19.04.1963
Neðri deild: 77. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í C-deild Alþingistíðinda. (2590)

154. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi

Jón Pálmason:

Herra forseti. Af því að nú stendur svo á, eins og kunnugt er, að komið er að því að slita Alþingi, þá er ekki tækifæri til þess að koma því í kring að breyta þessu frv. í viðtækara horf, sem þó væri mikil þörf á. Ég mun þess vegna ekki leggja í það að gera við það brtt., því að því ber náttúrlega að fagna, að það sé byrjað á því að samþykkja spor í rétta átt, sem þetta frv. tvímælalaust er.

Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður var að lýsa um tekjurnar af dragnótaveiðum á undanförnum tveimur árum, þá er það náttúrlega ekkert undarlegt, að af þeim séu miklar tekjur og árangur, á meðan verið er að eyðileggja fyrir framtiðinni þau verðmæti, sem um er að ræða uppi undir landssteinum, og það er sannarlega ekki nein sönnun fyrir því, að þessar veiðar eigi rétt á sér.

Ég ætla ekkert að ræða um þetta meira, en vildi taka þetta fram, að ef þetta frv. hefði verið hér fyrr á ferðinni og ég hefði átt hér sæti, þá hefði ég flutt við það brtt. um að gera það miklu víðtækara en það er. En eins og nú standa sakir, megum við náttúrlega þakka fyrir það, að þetta frv. verði þó samþykkt, því að það er sannarlega spor í rétta átt.