13.03.1963
Sameinað þing: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2633)

34. mál, Stýrimannaskóli Íslands og sjóvinnuskóli

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 34 flutti ég og hv. 10. þm. Reykv. þáltill. um endurskoðun laga um stýrimannaskóla Íslands og athugun á stofnun sjóvinnuskóla o.fl. Þessari till. var vísað til hv. allshn. til meðferðar. Nefndin sendi málið til umsagnar ýmissa aðila. Hún sendi það til skólastjóra stýrimannaskólans, sem sendi ýtarlegt álit um þetta mál og er meðmæltur því, að þáltill. nái fram að ganga. Sjóvinnunefnd æskulýðaráðs er einnig samþykk því, að þetta nái fram að ganga. Fræðslumálastjóri fékk málið einnig til umsagnar, og hann telur í lok síns álits, að hér sé um mjög mikilvægt málefni að ræða, sem þurfi gaumgæfilegrar athugunar við, og mælir því eindregið með, að umrædd þáltill. verði samþ. Þá fékk Fiskifélag Íslands þessa till. til umsagnar, og félagsstjórnin samþykkti að mæla eindregið með því, að till. yrði samþykkt. Sama niðurstaða varð hjá hv. allshn., hún er einróma sammála um, að þessi till verði samþ. óbreytt.