nefni það sem dæmi, vegna þess að það er alveg nýlegt tilfelli, sem hefur verið imprað á við mig sem bankastjóra, og það er, hvort hugsanlegt væri að stofna bústofnslánasjóð eða bústofnslánadeild í ákveðnu sveitarfélagi, sem með sameiginlegri ábyrgð tæki slík lán og endurlánaði Síðan bændum eftir þeim tryggingum, sem þeir þá heima fyrir teldu sig geta fengið. Það má vafalaust hugsa sér ýmsar slíkar hliðar á málinu, en þetta þarf auðvitað allt nánari athugunar við, og ég álít, að varðandi stofnlánadeildina sé rétt hjá hv. frsm., að það verði önnur viðfangsefni, sem þar komi fyrr til, m.a. vegna þess að ég álit, að það séu jafnvel viðfangsefni, sem séu brýnni en bústofninn, þó að það sé vissulega mikilvægt að geta sinnt því atriði.

En varðandi bústofninn og raunar öll þessi framkvæmdamál verðum við líka að hafa það í huga, sem hv. frsm. raunar vék að í sinni ræðu, að enda þótt lán séu fáanleg, þá eru takmörk fyrir því, hvað menn mega taka að láni, þegar þeir eru að koma undir sig fótum við búskap. Það er erfitt að byrja búskap með skuldabagga, mjög erfitt, því að vissulega, þótt maður geti komizt yfir nokkurn bústofn, þá er svo óendanlega margt eftir að gera, sem þarf að fá fé til, til þess að hægt sé að reka búskapinn með eðlilegum hætti. Og horfur í búskap eru nú ekki betri en svo, að það er áreiðanlega mikið íhugunarefni fyrir hvern mann, sem út í búskap ræðst, hvað hann má leyfa sér að leggja út í búskapinn fjárvana og byggja upp með lántöku.

Með engum þessum hugleiðingum mínum er ég að kasta rýrð á þá hugmynd, sem hér kemur fram, því eins og ég sagði í upphafi, er þetta vandamál, sem vissulega þarf að gefa gaum að. En ég vildi láta þessar hugleiðingar koma fram til þess í rauninni að benda á nokkur atriði til viðbótar þeim, sem hv. frsm. benti á, til þess að myndin yrði ljósari fyrir mönnum, hvaða vandamál hér er við að glíma. Ég vil svo enn fremur á það benda, að það er eitt atriði, sem getur einnig til viðbótar mætt á móti því að setja upp sérstakan sjóð, og það er það, að með þessu frv. er gert ráð fyrir, að þessi sjóður hafi sérstaka stjórn, og þá mundi stofnlánadeild landbúnaðarins lána eftir sínum reglum og þessi sjóður eftir sínum reglum. Ég álít, að þegar um er að ræða fjárfestingarlán til landbúnaðarins, eins og annarra atvinnuvega, þá sé mjög æskilegt, að það séu samræmdar aðgerðir í þessu sambandi, og þegar hér í frv. er talað um, að það þurfi að meta það, hverju bóndinn geti undir risið, þá hlýtur stofnlánadeildin að þurfa að meta það, hvort hann getur þá til viðbótar þessum lánum fengið þau stofnlán, sem hann er að óska eftir úr þeirri átt, og jafnframt með hliðsjón af því, að nú er stofnlánadeildin farin að lána út á vissa tegund búvéla, þá sé dálítið erfitt að gera hér greinarmun á, út á hvaða búvélar hún á að lána og út á hvaða vélar þessi deild eða hvort það er hugsunin, að stofnlánadeildin hætti að lána út á búvélar og þessi deild taki við. En þá vil ég í því sambandi benda á, að þó að ekki séu nema þessi 30% lán út á dráttarvélar, þá má gera ráð fyrir, miðað við þann innflutning, sem nú er á dráttarvélum til landsins og stórvirkum jarðræktarvélum, að þá geti þær lánveitingar jafnvel orðið 10 millj. kr. á ári, þannig að það er vissulega ekki lítið fjármagn, sem þarf til þess að mæta því til viðbótar lánveitingum út á þær aðrar vélar, sem vafalaust er hugsunin með þessu frv. að einnig yrðu teknar upp.

Um þetta má auðvitað endalaust deila, hvað séu heppileg vinnubrögð í þessu sambandi. Ég vil hins vegar láta í ljós fullkomna ánægju mína yfir því, ef það tækist að fá aukið fé til stofnlána í landbúnaði, hvort sem það væri í sérstaka deild eða aukin fjárráð stofnlánadeildarinnar. En þó að það snerti ekki beinlínis þetta mál, vil ég samt á það benda, að ég álít, að í dag sé mesta vandamálið veðdeildin í sambandi við jarðakaup og eignayfirfærslur, því að það er fullkomið vandamál, sem ég álít að sé í rauninni a.m.k. ekki minni þörf en varðandi bústofnskaupalánin að reyna að greiða fram úr.

Eins og við vitum, hefur veðdeildin alltaf orðið út undan, síðan var farið að afla fjár í þessa stofnlánasjóði landbúnaðarins, m.a. vegna þess, að það hefur þurft að byggja þetta upp svo mikið á lántökum og lánin aldrei verið meiri en svo, að þau hafa jafnvel ekki nægt til þess að leysa úr brýnustu þörfum bænda um stofnlán til bygginga og ræktunar, og það hefur verið talið nauðsynlegast af öllu að láta þau lán sitja í fyrirrúmi. Ég skal alls ekki lasta þá stefnu, en það breytir ekki því, að þessu vandamáli þarf að mæta. Í lögum um stofnlánadeild landbúnaðarins er gert ráð fyrir því, að stofnlánadeildin kaupi skuldabréf veðdeildarinnar fyrir allt að 10 millj. kr. á ári, sem ég teldi að væri tiltölulega viðunandi lausn á þeim vanda, ef veðdeildin fengi 10 millj. af nýju fjármagni ár hvert næstu árin. Hinu er ekki að leyna, að enn sem komið er hefur stofnlánadeildin ekki þetta bolmagn, því að tekjustofnar þeir, sem hún á að fá, — það er fyrst nú á þessu ári, sem þeir skila sér, — og ekki fyrr en eftir nokkuð lengri tíma, sem stofnlánadeildinni fer að vaxa þannig fiskur um hrygg, að sé hægt að gera ráð fyrir, að hún geti átt fé aflögu í þessu sambandi. En ég álít, að þá verði að reyna að leita annarra úrræða. Þótt að vísu megi segja, að þessi vandi við að fá veðdeildarlán til jarðakaupa valdi því, að það sé jafnvel þægilegra fyrir menn að kaupa jarðir, vegna þess að eftirspurn eftir jörðunum eða sölumöguleikar þeirra eru svo litlir, að það er ekki hægt að krefja um mikla útborgun, ef menn eiga að gera sér vonir um að selja þær, þá verðum við að lita á aðstöðu þeirrar kynslóðar, sem er að hverfa frá búskapnum og verður eftir áratuga strit að segja skilið við sín bú með litla möguleika til að fá nokkuð út úr þeim. En það er líka vandamál, sem verður að líta á og gera sér grein fyrir, og einmitt með veðdeildarlánunum er í rauninni eina leiðin til þess að veita einhverja réttingu mála þessu fólki. Það má segja, að það komi ekki beint þessu máli við, en af því að menn hafa rætt nokkuð á víð og dreif þessi vandamál landbúnaðarins í sambandi við stofnlán til ýmissa þarfa, þá vildi ég aðeins vekja athygli á þessum vanda einnig.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að ég vonast til, að það verði auðið að halda þannig á þessum málum á næstu árum, að hægt verði að auka verulega stofnlánin í landbúnaði, og allir góðir menn vilji ljá sitt lið til þess, að efla megi stofnlánasjóði landbúnaðarins, þannig að svo megi verða og á þann hátt koma í veg fyrir, að bændur á nýjan leik bindi sér mikinn lausaskuldabagga. Þetta er vissulega viðfangsefni, sem þarf að líta á, og má ekki skjóta því lengi á frest og verður að reyna að miða framkvæmdir við það.

Ég sé svo ekki, herra forseti, að ástæða sé til þess fyrir mig að ræða málið sérstaklega nánar á þessu stigi, en vildi láta þetta koma fram, áður en málið fer í nefnd. En að öðru leyti hef ég ekkert að athuga við þær hugleiðingar, sem fram komu frá hv. 1. flm. frv., sem ræddi málið af fullum skilningi á því vandamáli, sem hér er við að glíma.