23.10.1962
Sameinað þing: 5. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

1. mál, fjárlög 1963

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, taldi, að ríkisreikningurinn og frv. um samþykkt á honum væri ekki fyrr á ferð nú en áður. Hver er nú sannleikurinn í þessari fullyrðingu? Ríkisreikningurinn fyrir s.l. ár, 1961, var lagður fram í gær, 22. okt. árið eftir. Hvernig var þetta í tíð Eysteins Jónssonar sem fjmrh.? Ég sé t.d. hér fyrir framan mig, að ríkisreikningurinn fyrir árið 1953, þegar hann fór með fjármálin, var ekki lagður fram eins og nú í október næsta ár á eftir, hann var ekki lagður fram á árinu 1954 og ekki á árinu 1955, heldur kom frv. um hann fyrst 22. febr. 1956, á þriðja ári eftir reikningslok. Og nákvæmlega sama sagan var um reikninga ríkisins næstu ár á eftir. Reikningurinn fyrir 1954 kom í apríl árið 1957. Reikningurinn fyrir 1955 kom í marz 1958. Frv. um reikninginn fyrir 1956 kom í febr. 1959. Fleiri orð þarf ekki að hafa um þessa staðhæfingu hv. þm.

Hann sagði enn fremur, að nú hefði verið hraðað óeðlilega framlagningu frv., með því að endurskoðun væri ekki lokið. Þetta er rangfærsla. Yfirskoðunarmenn höfðu að fullu lokið sinni endurskoðun. Það, sem hann átti við, var það, að hinni umboðslegu endurskoðun hjá ríkisendurskoðuninni er ekki að öllu lokið og hefur aldrei verið, þegar ríkisreikningurinn hefur verið lagður fram. Ýmsar stofnanir eru endurskoðaðar þar nokkru seinna, og kemur ekki að sök, því að ef um leiðréttingu er að ræða, kemur það þá í næsta reikningi á eftir. Þessu verður ekki kippt að fullu í lag, fyrr en endurskoðun fer fram jafnóðum, og að því er unnið. En að þessu leyti er engin breyting frá því, sem var í ráðherratíð Eysteins.

Þá segir hv. þm., að ég hafi vanrækt á síðasta þingi að gefa bráðabirgðayfirlit um afkomu ríkissjóðs. Manni skilst, að það hafi verið einhver venja, sem út af var brugðið. Ég hef athugað, hvernig er með hans hátterni í þeim efnum, og ég sé, að á þinginu 1956 gaf hann ekkert bráðabirgðayfirlit um afkomu ríkissjóðs, á þinginu 1957 ekki heldur og á síðasta þinginu, sem hann var fjmrh., ekki heldur. Er því af heldur litlu að státa í þessu efni.

Hv. þm. víkur að skattamálunum og segir, að þannig sé nú í raun og veru með skattalækkanir, sem um hafi verið talað, að skattliðurinn í vísitölunni hafi hækkað hvorki meira né minna en um 2.33 stig skv. útreikningum kauplagsnefndar. Hér er mjög málum blandað eins og í fleiru. Það er að vísu rétt, að útsvarið hefur hækkað nokkuð vísitöluliðinn, en hins vegar hefur tekjuskattur til ríkisins hækkað um 0.09 stig. Það er allt og sumt, sem kauplagsnefnd hefur talið rétt að hann ætti að hækka, og er það þó ekki byggt á raunverulegum greiðslum tekjuskatts, heldur útreiknuðum tekjuskatti, sem miðaður er við heildarútgjöld vísitölufjölskyldunnar. En sem sagt, það er 0.09 úr stigi, sem þar er um að ræða varðandi ríkisskattinn.

Hv. þm. báðum, hv. 1. þm. Austf., Eysteini Jónssyni, og hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni, hefur orðið mjög tíðrætt um það m.a., að útgjöld ríkisins skv. þessu fjárlagafrv. hafi hækkað stórkostlega frá því, þegar þeir voru og hétu í vinstri stjórninni, eða árið 1958. Ég hef athugað nokkuð, hvernig þessum tölum er farið. Tölur Eysteins Jónssonar eru þar ekki alls kostar nákvæmar í þessum samanburði. Það er að sjálfsögðu rétt að reikna með í útgjöldum fyrir 1958 framlög til niðurgreiðslna og uppbóta á landbúnaðarvörum, en hins vegar hef ég ekki talið ástæðu til að taka með einnig uppbótagreiðslur vegna sjávarútvegs, vegna þess að það er ekki sambærilegt við frv. nú. Hins vegar fer hann villur vegar að því leyti, að hann ber saman fjárlögin fyrir 1958, í stað þess að auðvitað á að taka ríkisreikninginn fyrir 1958 og tilsvarandi greiðslur úr útflutningssjóði fyrir það ár. Það, sem skiptir máli, er, hvað greiðslurnar urðu á þessu ári, en ekki, hvað hann áætlaði þær í fjárlögum, sérstaklega þegar maður hefur það í huga, hversu umframgreiðslur urðu oft verulegar fram yfir fjárlög í hans tíð. Þegar þessar tölur eru þannig rétt hafðar, kemur í ljós, að á þessum 5 árum, frá 1958 til fjárlagafrv. fyrir 1963, hækka útgjöld ríkissjóðs um 1029 millj. kr., þegar rétt er saman borið. En það er lítið farið út í það af þessum hv. ræðumönnum, í hvað þessir peningar hafa farið. Það er ekki nóg að slá því föstu, að útgjöld ríkissjóðs hækki á þessum 5 árum um rúman milljarð, þegar því er svo alveg sleppt að skýra það, í hvað þetta hafi farið. En við skulum nú athuga það nánar.

Af þessari upphæð hafa farið tæpar 400 millj. kr., eða nánar tiltekið 396 millj., í auknar almannatryggingar og félagsmál. Er það þetta, sem Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson eru andvígir? Vilja þeir draga úr framlögum ríkissjóðs til almannatrygginga eða til félagsmála, til ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, eða hvað er það af þessum tæpum 400 millj. kr., sem þeir vilja skera niður? Það væri gott við tækifæri að fá svör við því.

Í öðru lagi hafa framlög til lækkunar á vöruverði eða niðurgreiðslu á vöruverði vaxið um 282 millj. kr. Vilja þessir tveir þm. draga úr niðurgreiðslum og þar með hækka vöruverð til almennings? Maður skyldi ekki ætla það eftir ræðum þeirra hér og sérstaklega eftír ummælum Lúðvíks Jósefssonar og hans hneykslunarorðum á því, hvað vöruverð hefði hækkað. Um 282 millj. kr. hafa því aukizt greiðslurnar til að halda niðri vöruverði til almennings.

Í þriðja lagi hafa framlög til kennslumála hækkað um 114 millj. kr. Vilja þessir hv, þm. draga úr skólahaldi í landinu? Vilja þeir fækka skólaárunum, eða hvað vilja þeir gera?

Í fjórða lagi eru framlög til vegamála og hafnarmála, sem þessir þm. hneykslast nú mest á að hafi hækkað of lítið. Framlög til vega, hafna, til landbúnaðar og sjávarútvegs hafa hækkað um 95 millj. kr.

Og loks vildi ég nefna í fimmta lagi framlög nú á þessu frv. til launabóta, bæði handa opinberum starfsmönnum almennt og sérbætur handa kennurum, sem hækka um 65 millj.

Þessir liðir fimm, sem ég hef nú nefnt, nema 952 millj. kr. Þá eru eftir af þessari hækkun frá árinu 1958 um 77 millj. til allra annarra útgjalda en þeirra, sem ég hef nú nefnt. Og nú vil ég enn beina þeirri spurningu til þeirra hv. þm., — ég veit, að þeir geta ekki svarað þeirri spurningu hér í kvöld, en ég vænti þess að fá að heyra það frá þeim síðar: Hvað er það af þessum 952 millj., sem þeir hneykslast á og vilja draga úr? Eru það framlögin til almannatrygginganna? Eru það niðurgreiðslur á vöruver$i? Eru það framlögin til skóla og kennslumála? Eru það framlögin til vega, hafna,landbúnaðar og sjávarútvegs? Eru það launabætur til kennara og annarra opinberra starfsmanna?

Í sambandi við útgjöld ríkissjóðs og hækkun útgjalda nefndi hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, nokkrar tölur um gífurlega hækkun og nefndi þar sérstaklega til kostnað við stjórnarráðið, sem hefði hækkað mjög. Hann ætti nú að vita það, eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, að í þessum lið er allur kostnaður við sendiráðin og utanríkisþjónustuna. En það mætti þá kannske að gefnu tilefni frá þessum hv. þm. minnast á það, að á þessum árum, frá 1958 og þangað til nú, hefur kostnaður við sendiráðið í Moskvuborg hækkað úr 990 þús. kr. upp í 2 millj. 369 þús., sem mun vera sem næst 140%. Ég ætla, að þessi hv. þm. geti ekki með fullum rökum sakað okkur um það í núv. ríkisstj., þó að þessi kostnaður hafi hækkað, því að eitthvað kemur þar fleira til um kostnað við líf og framfærslu þar ytra.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, segir, að í rauninni hafi orðið greiðsluhalli hjá ríkissjóði á s.l. ári og til þess að rétta við þennan halla hafi ríkisstj. tekið eignarnámi af sjávarútveginum gengisgróða, sem hann átti og hafi numið um 70 millj. á s.l. ári, en nokkuð á annað hundrað millj. samtals. Það er oft búið að staglast á þessu með gengisgróðann, og ég vil því fara hér örfáum orðum um það mál.

Þegar genginu var breytt í fyrra, 4. ágúst, var til í landinu mikið magn af íslenzkum afurðum, sem voru tilbúnar til útflutnings. Þær voru að mestu framleiddar við því kaupgjaldi og verðlagi, sem hér gilti, áður en hækkanirnar urðu sumarið 1961. Þegar svo þessar vörubirgðir voru seldar og fluttar úr landi, fengust fyrir þær 13% fleiri íslenzkar krónur en áður vegna gengisbreytingarinnar. Hver átti þennan gengishagnað, sem er áætlað að nemi, þegar allt kemur til alls, væntanlega um 140–150 millj. kr.? Ef engin lagaákvæði hefðu verið sett um ráðstöfun þessa gengisgróða, hefðu þeir aðilar, sem voru eigendur útflutningsvaranna 4. ágúst í fyrra, fengið þessa fúlgu. í mörgum tilfellum var það algerri tilviljun háð, hver var orðinn löglegur eigandi útflutningsvöru 4. ágúst. Sjaldan munu það hafa verið sjómenn. Stundum hafa það verið útgerðarmenn, frystihús, síldarverksmiðjur, stundum útflutningsfyrirtæki, ýmis sölusamtök, hlutafélög eða einstaklingar. Hefði sú regla verið látin ráða, sem virðist vera skoðun hv. þm. Eysteins Jónssonar, að sá, sem var eigandi vörunnar 4. ágúst, hefði átt að eignast gengisgróðann, hefði það valdið réttlátri gagnrýni. Vörurnar voru að mestu framleiddar með eldra kaupgjaldi og kostnaði, en oft hefðu það ekki verið framleiðendur, sem hagnaðinn hlutu, heldur útflytjendur. Misrétti hefði skapazt milli framleiðenda innbyrðis, einn var e.t.v. nýbúinn að selja framleiðsluna við gamla genginu, annar seldi fáum dögum seinna og fékk þá 13% hærra verð, þó að vara beggja væri framleidd á sama tíma og framleiðslukostnaður sá sami. Ef ríkisstj. hefði látið það afskiptalaust, hvert þessi gengishagnaður rynni, mundi ýmsum aðilum hafa fallið í skaut gróði að ástæðulausu og misrétti og ójöfnuður skapazt á milli manna. Að öllu þessu athuguðu þótti ríkisstj. rétt að ráðstafa gengisgróðanum þannig, að hann kæmi atvinnuvegunum, fyrst og fremst útgerðinni, að góðu gagni. Og stjórnin lagði því til að ráðstafa meginhluta gengishagnaðarins á þann veg í þágu atvinnuveganna, að hann rynni til að greiða áfallnar ábyrgðarskuldir vegna þeirra, sem fyrst og fremst voru vegna kaupa og smíði á togurum, bátum, fiskvinnslustöðvum og annarra fyrirtækja í þágu sjávarútvegsins sjálfs.

Hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, sagði m.a., að tölur fjárlfrv. boði hækkandi tolla og skatta, og hann komst að þeirri niðurstöðu, að tollar og skattar hækkuðu um yfir 350 millj. frá fjárlögum í ár. Þetta er ákaflega glöggt dæmi um villandi málflutning og brenglun hugmynda. Hvað þýðir hækkun tolla og skatta? Hvað heitir það í mæltu máli íslenzku? Það hefur hingað til aldrei verið talin hækkun tolla og skatta, ef toll- og skattstigar eru óbreyttir, þó að heildarupphæð sú, sem í ríkissjóð kemur af þessum tekjustofnum, hækki. Ég skal skýra þetta með dæmi. Við skulum segja, að á tiltekinni vörutegund sé 50% tollur. Innflutningurinn hefur verið 10 millj., þetta gefur þá 5 millj. kr. í ríkissjóð. Ef innflutningurinn vex á þessari sömu vörutegund vegna aukinna þarfa eða eftirspurnar upp í 12 millj., en tollurinn er sá sami, 50%, þá gefur þetta 6 millj. eða 1 millj. meira í ríkissjóð en áður. Heitir þetta á íslenzku tollahækkun, þegar tollurinn er 50% eins og hann var áður? Nei, það er hrein fölsun og blekking að beita því nafni. Tollurinn er óbreyttur, hann hækkar ekki, en vegna aukins innflutnings vaxa tekjur ríkissjóðs af þessum sökum. Það má nefna annað enn skýrara dæmi. Í nóv. s.l. samþykkti Alþingi að lækka tolla á mörgum vörutegundum og það verulega. Reynslan sýnir svo, að þessi tollalækkun gefur fleiri krónur, svo að milljónum skiptir, í ríkissjóð. Á máli Lúðvíks Jósefssonar mundi tollalækkunin í nóvember í fyrra því heita tollahækkun. Tollalækkunarfrv. frá í nóvember heitir á máli Lúðvíks Jósefssonar tollahækkun, vegna þess að hún gefur í heild meira í ríkissjóð. Svona er ekki boðlegt að brengla hugmyndum frammi fyrir íslenzkri þjóð.

Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, hafa engir tollstigar eða skattstigar hækkað nú frá því, sem áður hefur verið. Og það hefur tekizt með óbreyttum tollstigum og skattstigum að koma saman nú í þriðja skipti fjárlögum án þess að grípa til nokkurra nýrra álaga. Svona blekkingar er ekki rétt að hafa hér í frammi, að kalla slíkt tolla- og skattahækkanir, þegar stigarnir eru óbreyttir.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, hneykslaðist mjög á því, að framlög til vega- og brúamála hefðu í rauninni stórlækkað miðað við notagildi fjárins. Út í þessi mál skal ég ekki fara hér, m.a. vegna þess, að nú er, ekki að tilhlutun Framsfl., heldur eftir till. þm. Sjálfstfl. starfandi nefnd í vega- og brúamálum, sem hefur það verkefni að benda á nýja tekjustofna til þessara mála, og skulum við vona, að tillögur um það efni, m.a. um stóraukið fé í þessu efni og þar með stórauknar vega- og brúaframkvæmdir, verði lagðar fyrir þetta þing. En þegar hv. þm., Eysteinn Jónsson, viðhefur þessi orð, þá er rétt að minna aðeins á eitt, að þegar hann leggur fram fjárlfrv. fyrir 1959, það síðasta, sem hann lagði fram, hafði verið nýlega framkvæmd gengislækkun í stórum stíl af vinstri stjórninni með 55% yfirfærslugjaldinu. Maður skyldi ætla, að hann hefði þá hækkað í fjárlfrv. allar tillögur um framlög til verklegra framkvæmda. En það var nú ekki aldeilis. í þessu frv., eftir að 55% yfirfærslugjaldið er komið til framkvæmda, lagði hann til, að óbreyttar væru í krónutölu fjárveitingar til nýbyggingar vega, brúa, hafna og sjúkrahúsbygginga.

Sami hv. þm. taldi, að breytingin á skattakerfinu mundi ekki verða til sparnaðar. Um það skal ég ekki deila hér, úr því mun reynslan skera, hvort sú skipulagsbreyting verður til sparnaðar. En hv. þm. leyfði sér að viðhafa þau ummæli, að ég hefði notað þessa fyrirkomulagsbreytingu til að hrekja úrvalsmenn úr stöðum. Hvað er það, sem hv. þm. á við? Það er rétt að virða fyrir sér það mál. Áður en nýju skattalögin komu í gildi, voru hér tíu skattstjórar í landinu. Af þeim hafði hv. þm., Eysteinn Jónsson, skipað níu. Einn hafði hann ekki skipað. Þessir níu skattstjórar, sem hann hafði skipað sem fjmrh., eru allir með tölu að sjálfsögðu eindregnir flokksmenn hans. Þar höfðu aldrei neinir komið til greina aðrir. Nýju skattalögin fækkuðu skattstjórunum um einn, ákváðu, að þeir skyldu vera níu að tölu. Og nýju skattalögin ákváðu enn fremur, að til þess að verða skattstjóri, skyldi krafizt sérstakra prófa eða undirbúningsþekkingar. Sá maður, sem ætti að skipa skattstjóra, þyrfti annaðhvort að vera hagfræðingur, víðskiptafræðingur, lögfræðingur eða löggiltur endurskoðandi. Nú fór það þannig, að ekki reyndist unnt að fá menn með þessum prófum eða undirbúningsmenntun í allar þessar stöður nú, þegar ég í sumar átti að skipa í þessar stöður. Og hver var niðurstaðan? Það tókst að fá menn, sem fullnægðu skilyrðum laganna og þar með kröfum Alþingis, í 5 af þessum stöðum. Af þessum 5, sem voru skipaðir í þessar stöður, eru 2 lögfræðingar, 2 víðskiptafræðingar og 1 hagfræðingur, en hinir fjórir eru sömu skattstjórar og voru áður. Hvernig þessum hv. þm., bæði með sína eigin fortíð og þegar maður lítur á lögin, eins og þau voru afgreidd frá Alþingi, og þær kröfur, sem Alþingi með lögunum gerði, dettur í hug að viðhafa slík svigurmæli, er mér óskiljanlegt. Þessir fjórir, sem áfram gegna skattstjórastöðunum og voru áður í þeim, voru skipaðir samkv. undanþáguheimild í lögunum um það, að þeim, sem gegnt hefðu skattstjórastarfi áður, mátti fela áfram að gegna starfi, þótt þeir fullnægðu ekki þessum þekkingarskilyrðum. Og ég vil bæta því við, að sumir þessara manna, sem halda áfram, hafa langa reynslu í störfum sem skattstjórar og hafa reynzt prýðilega.

Hv. 4, þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, hafði þau orð hér, þegar hann var að lýsa eymdarástandinu á Íslandi, að nú í tíð þessarar stjórnar væru engar verksmiðjur byggðar, engin virkjun gerð, það væri munur eða áður var. Hv. þm., sem er þingmaður Austurlands, ætti m.a. að vita um þær framkvæmdir, sem hafa átt sér stað á þessu ári á Austurlandi varðandi stækkun síldarverksmiðja og nýbyggingar, og hann ætti að vera nokkuð kunnugur einnig þeim miklu framkvæmdum, sem ýmist eru komnar á veg eða í undirbúningi hér sunnanlands varðandi síldarverksmiðjur. En þegar hann stærir sig af því, að vinstri stjórnin hafi beitt sér fyrir Sogsvirkjuninni, en núv. stjórn sjái enga virkjun, þá skal ég aðeins geta þess, að nú er í undirbúningi og hefur v erið undirbúið og búið að afla fjár til þess að bæta nýrri vélasamstæðu í Írafossvirkjunina í Sogi, og þessi vélasamstæða er hvorki meira né minna en 15500 kw., og þegar það er athugað, að allar vatnsaflsstöðvar á Íslandi samtals aðrar en Sogsvirkjunin hafa 33000 kw. afi, þá sést, að þessi nýja Írafossstöð, sem við erum að setja í gang nú, er hvorki meira né minna en nærri helmingur af öllum þessum vatnsaflsstöðvum utan Sogsins til samans. Það er búið að bjóða út þetta verk og tryggja fé til þess og er að hefjast. Og í sambandi við virkjanir þarf ekki annað en benda á hinar geysimiklu hitaveituframkvæmdir í Reykjavík, og skal ekki fleiri orðum um þetta fara.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson talaði hér um mikla hækkun á vöruverði og leit aðeins á vissan hluta vísitölunnar, en sleppti náttúrlega að nokkru til þess að segja, eins og honum því miður er nokkuð títt, aðeins hálfan sannleikann. Og hann segir, að kaupmáttur launa hafi lækkað úr 99 stigum árið 1959 niður í 83 stig á miðju ári 1961. Hvað þýðir nú þessi kaupmáttur launa? Hann þýðir í rauninni einn hluta af vísitölunni. Og það sýnir fyrirlitningu þessa hv. þm. fyrir öllum almannatryggingum, að hann sleppir alveg áhrifum almannatrygginganna, fjölskyldubóta og annarra hækkana á almannatryggingum, úr þessum upplýsingum sínum. Vitanlega er þetta ekki rétt mynd af kjörum almennings, 99 stig árið 1959 og 83 stig á miðju síðasta ári. Til þess einmitt að mæta þeirri hækkun, sem varð á vöruverðinu, var m. a, ákveðið að hækka stórlega fjölskyldubætur og aðrar almannatryggingar og lækka tekjuskatt og útsvar.

Herra forseti. Ræðutími minn mun nú vera á enda, og tími hefur ekki unnizt til þess að svara hér neitt að ráði þeim almennu hugleiðingum þessara tveggja hv. þm. um efnahagsmálin almennt. En það vil ég þó segja að lokum, að ein aðalhrakspá stjórnarandstæðinga, þegar viðreisnin hófst, var sú, að hún mundi leiða til allsherjar atvinnuleysis í landinu. Þetta hefur reynzt hrakspá. Hér í landi er og hefur verið full atvinna. Atvinnuleysis hefur, sem betur fer, ekki orðið vart, enda er það eitt grundvallaratriðið í allri viðreisninni einmitt að tryggja fulla atvinnu, tryggja öllum landsins börnum góða atvinnu, og þess væntum við vissulega, að vofa atvinnuleysis þurfi aldrei framar að sýna sig á Íslandi.

Það kom hins vegar glöggt í ljós í ræðu hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, að hann er alveg reiðubúinn til þess að brjóta flest þau einföldustu lögmál efnahagslífsins, sem ekki aðeins flestir, sem skyn bera á þessi mál, viðurkenna, heldur einnig hann viðurkenndi og barðist fyrir fyrir nokkrum árum. Út í það er ekki hægt að fara hér. En það sýna ummæli hans bæði um sparifjármálin, um vextina, um lánsfjármálin og yfirleitt um verðbólguna, því að það ætti hann að vita af eigin reynslu, að náið samband er milli vaxta, milli sparifjáraukningar og möguleika til þess að veita nauðsynleg lán í nauðsynlegar framkvæmdir. Sú stefna, sem hann fylgir nú, hlýtur í rauninni óhjákvæmilega að leiða til nákvæmlega þess sama ástands, sem var hér, þegar hann lét af stjórnarstörfum í des. 1958. Þá var ástandið þannig, að við blasti hækkun vísitölunnar á næstu mánuðum um hvorki meira né minna en 70 stig. Sú stefna, sem þá hafði verið fylgt, hafði sem sagt þegar leitt yfir landið verðbólgu með slíkum hætti, og af þessum sökum gafst hann og félagar hans upp. En í rauninni er það, sem hann nú er að halda fram, sú stjórnarstefna, sem fyrst og fremst varð vinstri stjórninni að falli og hleypti yfir okkur þeirri verðbólgu, sem þá var byrjuð, en sem betur fer tókst að hindra með sameiginlegum átökum núv. stjórnarflokka.

Ég þakka svo þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.